Nýtt þing hefst fljótlega, nánar tiltekið þriðjudaginn 11. september. Ríkisstjórnin mun leggja fram fjárlög á fyrsta fundi, sem segja má að verði í raun fyrstu fjárlög þessarar ríkisstjórnar þar sem væntanlega má sjá stefnumótun hennar þar sem fjárlög síðasta árs voru lögð fram sérstaklega seint vegna ríkisstjórnarslitanna og kosninga.
Kjarninn tók nokkra þingmenn úr mismunandi flokkum tali um þingveturinn framundan og áherslumál flokkanna þetta árið. Í þetta skiptið var það Bergþór Ólason varaformaður þingflokks Miðflokksins.
Hóflegt svigrúm til aukningar
„Það verður auðvitað áhugavert að sjá hvernig ríkisstjórnin leggur fram mál í fjárlögunum. Miðað við fjármálaáætlunina ætti að vera hóflegt svigrúm til aukningar á ýmsum sviðum. En það er hins vegar verið að kalla mjög eftir verulegri útgjaldaaukningu, til dæmis í samgöngumálunum og víðar. Ég er hræddur um að það verði ekki farið í stórsókn í neinum málaflokki. Í því samhengi verður áhugavert að sjá líka samgönguáætlunina sem verður væntanlega lögð fram einhverjum dögum síðar.“
Tryggingagjaldið þurfi að lækka
Bergþór segir Miðflokkinn hafa miklar áhyggjur af þróun kjaraviðræðnanna sem framundan eru. „Ég held að lausnin í þessari þröngu stöðu sem nú er uppi hljóti að vera sú að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins setjist niður og formi lausnir þar sem ríkið leggur sitt af mörkum, til að mynda með breytingum í skattamálum. Við sjáum til dæmis að tryggingagjaldið hefur ekki verið lækkað sem neinu nemur þrátt fyrir stórbreyttar aðstæður í atvinnulífinu árum saman. Mér reiknast til að gjaldtakan hafi verið 19 milljarðar árið 2018 umfram það sem hún hefði verið hefði skattstofninn verið sá sami og fyrir hrun. Ef menn færa slíkt í námunda við það sem það var áður þá skapast þar talsvert svigrúm fyrir fyrirtækin til að gera betur við starfsmenn sína, hækka laun,“ segir Bergþór og bætir því við að ýmislegt annað þurfi auðvitað líka að koma til. „Að séreignasparnaðurinn fái að nýtast áfram til niðurgreiðslu húsnæðislána og margt fleira sem hið opinbera getur komið að án þess að það kosti ríkissjóð endilega mikið.
Innviðirnir í Ísland allt
Miðflokkurinn mun að sögn Bergþórs leggja sína aðaláherslu á innviði samfélagsins í vetur. „Vegakerfið, innanlandsflug og hafnir landsins svo dæmi sé tekið. Og svo auðvitað líka hinu megin frá á heilbrigðisþjónustuna og löggæslunnar á forsendum stefnunnar okkar Ísland allt.“
1. desember verði frídagur
Bergþór segir að flokkurinn muni endurflytja mál sitt um fullveldisdaginn sem frídag. „Við munum væntanlega leggja fram frumvarp aftur um að 1. desember verði gerður að frídegi, sem verið teljum lokahnykk við hæfi á hátíðarhöldum vegna 100 ára afmælis fullveldisins.“