Áhrif Bláu plánetunnar láta á sér kræla
Eftir frumsýningu heimildaþátta BBC um lífríkið í hafinu hefur fólk í Bretlandi og víðar tekið við sér og ákveðin vitundarvakning virðist hafa átt sér stað varðandi plastnotkun. Sir David Attenborough segist vera furðulostinn yfir viðbrögðunum og að með sameiginlegu átaki geti fólk haft raunveruleg áhrif á lífríkið.
Blue Planet II er heimildamyndaflokkur frá árinu 2017 þar sem fjallað er um lífríkið í hafinu. BBC framleiddi þættina en þeir voru sýndir víða um heim, meðal annars í Ríkissjónvarpinu í apríl síðastliðnum. Í lýsingu á þáttunum segir að dreginn sé saman mikill fróðleikur um lífríki hafsins, furðuskepnur sem þar leynast, hafstrauma og veðurfarsleg áhrif þeirra um allan heim.
Náttúruvísindamaðurinn og heimildamyndagerðamaðurinn Sir David Attenborough leggur nafn sitt við þættina og er jafnframt þulur.
Nú þegar tæpir sjö mánuðir eru liðnir frá frumsýningu athugaði BBC hvað Attenborough fyndist um viðbrögð við þáttunum en í kringum þá hefur orðið mikil vitundarvakning varðandi plastnotkun og þann gríðarlega úrgang sem fer út í sjó á degi hverjum út um allan heim.
Hægt að hafa áhrif
Í svari sínu segir Attenborough vera furðulostinn yfir viðbrögðunum og þeim áhrifum sem þættirnir hafa haft. Fyrsti þátturinn kom út þann 29. október síðastliðinn og sló hann áhorfsmet í Bretlandi fyrir árið 2017.
Michael Gove umhverfisráðherra Bretlands segir að þættirnir „ásæki hann“ og kollegi hans í Skotlandi, Roseanna Cunningham, notaði tækifærið þegar hún hélt ræðu í Holyrood að boða breytingar í þessum málum. Jafnframt segir Erik Solheim, yfirmaður umhverfismála hjá Sameinuðu þjóðunum, að þættirnir hafi hjálpað til við að koma af stað „öldu aðgerða.“ Þetta kemur fram í fyrrnefndri umfjöllun BBC.
Attenborough segir sjálfur að margir hafi skrifað og sent aðstandendum þáttanna skilaboð þar sem fólk segist vilja gera eitthvað í málunum sjálft og bætir hann við að hægt sé að gera einfalda hluti til að hjálpa til. „Viðbrögð ykkar sýna að ef við byrjum að taka lítil skref sem eru einföld í framkvæmd, þá getum við innan tíðar haft raunveruleg áhrif,“ segir hann.
Víða um Bretland hefur fólk gripið til aðgerða. Sumir hafa brugðið á það ráð að endurnýta plastdiska og -áhöld í staðinn fyrir að henda þeim og hafa heilu fjölskyldurnar tekið þá ákvörðun að hætta að nota plast á heimilinu.
Notkun plastumbúða hefur aukist
Notkun plastumbúða á Íslandi jókst á árunum 2014 til 2016 úr 13.660 tonnum í 15.029 tonn, eða um 10 prósent. Plastumbúðir sem skiluðu sér til endurvinnslu voru 4.478 tonn árið 2014 og 6.411 tonn tveimur árum síðar. Plastumbúðir sem skiluðu sér til brennslu með orkunýtingu voru 423 tonn árið 2014 og 666 tonn árið 2016. Plastúrgangur, þ.e. annar en plastumbúðir, sem skilaði sér til endurvinnslu voru 193 tonn árið 2014 og 666 tonn tveimur árum síðar.
Þetta kom fram í svari Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra í febrúar síðastliðnum við fyrirspurn frá Olgu Margréti Cilia um mengun af völdum plastnotkunar. Í svarinu kemur fram að áreiðanlegar tölur séu til frá Endurvinnslunni hf. og Úrvinnslusjóði yfir notkun plastumbúða, þ.e. magn umbúða sem settar eru á markað og afdrif þeirra, til dæmis til endurvinnslu. Ekki séu til áreiðanlegar tölur yfir notkun annars plasts en plastumbúða. Umhverfisstofnun safni þeim tölum saman frá þeim aðilum sem meðhöndla úrgang.
Jafnframt segir í svarinu að erfitt sé að leggja mat á hversu stór hluti þetta er af þeim plastúrgangi sem fellur til þar sem tölur yfir notkun vantar og töluverður hluti plastúrgangs fer að öllum líkindum með blönduðum úrgangsstraumum til förgunar.
Evrópusambandið ræðst gegn plastmengun
Kjarninn greindi frá því fyrr á árinu að Evrópusambandið hefði einsett sér að allar plastumbúðir verði gerðar úr endurvinnanlegu efni fyrir árið 2030. Þannig verði dregið verulega úr notkun einnota plasts og skorður settar við notkun örplasts.
Áætlun ESB til að bregðast við plastmengun er ætlað að vernda náttúruna, verja íbúana og styrkja fyrirtækin, samkvæmt tilkynningu frá sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi.
„Ef við umbreytum ekki plastnotkun okkar og framleiðslu, verður meira af plasti en fiski í sjónum okkar árið 2050. Við verðum að koma í veg fyrir að plast komist í vatnið okkar, matinn og jafnvel í líkama okkar. Eina langtímalausnin er að draga úr plastúrgangi með því að endurvinna meira og endurnýta. Þetta er áskorun sem borgararnir, iðnfyrirtæki og stjórnvöld þurfa að takast á við í sameiningu,“ er haft eftir Frans Timmermans, fyrsta varaforseta framkvæmdastjórnar ESB, í tilkynningunni.
Minna en þriðjungur af því plasti sem Evrópubúar framleiða ratar í endurvinnslu. Plastrusl er 85 prósent af draslinu sem finnst á strandsvæðum víða um veröld. Plastefni er jafnvel farið að koma sér fyrir í lungum fólks og á matarborðinu. Það er örplast í lofti, vatni og fæðunni og áhrif þess á heilsu okkar eru óþekkt. Evrópusambandið hyggst takast á við þessi úrlausnarefni af fullri festu.
Átak á Íslandi til að sporna við plastnotkun
Verkefnið Plastlaus september var árvekni-átak sem ætlað var að vekja fólk til umhugsunar um ofgnótt og skaðsemi plasts í umhverfinu og benda á leiðir til að draga úr notkun á einnota plasti.
Á vefsíðu átaksins www.plastlausseptember.is kemur fram að plast endist í þúsundir ára og sé því afar slæmur kostur fyrir einnota notkun. Plast brotnar niður á mjög löngum tíma og þá í örplast sem ekki er betra fyrir umhverfið. Plast er eingöngu hægt að endurvinna í annað plast af lélegri gæðum. Allt plast sem notað er og fer ekki í endurvinnslu safnast fyrir á urðunarstöðum eða í náttúrunni og veldur þar skaða um ókomna tíð.
Plast endar þannig allt of oft í náttúrunni og þá sérstaklega í ám, vötnum og sjó. Plast dregur til sín ýmis mengunarefni og þegar það endar í vef lífvera geta efnin þar með endað í fæðu manna. Mjúkplast inniheldur stundum hormónaraskandi efni, til að mynda þalöt, sem eru skaðleg mannfólki.
Í byrjun síðasta sumars tóku fjórar nágrannakonur sig til í Fossvoginum og byrjuðu að spjalla um þessa gegndarlausu plastnotkun í samfélaginu. Hugmyndin kom erlendis frá en átakið Plastic Free July var hrundið af stað í Ástralíu í júlímánuði. Þessum konum datt í hug í framhaldinu að fara út í slíkt átak á Íslandi. Þær þéttu hópinn og fengu fleiri konur með sér sem höfðu áhuga á málefninu.
Þær sáu fljótlega að ekki gekk að hafa slíkt átak yfir sumarið og út varð að hafa september plastlausan enda skólarnir að byrja og haustið. „Sumarið fór að miklu leyti í að koma vefsíðunni í loftið og skipuleggja starf á samfélagsmiðlum,“ sagði Jóhanna Gísladóttir, formaður stjórnar félagsins í kringum verkefnið og doktorsnemi í umhverfis- og auðlindafræði, í samtali við Kjarnann í október síðastliðnum.
Jóhanna taldi að meira aðhald þyrfti frá stjórnvöldum hvað þessi mál varðar. Setja þyrfti skýrari reglur og þyrftu stjórnvöld að setja fé í rannsóknir á plastnotkun og hvað fari út í sjóinn við strendur Íslands. „Við þurfum að fara að vakna,“ sagði hún og bætti því við að hún sjálf hefði ekki verið nægilega meðvituð um plastnotkun sína og afleiðingar hennar áður en hún fór af stað með verkefnið. „Þess vegna töldum við þörf á því að koma með árvekni-átak og vekja athygli á þessu.“
Örplast fannst í neysluvatni Reykvíkinga
Í frétt Kjarnans frá því í byrjun febrúar á þessu ári segir að í vatnssýnum sem safnað var úr vatnsveitu Veitna í Reykjavík hafi komið í ljós að 0,2 til 0,4 plastagnir hafi fundist í hverjum lítra vatns. Samkvæmt tilkynningu frá Veitum eru þetta mun betri niðurstöður en birtar voru í erlendri skýrslu um örplast í neysluvatni sem var í fréttum hér á landi á síðasta ári. Sérfræðingur sem Kjarninn talaði við sagði að þrátt fyrir jákvæðar niðurstöður þá bæri að taka þær alvarlega. Frekari rannsókna væri þörf.
Örplast er heiti á plastögnum sem eru minni en 5 millimetrar að þvermáli. Örplast getur annars vegar verið framleitt örplast, sem til dæmis finnst í snyrtivörum, eða örplast sem verður til við niðurbrot, til að mynda úr dekkjum, innkaupapokum eða fatnaði.
Niðurstöður mælinga Veitna samsvara því að 1 til 2 slíkar agnir finnist í 5 lítrum vatns. Tekin voru stór sýni, eða 10 til 150 lítrar. Kom fram í fyrrnefndri erlendri skýrslu að 83 prósent þeirra 159 sýna sem hún byggir á, og tekin voru víðs vegar í heiminum, innihéldu að meðaltali tuttugufalt og allt að 400-falt magn plastagna miðað við það sem fannst í neysluvatni Reykvíkinga.
Lifum ekki í einangruðum heimi
Hrönn Jörundsdóttir, sviðsstjóri og sérfræðingur hjá MATÍS, sagði í samtali við Kjarnann að nauðsynlegt væri að finna uppsprettu örplasts, þ.e. hvaðan það komi. Hún sagði að þau hjá MATÍS væru að skoða þessi mál og að til stæði að birta skýrslu um örplast á Íslandi í náinni framtíð.
Varðandi niðurstöður úr sýnatöku Veitna þá sagði hún að það væri jákvætt að lítið örplast hafi greinst í sýnunum en á hinn bóginn þá væri það áhyggjuefni að plastagnir hafi fundist yfirhöfuð. Þetta sýndi að örplast sé víðar en fólk geri sér grein fyrir. „Það verður að taka þetta alvarlega, við erum ekki laus við þetta í okkar umhverfi frekar en aðrir,“ sagði hún og bætti því við að Íslendingar lifi ekki í einangruðum heimi og að þetta snerti okkur öll.
Lesa meira
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Möguleg ljós- og lyktmengun af nýju landeldi við Þorlákshöfn þurfi nánari skoðun
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
5. janúar 2023Skipulagsstofnun dregur fram kosti Miðleiðar að Fjarðarheiðargöngum
-
30. desember 2022Áskorun til þingmanna: Takið þátt í Veganúar!
-
30. desember 2022Árið sem Íslendingar hentu minna af fötum en kínverskur tískurisi hristi upp í hlutunum
-
30. desember 2022Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi
-
29. desember 2022Vindmyllur við Lagarfoss þurfa í umhverfismat
-
28. desember 2022Vilja nota kopar á kvíar í Arnarfirði – eitrað og jafnvel skaðlegt segir Hafró
-
26. desember 2022Framtíðin er núna