Mynd: Úr safni

Ekki hlutverk Seðlabankans að útdeila réttlæti í samfélaginu

Seðlabankinn telur að fjárfestingarleiðin hafi verið réttlætanleg aðgerð vegna þess að hún vann á aflandskrónuvandanum, Þau neikvæðu áhrif sem hún hafði á tekju- og eignaskiptingu og á getu auðmanna til að koma fé úr aflandsfélögunum í vinnu á Íslandi vegi minna á vogarskálunum. Seðlabankinn hefur birt skýrslu um fjárfestingarleiðina.

Seðla­banki Íslands telur að fjár­fest­ing­ar­leiðin og rík­is­bréfa­leiðin sem hann stóð fyrir á árunum 2011 til 2015 til að vinna á þeim aflandskrónu­vand­anum og stuðla að afnámi hafta, hafi þjónað til­gangi sín­um. 

Gjald­eyr­is­út­boðin sem leið­irnar fólu í sér hefðu beinst að vanda sem ekki hafi verið auð­veld­lega leystur með öðrum hætti nema á mjög löngum tíma. Aðgerð­unum hafi vissu­lega fylgt „ýmis nei­kvæð hlið­ar­á­hrif, eins og algengt er um aðgerðir af þessu tagi en þau jákvæðu áhrif sem að var stefnt með aðgerð­unum vega þó þyngra á vog­ar­skál­un­um.“

Þetta kemur fram í skýrslu sem Seðla­bank­inn birti síð­degis í dag um þátt gjald­eyr­is­út­boða í lausn greiðslu­jafn­að­ar­vand­ans sem Íslands stóð frammi fyrir eftir hrun síð­deg­is. 

Þar segir enn fremur að rétt sé „að halda því til haga að það voru ekki ein­göngu umdeildir auð­menn sem voru í þeirri stöðu að eiga óskila­skyldan gjald­eyri. Tölu­verður fjöldi Íslend­inga sem áttu fast­eignir erlendis vegna búsetu seldu fast­eignir í tengslum við búferla­flutn­inga til Íslands og tóku þátt í fjár­fest­ing­ar­leið­inni. “

Íslend­ingar fluttu inn tugi millj­arða og fengu virð­is­aukn­ingu

Í skýrsl­unni er fjallað um hluta þeirrar gagn­rýni sem fjár­fest­ing­ar­leiðin hefur fengið á und­an­förnum árum, en leiðin bauð völdum hópi upp á glugga í gegnum fjár­magns­hafta­vegg­inn sem umlukti íslenskt efna­hags­líf á þessum árum.

Alls fóru fram 21 útboð eftir fjár­­­­­­­­­fest­ing­­­­ar­­­­­leið­inni frá því í febr­­­­­úar 2012 til febr­­­­­úar 2015, þegar síð­­­­­asta útboðið fór fram. Allt í allt komu um 1.100 millj­­­­­ónir evra til lands­ins á grund­velli útboða fjár­­­­­­­­­fest­ing­­­­­ar­­­­­leið­­­­­ar­inn­­­­­ar, sem sam­svar­aði 206 millj­­­örðum króna. Leiðin stóð upp­haf­lega ein­ungis þeim til boða sem áttu 50 þús­und evrur í lausu fé utan Íslands. Þau mörk voru síðar lækkuð í 25 þús­und evr­ur. Því var það afmark­aður hópur fólks sem hafði aðgang að tölu­verðu lausu fé sem gat nýtt sér leið­ina. 

794 inn­­­­­­­­­lendir aðilar komu með pen­inga inn í íslenskt hag­­­­­kerfi í gegnum útboð fjár­­­­­­­­­fest­ing­­­­­ar­­­­­leiðar Seðla­­­­­banka Íslands. Pen­ingar þeirra námu 35 pró­­­­­sent þeirrar fjár­­­­­hæðar sem alls komu inn í landið með þess­­­­­ari leið, en hún tryggði allt að 20 pró­­­­­sent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir pen­ing­anna á Íslandi. Alls fengu þessir aðilar 72 millj­­­­­arða króna fyrir þann gjald­eyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur sam­­­­­kvæmt skil­­­­­málum útboða fjár­­­­­­­­­fest­ing­­­­­ar­­­­­leið­­­­­ar­inn­­­­­ar.

Afslátt­­­­ur­inn, eða virð­is­aukn­ing­in, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjald­eyr­inum á skráðu gengi Seðla­­­­­bank­ans er um 17 millj­­­­­arðar króna.

Hluti fjár­mun­anna komu frá aflands­svæðum og sumir þeirra ein­stak­linga sem nýttu sér leið­ina voru aðilar sem annað hvort voru til rann­sóknar vegna efna­hags­glæpa á þeim tíma eða stóðu í umfangs­miklu upp­gjöri við kröfu­hafa sína sem töldu sig ekki hafa vit­neskju um eignir þeirra erlend­is. 

Kjarn­inn hefur ítrekað óskað eftir upp­lýs­ingum um hvaða ein­stak­lingar það eru sem fengu að nýta sér fjár­fest­ing­ar­leið­ina en Seðla­bank­inn hefur borið fyrir sig trúnað og neitað að veita þær upp­lýs­ing­ar. 

Óæski­leg hlið­ar­á­hrif

Í skýrslu Seðla­bank­ans er við­ur­kennt að flestar efna­hags­legar ráð­staf­anir sem gripið sé til hafi ein­hver óæski­leg hlið­ar­á­hrif. Lík­legt sé að það eigi einnig við um fjár­fest­ing­ar­leið­ina. 

Í skýrsl­unni er síðan talið upp að í útboðum leið­ar­innar hafi falist hvati til þess að flýta ákvörð­unum um fjár­fest­ingu í því skyni að nýta rétt til að kaupa krónur með afslætti. „Í ein­hverjum til­vikum kann það að hafa leitt til þess ákvörðun um fjár­fest­ingu varð ekki eins vönduð og ella hefði orðið og það skapað rekstr­ar­vanda síð­ar.“

Þá segir að fjár­fest­ing­ar­leiðin hafi sett aðila sem áttu óskila­skyldan erlendan gjald­eyri í betri stöðu til að kaupa kaupa inn­lendar eignir á lágu verði og gengi. „Áhrif þess á eigna­skipt­ingu kunna að vera nei­kvæð. Í kjöl­far efna­hag­skreppu geta aðilar sem eru í sterkri lausa­fjár- og eig­in­fjár­stöðu jafnan eign­ast eignir á hag­stæðu verði, jafn­vel þótt slíkri fjár­fest­ingu sé ekki beint í far­veg sem tak­markar selj­an­leika fjár­fest­ing­ar, eins og gert var í til­felli rík­is­bréfa- og fjár­fest­ing­ar­leið­ar. Þótt deila megi um sann­girni þess var fátt sem Seðla­bank­inn gat gert til þess að stuðla að sann­gjarn­ari útkomu innan þess lag­ara­mma sem hann starfar undir og án þess að ganga gegn því mark­miði aðgerð­anna að stuðla að stöð­ug­leika. Í stöð­ug­leik­anum fel­ast afar brýnir almanna­hags­munir sem vega verður á móti óæski­legum tekju­skipt­ing­ar­á­hrif­um, enda kemur óstöð­ug­leik­inn oft niður á þeim sem síst skyldi og hafa takmörkuð úrræði eða þekk­ingu til að verja hags­muni sína,“ segir í skýrsl­unn­i. 

Lík­lega kom stærri hluti úr skatta­skjólum

Seðla­bank­inn við­ur­kennir einnig að gagn­rýni á heim­ild félaga með aðsetur á lág­skatt­ar­svæðum til þátt­töku í fjár­fest­ing­ar­leið­inni hafi verið eðli­leg í ljósi sög­unn­ar. 

Í skýrsl­unni segir að þáttur slíkra aflands­fé­laga hafi ein­ungis verið 2,4 pró­sent af heild­ar­fjár­fest­ingu í gegnum fjár­fest­ing­ar­leið­ina og að ítr­ustu kröfur voru gerðar til þess að pen­inga­þvætt­is­at­hug­un­um. 

Seðla­bank­inn telur þó vand­séð hvernig hann hefði átt að koma í veg fyrir fjár­fest­ingu aflands­fé­lag­anna. „Í fyrsta lagi hefði þurft að vera heim­ild til þess í lögum sbr. það sem áður er rakið varð­andi lög­bundin vald­mörk stjórn­valda. Í öðru lagi er ólík­legt að það hefði þjónað nokkrum til­gangi að hafa slíka heim­ild í lög­um. Mögu­leik­inn á slíku var raunar ræddur í und­ir­bún­ings­ferl­inu, en nið­ur­staðan var að slíkt ákvæði væri til­gangs­laust. Hefði félögum frá slíkum svæðum verið meinað að taka þátt í útboð­unum hefði þeim verið í lófa lagið að flytja fjár­muni sína til OECD-­ríkis fyrir útboðið og taka þannig þátt. Við það hefði slóð fjár­mun­anna mögu­lega rofnað og skatt­rann­sókn­ar­stjóri ekki fengið upp­lýs­ingar frá Seðla­bank­anum um til­vist þess­ara aflands­fé­laga þó vissu­lega hefðu upp­lýs­ingar um end­an­lega eig­endur fjár­muna legið fyrir í báðum til­vik­um. Þetta kann að skýra þá staðreynd að til­tölu­lega lágt hlut­fall fjár­fest­ingar kom frá skatta­skjól­um. Flestir þeirra sem höfðu eitt­hvað að fela í skatta­skjólum hafa senni­lega ekki viljað sýna á spil­in.“

Engar til­kynn­ingar um pen­inga­þvætti

Kjarn­inn greindi frá því í jan­úar 2017 að Seðla­bank­inn hefði litið svo á að það væri fjár­mála­fyr­ir­tækj­anna sem sinntu hlut­verki milli­liða að ganga úr skugga um að þeir fjár­munir sem not­aðir voru til að kaupa krónur í gegnum fjár­fest­ing­ar­leið­ina væru fengnir með lög­legum hætti, að af þeim hefðu verið greiddir skattar og að þeir væru ekki með réttu eign ann­arra, t.d. kröfu­hafa við­kom­andi. Engar til­kynn­ingar vegna pen­inga­þvættis bár­ust til pen­inga­þvætt­is­skrif­stofu vegna fjár­fest­ing­ar­leið­ar­inn­ar.

Allt eft­ir­lit Íslend­inga með pen­inga­þvætti fékk raunar fall­ein­kunn hjá alþjóð­legu sam­tök­unum Fin­ancial Act­ion Task ­Force (FATF) í fyrra sem kröfð­ust þess að umfangs­miklar úrbætur yrðu gerð­ar, ann­ars yrði Ísland sett á lista yfir ósam­vinnu­þýð ríki. Fjár­mála­eft­ir­litið hefur frá þeim tíma fram­kvæmd athug­anir á því hvernig fjár­mála­fyr­ir­tæki hafi staðið sig í vörnum gegn pen­inga­þvætti. Fjár­mála­eft­ir­litið hefur birt nið­ur­stöðu úr einni athug­un, á stöðu mála hjá Arion banka. Sú nið­ur­staða, sem lá fyrir í jan­úar síð­ast­liðn­um, var á þá leið að fjöl­margar brotala­mir væru á þeim vörnum hjá bank­an­um. Meðal ann­ars hefði bank­inn ekki metið með sjálf­­stæðum hætti hvort upp­­lýs­ingar um raun­veru­­lega eig­endur við­­skipta­vina væru réttar og full­nægj­and­i. 

Ekki hlut­verk Seðla­bank­ans að útdeila rétt­læti

Í skýrsl­unni segir að það sé ekki hlut­verk Seðla­banka Íslands að útdeilda rétt­læti í sam­fé­lag­inu „með því að greina á milli æski­legra og óæski­legra fjár­festa, verð­ugra og óverð­ugra.“ Það sé ekki úrlausn­ar­efni hans. „Önnur stjórn­völd og stofn­anir hafa hlut­verki að gegna við að fram­fylgja lögum lands­ins, m.a. Sam­keppn­is­eft­ir­lit­ið, Fjár­mála­eft­ir­lit­ið, rík­is­skatt­stjóri, skatt­rann­sókn­ar­stjóri, lög­regla, sak­sókn­arar og svo dóm­stólar sem end­an­lega kveða á um sekt manna og rétt­ar­stöðu þeirra gagn­vart lögum og stjórn­völd­um. Seðla­bank­anum er ekki heim­ilt að fara inn á vald­svið þeirra þvert á öll sjón­ar­mið um lög­bundna stjórn­sýslu og vald­mörk stjórn­valda. Þá hefði Seðla­bank­inn ekki heldur getað aflað upp­lýs­inga um fjár­festa frá lög­reglu eða sak­sókn­ara, og á grund­velli þess úti­lokað fjár­festa sem kynnu að hafa verið til rann­sóknar hjá öðrum stjórn­völd­um, og tekið þannig afstöðu til sektar eða sýknu. Fyrir því skorti laga­grund­völl.“

Af þessum ástæðum hafi skil­yrði fyrir þátt­töku í fjár­fest­ing­ar­leið­inni að lang­mestu leyti verið form­legs eðlis og ekki efn­is­leg hvað varðar stöðu þátt­tak­enda eða ein­stakar fjár­fest­ing­ar. „Seðla­bank­anum hefði ekki verið stætt á öðru. Bank­inn hefur þó lögum sam­kvæmt hlut­verki að gegna við eft­ir­lit með lögum um gjald­eyr­is­mál og rann­sóknir á brotum á þeim lögum eða reglum sem á þeim byggja. Því voru mál­efna­leg rök fyrir því að bank­inn setti ákvæði í skil­mála fjár­fest­ing­ar­leiðar þess efnis að aðilar mættu ekki hafa verið kærðir til lög­reglu, ákærðir af hand­hafa ákæru­valds eða sætt rann­sókn hjá Seðla­bank­anum vegna meintra brota á lögum um gjald­eyr­is­mál.“

Hefði tafið fyrir aðgerð­inni að horfa til áhrifa á auð­skipt­ingu

Hluti af gagn­rýn­inni sem sett hefur verið fram á fjár­fest­ing­ar­leið­ina er að hún hafi leitt til auk­innar mis­skipt­ingar auðs og tekna og jafn­vel fært auð til auð­kýf­inga á lág­skatta­svæð­um.

Seðla­bank­inn segir að það sé ekki hans að taka afstöðu til slíks eða beita sér gegn, heldur Alþing­is. „Hefði það verið vilji Alþingis að útboðin tækju mið af tekju­skipt­ing­ar­sjón­ar­miðum hefði lög­gjöfin þurft að mæla fyrir um það. Seðla­bank­anum var ekki falið það verk­efni að taka til­lit til tekju­skipt­ing­ar­sjón­ar­miða og það hefði verið mjög óvenju­legt, ef ekki eins­dæmi, að fela seðla­banka slíkt vald. Slíkar áherslur hefðu mögu­lega bitnað á fram­kvæmd aðgerð­ar­innar og tafið óþarf­lega fyr­ir­.“ 

Seðla­bank­inn gengst þó við því að ekki sé hægt að úti­loka að gjald­eyr­is­út­boðin hafi skekkt skipt­ingu tekna og auð­legðar með ein­hverjum hætti.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar