Þeim sem ætla að kjósa „önnur“ framboð fjölgar hratt
Meirihlutinn í Reykjavík myndi halda, Samfylkingin yrði stærsti flokkurinn en Viðreisn gæti lent í oddastöðu. Þeim fjölgar hratt sem ætla að kjósa aðra flokka en þá sem eiga fulltrúa á Alþingi í dag. Þetta er niðurstaða nýjustu kosningaspárinnar.
Fylgi meirihlutans í Reykjavík dalar örlítið samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Dr. Baldurs Héðinssonar. Þeir þrír flokkar sem standa að honum mælast nú með 47,5 prósent fylgi en voru með 48,2 prósent um miðja síðustu viku. Breytingin er þó vart marktæk. Samfylkingin mælist nú með 29 prósent fylgi og yrði áfram stærsti flokkurinn í höfuðborginni ef kosið yrði í dag. Fylgi hennar hefur verið nokkuð stöðugt undanfarnar vikur samkvæmt spánni, mældist lægst 28,5 prósent en hæst 31,1 prósent. Vinstri græn mælast með 9,5 prósent fylgi og Píratar með níu prósent. Báðir flokkar eru að mælast með minnsta fylgi sem þeir hafa mælst með í kosningaspánni frá því í byrjun mars.
Þrátt fyrir að vera með minnihluta atkvæða ætti meirihlutinn að geta haldið í ljósi þess að sífellt fleiri atkvæði eru að deilast á ný framboð sem mælast ekki inni með borgarfulltrúa. Í byrjun mars sögðust 1,8 prósent kjósenda að þeir ætluðu að kjósa aðra flokka en þá átta sem eiga fulltrúa á Alþingi. Nú er það hlutfall komið upp í fimm prósent. Alls hafa 17 framboð lýst því yfir að þau ætli fram í höfuðborginni í lok næsta mánaðar. Það þarf vart að taka það fram að þau hafa aldrei verið fleiri. Mörg þeirra hafa þó enn ekki kynnt fullmannaða lista né skilað inn nægjanlegum fjölda meðmælenda til að teljast gild. Öll framboð sem mælast með undir tveggja prósenta fylgi flokkast sem „aðrir“ í kosningaspánni.
Miðflokkurinn á öruggri siglingu
Sjálfstæðisflokkurinn yrði áfram næst stærsti flokkurinn í Reykjavík ef kosið yrði í dag. Fylgi hans mælist nú 28 prósent sem er við lægri mörk þess sem það hefur mælst í kosningaspánni undanfarnar vikur. Fylgið er þó, líkt og hjá Samfylkingu, nokkuð stöðugt á þessum slóðum.
Miðflokkurinn virðist ætla að taka við hlutverki Framsóknarflokksins í borginni og fylgi hans er stöðugt á uppleið. Í byrjun mars var það 4,2 prósent, 10. apríl var það 5,1 prósent en er nú 6,6 prósent. Á sama tíma mælist fylgi Framsóknarflokks 3,2 prósent og virðist nokkuð fast þar, sem myndi tæplega skila flokknum manni inn í borgarstjórn.
Annar flokkur sem er með stöðugt fylgi í kringum þrjú prósent er Flokkur fólksins. Líklegt verður að teljast að annar hvort þessara flokka, Framsókn eða Flokkur fólksins, nái inn manni en hinn ekki, miðað við stöðuna eins og hún er nú. Saman eru þessir fjórir flokkar, sem eiga að hluta til málefnalega samleið, sérstaklega í skipulagsmálum, með 40,8 prósent fylgi. Sameiginlegt fylgi þeirra hefur verið þar í kring síðustu tvo mánuði, sem bendir mjög til þess að færsla fylgi flokkanna sé fyrst og síðast innan þessa mengis.
Sá flokkur sem gæti verið í lykilstöðu að loknum kosningum er Viðreisn. Fylgi flokksins mælist nú 6,7 prósent sem myndi gera hann að fjórða stærsta flokki landsins.
Hafna samstarfi við Sjálfstæðisflokk
Þeir flokkar sem skipa meirihluta í Reykjavík í dag hafa allir útilokað samstarf með Sjálfstæðisflokki eftir kosningar. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingar, sagði í sjónvarpsþætti Kjarnans fyrir tíu dögum síðan að það sé mjög lítill munur á málflutningi Eyþóri Arnalds, oddvita Sjálfstæðismanna, og Vigdísi Hauksdóttur, oddvita Miðflokksins, þegar kemur að helstu borgarmálum. Hann sagðist ekki sjá fyrir sér að Samfylkingin geti unnið með þeim flokkum né öðrum sem leggjast gegn gildandi skipulagi í Reykjavík. Dagur hefur einnig kallað Sjálfstæðisflokkinn í borginni „Morgunblaðsarm“ flokksins.
Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna, setti stöðuuppfærslu á Facebook í gær þar sem hún sagðist ánægð með að Dagur væri búinn að taka undir áherslur Vinstri grænna um að halda meirihlutasamstarfinu áfram og „hafna samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og önnur framboð sem vilja beinlínis vinna gegn auknum lífsgæðum í Reykjavík með því að koma í veg fyrir þróun umhverfisvænni og hagkvæmari samgöngumáta.“
Hún gagnrýndi einnig harkalega kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins um að afnema fasteignaskatt á íbúa yfir 70 ára og sagði flokk sem væri að „lofa því að taka með ólöglegum hætti hundruð milljóna úr sameiginlegum sjóðum borgarbúa, sem hægt væri að nýta til uppbyggingu leikskóla og annarra mikilvægra mála, til að setja í vasa auðugustu íbúa borgarinnar, ekkert erindi í borgastjórn. Það á ekki að bjóða kjósendum upp á þannig stjórnmál og eðlilegast væri að Sjálfstæðisflokkurinn drægi þetta loforð til baka og bæði kjósendur afsökunar á því að hafa farið fram með það.“
Stundin greindi frá því 10. apríl síðastliðinn að Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, hefði hitt Eyþór Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokks, á fundi þann dag til að ræða borgarmál. Í umfjölluninni greindi Dóra Björt frá því að fundurinn hafi meðal annars snúist um mögulega samstarfsfleti.„Ég sagði honum bara eins og er að það getur bara enginn unnið með Sjálfstæðismönnum fyrr en þeir taka til hjá sjálfum sér[...]Í stuttu máli þá sagði ég bara við hann að samstarf Pírata og Sjálfstæðisflokks strandaði einfaldlega á þeim sjálfum. Fyrst taka þeir til hjá sér og svo má skoða þetta. Eyþór vildi þá meina að hann væri maðurinn sem myndi breyta þessum flokki. Við Píratar bíðum bara eftir að sjá þess merki og þá eru allir vegir færir. Það er samt ágætt að muna að margir góðir menn hafa ætlað sér að breyta þessum flokki með því að ganga í hann.“
Viðreisn, sem kynnti áherslur sínar í kosningabaráttunni í vikunni, virðist síðan vera mun nær sitjandi meirihluta en núverandi minnihluta og öðrum flokkum sem deila áherslum með honum. Það má t.d. sjá á því að í nýjustu könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið kom fram að 53,9 prósent kjósenda Viðreisnar vildu sjá Dag B. Eggertsson sem næsta borgarstjóra. Einungis 4,9 prósent þeirra vildu fá Eyþór Arnalds í embættið.
Á meðal helstu mála Viðreisnar voru að viðhalda þéttingu byggðar með nýjum hverfum við Elliðaárvog, Ártúnshöfða og á Keldum og tengja þau hverfi við fyrsta áfanga borgarlínu sem framboðið styður að verði byggð upp. Þá vill Viðreisn að flugvellinum verði fundinn nýr staður utan Vatnsmýrar og fjölfa félagslegu leiguhúsnæði um 350 á kjörtímabilinu. Stefna Viðreisnar skarast hins vegar á við meirihlutann þegar kemur að fjármálastjórnun borgarinnar, sem Viðreisn hafnar og telur óábyrga.
Þær kannanir sem liggja til grundvallar nýjustu kosningaspánni (25. apríl) eru eftirfarandi:
- Þjóðarpúls Gallup 4. apríl (vægi 14,8 prósent)
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins og frettabladid.is 9. apríl (vægi 15,5 prósent)
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins og frettabladid.is 25. apríl (vægi 23,3 prósent)
- Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 23 - 25. apríl. (vægi 46,5,4 prósent)
Hvað er kosningaspáin?
Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.
Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.
Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.
Fleira tengt komandi borgarstjórnarkosningum
-
19. júní 2018Fyrsti borgarstjórnarfundurinn á nýju kjörtímabili í dag
-
15. júní 2018Athugasemdir í kæru Pírata leiða ekki til ógildingar kosninga
-
5. júní 2018Sósíalistaflokkurinn mun styðja valin mál í borgarstjórn
-
5. júní 2018Meirihlutaviðræður hefjast milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í Kópavogi
-
4. júní 2018Ímynd og ímyndun
-
4. júní 2018Líkur aukast á því að Dagur verði áfram borgarstjóri
-
2. júní 2018Verðandi meirihluti fékk færri atkvæði en verðandi minnihluti
-
30. maí 2018Formlegar viðræður hefjast á morgun milli Viðreisnar og fráfarandi meirihluta
-
30. maí 2018Ég vil ekki verða húsþræll
-
30. maí 2018Nýr meirihluti veltur á að Dagur gefi eftir stólinn