Hekla Arnardóttir, Helga Valfells og Jenný Ruth Hrafnsdóttir stofnuðu nýsköpunarsjóðinn Crowberry Capital árið 2017 en áður höfðu þær allar unnið saman hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Jenný segir að þær hafi allar verið tilbúnar að taka áhættu en þeim tókst að safna fjármagni – aðallega frá lífeyrissjóðunum en einnig frá fjársterkum einstaklingum – og loka sjóðnum um mitt ár 2017.
Nú hafa þær fjárfest í sex fyrirtækjum eftir þetta rúma ár sem þær hafa verið starfandi. Jenný segir að allir séu af vilja gerðir varðandi nýsköpun en að þeim hafi fundist vanta að henni væri fylgt almennilega eftir með gjörðum. Markmið Crowberry Capital er að fjárfesta í tólf til fimmtán fyrirtækjum í heildina en samkvæmt Jennýju er þetta fjögurra milljarða króna sjóður – rétt ríflega – og er líftíminn um tíu ár.
Fyrirtækin sem þau fjármagna núna eru allt tækni- eða nýsköpunarfyrirtæki. Jenný segir að um sé að ræða tæknifyrirtæki í víðum skilningi; matvælatækni, ferðatækni, heilbrigðistækni, sem og hugbúnaður. „Við erum einnig að skoða ýmislegt annað tæknitengt,“ segir hún. Nýfjárfestingartímabil telst að jafnaði um þrjú til fimm ár og segir Jenný að eftir það styðji þær við fyrirtækin út sjóðstímann.
Vilja búa til þekkingarstörf
„Við höfum allan okkar starfsferil starfað í tækni eða við rekstur fyrirtækja og síðar við fjárfestingar í nýsköpun. Þannig höfum við verið í þessu umhverfi allan hringinn við borðið,“ segir Jenný. Hún og Hekla eru verkfræðimenntaðar og störfuðu hjá Össuri sem er alþjóðlegt fyrirtæki í heilbrigðistækni. Þær hafa verið í stórum fyrirtækjum sem hafa skalast mikið en einnig hafa þær rekið svokallað „startup“. Jenný starfaði meðal annars hjá heilbrigðistæknifyrirtæki í Boston í Bandaríkjunum og var þá í nýsköpun að safna fjármagni frá sambærilegum sjóðum þar í landi.
Jenný telur nýsköpun vera algjört grunngildi fyrir þær allar og hún sameini þær allar. „Þetta er sameiningarkrafturinn hér hjá okkur. Að við viljum skapa störf fyrir þessar ungu kynslóðir sem við erum að mennta. Við erum búin að mennta börnin okkar mjög mikið hér á landi og við erum með hátt menntastig. En Íslendingar eru ekki að búa til nægilega mörg störf sem mæta menntastiginu. Það er grunntónninn fyrir það sem við erum að gera,“ segir hún. „Við viljum búa til fleiri störf – fleiri þekkingarstörf.“
Þær líta mikið til hinna Norðurlandanna en Jenný telur mikla jákvæðni einkenna íslenska hugsun varðandi nýsköpun. „Kostirnir sem við höfum er mikil félagsfærni í samfélaginu, samvinna sem kemur til að mynda í gegnum íþróttastarf í skólakerfinu,“ segir hún. Þannig sé menntakerfið að standa sig í stykkinu.
Það er mjög mikil áhætta að vera í störfum sem hafa staðnað. Og þá er hreinlega erfiðara fyrir fólk að fá störf til framtíðar þar sem kröfurnar eru aðrar.
Konur annað hvort ekki tilbúnar eða of gamlar
„Við efuðumst aldrei um getu okkar til að safna í slíkan sjóð,“ segir Jenný en hún segir jafnframt að oft fái konur þau skilaboð að þær séu ekki tilbúnar í slík verkefni. Eða að þær séu hreinlega orðnar of gamlar. Þannig mætti halda að rétti tíminn sé aldrei fyrir konur.
„En við töldum okkur hafa talsverða reynslu og ýmislegt fram að færa þannig að við bara stukkum af stað,“ segir hún. Auðvitað sé einhver áhætta við að fara út í slíka söfnun en hún segir að það sé líka áhætta fyrir samfélagið að þróa ekki ný fyrirtæki og taka ekki þátt í tæknibyltingunni sem á sér nú stað úti um allan heim. „Það er mjög mikil áhætta að vera í störfum sem hafa staðnað. Og þá er hreinlega erfiðara fyrir fólk að fá störf til framtíðar þar sem kröfurnar eru aðrar,“ segir hún.
Sjóðir koma og fara
Umgjörð fyrir nýsköpun er aftur á móti ofboðslega brothætt, að mati Jennýjar. „Sjóðir geta komið og farið. Það er ekki alltaf fjármagn sem hægt er stöðugt að ganga að,“ segir hún en bendir jafnframt á að Rannís hafi tekið miklum breytingum til góða en hún segir að það sem verið sé að gera þar sér frábær vinna.
„Við reynum líka að fá meðfjárfesta erlendis frá,“ segir hún. Einnig hafa þær fjárfest í erlendu fyrirtæki í Svíþjóð með fjárfestum þar í landi. „Þá eru meiri líkur að við getum dregið þá hingað og þá verðum við líka hluti af þessu norræna netverki. Við þurfum nefnilega að vefa okkur inn í það. Við viljum alls ekki vera eyland í nýsköpun.“
Sjaldséðir hrafnar
Jenný segir að þegar þær fóru af stað með sjóðinn þá hefðu þær ekki haft skýra mynd varðandi kynjahlutföll. „Síðan aftur á móti eftir að við lokuðum sjóðnum þá höfum við fengið mikla athygli fyrir það að vera einungis konur, sérstaklega utan landsteinanna,“ segir hún.
„Við erum sjaldséðir hrafnar,“ segir hún og hlær. Jenný bendir á að engin kona hafi starfað við fjárfestingar í nýsköpun á Íslandi fyrir tíu árum síðan. Nú séu þær sex af þrettán. Þetta eru ekki margir einstaklingar en hún segir að þeir hafi mikil áhrif á þau fyrirtæki sem eru að verða til.
Þegar kynjahlutföll eru skoðuð í Evrópu má sjá að konur stýra 12 prósent þeirra sjóða sem European Investment Fund (EIF), sem er stærsti vaxtarsjóðafjárfestirinn í Evrópu, hefur fjárfest í. Frá árinu 2013 fór talan úr fimm prósentum í tólf prósent á síðasta ári. European Investment Bank, sem er einn stærsti eigandi EIF, var fyrst núna í desember 2017 að setja sér reglur varðandi kynjakvóta en samt er vandamálið á þessum skala, segir Jenný. „EIB er í eigu þjóðríkja í Evrópusambandinu og EES og því skattgreiðenda og þar af leiðandi er þetta kynjahlutfall algjörlega óásættanlegt.“
Það er auðvitað skelfilegt að langstærsti fjárfestirinn í tæknisjóðum í Evrópu séu einungis að fjárfesta 12 prósent í konum.
Hún bendir enn fremur á að á meðan vaxtarsjóðir fjárfesti að megninu til í körlum þá séu það þeir sem ákveða hvaða tækni sé verið að fara að nota inn í framtíðina. „En þetta er ekki þverskurður af samfélaginu. Allavega ekki hvað kynin varðar og ekki einnig í víðara samhengi,“ segir hún. Þess vegna hafi þær sett mjög skýr markmið um að þær ætli að hafa áhrif á þessa heildarmynd. „Við lítum svo á að það þarf að taka aktívar aðgerðir til að breyta myndinni. Við þurfum að setja okkur markmið. Það gerist ekki af sjálfu sér. Þannig að við höfum sagt að okkar eignasafn sé að minnsta kosti 40 prósent annað kynið sem leiðir þau fyrirtæki. Sama hvort það séu konur eða karlar.“
Íslenskir lífeyrissjóðir eru mest mótandi á vaxtarsjóðaumhverfið hér heima, að sögn Jennýjar, og þeim til hróss þá eru kynjahlutföllin í vaxtarsjóðum á Íslandi 46 prósent konur á móti 54 prósent karla. „Um leið og við fjárfestum í fleiri kvenfrumkvöðlum þá fjölgum við vaxtartækifærunum í samfélaginu og hættum að skilja eftir verðmæti á borðinu.“
Róttæk viðbrögð að utan
Jenný segir að það hafi komið á óvart hversu róttæk viðbrögð þær hafi fengið út fyrir landsteinana. Þær fái mikið af spurningum hvernig þær hafi farið að því að stofna þennan sjóð og einnig hafi margar konur leitað til þeirra. Jenný spyr sig hvort ekki sé hægt að gera meira. „Getum við ekki gert meira fyrir umhverfið í kringum okkur sem Íslendingar?“ spyr hún.
„Það er auðvitað skelfilegt að langstærsti fjárfestirinn í tæknisjóðum í Evrópu séu einungis að fjárfesta 12 prósent í konum,“ bendir hún á. Fyrir tveimur árum voru reyndar samtök í Evrópu stofnuð sem einbeita sér að þessum málefnum sem heita European Women in VC en Jenný, Hekla og Helga eru stofnaðilar að þeim. Samtökin ýta á að fjárfest sé í fyrirtækjum með konur í forsvari. „Það er köld staðreynd að við erum að hafa svo mikil áhrif inn í framtíðina. Þess vegna er svo mikilvægt að breyta þessu kynjahlutfalli núna vegna þess að annars erum við ekki að fara að sjá áhrif þess strax. Ungar konur og karlar sem starfa hjá þessum nýsköpunarfyrirtækjum þurfa líka að hafa fyrirmyndir og hafa í leiðtogahópunum fólk sem þau geta litið upp til og leitað til. Þetta hefur svo víðtæk áhrif,“ segir Jenný.
Ungar konur og karlar sem starfa hjá þessum nýsköpunarfyrirtækjum þurfa líka að hafa fyrirmyndir og hafa í leiðtogahópunum fólk sem þau geta litið upp til og leitað til. Þetta hefur svo víðtæk áhrif.
Mikill sköpunarkraftur í loftinu
Nú þegar krónan er ekki eins sterk og undanfarin misseri þá telur Jenný ekki síður mikilvægt að fjárfesta í þekkingarstörfum og nýjum fyrirtækjum til framtíðar. „Þessar sveiflur á krónunni hafa áhrif á alla sem eru í viðskiptum eða í fyrirtækjarekstri. Og þetta er mjög erfitt þrátt fyrir að veikingin hjálpi til við útflutning. Best er auðvitað að hafa sem minnstar sveiflur.“
Þrátt fyrir veikingu krónunnar segir Jenný að þær hjá Crowberry Capital séu mjög bjartsýnar eins og alltaf. „Við höfum mikla trú á þessu unga fólki sem er að koma úr háskólunum og öðrum. Fólk á Íslandi er ofboðslega hugmyndaríkt – það er mjög mikill sköpunarkraftur í loftinu. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort það sé út af tónlistarskólunum eða hvað? Eða kannski er það bara veðrið,“ segir hún og hlær. „En það er mikill sköpunarkraftur hér, mörg fyrirtæki verða til en okkur gengur kannski ekki alveg nógu vel að koma þeim inn í fastmótað ferli og gera góðan „business“ úr þeim. En það er alltaf hægt að læra og vinna með fólki að því.“
Hún bendir á að nú sé frekar lítið atvinnuleysi en samt hafi fólk áhuga á að stofna fyrirtæki. „Það sýnir bara eldmóðinn að fólk hefur trú á því sem það er að gera og ætlar að breyta heiminum eða koma með eitthvað nýtt. Það er það sem við erum að horfa til.“
En hvernig á að halda úti eldmóði? Jenný segir að lykillinn sé að það gerir enginn neitt einn. „Þú verður að fá gott fólk með þér og treysta fólki í kringum þig. Í rauninni bara virkja fólkið í kringum þig. Við getum til dæmis bent á önnur fyrirtæki sem sjá um ákveðnar lausnir en þannig er hægt að horfa þvert á fyrirtæki. Við höfum líka tekið þátt í uppbyggingu þegar þau eru orðin aðeins stærri og vitum hvert næsta skref er eða hvernig hægt sé að komast upp á næsta stig,“ segir hún. Mikilvægast sé að reyna ekki að gera allt einn – heldur vinna með öðrum.
Vilja fjárfestingar í stöðugan farveg
Nýlega voru stofnuð samtök framtaksfjárfesta hér á landi, Framís, en stofnfundur samtakanna var í byrjun nóvember síðastliðinn. Jenný segir að Íslendingar þurfi stöðugt umhverfi og að alltaf sé einhver sjóður til staðar til að taka á móti nýsköpunarfyrirtækjum. Hún bendir á að fyrir árið 2015 hafi til að mynda mikið fjármagn vantað en allt í einu hafi þrír sjóðir komið til og fleiri fylgt á eftir. „Þetta er eins og ná tómatsósu úr flösku – allt kemur í einu en svo gerist ekkert inn á milli. Það gerist svo oft í svona fámennum samfélögum,“ segir hún.
Ef það er eitthvað sem þær myndu vilja að kæmist í stöðugan farveg þá væri það að alltaf væri eitthvað í gangi varðandi fjárfestingar í nýsköpun og tækni. Jenný telur að lífeyrissjóðirnir deili þessari sýn – það sé allra hagur. Sem og að fara vel með þá fjármuni sem fengnir eru.
Lesa meira
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi