Íslandspóstur glímir við alvarlegan lausafjárvanda og hefur því óskað eftir neyðarláni frá ríkinu upp á 1.500 milljónir króna. Lánalínur Íslandspósts hjá viðskiptabanka fyrirtækisins hafa þegar verið fullnýttar og forstjóri fyrirtækisins segir stöðu póstsins tvísýna ef ekki fáist lánið. Íslandspóstur hefur ekki staðið undir sér undanfarin ár meðal annars vegna mikils samdráttar í bréfasendingum og niðurgreiðslu erlendra póstsendinga. Dreifingardögum póstsins hefur verið fækkað og póstburðargjald hefur þrefaldast á tíu árum. Fjárfestingar fyrirtækisins hlaupa á milljörðum og fyrirtækið hefur tapað hundruðum milljónum króna vegna lána til dótturfélaga Íslandspósts. Laun forstjórans hækkuðu um tæp tuttugu prósent á síðasta ári og launakostnaður fyrirtækisins hækkaði um 1,4 milljarða króna á síðustu tveimur árum.
Neyðarlán upp á 1.5 milljarð króna
Meirihluti fjárlaganefndar lagði fram breytingartillögu við fjárlög fyrr í mánuðinum um að lán ríkisins til Íslandspósts myndi nema 1.500 milljónum króna í stað 500 milljónum sem fyrirtækið hafði þegar hlotið vilyrða fyrir. Breytingartillagan var hins vegar dregin til baka áður en atkvæði voru greitt um málið í annarri umræðu um fjárlagafrumvarpið á Alþingi í síðustu viku. Ástæður þess að lánveitingarheimildin var dregin til baka var sögð vegna þess að fjárlaganefnd vildi kanna hvort rétt væri að binda fjárveitinguna einhverjum skilyrðum.
Páll Magnússon sem situr í fjárlaganefnd fyrir Sjálfstæðisflokkinn sagði í samtali við fréttastofu Rúv að fjárlaganefnd væri að skoða málið nánar:„Meirihluti fjárlaganefndar telur einfaldlega að áður en þessi heimild er veitt þá þurfi hugsanlega að setja einhver skilyrði. Að fyrir liggi hvernig og hvenær fyrirtækið telur sig verða gjaldfært og geta borgað þetta lán til baka. Ef þetta væri bara um tímabundinn eðlilegan lausafjárvanda að ræða þá hefði væntanlega viðskiptabanki félagsins séð um þetta og veitt þessa fyrirgreiðslu,“ segir Páll Magnússon sem situr í fjárlaganefnd fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Vonar að Alþingi sjái að sér
Forstjóri Íslandspósts Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandslandspóst, segir fjárhagsvanda fyrirtækisins meðal annars tilkominn vegna þess að bréfasendingar hafa dregist saman um 15 prósent á þessu ári sem er mun meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það leiðir til tekjutaps upp á 350 til 400 milljónir króna. Þá hafi Íslandspóstur þurft að standa undir ófjármagnaðri byrði sem nemi árlega um 600 milljónum króna, þetta hafi gert það að verkum að gengið hafi verið á varasjóði félagsins. Ingimundur segist því vona í viðtali við stöð 2 að fjárlaganefnd Alþingis sjái að sér og samþykki breytingartillögu við fjárlög sem heimilar lánið
Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir að það komi til greina að breyta fjárlagafrumvarpinu fyrir þriðju umræðu og veita ríkissjóði heimild til að lána Íslandspósti ef skýr svör berast frá fyrirtækinu um endurgreiðslu lánsins og hvaða tryggingar verði settar fyrir endurgreiðslunni því þetta séu miklar upphæðir. Willum segir, í viðtali við fréttastofu Stöð 2, að nú hafi fjárlaganefnd kallað til sín samgönguráðuneytið, fjármálaráðuneytið og stjórnendur Íslandspósts og afla gagna og fá svör við spurningum.
Stórt tap vegna samdráttar í bréfasendingum
Árið 2018 hefur verið Íslandspósti margt erfitt, fyrirtækið tapaði 161,2 miljónum króna á fyrri helming ársins 2018. Það er mikill viðsnúningur frá sama tímabili í fyrra þegar fyrirtækið skilaði 99,1 milljón króna hagnaði. Mikill samdráttur hefur verið í bréfamagni eða um 15 prósent. Bréfasendum hefur fækkað á hverju ári í langan tíma en fækkun bréfa þýðir minni tekjur sem hefur veruleg áhrif á rekstur félagsins. Frá þessu er greint í tilkynningu frá fyrirtækinu varðandi hálfsársuppgjör fyrirtækisins.
Ingimundur segir rekstrarhalla fyrirtækisins meðal annars komin vegna þess að Íslandspóstur, fyrir hönd ríksins,hefur tekið á sig þá skyldu að dreifa pósti, bæði bréfum og pökkum upp að tuttugu kílóum, út um land allt en samkvæmt Ingimundi þá er töluverður stór hluti af þessum markaði sem stendur ekki undir sér, þ.e. kostnaðurinn við dreifingu er miklu meiri en sem nemur tekjunum. Þar verður Íslandspóstur að sinna þjónustunni en annars staðar er fyrirtækið í samkeppni við aðila um pakkadreifingar þar sem það er hagkvæmt. Ingimundur segir það vera þessa svokölluðu ófjármagnaða alþjónustubyrði sem er vandamálið og hefur verið vandamál í fjölmörg ár.
Ingimundur segir þetta ekki séríslenskt vandamál heldur standi öll póstfyrirtæki í heiminum fyrir sama vandamáli og hafa ert undanfarin ár. „Það má segja að sérstaðan hér á Íslandi er sú að Íslandspóstur er sennilega eina, eða eitt af örfáum póstfyrirtækjum í Evrópu sem ekki hefur notið neinna framlaga úr ríkissjóði. Norski pósturinn er til dæmis að fá sjö þúsund milljónir í greiðsluir frá norska ríkinu fyrir að sinna alþjónustunni. Sænski og danski pósturinn, sem er í sameiginlegu fyrirtæki, fékk þrjátíu milljarða frá ríkisstjórn Svíþjóðar og Danmerkur í byrjun þessa árs. Svona mætti lengi áfram telja,“ segir Ingimundur í fyrrgreindu viðtali við stöð 2.
Núverandi póstþjónusta stendur ekki undir sér.
Aðspurður um hvort að Íslandspóstur muni eiga erfitt með að endurgreiða lánið komi það til segir hann svo vera. Ingimundur segist hafa áhyggjur af því og ástæða þess sé einfaldlega sú að póstþjónustukerfið eins og það er sett núna stendur ekki undir sér. Sú póstþjónusta sem við höfum verið að veita undanfarin ár skilar ekki inn tekjum umfram gjöld.
„Það þarf að stokka upp reksturinn það hvort sem kemur til lánsins eður ei og enn frekar þarf að gera það þegar ný póstlög taka gildi og ákvörðun verður tekin um afnám einkaréttar. Einkarétturinn hefur það hlutverk að greiða niður alþjónustu þar sem hún stendur ekki undir sér og hann hefur ekki gert það undanfarin ár,“ segir Ingimundur að lokum.
Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu kemur fram móta þurfi framtíðarstefnu og áætlun um hvernig haga beri póstþjónustu þannig hún verði sjálfbær. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið sem ráðuneyti póstmála vinnur nú þegar að endurskoðun gildandi lagaramma til að tryggja góða póstþjónustu um allt land segir í tilkynningunni.
Íslenska ríkið greiðir um 500 milljónir vegna bréfsendinga
Samþykkt var í maí síðastliðnum að álagningarseðlar almennings væru birt þeim rafrænt í stafrænu pósthólfi með það að markmiði að spara fjármuni, draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og bæta þjónustu. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra lagði fram breytingartillögunni, en samkvæmt henni greiðir íslenska ríkið um 500 milljónir króna á ári í póstburðargjöld vegna bréfasendinga til einstaklinga og fyrirtækja. Þar af nemur árlegur kostnaður ríkisins við að senda út tilkynningar opinberra gjalda um 120 milljónum króna.
Tekjur Íslandspósts af póstþjónustu voru 7,5 milljarðar króna á árinu 2017. Það þýðir að tæplega sjö prósent af öllum póstþjónustutekjum Íslandspósts eru vegna póstburðargjalda sem ríkið greiðir vegna bréfasendinga. Ef íslenska ríkið hefði ekki greitt hálfan milljarð króna í póstburðargjöld á síðasta ári hefði Íslandspóstur verið rekinn með tæplega þrjú hundruð milljóna króna tapi á því rekstrarári.
Póstburðargjöld Íslandspósts hafa þrefaldast á tíu árum
Sendingarkostnaður bréfpósts í einkarétti hjá Íslandspósti var þrefalt hærri árið 2017 en tíu árum áður árið 2007 samkvæmt samantekt Póst- og fjarskiptastofnunar sem birt var í byrjun árs. Í samantektinni kemur fram, að á tíu ára tímabili, frá 2007 til 2017, hefur gjaldskrá A-pósts hækkað um 220 prósent og gjaldskrá B-Pósts um 195 prósent. Á sama tímabili hækkaði vísitala neysluverðs um 67 prósent og vísitala launa um 102 prósent.
Í samantekt Póst- og fjarskiptastofnunar kom einnig fram að bréfum bréfum sem Íslandspóstur hefur einkarétt á, það eru bréf allt að 50 grömmum, hafi fækkað úr rúmum 50 milljónum árið 2007 niður í tæplega 22 milljónir í fyrra. Það er 57 prósent samdráttur. Stofnunin bendir þó á að hliðstæð þróun hafi átt sér stað í öllum löndum EES
Í samantektinni kom fram að Póst- og fjarskiptastofnunin fer fram á að Íslandspóstur endurskoði gjaldskrá, með tilliti til verðlækkana. Fyrr á árinu hafði stofnunin heimilað Íslandspósti að fækka dreifingardögum bréfpósts í þéttbýli frá og með 1. febrúar 2018 en dreifingardögum í dreifbýli hafði þegar verið samþykkt. Ákvörðun Íslandspósts um að fækka dreifingardögum byggði á því að eftirspurn eftir þjónustunni hefði minnkað og bréfsendingum fækkað. Til að bregðast við þessu hefur gjaldskrá reglulega verið hækkuð á undanförnum árum.
Mikið tap af erlendum sendingum
Undanfarinn áratug hefur bréfasendingum farið ört fækkandi um allan heim. Á sama tíma hefur netverslun rutt sér til rúms og pakkasendingum fjölgað. Tekjur af bréfasendingum vegna alþjónustu hafa dregist saman á sama tíma og dreifikerfið hefur stækkað með fjölgun íbúða og fyrirtækja, en auknar tekjur af pakkasendingum hafa ekki dugað til að vega upp á móti samdrætti í bréfasendingum
Íslandspóstur er skylt samkvæmt alþjóðasamningum að greiða 70 til 80 prósent af kostnaði póstsendinga frá þróunarlöndum, þar á meðal Kína. Ingimundur, forstjóri Íslandspósts, segir að rekja má stóran hluta af tapi Íslandspóst til þessara niðurgreiðslna en kostnaðurinn hleypur á hundruðum milljóna. „Mikil aukning hefur verið í netverslun frá útlöndum á undanförnum árum og þá sérstaklega frá Kína. Vegna óhagstæðra alþjóðasamninga þar sem Kína er flokkað sem þróunarríki fær Íslandspóstur mjög lágt gjald greitt fyrir þessar sendingar og standa þær greiðslur einungis undir litlum hluta þess kostnaðar sem fellur til við að meðhöndla þær. Mikið tap af þessum erlendu sendingum, sem Íslandi ber að sinna samkvæmt alþjóðasamningum, er stór hluti vandans við fjármögnun alþjónustunnar.“ sagði Ingimundur í viðtali við Morgunblaðið í september.
Laun forstjóra hækkuð um 17,6 prósent
Breytingar á lögum um kjararáð tóku gildi um mitt ár í fyrra. Með þeim var vald yfir launum ríkisforstjóra fært frá kjararáði til stjórna ríkissfyrirtækja. Kjarninn fjallaði um afleiðingu þessa breytinga fyrr á árinu og greindi frá hvernig breytingin leiddi af sér í sumum tilvikum tugprósenta launahækkana. Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspóst, hefur einnig notið góðs af þessum breytingum. Laun hans hækkuðu um 17,6 prósent á síðasta ári og mánaðarlaun hans eru nú 1,7 milljónir króna.
Á meðal þeirra sem sitja í stjórn Íslandspósts, sem ákvað hækkunina, er Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar. Hún er varaformaður stjórnarinnar. Laun stjórnarmanna í Íslandspósti voru einnig hækkuð milli ára. Samtals fóru greiðslur til stjórnarmanna úr níu milljónum króna í tíu milljónir króna. Þau eru ekki sundurliðuð sérstaklega í ársreikningi Íslandspósts. Um er að ræða hækkun um 11 prósent milli ára.
Árið 2015 greiddi Íslandspóstur 29,5 milljónir króna fyrir fimm jeppa og einn fólksbíl sem forstjóri og framkvæmdastjórar fyrirtækisins hafa til umráða samkvæmt ráðningarsamningum. Í svari Íslandspóst við fyrirspurn DV segir að fyrirtækið hafi á að skipa öflugt stjórnendateymi og það eigi við um stjórnendur sem og aðra starfsmenn fyrirtækisins, að það verði að vera samkeppnishæft í launum til að eiga kost á að laða til síns hæfa starfsmenn.
Stöðugildum Íslandspóst hefur einnig fjölgað um tæplega níutíu stöður, þar af um rúmlega fjörutíu milli áranna 2016 og 2017, og launakostnaður hækkað um 1,4 milljarða króna samkvæmt Fréttablaðinu.
Fjárfestingar og lán til dótturfélaga
Frá árinu 2006 hefur Íslandspóstur varið rúmlega 5,8 milljörðum króna í fjárfestingar í fasteignum, lóðum, áhöldum, tækjum og bifreiðum. Á móti hafa eignir fyrir rúmar 600 milljónir króna verið seldar. Nettófjárfesting á tímabilinu er því rúmir fimm milljarðar króna. Þetta má lesa úr ársskýrslum Íslandspósts frá árinu 2006 til dagsins í dag og var fjallað um í Fréttablaðinu í dag.
Á árunum 2005 og 2006 tók Íslandspóstur ákvarðanir um að stækka hlutdeild fyrirtækisins á almennum flutningamarkaði en fyrirtækið er einnig í samkeppni þegar kemur að dreifingu auglýsingablaða, bæklinga og sölu á prentvörum og ýmiss konar smávöru.
Í umfjöllun Fréttablaðsins um helgina kemur hins vegar fram að eftirlitsaðilar hafa bent á að slæma rekstrarstöðu Íslandspósts sé ekki aðallega að rekja til aukins kostnaðar við alþjónustu. Í athugasemdum Póst- og fjarskipstastofnunnar við skýrslu um rekstrarskilyrði Íslandspósts, frá árinu 2014, er meðal annars bent á að hundruð milljóna hafi tapast vegna lánveitinga til dótturfélaga Íslandspósts í samkeppnisrekstri. Íslandspóstur, m.a. vegna fjárfestingu í prentsmiðju Samskipta og láns til ePósts dótturfélags Íslandspósts.
Kalla eftir óháðri úttekt
Félag atvinnurekenda hefur sent Sigurði Inga Jóhannsyni, samgöngu og sveitastjórnarráðherra, erindi og hvatt til þess að ráðuneyti hans óski eftir óháðri úttekt á rekstri Íslandspósts. Ólafur Stephenssen, framkvæmdastjóri FA telur að ef ráðist verður í úttekt þá yrði að fá utanaðkomandi aðila til verksins. Hann bendir á að Póst- og fjarskiptastofnun telji það ekki sitt hlutverk að rannsaka slíkt og þá er Ríkisendurskoðun vanhæf þar sem stofnunin endurskoði reikninga Íslandspósts.
„Það er mjög áleitin spurning hvort eigendastefnu ríkisins vegna opinberra hlutafélaga sé ekki ábótavant. Þar segir að stjórnir slíkra félaga skuli leitast við að efla samkeppni en stjórn Íslandspósts virðist misskilja það sem svo að fyrirtækið skuli fara í samkeppni við allt sem hreyfist,“ segir Ólafur í samtali við Fréttablaðið í dag og bendir á að fyrirtækið selji sælgæti, bækur og minjavöru, dótturfyrirtæki þess vinni að hugbúnaðargerð og annað sé í prentþjónustu. Þá sé fyrirtækið á fullu í frakt-, flutninga- og sendlaþjónustu.