Tæknispá 2019
Þroskaðra sprotaumhverfi, Elon Musk í kringum tunglið, mannlegar hliðar tækni, hæpheiðar og -dalir og frú Sirrý á íslensku. Þetta er meðal þess sem fram kemur í árlegri tæknispá Hjálmars Gíslasonar.
Mér telst til að þetta sé í 10. skipti (á 14 árum) sem ég skrifa tæknispá og reyni að rýna í hluti sem munu vera ofarlega á baugi í tækniheiminum á komandi ári.
Í spánni í fyrra tók ég meðal annars sterkar til orða en flestir og spáði miklu verðfalli á Bitcoin. Annað var kannski ekki alveg eins nákvæmt, eða hefur að minnsta kosti ekki gengið eftir eins hratt. Elon Musk fór til dæmis ekki í kringum tunglið. Það er þó líklega bara tímaspursmál. Endurtek þá spá núna með aðeins víðari tímamörkum.
Mannlegu hliðar tækninnar
Á árinu sem nú er nýhafið held ég að áherslan verði mikil á mannlegu hliðar tækninnar. Þannig held ég að við munum sjá meira rætt en áður um félagslegar, lagalegar og sálrænar hliðar þeirrar tækniþróunar sem nú stendur yfir og hvort og hvernig skuli bregðast við henni.
Persónuvernd verður áfram í brennidepli og líklegt að fleiri en Evrópusambandið muni setja skorður og skýrar reglur um meðferð þeirra.
Einnig grunar mig að regluverk í kringum gervigreind og þjálfun gervigreindarkerfa verði á dagskránni, enda sýnir sig sífellt betur að slík kerfi læra og festa í sessi mismunun og vitleysur sem fyrir eru í gögnunum sem þau eru þjálfuð með. Þau eiga til dæmis erfiðara með að þekkja hörundsdökk andlit en bleik; hafna frekar starfsumsóknum frá konum en körlum; og eru fljót að læra raisma á Twitter.
Þau eru þannig alveg jafn-skeikul og við mannfólkið! Vandinn er sá að það er ólíklegara að við gerum ráð fyrir því: Hvernig gæti tölva verið fordómafull? Hún er jú bara reiknivél? Vandinn er sá að ef við kennum reiknivél að reikna rangt, þá mun hún gera það - af meiri fullkomnun en jafnvel skeikulustu menn!
Hæpið er hæpið
Þekkt kenning segir að álitið á tækninýjungum rísi og falli eftir svokallaðri „hæpkúrfu“. Ráðgjafafyrirtækið Gartner hefur formfest og gert sér mat úr þessari kenningu, en í stuttu máli segir hún að heimurinn hafi miklar væntingar til tækninýjunga þegar þær eru nýjar, svo falli væntingarnar þegar þær ganga ekki eftir eins hratt og vonir stóðu til, en rísi síðan aftur og nái jafnvægi þegar tæknin hefur tekið út nægilegan þroska.
Ég held að tvær mest hæpuðu tækninýjungar síðustu ára, sýndarveruleikinn og nýjasta bylgja gervigreindartæki séu komnar yfir hæpheiðina og falli nú í dal vonbrigðanna næstu 2-3 ár. Að venju munu margir þeir sem vinna að þessari tækni heltast úr lestinni þegar ferðalagið lítur út eins og eyðimerkurganga bæði hvað varðar fjármögnun og viðskiptavini. Þessi tækni mun hins vegar snúa aftur af krafti innan 5 ára og þá með raunveruleg og sönnuð viðskiptatækifæri og notagildi. Á Íslandi skiptir þetta mestu máli hvað sýndarveruleikann varðar, enda talsverð reynsla, þekking og þróun í gangi varðandi hann hér síðustu ár. CCP dró þegar í land í lok þar síðasta árs og sprotafyrirtæki sem hafa verið að vinna á þessu sviði hafa mörg hver verið tvístígandi um framhaldið. Vonandi verður samt eitthvað eftir af þessari þekkingu og þróun þegar tækifærin koma fyrir alvöru.
Þroskað sprotaumhverfi
Íslenska sprotaumhverfið hefur þroskast mjög mikið á síðustu árum. Framboð á fjármagni hefur verið betra og jafnara en líklega nokkru sinni fyrr, erlendir fjárfestar eru farnir að láta til sín taka á Íslandi í meira mæli en áður og innlendir að taka sín fyrstu skref í að fjárfesta í erlendum tæknifyrirtækjum.
Ég held að þessi þróun eigi eftir að halda áfram og held að það væri mikið heillaspor að tengjast evrópska - og þá kannski ekki síst norræna - sprotaumhverfinu enn sterkari böndum. Það er margt áhugavert að gerast í norrænu senunni. Augu fjárfesta og tækniheimsins beinast í auknum mæli þangað og ímynd frumkvöðla og fyrirtækja sem þaðan koma er með miklum ágætum.
Meniga er komið hvað lengst fyrirtækja í „nýju sprotabylgjunni" sem fór af stað eftir hrun og að ná býsna góðum „status" á sínu sviði. Teatime, sem stofnað var af fyrrum stjórnendum Plain Vanilla, mun afhjúpa nýjungarnar sem þau hafa verið að vinna að síðustu misseri, og óhætt að spá því að það muni vekja mikla alþjóðlega athygli þegar þar að kemur.
Fleiri spennandi sprotafyrirtæki eru á áhugaverðum stigum fjármögnunar, vöru- og viðskiptaþróunar sem frétta er að vænta af á árinu, og vonandi verða slíkar fréttir reglan frekar en undantekningin innan fárra ára.
Allt í skýjunum
Ég held að 2019 sé ákveðið áfangaár í þeirri þróun sem orðið hefur síðasta áratuginn: Fyrirtæki munu svo gott sem endanlega hætta að setja upp sína eigin net- og vefþjóna og allur vöxtur á því sviði fara fram í stórum gagnaverum annarra - einkum og sér í lagi stóru skýjalausnafyrirtækjanna: AWS, Microsoft og Google. Tími tölvurekka í millistórum fyrirtækjum er að líða undir lok (hann er liðinn í litlum fyrirtækjum), en ég held líka að minni, „local" þjónustuaðilar muni eiga undir högg að sækja frá þessum stóru, aðgengilegu og alltumlykjandi alþjóðlegu þjónustuveitendum.
Talið þér íslensku frú Sirrý?
Íslensk máltækni hefur loksins fengið þá athygli sem hún á skilið og nú bæði úr nokkurri fjármögnun og hratt vaxandi þekkingu og gögnum að moða á því sviði. Þetta er nauðsynlegt ef íslenskan á að eiga möguleika á að lifa af 21. öldina. Ég hef þó reyndar ekki síður - og jafnvel frekar - áhyggjur af skorti á framboði af íslensku og íslenskuðu efni á helstu miðlum og efnisveitum ef svo á að vera. Það er reyndar ekki beinlínis tæknilegt mál, en eitthvað sem stjórnvöld, framleiðendur efnis og þeir sem koma að millivinnslu þess (svo sem þýðingum og talsetningu) ættu að leggja ofuráherslu á að koma í fastari farveg með aðilum á borð við Netflix, YouTube, Spotify og Amazon.
Á gamansömum nótum má reyndar færa rök fyrir því að við ættum alls ekki að leggja kraft í að kenna tækninni íslensku. Um daginn var ég í góðum hópi að ræða þá staðreynd að nú eru rúm 21 ár liðin frá deginum sem Skynet tók yfir heiminn í Terminator-seríunni með vægast sagt afdrifaríkum afleiðingum. Ástæðan fyrir því að við höfum ekki orðið þess vör á Íslandi hlýtur að vera sú að tölvurnar skildu aldrei íslensku.
Þarf ekki einhver að stöðva Eirík Rögnvaldsson?! ;)
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi