Skipun Eiríks Jónssonar í embætti dómara við Landsrétt getur sparað íslenska ríkinu umtalsverða fjármuni, vinni Eiríkur mál gegn ríkinu sem hann höfðaði vegna skipunar á upphaflegum dómurum við réttinn.
Eiríkur vann málið í héraðsdómi Reykjavíkur í október í fyrra en íslenska ríkið áfrýjaði því til Landsréttar. Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögmanni bíður málið nú flutnings í Landsrétti og er ekki enn komið á dagskrá hans.
Eiríkur mun taka við embætti Landsréttardómara frá og með 1. september næstkomandi og mun því vera tekinn til starfa þegar mál hans kemur fyrir Landsrétt að öllu óbreyttu.
Var metinn á meðal þeirra hæfustu en ekki skipaður
Eiríkur var á meðal þeirra sem sóttu um stöðu landsréttardómara þegar 15 slíkar voru auglýstar til umsóknar í aðdraganda þess að millidómstigið tók til starfa. Hæfisnefnd mat Eirík þá sjöunda hæfastan af þeim sem sóttu um. Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, ákvað hins vegar að taka út fjóra þeirra sem hæfisnefndin hafði metið á meðal 15 hæfustu og setja aðra, sem nefndin hafði metið minna hæfa, inn á lista yfir þá sem hún vildi skipa. Alþingi samþykkti svo lista Sigríðar. Á meðal þeirra sem fjarlægðir voru af listanum var Eiríkur.
Í kjölfarið hafa íslenskir dómstólar úrskurðað að Sigríður hafi brotið stjórnsýslulög með atferli sínu. Auk þess komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu í málinu í mars að dómararnir fjórir sem voru færðir upp á lista Sigríðar væru ólöglega skipaðir, og geti þar með ekki fellt dóma yfir þeim sem fyrir þá koma, enda hafi þeir ekki hlotið réttláta málsmeðferð. Sigríður sagði af sér embætti dómsmálaráðherra eftir að dómur Mannréttindadómstólsins var opinberaður.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir tók við ráðuneytinu tímabundið samhliða öðrum ráðherrastörfum og gegnir starfinu enn. Nýr dómsmálaráðherra verður hins vegar skipaður á næstu vikum. Sá mun koma úr þingflokki Sjálfstæðisflokks og á meðal þeirra sem koma til greina í embættið er Sigríður Á. Andersen.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á opnum fundi þingflokks flokksins í Valhöll 10. ágúst síðastliðinn að Sigríður gæti „að sjálfsögðu“ átt endurkomu í ríkisstjórn. Hann endurtók þetta í viðtali við Kastljós 21. ágúst.
Forsendur skaðabótakröfu Eiríks breytast
Eiríkur höfðaði mál gegn íslenska ríkinu vegna ólögmætrar skipunar á Landsréttardómurum. Í október í fyrra féllst héraðsdómur á bótaskyldu ríkisins gagnvart Eiríki. Hann þurfti hins vegar að höfða skaðabótamál til að innheimta þá bótaskyldu. Eiríkur er fæddur árið 1977 og á því langa starfsævi framundan. Ljóst var að fjárhagslegt tjón hans, þar sem laun landsréttardómara eru mun hærri en núverandi laun hans, gæti hafa orðið umtalsvert.
Í vor gerðist það að einn þeirra ellefu sem voru löglega skipaðir í Landsrétt, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, sagði starfi sínu lausu og greindi frá því að hann hygðist setjast í helgan stein. Því yrði laus staða við réttinn frá og með komandi hausti. Eiríkur var einn þeirra sem sótti um og í júlí greindi Kjarninn frá því að hæfisnefnd hefði metið hann hæfastan allra umsækjenda til að gegna stöðunni.
Um miðjan ágúst féllst forseti Íslands á tillögu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur dómsmálaráðherra um að Eiríkur yrði skipaður dómari frá og með 1. september. Við þá skipun breytast forsendur skaðabótakröfu Eiríks umtalsvert, enda tjón hans vegna mismunar á launum Landsréttardómara og núverandi launa hans nú einskorðað við tímabilið frá því að Landsréttur hóf störf, í byrjun árs 2018, og fram til 1. september næstkomandi, en ekki afganginn af starfsævi Eiríks.
Umtalsverður kostnaður nú þegar
Í nýlegu svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, kom fram að íslenska ríkið sé þegar búið að greiða 23,3 milljónir króna vegna mála sem höfðuð voru vegna skipunar dómara í Landsrétt. Eiríkur var nefnilega ekki sá eini sem fór í mál, hinir þrír sem teknir voru af lista hæfisnefndar yfir þá 15 hæfustu gerðu það líka.
Inni í þeirri tölu er sá kostnaður sem þegar hefur verið greiddur vegna skipunar dómara við Landsrétt, meðal annars aðkeypt lögmannsþjónustu og málskostnaður vegna bótamála, en til viðbótar er ógreiddur dæmdur málskostnaður og bætur fyrir íslenskum dómstólum upp á 7,5 milljónir króna vegna mála sem sæta áfrýjun.
Því blasir við að kostnaður hins opinbera á enn eftir að aukast. Helga Vala sagði við fréttastofu Stöðvar 2 í kjölfar þess að svarið barst að þetta væri þó ekki heildarkostnaðurinn vegna Landsréttarmálsins. Það vanti inn kostnað ríkislögmanns vegna mála á Íslandi og fyrir erlendum dómstólum. Þá vanti kostnað Landsréttar vegna þeirra fjögurra dómara sem að ekki geta sinnt dómarastörfum eftir að niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu lá fyrir. „Þetta er brot af kostnaði og bara það sem er í hendi núna,“ sagði Helga Vala. Hún ætlar að fara fram á ítarlegri svör.
Lestu meira:
-
26. febrúar 2021Dómsmálaráðherra gerir tillögu um að skipa Símon Sigvaldason í Landsrétt
-
22. febrúar 2021Dómnefnd metur Símon Sigvaldason hæfastan til að setjast í Landsrétt
-
10. desember 2020Þrjú sækja um laust embætti dómara við Landsrétt
-
9. desember 2020„Þetta er í öllu falli liðin tíð og ég dvel ekki frekar við hana“
-
3. desember 2020Segir að allir þurfi aðhald – líka dómarar í Strassborg
-
3. desember 2020„Misnotkun á valdi og bolabrögð hafa verið einkenni Sjálfstæðisflokksins í langan tíma“
-
3. desember 2020Lítil eru geð guma – Um Landsrétt og Sjálfstæðisflokkinn
-
1. desember 2020Íslenska ríkið tapaði málinu fyrir yfirdeildinni
-
15. september 2020Jón og Ragnheiður skipuð í Landsrétt – Ástráði hafnað enn og aftur
-
5. ágúst 2020Hæfur til að meta hæfni þar til annað kemur í ljós