Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands og fyrrverandi formaður Gagnsæis, telur það vera mjög misjafnt hvort viðurlög séu nauðsynleg eða möguleg þegar siðareglur eru brotnar. Þetta segir hann í samtali við Kjarnann.
Mikil umræða hefur skapast í samfélaginu og hjá þingmönnum um siðareglur og siðanefndir eftir úrskurði siðanefndar Alþingis í sumar en til stendur að endurskoða ferlið í heild sinni í haust.
Skoðun Jón er sú að betra sé að almennar siðareglur séu ekki hugsaðar þannig að þeim fylgi einhver sérstök viðurlög. Sé nauðsynlegt að setja reglur sem hafa viðurlög þá sé betra að hafa þær mjög skýrar og aðskildar frá almennum siðareglum.
Stjórnsýslan hefur ekki siðanefnd
Jón segir að tilgangur siðanefnda sé oft sá að hafa nefnd sem er fengið það hlutverk að úrskurða um hvort siðareglur hafi í einstökum tilfellum verið brotnar.
„Því fer hins vegar fjarri að siðanefndir séu alltaf skipaðar þegar settar eru siðareglur. Stjórnsýslan hefur til dæmis ekki neina siðanefnd. Umboðsmaður Alþingis lítur meðal annars til siðareglna þegar hann fjallar um mál í stjórnsýslunni en hvorki hann né nokkur annar aðili fellir beina úrskurði um hvort siðareglur hafi verið brotnar í einstökum tilfellum.“
Siðareglur eiga að vera leiðbeinandi
Jón telur að siðareglur hafi tvíþættan tilgang. „Í fyrsta lagi eiga þær að vera leiðbeinandi fyrir fólk um rétt viðbrögð við aðstæðum og álitamálum sem koma upp og í öðru lagi eiga þær að bæta og skýra mælikvarða um rétta og eðlilega hegðun og framkomu á vinnustað, innan fagsviðs eða hóps o.s.frv.,“ segir hann.
Þess vegna sé mikilvægt að sem flestir komi að bæði upphaflegri gerð siðareglna og endurskoðun þeirra sem þurfi að gerast reglulega. Þriðji tilgangurinn, að hafa skýrar reglur sem hægt er að úrskurða eftir er að hans mati oftast síður mikilvægur.
Siðareglur vandasamar í viðkvæmum málum
Jón telur að siðareglur geti verið mjög vandasamar í viðkvæmum málum, eins og Klausturmálinu, ef hugsunin á bak við þær sé sú að aðalmálið sé að fá einhverskonar óháðan úrskurð um brot þegar kært er eða bent á þær kunni að hafa verið brotnar.
„Í Klausturmálinu höguðu nokkrir þingmenn sér þannig að það var til háborinnar skammar og hneykslaði almenning. Enginn ágreiningur var um að slík hegðun væri siðferðilega ámælisverð. Þegar siðanefnd úrskurðar svo mörgum mánuðum síðar að sumir í hópnum teljist alls ekki hafa brotið siðareglur þingsins lítur það óhjákvæmilega þannig úr í augum margra að þar með hafi það sem þeir gerðu – eða létu ógert – ekki verið siðferðilega ámælisvert. Hér má efast um gildi úrskurðarins og almennt um notkun á siðareglum sem felur í sér þrönga, jafnvel lagatæknilega túlkun þeirra,“ segir hann.
Smuguhugsunarháttur fullkomlega andstæður hugsuninni á bak við siðareglur
Jón álítur að þessi tvö umdeildu mál – þeirra Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, og þingmannanna á Klaustur bar – ættu að vekja fólk til umhugsunar um hvort úrskurðarnefndir séu besta leiðin til að beita siðareglum. „Ég sé frekar fyrir mér að slík siðanefnd hafi leiðbeiningar- og ráðgjafarhlutverk. Siðareglurnar sjálfar ættu að vera reglulegt umræðuefni Alþingis frekar en að spurningin sé alltaf sú að koma eigi í veg fyrir að fólk brjóti þær.“
Hann segir að í heimi þröngrar siðareglutúlkunar sé alltaf hægt að koma andstyggilegri hegðun og framkomu við aðra fyrir þannig að formlega séu engar siðareglur brotnar. En slíkur smuguhugsunarháttur – þar sem leitað er að smugum framhjá reglum – sé fullkomlega andstæður hugsuninni á bak við siðareglur. Hugsunin sé fyrst og fremst sú að gera fólk meðvitaðra um siðferðilegar hliðar hegðunar, framkomu og breytni og auka áhugann á sameiginlegum siðferðilegum mælikvörðum.
Hægt er að lesa ítarlega fréttaskýringu Kjarnans um siðareglur hér.