Sjálfstæðisflokkurinn mælist með lægsta fylgi sitt í sögunni en meirihlutinn rígheldur
Sósíalistaflokkurinn mælist í fyrsta sinn með mann inni, Samfylkingin nálgast kjörfylgi og Sjálfstæðisflokkurinn heldur áfram að dala. Hörð barátta er milli Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins, Framsóknar og Viðreisnar um tvo síðustu menn inn í borgarstjórn.
Samfylkingin er stærsti flokkurinn í Reykjavík samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Dr. Baldurs Héðinssonar. Fylgi flokksins mælist 30,8 prósent sem myndi skila honum átta borgarfulltrúum. Samfylkingin er mun nær því að ná inn níunda manni á lista en að tapa þeim áttunda. Fylgi flokksins hefur ekki mælst meira frá því í byrjun apríl, en borgarstjórnarkosningarnar fara fram eftir rúma viku, laugardaginn 26. maí. Það er nú mjög nálægt því fylgi sem Samfylkingin fékk í kosningunum 2014, þegar hún fékk 31,9 prósent.
Á meðan að fylgið hefur verið að aukast hjá Samfylkingu hefur það verið að dala nokkuð hratt hjá hinum stóra flokknum í Reykjavík, Sjálfstæðisflokki. Nýjasta kosningaspáin mælir 25 prósent fylgi við flokkinn. Það er sex prósentustigum minna en það mældist í byrjun mars og það lægsta sem fylgið hefur mælst í spánni það sem af er ári. Ef þetta yrði niðurstaðan myndi Sjálfstæðisflokkurinn fá sína verstu niðurstöðu í Reykjavík í sögunni. Það met var sett 2014 þegar flokkurinn fékk 25,7 prósent atkvæða með Halldór Halldórsson sem oddvita. Nú hefur Eyþór Arnalds tekið við því kefli.
Fjórðungsfylgi myndi skila Sjálfstæðisflokknum sjö borgarfulltrúum en fylgið má ekki lækka mikið til að flokkurinn missi einn í viðbót og sitji eftir með sex fulltrúa.
Meirihlutinn heldur
Vinstri græn og Píratar myndu fá tvo borgarfulltrúa hvor ef kosið yrði í dag. Báðir flokkar hafa þó verið að tapa fylgi á undanförnum vikum og mælast nú með minnsta fylgi sem þeir hafa mælst með frá því að kosningaspáin hóf mælingar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Alls segjast 8,7 prósent kjósenda að þeir ætli að kjósa Vinstri græn, sem er mjög svipað fylgi og flokkurinn fékk í kosningunum 2014, sem var 8,3 prósent.
Píratar fengu þá 5,9 prósent fylgi og í fyrsta sinn mann kjörinn í borgarstjórn. Nú mælist fylgið 8,9 prósent og ljóst að Píratar eru á hraðleið í átt að því að bæta vel við sig á milli kosninga. Raunar er flokkurinn sá flokkur á meðal þeirra sem eiga nú þegar borgarfulltrúa sem bætir mestu við sig, samkvæmt kosningaspánni.
Sitjandi meirihluti myndi því halda nokkuð örugglega ef kosið yrði í dag með tólf borgarfulltrúa gegn ellefu og er nær því að bæta við sig einum en að meirihlutinn falli.
Sósíalistaflokkurinn næði manni inn
Þau merkilegu tíðindi eiga sér nú stað að Sósíalistaflokkur Íslands mælist í fyrsta sinn með borgarfulltrúa inni, sem yrði þá Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti flokksins. Alls segjast 3,1 prósent að þeir ætli að kjósa flokkinn. Það er sama fylgi og Flokkur fólksins mælist með sem myndi skila Kolbrúnu Baldursdóttur í borgarstjórn.
Sætaspá kosningaspárinnar, sem er framkvæmd þannig að keyrðar eru 100 þúsund sýndarkosningar miðað við fylgi flokka í kosningaspánni sem birt var 17. maí, sýnir að þær tvær eru næsta til að detta út. Það þarf því ekki að skeika miklu til að hvorugur flokkurinn nái inn manni og mun það líkast til ráðast á kosningaþátttöku hvort af því verði.
Miðflokkurinn myndi einnig ná inn einum manni inn, sem yrði Vigdís Hauksdóttir. Fylgi við flokkinn mælist sex prósent sem er minnsta fylgi sem mælst hefur við Miðflokkinn í tæpan mánuð.
Viðreisn hefur mælst með nokkuð stöðugt fylgi á bilinu 6,6-7,6 prósent í þeim kosningaspám sem gerðar hafa verið í vor. Fylgið er nú við lægri mörk þess bils sem myndi skila Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur í borgarstjórn en skilja Pawel Bartozcek eftir utan hennar.
Pawel er þó á meðal tveggja næstu manna inn ásamt Ingvari Mar Jónssyni, fyrsti maður á lista Framsóknarflokksins. Framsókn fær þann vafasama heiður að vera sá flokkur sem tapar mestu fylgi á milli kosninga, ef Björt framtíð sem er ekki í framboði er frátalin. Flokkurinn fékk 10,7 prósent árið 2014 en mælist nú með 2,9 prósent fylgi. Það er mjög nálægt versta kjörfylgi Framsóknar í Reykjavík frá upphafi árið 2010, þegar Einar Skúlason leiddi flokkinn með þeim afköstum að 2,7 prósent kjósenda kusu hann.
Átta flokkar – átta flokkar úti
Alls skiluðu 16 framboð inn gildum framboðslistum þegar frestur til slíks rann út. Framboðin hafa aldrei verið fleiri. Eins og staðan er í dag segjast 7,8 prósent kjósenda að þeir myndu kjósa flokka sem ekki myndu ná inn manni. Inni í þeirri tölu er fylgi Framsóknarflokksins. Það hlutfall var 1,5 prósent í kosningaspánni 5. apríl.
Af þeim framboðum sem hafa ekki verið nefnd hér er Kvennahreyfingin að mælast með mest fylgi. Alls segjast 1,7 prósent kjósenda að þeir myndu kjósa hana ef kosið yrði í dag.
Eins og staðan er í dag myndu borgarfulltrúarnir skiptast með eftirfarandi hætti:
- Samfylking myndi fá átta borgarfulltrúa
- Sjálfstæðisflokkur myndi fá sjö borgarfulltrúa
- Píratar myndu fá tvo borgarfulltrúa
- Vinstri græn myndu fá tvo borgarfulltrúa
- Viðreisn myndi fá einn borgarfulltrúa
- Miðflokkurinn myndi fá einn borgarfulltrúa
- Flokkur fólksins myndi fá einn borgarfulltrúa
- Sósíalistaflokkur Íslands myndi fá einn borgarfulltrúa
„Snjókornin“ í sterkri stöðu
Það virðist því, eins og staðan er í dag rúmri viku fyrir kosningar, mjög líklegt að flokkar sem tilheyra mengi sem skilgreinir sig annað hvort sem frjálslynda eða til vinstri, muni mynda næsta meirihluta í Reykjavík. Inni í því mengi eru sitjandi meirihluti og Viðreisn. Þessir flokkar hafa lagt hafa áherslu á þéttingu byggðar, auknar almenningssamgöngur á borð við Borgarlínu og greiðari umferð fyrir hjólandi vegfarendur, jafnt út frá lífsgæðasjónarmiðum sem umhverfislegum. Innan þessa hóps er það nokkuð almenn skoðun að Reykjavíkurflugvöllur eigi að víkja úr Vatnsmýrinni fyrir byggð. Fylkingin er með sterkar félagslegar áherslur sem endurspeglast meðal annars í útþenslu stjórnkerfisins og uppkaupum á félagslegu húsnæði langt umfram það sem þekkist í nágrannasveitafélögunum. Þetta myndi fá þrettán borgarfulltrúa ef kosið yrði í dag.
Til viðbótar eru Sósíalistaflokkurinn að mælast með einn borgarfulltrúa. Telja verður líklegra að ofangreindir flokkar myndu verða álitlegri samstarfsflokkar hans en aðrir sem nú mælast með nægjanlegt fylgi til að komast í borgarstjórn, hafi Sósíalistaflokkurinn yfir höfuð áhuga á að taka þátt í meirihlutasamstarfi.
Ofangreindir flokkar mælast nú með 58,1 prósent atkvæða.
Litlar líkur á að Sjálfstæðisflokkur komist í meirihluta
Þegar Eyþór Arnalds sigraði í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokks í lok janúar síðastliðins sagði hann við Vísi að hann teldi „góðar líkur á að hann komist í meirihluta og vinni kosningasigur í vor.“ Það virðist þó ólíklegt eins og staðan er nú.
Ástæðu þess er ekki einungis að leita í sögulega litlu fylgi Sjálfstæðisflokks, heldur einnig í því að þegar hafa nokkrir flokkar hafnað því að starfa með Sjálfstæðisflokknum eftir komandi kosningar.
Nú þegar hafa Samfylkingin, Vinstri græn og Píratar, sem mynda saman meirihluta í borginni eins og er, sagt að þeir muni ekki vinna með Sjálfstæðisflokknum. Miðað við kosningaáherslur Viðreisnar þá virðast þær ríma mun betur við áherslur sitjandi meirihluta en áherslur Sjálfstæðisflokksins, þótt efsta fólkið á lista Viðreisnar hafi ekki útilokað samstarf við gamla móðurflokkinn opinberlega. Borðleggjandi er að Sósíalistaflokkur Íslands muni ekki starfa með Sjálfstæðisflokknum undir neinum kringumstæðum.
Þeir flokkar sem nefndir hafa verið hér að ofan mælast sem stendur með 14 borgarfulltrúa af 23.
Þá standa eftir Miðflokkurinn og Flokkur fólksins.
Þessi fylking hefur lagt megináherslu á betra umferðarflæði þar sem einkabíllinn er í fyrirrúmi, byggingu stórtækra umferðarmannvirkja á borð við mislæg gatnamót, frekari uppbyggingu húsnæðis í útjaðri borgarinnar, straumlínulögun rekstrar, lækkun skulda og skatta. Þar er nokkuð almenn andstaða við það að Reykjavíkurflugvöllur víki og Borgarlínuverkefnið er verulega tortryggt. Henni finnst að megináherslan eigi að vera á að bæta grunnþjónustu á borð við dagvistun barna og betri umhirðu í borgarlandinu. Samanlagt mælist hún með níu borgarfulltrúa og tveir þeirra eru í umtalsverðri hættu á að detta út. Ef Framsóknarflokknum yrði bætt við fylkinguna, þar sem áherslur hans eru um margt svipaðar, er fylgi hennar einungis 37 prósent.
Þær kannanir sem liggja til grundvallar nýjustu kosningaspánni (17. maí) eru eftirfarandi:
- Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 23. – 25. apríl (32,3 prósemt)
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins 7. maí (25,5 prósent)
- Gallup fyrir Viðskiptablaðið 2. – 14. maí (42,2 prósent)
Hvað er kosningaspáin?
Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.
Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.
Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.
Fleira tengt komandi borgarstjórnarkosningum
-
19. júní 2018Fyrsti borgarstjórnarfundurinn á nýju kjörtímabili í dag
-
15. júní 2018Athugasemdir í kæru Pírata leiða ekki til ógildingar kosninga
-
5. júní 2018Sósíalistaflokkurinn mun styðja valin mál í borgarstjórn
-
5. júní 2018Meirihlutaviðræður hefjast milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í Kópavogi
-
4. júní 2018Ímynd og ímyndun
-
4. júní 2018Líkur aukast á því að Dagur verði áfram borgarstjóri
-
2. júní 2018Verðandi meirihluti fékk færri atkvæði en verðandi minnihluti
-
30. maí 2018Formlegar viðræður hefjast á morgun milli Viðreisnar og fráfarandi meirihluta
-
30. maí 2018Ég vil ekki verða húsþræll
-
30. maí 2018Nýr meirihluti veltur á að Dagur gefi eftir stólinn