Mikil umræða hefur átt sér stað á síðustu árum um mikilvægi þess að auka hlutfall kvenna og annarra minnihlutahópa innan tæknigeirans. Finna má alþjóðleg samtök og einstaklinga sem hafa helgað sig því verkefni að auka fjölbreytni og sýnileika ólíkra fyrirmynda innan hugbúnaðar- og tæknigeirans. Ein þeirra er Sheree Atcheson, 27 ára tölvunarfræðingur, sem vakið hefur athygli og hlotið verðlaun fyrir frumkvöðlastörf sín við að auka fjölbreytni innan tæknigeirans og vinna gegn aðgreiningu í atvinnulífinu.
Kjarninn náði tali af Sheree þegar hún var hér á landi fyrir skömmu en hún hélt erindi á UT-messunni í Hörpu í byrjun febrúar, um hvernig viðskiptatækifæri felist í því að fagna fjölbreytileika innan fyrirtækja og stuðla að þátttöku minnihlutahópa. Hún vinnur í dag fyrir alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið Deloitte og er hún auk þess alþjóðlegur sendiherra samtakanna Women Who Code.
Styðja konur sem vilja skara fram úr
Sheree Atcheson ólst upp í Belfast, höfuðborg Norður-Írlands, en hún var ættleidd frá Sri Lanka þegar hún var þriggja vikna gömul. Eftir að hún kláraði B.A.-próf í tölvunarfræði og byrjaði á vinnumarkaðinum varð hún stöðugt meðvitaðri um þá staðreynd að það hallaði verulega á konur innan tæknigeirans. Þegar hún var í skóla í Belfast voru 100 manns með henni í námi en aðeins tíu af þeim voru konur en það var ekki fyrr en hún byrjaði að vinna og fann sérstaklega fyrir kynjaójafnvæginu. Á þeim tíma komst hún í kynni við samtökin Women Who Code, alþjóðleg samtök fyrir konur og alla þá sem skilgreina sig sem konur innan tæknigeirans. Samtökin styðja við konur sem vilja skara fram úr í tæknistörfum og jafnframt vinna að því að auka sýnileika kvenna innan tæknigeirans.
Sheree gekk til liðs við samtökin árið 2013 en þá voru þau með höfuðstöðvar í San Francisco og félagskonur voru um 5000 talsins. Sheree segir að það hafi skipt hana máli að vera hluti af samtökum sem ekki séu rekin í hagnaðarskyni og að aðild að félaginu væri ókeypis. Því það er henni mikilvægt að félagsgjöld séu ekki hindrun fyrir fólk með ólíkan efnahagslegan bakgrunn. „Vegna þess að hæfileikar eru alls staðar en tækifæri eru það einfaldlega ekki,“ útskýrir Sheree.
Hún varð fljótlega sendiherra samtakanna í Bretlandi en hún stofnaði útibú samtakanna í Belfast, Bristol, Lundúnum og Edinborg. Undir leiðsögn Sheree stækkuðu samtökin úr engu í Bretlandi í nú allt að 9000 meðlimi. Hún segir helsta kost samtakanna vera að þau aðlagi sig að aðstæðum á hverjum stað. Á hverjum stað eru staðbundin teymi sem vita hvað virkar á hverjum stað, til dæmis hvaða fyrirtæki samtökin geta starfað með og hvaða sérfræðinga hægt sé að fá til að halda fyrirlestra og námskeið. Hún segir að hlutverk samtakanna sé ekki aðeins að hjálpa konum að þróa hæfileika sína og færni í vinnu heldur að búa til samfélag. Hún segir að erfitt geti reynst fólki sem tilheyrir minnihlutahópum að koma inn á vinnumarkað og geti slíkt haft fælandi áhrif. Hún bendir því á að það geti verið mjög valdeflandi að vera hluti af hópi sem einstaklingur samsvarar sig með.
Nú eru 167.000 konur um allan heim félagar í Women Who Code. Samtökin hafa veitt skólastyrki fyrir milljónir Bandaríkjadala til kvenna í tæknigeiranum og eru þau nú með útibú í yfir 60 borgum en til stendur að opna mun fleiri.
Fjölbreyttari hópur býr til heildstæðari lausnir
Vinna Sheree felst meðal annars í því að fræða fólk um mikilvægi þess að innleiða ólík sjónarmið inn í fyrirtæki, með því að meðal annars ráða einstaklinga með fjölbreyttan bakgrunn og styðja við minnihlutahópa innan fyrirtækja. Sheree segir að þetta snúist að miklu leyti um að vera meðvitaður um forréttindi sín. Í fyrirlestrum sínum bendir hún fólki á að það sé enginn að segja að manneskja hafi ekki lagt vinnu og metnað í að komast á ákveðinn stað en ljóst sé að ákveðnir samfélagshópar eigi oft auðveldra með að koma sér á framfæri, fá fleiri tækifæri og að láta í sér heyra. „Ég hef sannarlega notið góðs af mínu uppeldi og þeirri staðreynd að ég er ættleidd. Annað fólk mun hafa notið góðs af því að vera ef til vill hvítt eða karlkyns. Eða líkt og í mínu tilviki að vera gagnkynhneigð. Það setur mig í ákveðinn forréttindahóp.“
Sheree segir það því samfélagslega skyldu fyrirtækja og sérstaklega þeirra sem eru í stjórnunarstöðu að taka tímann og hlusta á hvað fólk í minnihlutahóp hefur að segja. Hún segir jafnframt að þessi vinna snúist ekki einungis um að jafna kynjahlutfallið heldur um svokallaða samtvinnun (e.intersectionality). Fyrirtæki og fólk í stjórnunarstöðum þurfi einnig að líta til kynhneigðar, þjóðerni, efnahagsstöðu, getu og heilbrigði. Hún bendir á að það geti reynst fólki erfitt og óþægilegt að breyta gömlum hugsunarmynstrum og vana en að á sama tíma geti það verið valdeflandi ferli sem geri stjórnendur að betri leiðtogum. „Sterkari leiðtogar búa til betri fyrirtæki og betri fyrirtæki skapa betri vinnumenningu og svo framvegis. Þetta er einfaldlega skynsamlegt,“ segir hún.
Sheree leggur því mikla áherslu á að fyrirtæki og samtök hafi fjölbreyttar fyrirmyndir í stjórnunarstöðum og ólíkt samsafn af samstarfsmönnum. „Tækni hefur ekki einn notenda og því ætti fólkið sem býr hana til ekki að vera einn samfélagshópur,“ segir hún. Sheree nefnir sem dæmi að konur séu helmingur mannkyns og það væri því mikill missir að auka ekki þátt þeirra í hugbúnaðar- og tækniiðnaðinum. „Ef þú ert með teymi með báðum kynjum, frá ólíkum bakgrunn og með fjölbreytta menntun, þá ertu með mörg sjónhorn að vinna saman og þá er verið að skapa heildræna lausn. Lausn sem mætir ekki aðeins þörfum meirihlutans heldur mætir þörfum fleiri samfélagshópa.“
Hún nefnir dæmi um snjallsímaforrit sem var hannað til að fylgjast með meðgöngu. Það kom upp atvik þar sem ófrísk kona var að nota forritið en hún missti síðan fóstrið en í forritinu var ekki möguleiki að tilkynna forritinu sjálfu að meðgöngunni væri lokið. Í staðinn hélt konan áfram að fá tilkynningar um stöðu meðgöngu sinnar sem var lokið. Sheree bendir á að svo virðist sem teymið sem hannaði forritið hafi ekki áttað sig á að þetta væri mögulega eitthvað sem gæti komið upp á meðgöngu og því ekki gert notenda kleift að velja þann möguleika. Hún segir þetta dæmi sýna hversu mikilvægt það sé að tæknigeirinn taki með í reikninginn sjónarmið fleira fólks, hvort sem það séu sjónarmið kvenna, hinsegin fólks eða einstaklinga af ólíkum litarhætti. Það sé nauðsynlegt til að skapa bestu tæknilegu lausnina og notendaupplifunina.
Ég hef sannarlega notið góðs af mínu uppeldi og þeirri staðreynd að ég er ættleidd. Annað fólk mun hafa notið góðs af því að vera ef til vill hvítt eða karlkyns. Eða líkt og í mínu tilviki að vera gagnkynhneigt. Það setur mig í ákveðinn forréttindahóp.
Óþægilegt að horfast í augu við eigin forréttindi
Sheree ólst upp í Norður-Írlandi en hún heimsótti fæðingarstað sinn í Sri Lanka fyrir tveimur árum síðan. Þar hitti hún móður sína og sá við hvaða aðstæður hún býr. Jafnframt kynntist hún systur sinni sem giftist þegar hún var 16 ára gömul. Sheree segir að sú ferð hafi varpað ljósi á aðstöðumun hennar og líffræðilegu fjölskyldu hennar og að eftir ferðina hafi hún þurft að setjast niður og horfast í augu við eigin forréttindi. Hún segir að til þess að skilja eigin fordóma og forréttindi þurfi hver og einn að setja sig í spor annarra. „Við getum ekki vaxið ef við förum aldrei út fyrir þægindarammann. Ef hlutirnir eru alltaf auðveldir þá þróar þú ekki kunnáttu þína.“
En hvernig er að vera á sama tíma í forréttindastöðu og í minnihlutahóp innan ákveðins geira? Sheree segir að það að vera bæði kona og að vera af öðrum litarhætti en hvítum jaðarsetji hana innan tækniheimsins. En á sama sé hún í miklum forréttindahóp vegna félagslegra aðstæðna – með hennar menntun og tækifæri sem henni hafa hlotnast.
Það verður seint sagt að Sheree sitji auðum höndum en hún hefur haldið fyrirlestra um heim allan á fjölda ráðstefna. Hún skrifar jafnframt fyrir tímaritið Forbes, starfar sem fyrr segir hjá Deloitte við að styðja við minnihlutahópa og gera fjölbreyttar fyrirmyndir sýnilegar innan fyrirtækisins og auk þess er hún nú alþjóðlegur sendiherra Women Who Code. En þrátt fyrir allt segir hún að ennþá komi stundir þar sem hún gengur inn í herbergi – þar sem hún er jafnvel aðalfyrirlesari kvöldsins – að þá séu allir í salnum hvítir karlmenn. Hún segir því að tæknigeirinn sé enn nokkuð einsleitur og það reyni andlega á að vera sífellt „sú eina“.
Það skiptir öllu máli að hafa umhverfi án aðgreiningar. Nauðsynlegt er að skapa umhverfi þar sem allir hafi möguleika á því að skara fram úr, vaxa og læra.
Tækniiðnaðurinn breytist hægt – en breytist þó
En telur Sheree að tæknigeirinn hafi breyst síðan hún byrjaðir að vinna með Women Who Code árið 2013. Hún svarar þeirri spurningu á þann veg að fjölbreytileikinn innan fyrirtækja sé að aukast og iðnaðurinn sé að breytast en að það gerist hægt. Þó megi benda á að frá því að hún byrjaði í samtökunum fyrir fimm árum hefur félagsmönnum fjölgað úr 5.000 í 167.000.
Á sama tíma eru konur aftur á móti aðeins einn af hverjum fjórum starfsmönnum í tækni- og hugbúnaðarstörfum í Bretlandi og er hlutfallið enn lægra ef skoðaðar eru tölur fyrir konur sem eru af öðrum litarhætti en hvítum.
Sheree segir að umræðan um mikilvægi fjölbreytileika innan fyrirtækja sé þó að aukast. Fleiri og fleiri fyrirtæki séu að skapa starfsgildi sem snúa að því að styðja við minnihlutahópa innan fyrirtækja og auka fjölbreytni. Hún starfar nú hjá Deloitte og sér um fjölbreytni og félagslega samlögun innan fyrirtækisins. Starfið var sérstaklega sett á stokk fyrir hana og segir hún það vera sögulegt að jafn stórt og alþjóðlegt fyrirtæki hafi tekið það skref og sýnt fordæmi. Hún segir það vera til marks um að fjölbreytileiki sé til umræðu innan tæknigeirans þegar stjórnendur fyrirtækja eru byrjaðir að taka ábyrgð á að auka fjölbreytni innan fyrirtækja. „Þegar stórfyrirtæki gera breytingar þá fylgja aðrir eftir.“
Sheree nefnir annað dæmi um breytingar sem hún hefur tekið eftir og það er að hún hafi verið valin til að vera fyrsti fyrirlesarinn á UT-messunni hér á landi. Það þýði að það sem hún fjallaði um á fyrirlestrinum – fjölbreytileika og félagslega samlögun – skipti skipuleggjendur og styrktaraðila ráðstefnunnar máli. Flestir ráðstefnugestir mæti yfirleitt á opnunarfyrirlesturinn og þetta sé því áhrifarík leið til að vekja fólk til umhugsunar og ná fram breytingum. Hún segir að þetta sé að sýna vilja í verki og hvetur önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama.
„Það skiptir öllu máli að hafa umhverfi án aðgreiningar. Það er nauðsynlegt að skapa umhverfi þar sem allir hafa möguleika á því að skara fram úr, vaxa og læra. Að skapa pláss fyrir raddir allra og að öllum líði eins og þeir tilheyra,“ segir hún.
Leiðir sem stjórnendur fyrirtækja geta farið
Sheree segir að stjórnendur og leiðtogar geti ráðist í fjölda aðgerða til að styðja við fólk í minnihlutahópum – litlar aðgerðir sem stórar. Hún segir að allir starfsmenn þurfi leiðbeiningar og stuðning og þá sérstaklega þeir sem séu í minnihluta. Hún segir það því geta verið mjög valdeflandi að skapa samband milli fólks og sterk tengslanet. Hún segir jafnframt mikilvægt að skapa vinnustað sem henti sem flestum, það sé meðal annars hægt að gera með því að bjóða upp á sveigjanlega vinnutíma. Fólk sé með mismunandi þarfir, til að mynda myndi sveigjanlegur vinnutími henta fyrir útivinnandi foreldra, fólki sem er að kljást við andleg og líkamleg veikindi og svo mætti lengi telja. „Af því við getum ekki haldið áfram að horfa á alla starfsmenn með sömu augum, að allir vilji það sama og að allir séu eins.“
Sheree segir það einnig gríðarlega mikilvægt að hafa sýnilegar fyrirmyndir upp allan stigann, frá efstu stjórnendastöðum og niður í starfsnema. „Það er mun auðveldara að vera einn af fáum heldur en sá eini.“ Sem dæmi hafi rannsóknir sýnt að því fjölbreyttari sem auglýsingar fyrirtækja eru því aðgengilegra þykir fyrirtækið. Ef fólk af báðum kynjum, fólk af ólíkum uppruna sem og öðrum samfélagshópum sem eru í minnihluta innan ákveðins geira er í markaðsefni fyrirtækisins þá sé líklegra að fleiri og fjölbreyttari hópur sæki um vinnuna. Ef fleiri sjá tækifæri í tæknistörfum þá verður auðveldara að jafna kynjahlutfall og skapa fjölbreyttari tæknigeira.
Það er mun auðveldara að vera einn af fáum heldur en sá eini.
Auk þess tekur Sheree dæmi um litla aðferð sem geti haft mikil áhrif. Hún segir að hún taki alltaf fram persónufornafn sitt á öllum nafnspjöldum sínum og undirskriftum. Auk þess kallar hún eiginmann sinn maka til þess að komast hjá því að nota kynjað nafnorð. Hún segir að þetta sé leið til að taka tillit til þeirra sem skilgreina sig kynsegin eða hinsegin. „Ef þú getur gert eitthvað svo einfalt sem er enginn vinna fyrir þig en gæti það breytt miklu fyrir aðra.“
Enn fremur leggur hún áherslu á að ef erfitt reynist að skilja ákveðið sjónarhorn eða reynsluheim þá sé best að spyrja og hlusta. „Enginn einn getur talað fyrir alla. Ég get ekki talað fyrir svartar konur og ég get ekki talað fyrir neinn frá LGBT+ samfélaginu, þar sem ég er gagnkynhneigð og sís. Þetta snýst um að skilja hvernig þú getur hlustað og breytt hugarfari og aðferðum út frá því,“ segir hún.
Umkringja sig með ólíkum röddum
Sheree bendir á aðra einfalda leið til að kynna sér ólík sjónarmið og skyggnast inn í reynsluheim ólíkra aðila. Það er að nota samfélagsmiðilinn Twitter til að fylgja ólíkum manneskjum með fjölbreyttan bakgrunn. Hún segir að til sé forrit sem heitir DiversifyYourFeed en forritið skoðar Twitter-reikninga og reiknar út kynjahlutfall þeirra sem reikningurinn fylgir. Þá er hægt að sjá hvort halli á annað hvort kynið og í kjölfarið er hægt að fá uppstungur um fólk til að fylgja. Hún segir jafnframt að nú sé verið að bæta við forritið svo hægt sé að reikna út hvernig fylgjendur skiptast eftir þjóðernum. „Þetta snýst um að að vera meðvitaður um þessa hluti. Það er svo mikilvægt að umkringja sig ólíkum röddum, því þannig lærir maður.“
„Mér finnst Twitter frábær leið til að gera það vegna þess að þá er hægt að hafa sjónarmið annarra á tímalínunni þinni með því að smella á einn hnapp. Þú þarft ekki að hafa hitt manneskjuna áður eða þekkt hana á neinn hátt. Hún getur verið hinum megin á hnettinum en þú fær samt að heyra sjónarhorn hennar.“ Sheree segist gera þetta mikið, hún fylgir fjölda fólks sem skilgreinir sig hinsegin og mikið af konum af öðrum litarhætti en hvítum og þá sérstaklega svörtum konur. „Ég er ekki hluti af þeirra samfélagshóp og get því ekki skilið þeirra reynsluheim en ég vil vita hvað ég get gert til að styðja við þessa hópa.“ Hægt er að fylgja Sheree á Twitter hér.
Hvetja þarf fleiri samfélagshópa að sækja hugbúnaðarnám
Aðspurð segir Sheree það rétt að auka þurfi aðsókn í hugbúnaðar-, vef- og tækninám. Hún segir aðsóknina vera að aukast smá saman en hægt sé að gera enn betur. Sérstaklega þurfi að reyna að jafna hlutfall kynjanna og jafnframt að ná til fjölbreyttari hópa fólks. „Við munum ekki fjölga kvenkyns forriturum ef við hvetjum ekki fleiri stelpur til að forrita,“ segir hún. Hún segir að það sé jafnframt á ábyrgð stjórnvalda og skóla að sýna krökkum og ungu fólki með ólíkan bakgrunn, hvaða möguleikar og tækifæri séu í boði. Enn fremur bendir hún á að tækninám sé sniðugt nám í heiminum dag, þar sem tækni sé aldrei að fara að vera minni hluti af lífi fólks en nú – í stað þess virðist tæknin verða sífellt innlimaðri í líf okkar.
Hún ítrekar að það fylgir ekki einungis samfélagslegur ávinningur af því að auka fjölbreytni innan tæknigeirans heldur einnig fjárhagslegur ávinningur. Því mismunandi hópar hafa ólíkar hugmyndir um hvaða vandamál þurfi að leysa og hvernig. Því fjölbreyttari teymi með ólíkari einstaklingum, því mun heildstæðari og betri verður lausnin.
Lesa meira
-
9. janúar 2023Eigum að flytja inn þekkingarstarfsmenn
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
5. janúar 2023Auglýsingamódel Facebook og Instagram fær þungt högg í Evrópu
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
1. janúar 2023Rafmyntin er sýnd veiði en ekki gefin
-
2. desember 2022Starfsmenn voru að meðaltali 4,5 sekúndur að slá inn kennitöluna í mötuneytinu
-
1. desember 2022Tæknivarpið - „Það er enginn að fara hakka mig”
-
21. nóvember 2022Tæknivarpið - Inniskórnir hans Steve Jobs seldust á 27 milljónir
-
21. nóvember 2022Samtal við samfélagið – Myrkranetið
-
13. nóvember 2022Fólk, veikindi og von með genalækningum