Fíknivandinn breiðir úr sér
Lítið hefur gengið að vinna gegn útbreiðslu fíkniefna. Það er óhætt að segja að það sé ekki íslenskt vandamál, því stríðið gegn fíkniefnum virðist með öllu óvinnandi. Á Íslandi hefur fjöldi ungs fólks fallið frá úr of stórum skammti á skömmum tíma. Fjölskyldur standa eftir örmagna af sorg. En hvað er til bragðs að taka? Hvernig er hægt að vinna gegn þessum vágesti í samfélagi okkar?
Stríð gegn fíkniefnum er pólitískt hugtak. Það varð fyrst til - í það minnsta í stjórnmálaumræðu í Bandaríkjunum - á tíma Richard Nixon, sem var forseti Bandaríkjanna frá 1968 til 1974, þegar hann sagði af sér eftir Watergate hneykslið. Stjórn hans lagði mikla áherslu á að fíkniefni væru samfélagslegt böl. Flestir geta tekið undir það, en hvar rót vandans liggur og hvernig á að takast á við hann, er síðan annað mál.
Á Íslandi eins og annars staðar er háð stríð gegn fíknivanda alla daga. Fjölskyldur standa eftir örmagna á sál og líkama. Ótímabær dauðsföll vegna of stórs skammts fíkniefna eru alþjóðlegt vandamál þessi misserin og hefur aukningin í Bandaríkjunum ekki síst vakið óhug.
Frá árinu 2012 hefur aukning dauðsfalla vegna of stórs skammts lyfja - bæði ópíóða og sterkra annarra efna - verið beinlínis sláandi. Í fyrra létust tæplega 80 þúsund manns úr of stórum skammti, en fyrir áratug var meðaltalið á ári í Bandaríkjunum innan við 15 þúsund dauðsföll. Verst er staðan á ákveðnum svæðum í miðríkjunum.
Faraldur
Á árunum 2013 til og með 2018 hafa tæplega 500 þúsund manns dáið úr of stórum skammti af fíkniefnum í Bandaríkjunum. Þessi tala er orðin svo ískyggilega há, að hún er farin að draga niður meðaltalslífstíma Bandaríkjamanna, en meðallífstími hefur lækkað undanfarin tvö ár.
Í Ohio hefur neyðarástandi verið lýst yfir vegna tíðra dauðsfalla og veikinda fíkla. Hertar lögregluaðgerðir gegn fíkniefnasölum virðast ekki vera að bera neinn árangur og þungir dómar og mikið eftirlit lögreglu, nær ekki að vinna gegn þessari ógnvænlegu þróun.
Borgir Bandaríkjanna hafa snúið bökum saman og reynt að miðla upplýsingum og samstilla forvarnar- og hjálparstarf, til að reyna að sporna gegn sláandi aukningu.
Meðal annars hefur neyðarskýlum verið komið upp þar sem fíklar geta fengið læknisaðstoð, en lögreglan fær að hafa aðgang að þeim skýlum, ekki síst til að reyna að koma hættulegustu efnunum úr umferð. Notkun á neyslumrýmum hefur færst í aukana, en það er ekki þannig ennþá að notkun á slíkum rýmum sé almenn. Notkun á slíkum rýmum hefur gefist vel í Seattle, þar sem fyrstu neyslurýmin voru opnuð meðal borga Bandaríkjanna.
Málsóknir
Um þessar mundir eru stjórnvöld í Bandaríkjunum að láta kné fylgja kviði þegar kemur að einum anga ópíóðavandans. Forstjórar og forsvarsmenn lyfjafyrirtækja eru nú til rannsóknar, og hafa sumir hverjir verið saksóttir. Þar á meðal er forstjóri Purdue Pharma sem framleiðir verkjalyfið OxyContin, en stór hluti þeirra sem hefur látið lífið úr of stórum skammti hefur sótt í það lyf.
Forstjórinn Craig Landau játaði það í vikunni, í viðtali við Washington Post, að Purdue Pharma væri nú alvarlega að íhuga að gefa fyrirtækið upp til skipta og hætta allri starfsemi. Ástæðan er meðal annars meira en þúsund málsóknir á hendur fyrirtækinu, frá borgum og sýslum Bandaríkjanna, sem hafa þurft að glíma við afleiðingar af faraldrinum. Landau sagði það ekki ljóst enn, hvernig fyrirtækið myndi koma út úr þeim málsóknum sem væru fram undan. En það segir sína sögu að þessi lyfjarisi í Bandaríkjunum sé að hugsa um að hætta allri starfsemi.
Í ofanálag bætast síðan málsóknir aðstandenda fíkla og látinna, en í mörgum tilvikum áttu þeir sem létust ekki mikla sögu af óreglu áður en fíknin heltók þau. Í sumum tilvikum er um að ræða verkjalyf sem eru meira en 50 sinnum sterkari en morfín og heróín. Eftir einn skammt er einfaldlega ekki aftur snúið.
Dreifing þessara sterku verkjalyfja er nú orðin að miklu alþjóðlegu vandamáli, þó mismunandi miklu eftir svæðum. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur sagt að leita þurfi leiða til að hjálpa fíklum að takast á við vandamál sín og hefur stofnunin talað fyrir því að lýðheilsa sé höfð í fyrirrúmi þegar stefna fyrir málaflokkinn er mótuð.
Stofnun Sameinuðu þjóðanna sem tekst á við skipulagða glæpastarfsemi, UNDOC, hefur ítrekað talað fyrir því að nálgun á vandann sé gjörbreytt. Minna fari fyrir hörku og þungum refsingum, og meira fyrir því að byggja upp heilbrigðisþjónustu til að hindra dauðsföll og koma veikum fíklum undir læknishendur.
Ákveðin vitundarvakning hefur átt sér stað undanfarin misseri á alþjóðavísu, ekki síst vegna hörmunganna í Bandaríkjunum.
Þar eru meira en tvær milljónir manna í fangelsum - hæsta hlutfall af íbúum meðal vestrænna þjóða - og meira en 60 prósent þeirra hafa gerst brotlegir við fíkniefnalöggjöfina. Þrátt fyrir allt þá verða vandamálin dýpri og illviðráðanlegri, ár frá ári, og hið svarta hagkerfi fíkniefna stækkar stöðugt. Ekki sést glitta í árangur af þeirri stefnu sem rekin hefur verið - undir pólitískum áhrifum frá Nixon forðum.
Hvernig er vandinn á Íslandi?
Þó Ísland sé lítið eyríki og búi að því að vera með landamæri sem eru auðveldari viðureignar en mörg önnur ríki - þar sem sjór umlykur landið - þá er vel hægt að halda því fram að vandi sem tengist fíkniefnum á Íslandi sé ógnvænlegur þessi misserin.
Tíð dauðsföll, ekki síst vegna of stórra skammta af verkjalyfjum og viðlíka efnum, hafa skilið eftir sig sár sem gróa aldrei í fjölmörgum fjölskyldum.
Í fyrra létust í það minnsta 29 ungir einstaklingar, undir fertugu, vegna of stórs skammts fíkniefna.
Þetta er hátt hlutfall, í alþjóðlegum samanburði og verulegt áhyggjuefni að sama mynstur sést og víða má nú greina í Bandaríkjunum, þó þar sé um djúpstæðari vanda að ræða.
Vandamálin geta hins vegar magnast upp og reynslan hefur sýnt að þrátt fyrir vel skipulagt starf lögreglu - og góðan vilja og lagaramma sem er ætlað að sporna gegn vanda sem tengjast fíkniefnum - þá tekst með engu móti að hindra að fíkniefni komist í umferð til þeirra sem eru háðir þeim, eða þeirra sem vilja neyta þeirra.
Tölur á blaði
Síðan segja tölur um haldlögð efni litla sögu. Nokkuð stöðugt hefur verið undanfarin hversu mikið magn lögregla og tollgæsla ná að leggja halda á. Þetta stendur ekki í samhengi við miklar breytingar sem orðið hafa á íslensku samfélagi á undanförnum árum.
Á sama tíma og ferðamönnum fjölgaði fimmfalt, úr 450 þúsund í 2,3 milljónir árlega, og mikill þróttur var í efnahagslífinu, þá var ekki lagt hald á mun meira af efnum.
Til þess að sporna við fíkniefnavanda, ekki síst hjá ungum fíklum, hafa stjórnvöld heitið meiri heilbrigðisþjónustu fyrir fíkla, meðal annars með áherslu á að opna heilbrigðiskerfið meira fyrir fíklum, reyna að ná til þeirra með læknisþjónustu, áður en það verður of seint.
Þetta er raunar sami boðskapur og SÁÁ hefur talað fyrir um árabil, en oft hefur verið togstreita milli SÁÁ og stjórnvalda, ekki síst þegar kemur að fjárveitingum til meðferðarstarfs.
Í fyrra fjölgaði innlögnum á Vogi en þær voru 2.275 samtals. Það gerir á bilinu 6 til 7 á degi hverjum. Á árinu 2017 voru innlagnirnar 2.219. Í upplýsingum sem SÁÁ hefur sent frá sér, meðal annars greinargerð um starfsemina, má glögglega sjá að engin merki sjást um það að vandamál vegna fíknivanda í samfélaginu séu að minnka.
Þvert á móti eru flestar tölur á þann veg, að vandinn hefur frekar aukist og hin ógnvænlega þróun vegna ópíóðafíknar og aukinnar neyslu á sterkum verkjalyfum - sem hefur drepið meira en tuttugu ungmenni á innan við ári - bendir til þess að þörf sé á mun umfangsmeiri aðgerðum heldur en nú hefur verið gripið til.
Þar helst er að efla heilbrigðisþjónustu við fíknisjúka. Reynslan af læknismeðferðum og lyfjagjöf við fíknivanda -, er á heildina litið góð, þó oft séu brotalamir og erfiðleikar hjá sjúklingum við að ná bata.
Í greinargerð SÁÁ um starfsemina er sérstaklega vikið að þessu, og þá meðal annars göngudeildum, sem hafa verið hluti af starfseminni síðan 1978. Einhverra hluta vegna hefur sá hluti meðferðarvinnunnar með sjúklingum, sem er lykilatriði í bataferli sjúklinga, ekki verið fjármagnaður af hinu opinbera. Þess vegna lendir hann undir niðurskurðarhníf, þegar forgangsraða þarf of fáum krónum og aurum, líkt og gerðist á Akureyri á dögum, þegar göngudeild var aflögð.
130 einstaklingar eru á viðhaldsmeðferð
Eitt af því sem hefur reynst vel á Íslandi, við ópíóðafaraldrinum, er gagnreynd lyfjameðferð við alvarlegri ópíóíðafíkn. Það er tímafrek meðferð undir eftirliti lækna. Um 130 einstaklingar eru í því sem kallað er viðhaldsmeðferð, sem hefst á Vogi, en lýkur á göngudeild.
Hún fækkar dauðsföllum, minnkar skaða og leiðir til bata vegna alvarlegrar fíknar í sterk verkjalyf.
Flestir sjúklinga hafa sprautað lyfjunum í æð og/eða haft alvarlegar afleiðingar af lyfjaneyslunni. Lyfin sem notuð eru til viðhaldsmeðferðar eru mixt methadone og t. buprenorphine/naloxone, að því er kemur fram hjá SÁÁ.
Náin eftirfylgd er með lyfjatöku og vímuefnaneyslu.
Tekin er ákvörðun um þvagprufur, aðlögun að skammti eða niðurtröppun í reglulegum viðtölum við lækni, og því má segja að um samvinnuverkefni sjúklings og læknis sé að ræða.
Nákvæm talning og skrá er yfir hverja töflu sem afhent er og mikil vinna vegna eftirritunarskyldu frá Lyfjastofnun og upplýsinga til Sjúkratrygginga Íslands sem greiða lyfin.
Ráðgjafar og hjúkrunarfólk taka sýnin eftir ákveðnum fyrirmyndum, hjúkrunarvakt vinnur rannsóknina og les svörin, ritarar skrá niðurstöður í sjúkraskrá, læknar bregðast við niðurstöðum og ræða við einstaklinginn eftir því sem við á.
Læknismeðferð og eftirfylgd Inngrip er alla daga ef bregðast þarf við frávikum, falli í neyslu, veikindum o.fl., oftast í viðtölum á göngudeild Vogs.
Fyrir suma er meðferðin eingöngu skaðaminnkandi, t.d. hjá fólki í sífelldri hættulegri neyslu eða með vitræna skerðingu. Undirbúin viðtöl við lækna eru á þriðjudögum, önnur viðtöl eru bókuð á lækna eftir atvikum. Lyfseðlar fara rafrænt í lyfjagátt en leyst úr þeim eingöngu á hjúkrunarvakt Vogs, lyfjaafhendingar og samtöl þar eru yfir 7000 á ári. Flett er upp í lyfjagagnagrunni landlæknis varðandi önnur lyf einstaklingsins, en almennt eru ekki gefin ávanabindandi lyf með viðhaldsmeðferð.
Einstaklingur á viðhaldsmeðferð er í upphafi í annarri meðferð við fíknisjúkdómnum hjá SÁÁ og einnig á stundum hjá LSH en góð samvinna er á milli sjúkrahúsanna um þessa sérhæfðu meðferð. Hluti karlmannanna hefja batann á meðferðarheimilinu Vin, samvinnuverkefni sem rekið er af SÁÁ. Þeir eru gjarnan þar í allt að átján mánuði og fá mikla meðferð á göngudeild Vogs samhliða.
Áhrifin af neyslu hjá sjúklingi sem er á þessum stað, eru langvinn og stundum varanleg. En með mikilli eftirfylgni og nákvæmri vinnu lækna og heilbrigðisstarfsfólks, með sjúklingnum, þá er ljós við enda ganganna og því betur mörg dæmi um að fíklar nái bata og haldi áfram með lífið, þrátt fyrir að sorgarsögurnar séu einnig margar.
Langhlaup
Í ítarlegri skýrslu UNODC, stofnunar Sameinuðu þjóðanna sem vinnur gegn skipulagðri glæpastarfsemi, er fjallað um fíkniefnamarkaðinn. Í skýrslunni er byggt á frumgögnum frá lögregluembættum aðildarríkja, og einnig öðrum stofnunum sem búa yfir upplýsingum um fíkniefnamarkaðinn í hverju landi.
Í upphafi skýrslunni, fyrir árið 2017, segir að talið sé að um 250 milljónir manna - og um 5 prósent af öllum fullorðnum í heiminum - hafi neytt fíkniefna í það minnsta einu sinni á ári. Það sem veldur síðan miklum áhyggjum, að mati UNODC, er að meira en 30 milljónir manna glíma við mikinn vanda vegna neyslu fíkniefna. Þessi hópur er að stækka og umfang fíkniefnaviðskipta - bæði svonefndra náttúrulega efna (kannabis, kókaín), verksmiðjuframleiddra (amfetamín, LSD, osvfrv.) og síðan verkjalyfja - vex stöðugt.
Yuri Fedotov, framkvæmdastjóri UNODC og ritstjóri World Drug Report, segir í inngangi skýrslunnar að árlega sé áætlað að um 190 þúsund manns deyi vegna ópíóða og of stórs skammts. Hann ítrekar að miklu meira þurfi að gera til aðstoða fíkla og þar verði heilbrigðisstarfsfólk að vera í framvarðarsveitinni. Það sé fólkið sem geti tekið á vandamálunum, fremur en nokkur annar. Þá segir hann einnig að það sem mestu skipti sé að virða það, að um langhlaup sé að ræða sem krefjist alþjóðlegrar samvinnu og heilinda.
Mannúð og sérfræðiaðstoð Frú Ragnheiðar
Frú Ragnheiður er verkefni sem rekið er af Rauða Krossinum og byggir á skaðaminnkandi nálgun á vandamálum þeirra sem þangað leita. Reynslan til þessa er talin vera afar góð.
Verkefni er starfrækt með því að bílnum Frú Ragnheiði er ekið á milli ákveðinna staða þar sem hann stoppar um stund á hverjum stað.Í bílnum er jaðarhópum, svo sem útigangsfólki og fíklum, boðið upp á almenna heilsuvernd og ráðgjöf, án þess að einstaklingurinn sé dæmdur fyrir lífsstíl sinn.Útgangspunkturinn er hin svonefnda skaðaminnkun, sem gengur út á að aðstoða fólk frekar en að dæma það eða koma því í fangelsi, jafnvel þó það sé augljóslega í neyslu fíkniefna.
Með því að nálgast fólkið með mannúðlegum hætti, er hægt að draga úr skaðsemi lifnaðarhátta jaðarhópa sem sækja í Frú Ragnheiði, t.d. sýkingum í sárum og útbreiðslu lifrarbólgu C og HIV, með því að auðvelda þeim aðgengi að sárameðferð, hreinum nálum og sprautum og almennri fræðslu um skaðaminnkun. Með einföldum úrræðum er hægt að draga verulega úr skaðsemi lifnaðarhátta og draga úr þörf á dýrari úrræðum seinna meir í heilbrigðiskerfinu.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Hvernig má nýta helming mannauðs með skilvirkari hætti?
-
9. janúar 2023Möguleg ljós- og lyktmengun af nýju landeldi við Þorlákshöfn þurfi nánari skoðun
-
8. janúar 2023Búast við lýðheilsulegum ávinningi af Borgarlínu
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
7. janúar 2023Blessað barnalán
-
6. janúar 2023Vin – Faglegt hugsjónastarf
-
6. janúar 2023Þriðjungur kostnaðar til kominn vegna þjónustu við fatlað fólk með vímuefnavanda
-
5. janúar 2023Íslendingar vilja að læknar veiti dánaraðstoð
-
4. janúar 20232022: Ár raunsæis
-
4. janúar 2023Ekki færri ungmenni í foreldrahúsum frá upphafi mælinga