Sagan af því hvernig Valur varð ríkasta íþróttafélag á Íslandi
Knattspyrnufélagið Valur er ríkasta íþróttafélag á Íslandi. Sú staða gerir Val kleift að bjóða upp á aðstöðu, aðstæður og launagreiðslur sem önnur íþróttafélög geta illa eða ekki keppt við. Niðurstaðan er sú að Valur er í fremstu röð á öllum vígstöðum helstu hópíþrótta á Íslandi hjá báðum kynjum og hirðir hvern titilinn á fætur öðrum.
Sagan á bakvið hinn mikla uppgang Vals er stór og mikil. Hún teygir sig aftur fyrir síðustu aldarmót og felur í sér margar hraðahindranir og allskyns átök, bæði innanbúðar meðal Valsmanna og við aðra sem vildu standa í vegi fyrir vegferðinni af ýmsum ástæðum. Hér verður öll þessi saga rakin.
Fyrsti kafli: Aðdragandinn
Á árunum 1990-1992 hafði karlalið Vals í knattspyrnu unnið þrjá bikarmeistaratitla í röð og tekið þátt í Evrópukeppni. Handboltalið Vals var líka það besta á Íslandi á tíunda áratugnum og vann hvern Íslandsmeistartitilinn á fætur öðrum. Sögulega var félagið stórveldi.
En fjárhagur Vals var í molum. Skuldir söfnuðust upp ár frá ári og voru að sliga allan rekstur.
Knattspyrnudeildin var í verstum málum, enda fjárfrekust. Sú staða fór að endurspeglast í frammistöðunni á vellinum og árið 1999 náði þetta niðurlægingarskeið félagsins fullkomnun þegar Valur féll úr efstu deild knattspyrnu karla í fyrsta sinn í sögu sinni.
Það sem gerði fallið enn verra var að Íslandsmeistaratitillinn það árið fór til stórveldis þess tíma, nágranna Vals úr vesturbæ Reykjavíkur, KR.
Ári áður hafði KR gert eitthvað sem var ekki þekkt í íslenskum íþróttaheimi. Nokkrir gallharðir stuðningsmenn stofnuðu eignarhaldsfélagið KR-sport sem hafði þann tilgang að styðja við rekstur knattspyrnudeildar KR, og í raun taka yfir rekstur hennar. Skráðir stofnendur voru tveir, Björgólfur Guðmundsson og Haukur Gunnarsson.
Inn í félagið var greitt hlutafé sem síðan átti að vera hægt að ávaxta og nota ágóðann af því til að styrkja fjárhagslega rekstur knattspyrnuliðs KR. Á meðal fjárfestinga sem KR-sport réðst í var að kaupa þrjá veitingastaði á Eiðistorgi: Rauða ljónið, Koníaksstofuna og Sex Baujuna. Líkast til má deila um ágæti þeirrar fjárfestingar.
Ýmsir harðir stuðningsmenn Vals, sem áttu fjármuni og fullt af vilja til að gera vel fyrir félagið sitt, horfðu til þess að KR-leiðin gæti verið leið sem nýst gæti þeim.
Á annan tug kjölfestufjárfesta
Í byrjun desember 1999 var félagið Valsmenn hf. stofnað til að „vera sjálfstæður fjárhagslegur bakhjarl fyrir Knattspyrnufélagið Val“. Alls lögðu á annan tug einstaklinga fram eina milljón króna í fyrstu. Þeir urðu svokallaðir „kjöfestufjárfestar“ í hinu nýja félagi. Á meðal þeirra sem tilheyrðu þeim hópi var margt þjóðþekkt fólk. Helstu drifkraftarnir voru annars vegar Grímur Sæmundsen, fyrrverandi leikmaður Vals og nú helsti eigandi og stjórnandi Bláa lónsins, og Helgi Magnússon, stórtækur fjárfestir sem um árabil var einnig stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Á meðal annarra sem lögðu fram milljón krónur voru Guðni Bergsson, ein ástsælasti sonur Vals og þá enn atvinnumaður í knattspyrnu, og fjölmiðlamaðurinn Ingvi Hrafn Jónsson, sem á síðustu árum er best þekktur fyrir rekstur sjónvarpsstöðvarinnar sálugu ÍNN.
Fleiri velunnurum Vals var í kjölfarið boðið að leggja til lægri fjárhæðir. Alls söfnuðust hlutafjárvilyrði fyrir 50 milljónum króna og á endanum innheimtust 43 milljónir króna af þeim. Flestir lögðu til mjög lágar upphæðir, um tíu þúsund krónur.
Í fyrstu stjórn Valsmanna hf. sátu Brynjar Harðarson, fyrrverandi handboltaleikmaður hjá Val og íslenska landsliðinu sem var formaður, Helgi Magnússon, Elías Hergeirsson, Friðrik Sophusson, fyrrverandi ráðherra og áhrifamaður í stjórnmálum um árabil, Stefán Gunnarsson, Kjartan G. Gunnarsson og Örn Gústafsson.
Fyrsti skráði framkvæmdastjórinn var lögmaðurinn Brynjar Níelsson, síðar þingmaður Sjálfstæðisflokks og mikill Valsari.
Brynjar Harðarson tók þó fljótlega við öllum rekstri félagsins sem snérist um að fjárfesta hlutaféð. Það var meðal annars gert með kaupum á stóru auglýsingaskilti sem sett var upp við Hlíðarenda og kaupum á verðbréfum.
Þessi fyrstu ár var ávöxtunin nokkrar milljónir króna á ári. Það var vissulega búbót fyrir skuldum hlaðið félag en var ekki að fara að umbylta rekstrinum á Hlíðarenda.
Áttu landið
Valur var í þeirri einstöku stöðu að eiga landið sem félagið stundaði starfsemi sína, á Hlíðarenda. Það hafði átt það frá því maímánuði 1939. Það reyndist á endanum mesta lukka Vals að hafa fest sér þetta land sem um 90 árum síðar varð eitt verðmætasta byggingarland í höfuðborg landsins.
Valsmenn hf. höfðu áhuga á að nýta sér þessa einstöku stöðu til að styrkja Val og bæta aðstöðu félagsins. Fyrsta skrefið sem stigið var til þess var að gera samning við Reykjavíkurborg hinn 11. maí 2002 um Hlíðarendasvæðið. Samkvæmt honum lét Valur hluta af erfðafestulandi Vals undir umferðarmannvirki sem tengdust m.a. legu nýju Hringbrautarinnar og stórt svæði sem átti að skipuleggja sem lóðir meðfram Flugvallarvegi og Hlíðarfæti. Samhliða var gerður lóðaleigusamningur um það svæði sem íþróttasvæði Vals stendur á.
Á þessum tíma skuldaði Valur um 200 milljónir króna og við blasti að umtalsverða fjármuni þurfti til að fjárfesta í bættri aðstöðu á svæði félagsins. Samningurinn sem gerður var við Reykjavíkurborg var metin á tæpan einn milljarð króna. Þá fjármuni átti að fá með því að selja byggingarétt af lóðunum sem Valur lét frá sér í samkomulaginu og viðbótarlóðum sem Reykjavík átti við svæðið.
Fjármunirnir áttu að notast annars vegar til að greiða niður skuldir Vals og hins vegar að fjármagna 780 milljón króna uppbyggingu mannvirkja. Á meðal þess sem átti að byggja var íþróttahús með áfastri útistúku og aðalleikvangur við hlið þess. Mannvirki sem í dag eru risinn og bera nöfnin Origo-höllinn og Origo-völlurinn.
Annar kafli: Fjárfestingin og pólitíski glundroðinn
Sérstök bygginganefnd Reykjavíkurborgar og Vals sá um sölu byggingaréttarins. Hún gerði samning við kaupanda af honum hinn 11. maí 2005. Kaupandinn var Valsmenn hf. og kaupverðið var 485 milljónir króna ásamt kauprétti á bygginga- og lóðaréttindum fyrir 385 milljónir króna. Auk þess átti kaupandinn að greiða gatnagerðargjöld. Heildarverðið var því um 900 milljónir króna.
Valsmenn greiddu um 400 milljónir króna út til hinnar sameiginlegu bygginganefndar og restin átti að greiðast þegar lóðaleigusamningar væru tilbúnir. Fjármunirnir nýttust til að greiða niður alla skuldir Vals og sem eiginfjárframlag inn í byggingu íþróttamannvirkja.
En hvernig gat félag stuðningsmanna Vals, sem hafði safnað undir 50 milljónum króna í hlutafé, greitt mörg hundruð milljónir króna fyrir byggingarétt? Það gat það með sama hætti og flestir aðrir sem létu hluti gerast á þessum árum gerðu það, með því að fá fjármunina að láni.
Frjálsi fjárfestingabankinn, sem síðar fór á hausinn, sá um að lána fjármunina.
Fyrirkomulagið var auðvitað áhættusamt og ljóst að Valsmenn, sem höfðu þarna skuldsett sig verulega, þurftu að hafa tekjur af því fljótlega ef ekki ætti illa að fara. Upphaflega stóð til að framkvæmdir myndu hefjast þá strax um haustið 2005 en í september það ár bað þáverandi skipulagsráð Reykjavíkur Valsmenn um að hinkra aðeins. Fyrir dyrum væri samkeppni um skipulag Vatnsmýri og vilji væri fyrir því að Hlíðarendasvæðið yrði hluti af því deiliskipulagi sem smíðað yrði í kjölfar hennar.
Valsmenn samþykktu að fresta framkvæmdum til allt að loka árs 2007 gegn því að fá aukin byggingarétt á Hlíðarendasvæðinu og gegn loforði Reykjavíkurborgar um að félagið yrði ekki fyrir frekari fjárhagslegum skaða vegna seinkunar á framkvæmdum og breytinga á skipulagi.
Samkomulagið gerði að lokum ráð fyrir sérstökum tafabótum, tíu milljónum króna á mánuði, ef tafir yrðu á lúkningu deiliskipulags og frágangi lóðarleigusamninga umfram 15. júlí 2007.
Pólitískur stólaleikur hindrar framgang
Á versta mögulega tíma fyrir Valsmenn varð hins vegar pólitískur glundroði í borgarstjórn Reykjavíkur næstu misserin. Eftir borgarstjórnarkosningarnar 2006 lauk tólf ára valdatíma R-listans og Sjálfstæðismenn tóku við ásamt Birni Inga Hrafnssyni, sem þá var stjórnmálamaður í Framsóknarflokknum. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson var gerður að borgarstjóra og sat sem slíkur í rúmt ár, eða fram í október 2007 þegar meirihlutinn sprakk vegna REI-málsins.
Við tók meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknar og Frjálslynda flokksins og óháðra með Dag B. Eggertsson sem borgarstjóra. Að 100 dögum liðnum ákvað Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi Frjálslynda flokksins og óháðra, að slíta þeim meirihluta og mynda nýjan með Sjálfstæðisflokki gegn því að verða sjálfur borgarstjóri. Sá meirihluti lifði í tæpa fimm mánuði þangað til að Óskar Bergsson, sem hafði tekið við borgarfulltrúasæti Björns Inga, myndaði nýjan meirihluta með Sjálfstæðisflokki og Hanna Birna Kristjánsdóttir varð borgarstjóri síðustu tæpu tvö ár kjörtímabilsins.
Allt þetta gerði Valsmönnum afar erfitt fyrir. Glundroðinn, og mismunandi afstaða hvers meirihluta fyrir sig gagnvart uppbyggingu í Vatnsmýri, gerði það að verkum að tafir urðu á endanlegu deiliskipulagi Hlíðarendasvæðis, sem leiddu til tafa á uppbyggingu íþróttaaðstöðu á Hlíðarenda og til þess að ekki var hægt að hefja framkvæmdir á lóðum Valsmanna hf. eins og ráðgert hafði verið.
Sumarið 2008 var staða Valsmanna hf. orðin nokkuð svört. Ekkert bólaði á deiliskipulagi og félagið gat ekki þjónustað skuldir sínar. Daginn áður en að Ólafur F. Magnússon var látinn hætta sem borgarstjóri, þann 20. ágúst 2008, gerði borgin nýjan samning við Vals og Valsmenn um að taka á sig allskyns kostnað vegna framkvæmda á Hlíðarendasvæðinu og greiða Valsmönnum hf. alls 120 miljónir króna í tveimur greiðslum.
Enn fremur var kveðið á um að breytingum á deiliskipulagi og útgáfu nýrra lóðarleigusamninga skyldi lokið eigi síðar en 31. október 2009. Fram til þess að lóðarleigusamningar hefðu verið gefnir út skyldi Reykjavíkurborg greiða tafabætur og Valsmenn hf. skyldu endurgreiða Reykjavíkurborg yfirteknar og útlagðar fjárhæðir í tveimur greiðslum, sex og tólf mánuðum eftir útgáfu lóðarleigusamninga.
Svo kom hrun.
Þriðji kafli: Hrunið og neyðarbrautin
Þegar ósköpin dundu yfir íslenska þjóð haustið 2008 voru lán Valsmanna hf. við Frjálsa fjárfestingabankann í erlendum gjaldmiðlum. Til að bæta gráu ofan á svart enduðu leifarnar af Frjálsa fjárfestingabankanum inni í hinum alræmda Dróma, sem gerði þær upp ásamt eftirstandandi búi SPRON. Drómi hafði orð á sér fyrir að vera það slitabú sem erfiðast var í öllum viðræðum. Fyrir því fengu Valsmenn að finna.
Í árslok 2009 voru skuldir Valsmanna hf. samkvæmt ársreikningi bókfærðar á 2,9 milljarða króna. Ekkert bólaði á framkvæmdum á Hlíðarendasvæðinu sem áttu að notast til að greiða þessar skuldir og síðan að styrkja rekstur Vals.
Það sem hélt lífi í félaginu var að Reykjavíkurborg greiddi tafarbætur. Í lok árs 2010 hafði borgin alls greitt 470 milljónir króna til Valsmanna en tók þá einhliða ákvörðun um að borga ekki meira. Á þeim tíma tók enda nýtt deiliskipulag gildi í borginni sem náði yfir byggingarsvæði Valsmanna. Deilur félagsins við Dróma gerðu það hin vegar að verkum að ekki var hægt að gefa út lóðaleigusamninga.
Þessi pattstaða stóð meira og minna fram á árið 2013. Þá náðist, með aðkomu nokkurra lykilmanna úr hluthafahópi Valsmanna hf., að fá ríkisbankann Landsbankann til að lána félaginu samtals 1.125 milljónir króna til að gera lokauppgjör við Dróma. Samhliða var veði lyft af lóðum á Hlíðarendasvæðinu og hægt var að gefa út lóðaleigusamninga.
Það sumar var svo samið við Reykjavíkurborg um lokagreiðslu vegna samkomulagsins sem gert var 2005 upp á 385 milljónir króna í fjórum jöfnum greiðslum samhliða útgáfu byggingaleyfis á hverri af fjórum byggingarlóðum félags. Borgin féll frá verðbótum sem safnast höfðu upp og Valsmenn féllu frá frekari kröfum um tafarbætur með dráttarvöxtum.
Valsmenn héldu að þeir væru komnir á græna grein. Þeir hófust handa við að skipuleggja uppbyggingu Hlíðarendasvæðisins og væntu þess að nýtt deiliskipulag sem heimilaði þá uppbyggingu myndi falla til þá og þegar. Um 600 íbúða uppbygging var í pípunum auk atvinnuhúsnæðis.
Þá birtist enn ein hindrunin: Hjartað í Vatnsmýrinni og aðrir vinir Reykjavíkurflugvallar.
Hjartað í Vatnsmýrinni
Til þess að framkvæmdirnar gætu hafist þurfti að loka flugbraut 06/24 á Reykjavíkurflugvelli, sem heitir einnig norðaustur suðvestur-braut og hefur á liðnum árum iðulega verið nefnd neyðarbraut í opinberri umræðu.
Fyrirhugað hafði verið árum saman að loka brautinni.
Árið 2005 undirrituðu þáverandi borgarstjóri Steinunn Valdís Óskarsdóttir og þáverandi samgönguráðherra Sturla Böðvarsson samkomulag um samgöngumiðstöð sem rísa skyldi í Vatnsmýrinni. Hún átti að rísa þar sem braut 06/24 er. Árið 2009 undirrituðu Kristján L. Möller, þáverandi samgönguráðherra, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi borgarstjóri, samkomulag um að brautin ætti að loka, en þó var sá fyrirvari á því samkomulagi að það myndi rísa samgöngumiðstöð við enda brautar 06/24.
Í október 2013 undirritaði Hanna Birna, þá innanríkisráðherra, og Jón Gnarr, þáverandi borgarstjóri, samþykkt um að ljúka vinnu við endurskoðun á deiliskipulagi fyrir Reykjavíkurflugvöll. Þegar því yrði lokið átti að tilkynna um lokun brautarinnar. Í desember 2013 óskaði innanríkisráðuneytið eftir því að undirbúningur yrði hafin að lokun flugbrautarinnar.
Árið 2015 var neyðarbrautin hins vegar enn opin. Þótt jarðvinna hefði getað hafist á Hlíðarendasvæðinu neitaði Samgöngustofa verktökum að koma fyrir byggingarkrönum á svæðinu og því var ekki hægt að hefja uppbyggingu. Eina íbúðabyggingin sem var risin var blokk sem Valsmenn byggðu sjálfir og eiga enn að stórum hluta.
Ljóst var að átök voru milli ríkis og borgar um málið og samtökin Hjartað í Vatnsmýrinni, sem börðust gegn því að Reykjavíkurflugvöllur verði fluttur börðust með mikilli hörku gegn því að framkvæmdir Valsmanna yrðu að veruleika. Umræðan fór fram á miklum tilfinninganótum og því meðal annars haldið fram að lífum yrði ógnað ef hin svokallaða neyðarbraut myndi verða aflögð. Samtökin vildu að Alþingi myndi taka skipulagsvaldið af borgaryfirvöldum, sem þau sögðu að færu gegn vilja meirihluta þjóðarinnar sem vildi hafa flugvöll áfram í Vatnsmýrinni, og koma í veg fyrir óafturkræfar framkvæmdir Valsmanna. Þau söfnuðu meðal annars tæplega 70 þúsund undirskriftum þeirra sem kröfðust þess að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni.
Flugbrautin notuð sem víglína
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði í fréttum Stöðvar 2 í nóvember 2015 að ríkið væri ekki að standa við sinn hluta samnings varðandi Rekyjavíkurflugvöll og skipulag í Vatnsmýrinni. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, hafði nokkru áður sagt í ræðu á flokksþingi Framsóknar að öllum ætti að vera það „ljóst að grípa þarf til varna fyrir Reykjavíkurflugvöll og koma í veg fyrir að borgaryfirvöld grafi stöðugt undan flugvellinum og beiti brögðum til að losna við hann.“
Brynjar Harðarson, framkvæmdastjóri Valsmanna, hélt erindi á opnum fundi um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis síðla árs 2015. Þar var hann harðorður um stöðuna sem var uppi. „Þessi flugbraut er notuð sem víglína í deilu um tilvist Reykjavíkurflugvallar. Rangtúlkanir um mikilvægi hennar, hvort sem er fyrir völlinn í heild sinni, sjúkraflug eða rangnefni eins og að kalla brautina neyðarbraut hefur verið endurtekið efni í fjölmiðlum landsmanna.
Þessar deilur stefna nú upphafi byggingaframkvæmda á Hlíðarendareit í óvissu með tilheyrandi skaða fyrir fjölda aðila. Staðreyndin er sú að Hlíðarendareitur getur og mun byggjast upp í sátt við Reykjavíkurflugvöll. Það er ennþá tími til að snúa málinu á rétta braut og forða málaferlum með tilheyrandi fjáhagsskaða fyrir lóðareigendur, verktaka, fjölda hönnuða og Reykjavíkurborg. En ekki síst fyrir ungt fólk á höfuðborgarsvæðinu sem fær ekki rúmlega 400 litlar íbúðir inn á íbúðamarkaðinn verði þessi deila ekki leyst. Og loks fyrir ríkissjóð því það er hann sem mun þurfa að bera skaðabótaábyrgðina af því að hafa skorast undan því að standa við undirritaða samninga.“
Dómstólar útkljá málið
Það var í höndum innanríkisráðherra að taka ákvörðun um að loka hinni svokölluðu neyðarbraut samkvæmt bindandi loforði um slíkt sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra, og Jón Gnarr, þáverandi borgarstjóri, undirrituðu 25. október 2013.
Hanna Birna tók hins vegar ekki þá ákvörðun á meðan að hún sat í ráðherrastólnum og eftir að hún sagði af sér vegna Lekamálsins ákvað Reykjavíkurborg, með stuðningi Valsmanna, að stefna ríkinu til að láta það efna samkomulagið.
Héraðsdómur dæmdi í málinu í mars 2016 og komst að þeirri niðurstöðu að loka ætti neyðarbrautinni. Hæstiréttur Íslands staðfesti þann dóm í júní sama ár og flugbrautinni var lokað nokkrum vikum síðar.
Valsmenn gátu lokst hafist handa við að selja byggingarétti á Hlíðarendalandinu og framkvæmdir við að byggja allt að 700 íbúðir á reitum í hinu nýja hverfi. Fyrstu íbúðirnar fóru í sölu fyrir um ári síðan og hverfið er hratt að taka á sig mynd. Það verður ekki aftur snúið með uppbyggingu þess úr þessu.
Fjórði kafli: Borgarastríð í Val
Þegar Valsmenn hf. urðu til var samkomulag milli þeirra stuðningsmanna félagsins sem stóðu að framkvæmdinni og lögðu til hlutafé að þeim peningum sem félagið myndi eignast yrði aldrei eytt. Þ.e. að það yrði aldrei gengið á höfuðstólinn þótt hann myndi vaxa, heldur ætti að ávaxta hann og nota ávinninginn af því til að styrkja starfsemi Vals. Enginn einstaklingur átti að græða á þessu, heldur einungis Knattspyrnufélagið Valur.
Síðla árs 2013 var stofnuð sjálfseignarstofnun, Hlíðarendi ses, af Knattspyrnufélaginu Val. Markmið hennar var að halda utan um, byggja upp, varðveita og viðhalda þeim eignum og réttindum sem orðið höfðu til í stóra Vals-menginu árin á undan í þágu vaxtar og viðgangs Knattspyrnufélagsins Vals.
Hugmyndin var semsagt að koma eignarhaldi á öllum mannvirkjum Vals og þeim eignum, bæði óbyggðum reitum og fjármunum, sem safnast höfðu saman í Valsmönnum inn í sjálfseignarstofnunina, og út úr hlutafélagafyrirkomulaginu. Þá gæti enginn reynt, nokkru sinni, að ráðstafa þessu fé með öðrum hætti en til Vals.
Það dróst hins vegar árum saman að færa eignirnar yfir í Hlíðarenda ses og það var ekki fyrr en á árinu 2017 sem raunverulegur skriður komst á málið. Þá var gert þríhliða samkomulag milli stofnunarinar, Valsmanna hf. og Knattspyrnufélagsins Vals.
Í maí 2018 var samið um endanlegt uppgjör skuldarinnar við Valsmenn hf. með yfirtöku Hlíðarenda ses á hluta af eignum Valsmanna hf.
Sumir Valsmenn vildu fá arðinn til sín
Í millitíðinni hafði hins vegar mikið gengið á. Til að sýna fordæmi þá seldi hópurinn sem hafði sett milljón krónur hver inn í Valsmenn um aldarmótin sína hluti í Valsmönnum inn í Hlíðarenda ses. Það var gert á genginu 5, en það gengi var ákveðið þannig að verðgildi þeirra fjármuna sem greiddir höfðu verið inn um aldarmótin myndi halda sér. Þ.e. raunvirði peninganna sem menn fengu greitt til baka var það sama og þeir settu inn.
Langflestir hluthafar Valsmanna tóku þessari leið vel og seldu Hlíðarenda ses. hluti sína á þessum forsendum. Sjö hluthafar reyndust hins vegar vera á móti þessari ráðstöfum og vildu fá mun hærra gengi, eða 15. Til að setja þá upphæð í samhengi þá hefði allir hópurinn sem greiddi inn 43 milljónir króna til Valsmanna í byrjun samtals fengið um 650 milljónir króna ef það gengi hefði verið samþykkt. Sá sem lagði til eina milljón króna hefði fengið 15 milljónir króna útgreiddar. Í forsvari fyrir hópnum voru Stefán B. Gunnarsson, fyrrverandi handboltamaður í Val, og endurskoðandinn Guðmundur Þ. Frímannsson.
Þessi hópur hafði enn fremur samband við fleiri hlutahafa og fékk þá til liðs við sig. Saman gerðu þeir hluthafasamkomulag sem gat stillt stjórn og stjórnendum Valsmanna upp við vegg. Hörð og tilfinningarík átök urðu í kjölfarið.
Á endanum ákváðu „kjölfestufjárfestarnir“ í Valsmönnum, sem þegar höfðu selt sinn hlut inn í sjálfseignarstofnunina án ágóða að höggva á þennan hnút og kaupa mennina sem vildu hærra verð út.
Valshjartað stofnað
Þann 18. september 2017 var haldin stofnfundur nýs hlutafélags sem fékk nafnið Valshjartað hf. Alls lögðu 39 manns í púkkið og söfnuðu alls 45,5 milljónum króna. Þar á meðal voru Grímur Sæmundsen, Helgi Magnússon, Ólafur Gústafsson, Brynjar Harðarson, Karl Axelsson, Friðrik Sophusson, Halldór Einarsson (Henson), Jakob Sigurðsson, Þorgrímur Þráinsson og félag sem Dagur Sigurðsson á ásamt bræðrum sínum og foreldrum.
Valshjartað tók auk þess lán og keypti á endanum út óánægjuhópinn á um 100 milljónir króna.
Hópur Valsmanna hafði þannig fengið að hagnast verulega á viðskiptum sem áttu upphaflega einungis að vera til þess fallin að styðja við Val. Og hópur annarra Valsmanna hafði tekið á sig þá fjárhagslegu byrði að stofna félag fyrir eigið fé og skuldsetja það, til að losna við hina óánægju. Mikil beiskja er til staðar vegna þessa.
Fimmti kafli: Velgengni og velmegun
Staðan í dag er því þannig að þrátt fyrir miklar áskoranir og erfiðleika hefur stofnun Valsmanna hf., og þær ákvarðanir félagsins að ráðast í fasteignaviðskipti á Hlíðarenda, skilað því að Knattspyrnufélagið Valur er langríkasta íþróttafélag á Íslandi.
Upphæðirnar sem runnið hafa inn til Knattspyrnufélagsins Vals frá styrktarfélögum á undanförnum árum hlaupa á hundruð milljónum króna alls og hafa gert Valsmönnum kleift að vera annað hvort bestir eða á meðal þeirra bestu í öllum helstu hópíþróttum beggja kynja hérlendis: knattspyrnu, handbolta og körfubolta.
Hægt hefur verið að semja við eftirsótta leikmenn, borga þeim laun sem aðrir geta ekki keppt við og jafnvel boðið hluta þeirra að búa í einhverjum þeirra íbúða sem Valssamsteypan á enn á Valssvæðinu. Þetta er bæði gert með fjármunum sem runnið hafa til Vals vegna fjárfestinga á Hlíðarendasvæðinu en auk þess hafa sumir mjög fjársterkir stuðningsmenn tekið að sér að greiða kostnað við valda, og dýra leikmenn, úr eigin vasa.
Þá hefur Valur getað fjárfest í afreksstefnu sem er líklega sú metnaðarfyllsta á Íslandi, og dregur að leikmenn sem alist hafa upp í öðrum íþróttafélögum. Hæfir þjálfarar sækja í að vinna hjá Val vegna þess að aðstaðan hjá félaginu er einstök, æfingatíminn er boðlegri en víða annarsstaðar og Valur getur alltaf borgað laun á réttum tíma, sem er sannarlega ekki eitthvað sem er raunin hjá mörgum öðrum íþróttafélögum.
Stefna á að vera stórveldi í öllum hópíþróttum
Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og skýrasta birtingarmynd þess er karlalið félagsins í knattspyrnu sem hefur unnið fjóra titla á fjórum árum, þar á meðal Íslandsmeistaratitillinn síðustu tvö ár. Þótt hökt hafi verið á gengi liðsins í fyrstu umferðunum í ár blasir við að leikmannahópurinn sem var settur saman er þess eðlis að stefnt var að árangri í Evrópukeppni, auk sigurs í öllum innlendum keppnum. Jafn augljóst er á kvennaliði Vals í knattspyrnu, sem er þéttskipað risanöfnum, að það stefnir á að vinna allt sem um er keppt í sumar.
Karla- og kvennalið Vals hafa landað stórum titlum, bæði Íslands- og bikarmeistaratitlum, á undanförnum árum og í ár varð kvennalið Vals Íslands-, Bikar- og Deildarmeistari í körfubolta með Helenu Sverrisdóttur, bestu körfuboltakonu landsins, í fararbroddi. Karlalið Vals í körfubolta hélt sæti sínu í efstu deild og viðmælendur Kjarnans sem þekkja vel til í körfuboltaheiminum búast við að liðið styrki sig verulega fyrir næsta tímabil til að keppa ofar í deildinni.
Milljarðaeignir
Sjálfseignastofnunin Hlíðarendi, sem hefur tekið við hlutverki Valsmanna hf., á að geta stutt gríðarlega vel við bakið á félaginu í framtíðinni ef haldið er vel á spilunum. Stofnunin átti, samkvæmt ársreikningi, 68,5 prósent hlut í Valsmönnum og áðurnefnt Valshjarta 10,7 prósent hlut í því félagi í árslok 2017. Eignarhlutur Hlíðarenda ses hefur aukist síðan þá enda hafa fleiri útistandandi hluthafar Valsmanna selt sinn hlut. Það sem eftir stendur er að mestu minni hlutir, og virði hvers telst í tugum þúsunda. Mikil handavinna fylgir því að gera þá alla upp og ekki hefur verið lagt í hana. Eignir Hlíðarenda ses voru bókfærðar á 1,6 milljarð króna í árslok 2017 og eigið fé stofnunarinnar var 1,3 milljarður króna. Eignir Valsmanna hf. voru á sama tíma bókfærðar á 2,5 milljarða króna og eigið fé félagsins var þá samtals 722 milljónir króna. Þá eiga Valsmenn helmingshlut í hlutdeildarfélaginu Hlíðarfæti, en hinn helmingurinn var seldur til fjárfesta sem standa að félaginu F-reitur ehf. á árinu 2017. Eignir Hlíðarfóts voru metnar á 722 milljónir króna í árslok 2017 en félagið að fullu skuldsett á móti.
Valsmenn hafa selt byggingarétti, byggt á Hlíðarendasvæðinu, annað hvort sjálfir eða í samvinnu við aðra, hafa gert samninga við Reykjavíkurborg sem tryggt hafa ótrúlega uppbyggingu mannvirkja á svæði Vals og sitja enn á byggingarétti sem á eftir að selja.
Heimildarmenn Kjarnans segja að virði þeirra heildareigna sem sitji eftir vegna alls þessa ævintýris sé nú áætlað um fimm milljarðar króna. Á móti þeim eru þó einhverjar skuldir. Það er ágætis ávöxtun á þeim 43 milljónum króna sem greiddar voru inn í byrjun.
Um leið hafa Valsmenn líka skilað ýmsu til baka til samfélagsins. Félagið greiddi Reykjavíkurborg háar fjárhæðir fyrir byggingarréttinn á sínum tíma og hefur auk þess greitt um 400 milljónir króna í skatta á síðustu árum.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi