Í september árið 2018 sýknaði Hæstiréttur fimm sakborninga af öllum ákæruliðum í endurupptöku á einu umdeildasta sakamáli 20. aldarinnar, Guðmundar- og Geirfinnsmálsinu, nærri því 40 árum eftir að dómurinn féll í Hæstarétti árið 1980. Forsætisráðherra skipaði í kjölfarið sáttanefnd sem leiða átti sáttaumleitun við aðila máls og aðstandendur þeirra.
Rúmum sjö mánuðum síðar hefur hins vegar ekki enn náðst sátt í málinu og sú fjárhæð sem nefndin hefur á milli handanna til greiðslu skaða- og miskabóta verið sögð alltof lág. Framganga stjórnvalda hefur verið gagnrýnd úr ýmsum áttum og kallað hefur verið eftir því að stjórnvöld sýni ábyrgð þegar kemur að upphæð miska- og skaðabóta fyrir þá sem ríkið sviptir frelsi og réttindum.
Sáttanefnd verið að störfum frá því í október
Endurupptökunefnd féllst í febrúar árið 2017 að dómur Hæstaréttar frá árinu 1980 skyldi tekin upp er varðaði fimm sakborninga af sex. Rúmu ári síðar komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að sýkna skyldi sakborningana fimm af öllum ákæruliðum. Í kjölfarið bað Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands fyrrverandi sakborninga, aðstandendur þeirra og aðra sem hafa átt um sárt að binda vegna málsins, afsökunar á því ranglæti sem þeir hafa mátt þola.
Forsætisráðherra skipaði í kjölfarið sáttanefnd í október í fyrra sem koma átti fram fyrir hönd stjórnvalda í viðræðum og sáttaumleitunum við aðila málsins og aðstandendur þeirra. Nefndin átti jafnframt að gera tillögur um hugsanlega greiðslu miska- og skaðabóta eða eftir atvikum svonefndra sanngirnisbóta til aðila málsins og aðstandenda þeirra. Í íslenskum lögum eru ekki önnur úrræði fyrir þá sem ríkið sviptir frelsi og réttindum en að krefja ríkið um skaðabætur fyrir fjárhagslegt og ófjárhagslegt tjón. Jafnframt er ekki að finna í lögum leiðbeiningar um hvernig ákvarða eigi bæturnar.
Krefst milljarðs fyrir sinn skjólstæðing
Fréttablaðið greindi frá því í lok apríl að upphaflega hefðu stjórnvöld hyggst verja til sáttanna í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu 400 milljónum en nú hefði sú upphæð verið hækkuð í 600 milljónir til að liðka fyrir viðræðunum. Þeirri upphæð yrði síðan deilt á milli hinna sýknuðu meðal annars eftir lengd frelsissviptingar.
Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar, sem var einn þeirra sem sýknaður var í Hæstarétti í september síðastliðnum, sagði í viðtali í Silfrinu síðasta sunnudag að það hljóti að hafa orðið einhver mistök hjá stjórnvöldum þegar upphæð miskabóta í málinu var ákveðin.
Í viðtalinu greinir Ragnar frá því að hann hafi krafið ríkið um miskabætur upp á rúman milljarð fyrir hönd skjólstæðings síns. Hann segist hafa miðaði upphæð bótanna við það formdæmi sem hann einna helst hafi en það er dómur Hæstaréttar frá 1983. Í þeim dómi dæmdi Hæstiréttur fjórum mönnum bætur semhöfðu setið í gæsluvarðhaldi, en þrír þeirra höfðu sætt 105 daga gæsluvarðhaldi og einn 90 daga að ósekju árið 1976. Þeir höfðuðu bótamál á hendur ríkinu, sem lauk með dómum Hæstaréttar. Ragnar segir að í málinu hafi ekki legið fyrir gögn um áhrif gæsluvarðhaldsins á andlega og líkamlega heilsu fanganna, en Hæstiréttur mat áhrifin sjálfur með þeim orðum, að vistunin hafi reynst föngunum fáheyrð andleg og líkamleg raun.
Léttbært að finna rök fyrir enn hærri bótum
Ragnar fjallar jafnframt um málið í aðsendri grein á Kjarnanum í síðustu viku. Þar kemur fram að þessir dómar Hæstaréttar frá 1983 komist næst því að hafa beint fordæmisgildi enda fjalli þeir um sama sakarefni, sama tímabil og sama fangelsi. „Munurinn er helst sá, að gæsluvarðhaldstíminn var margfalt styttri í þeim dómum og ekki var ranglega felld sök á þá sem í hlut áttu, þannig að þeir þurftu ekki að bera sekt á öxlum sínum um áratuga skeið. Þeir voru lausir allra mála varðandi sekt er þeim var sleppt úr gæslu,“ segir í greininni.
Bæturnar sem Hæstiréttur ákvað þeim sem sátu í 105 daga í gæslu nema að núvirði, samkvæmt reikningum Ragnars, um það bil 56 milljónum króna miðað við breytingar á vísitölu, eða um það bil 535.000 krónum á dag. Ragnar notaði því þessar tölur og komst að þeirri niðurstöðu, miðað við dagafjölda síns skjólstæðings í gæsluvarðhaldi, að leggja fram kröfur um miskabætur nálægt milljarði og atvinnutjón nálægt 120 miljónum fyrir hönd síns skjölstæðings.
Ragnar bendir jafnframt á í grein sinni að það myndi reynast ríkinu léttbært að finna rök fyrir hærri bótum en í dómi Hæstaréttar 1983. Hann segir að engin vafi leiki á því að þetta sé alvarlegasta dómsmorð síðustu áratuga hér á landi. „Fyrir slíkt athæfi ríkisins verður ekki bætt. Réttarkerfið skaðast og trúin á réttláta málsmeðferð og dóma verður fyrir áfalli auk tjóns hinna saklausu af meðferðinni. Stjórnvöld verða að leitast við að bæta skaðann og lögin bjóða ekki upp á önnur úrræði gagnvart brotaþolunum en skaðabætur. Vilji stjórnvalda til að bæta úr hinum stórfelldu mistökum birtist því í því eina úrræði sem nefnt hefur verið. Því hærri bætur því meiri varnaðaráhrif munu þær hafa á lögreglu og dómstóla,“ segir Ragnar í grein sinni.
Í viðtalinu í Silfrinu segir Ragnar enn fremur að hann hafi boðað sínar bótarkröfur í október og síðan lagt fram kröfurnar í desember en að engin viðbrögð hafi komið við hans kröfum. Hann segir jafnframt að enginn vilji sjá þessi mál fara fyrir dómstóla því það gæti tekið sinn tíma og mögulega endað fyrir Hæstarétti. Hann segist aðspurður eiga von á því nú væru stjórnvöld nú að husga sinn gang. „Ég held að ríkisvaldið muni endurskoða grunninn og átta sig á því að þessi upphaflega upphæð var ekki rétt þannig að nú hefjist rétt og nýtt upphaf,“ segir Ragnar að lokum.
Segir aðferð og nálgun siðanefndar svíða mest
Tryggvi Rúnar Brynjarsson, barnabarn Tryggva Rúnars Leifssonar eins hinna sýknuðu sakborninga í málinu, hefur einnig gagnrýnt framgöngu sáttanefndarinnar. Í grein hans á vef Vísis sem birt var í síðustu viku greinir Tryggvi frá því hvernig fjölskylda hins sýknaða hafi aflað gagna til að leggja fram við mat nefndarinnar á orsökum og afleiðingum ranglátra fangelsa og rangra dóma á einstaklinga. Hann segir hins vegar að nefndin hafi hundsað hverja einustu tillögu sem kom úr þeirra horni.
Þegar nefndin síðan lagði undir lögmann þeirra tillögu að bótum segir Tryggvi að fjölskyldan hafi trúað því að sú tillaga myndi endurspegla þá vinnu sem hlyti að hafa átt sér stað allan þennan tíma. Þess í stað hafi fulltrúar stjórnvalda aðeins tekið fyrir dagafjöldann sem hver maður var sviptur frelsinu. Jafnframt hafi útreikningar nefndarinnar byggt á Vegasmálinu svokallaða sem hann segir að svipi ekki hið minnsta til þess máls sem hér um ræðir.
Tryggvi segir í samtali við Kjarnann að hann ásamt fjölskyldu sinni hafi vænt þess að þegar sáttanefndin var skipuð að nú færi þessu hræðilega máli senn að ljúka. Hann segir aðstandendur afa síns hafa búist við því nefndin myndi að minnsta kosti reyna að gera heildstætt mat á orsökum og afleiðingum málsins á einstaklinga en ekki aðeins telja dagana sem hann var frelsissviptur. Hann segir að í raun sé það mun frekar aðferð og nálgun siðanefndar sem svíður mest en ekki upphæðin. Sú staðreynd að nefndin hafi eytt sex mánuðum í ekki neitt.
Fremur í „bisness“ en að ræða neina raunverlega sátt
Í nýlegu viðtali við Mannlíf gagnrýnir Erla Bolladóttir einnig framkomu sáttanefndar á síðustu mánuðum. Þegar endurupptökunefnd féllst á að dómur Hæstaréttar frá árinu 1980 skyldi tekin upp var endurupptökubeiðni Erlu Bolladóttur hins vegar hafnað. Erla var dæmd fyrir meinsæri í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu en ekki morð eins og hinir. Í viðtalinu segist Erla vera sár út í Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, en Erla hefur beðið þess lengi að fá svör frá henni um stöðu síns máls. Einnig gagnrýnir Erla framgöngu formanns sáttanefndar í viðræðunum við aðila málsins.
„Hér höfum við bara fulltrúa forsætisráðuneytisins og þá einkum Kristrúnu Heimisdóttur [sem var formaður sáttanefndar, innsk. skotablaðamanns] með ríkislögmann í bakgrunni að fara fyrir því að ræða við sakborninga um hvernig ríkið geti sloppið sem best frá þessu. Hún er fremur í bissness en að ræða neina raunverulega sátt. Á áttunda mánuði frá því að „nefndin“ tók til starfa kemur svo einhliða ákvörðun forsætisráðuneytisins um upphæð skaðabóta sem er lítið meira en 10% af þeim skaðabótum sem saklausum fjórmenningum í málinu voru greiddar á sínum tíma. Auk þess hefur komið í ljós að umrædd „sáttanefnd“ er ekki lengur starfandi. Þetta virðist allt komið í einhverja allsherjar vitleysu,“ segir Erla í viðtalinu.
Vakti athygli á því ekkert hafi spurst til sáttanefndarinnar
Þann 13. maí síðastliðinn spurði Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum hvernig ríkisstjórnin ætlaði sér að ljúka hinu löngu tímabæra verkefni, Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Helga Vala vakti athygli á því að ekkert hefði spurst til sáttanefndarinnar um nokkuð skeið.
„Hún virðist bara vera gufuð upp án þess að ný hafi verið skipuð. Nú er lögmaðurinn Andri Árnason mættur sem málsvari forsætisráðherra í málinu. Sjö mánuðir eru liðnir, erindum dómfelldu og aðstandenda þeirra er ekki svarað og hæstvirtur forsætisráðherra lætur ekki ná í sig vegna þessa máls,“ sagði Helga Vala.
Forsætisráðherra sagði að sú hugmyndafræði sem lagt var upp með í störfum sáttanefndar væri að kanna hvort möguleiki væri að ná sátt við alla þessa aðila í ljósi þess að ólíkt lagaumhverfi gildir hvað varðar miskabætur annars vegar um þá sem enn lifa og hins vegar um afkomendur. Markmiðið væri að reyna að ná heildarsamkomulagi þó ljóst væri að um mjög ólíka hópa er að ræða.
Katrín staðfesti jafnframt að nefndin væri enn að störfum sem og settur ríkislögmaður en nefndin hefur unnið með Andra Árnasyni, settum ríkislögmanni í málinu, og verið sáttanefndinni til ráðgjafar. „Þannig að ég bind að sjálfsögðu vonir við að slíkt samkomulag megi nást,“ sagði Katrín.
Getur ekki tjáð sig um fjárhæð miskabóta
Daginn eftir, þann 15. maí, voru störf sáttanefndarinnar á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Í samtali við Kjarnann segir Katrín að hún hafi greint ríkisstjórninni frá stöðu mála þar sem fyrirspurn um málið hafi komið fram á Alþingi. Hún segir að málið hafi tekið sinn tíma enda gríðarlega flókið og viðkvæmt og hún hafi fyrst og fremst verið að gera ríkisstjórninni grein fyrir því að nefndin væri enn að störfum með það að markmiði að reyna að ná samkomulagi við þessa aðila.
Katrín segir jafnframt hún hefði sjálf kosið að vinna nefndarinnar hefði gengið hraðar en vegna þess að þetta sé flókið verkefni og málið í raun einstakt í réttarsögunni þá hafi þetta tekið sinn tíma. Hún segir að nefndin sé enn að störfum og hafi fundað 20 sinnum síðan í október.
Enn er ekki farið að sjá til lands í málinu en hún segist ekki geta tjáð sig um þær upphæðir sem séu til skiptanna fyrir þá sem eiga hlut að máli.