Mynd: Samsett fréttatíminn.jpg
Mynd: Samsett

Fréttatíminn: Tekjulaus miðill sem unnin er í sjálfboðavinnu huldumanna

Í byrjun síðasta árs keypti maður lén og Facebook-síðu úr þrotabúi Fréttatímans og endurskráði miðilinn hjá fjölmiðlanefnd. Síðan þá hafa birst á miðlinum fjöldinn allur af fréttum sem enginn er skrifaður fyrir. Ábyrgðarmaður miðilsins segir að hann hafi engar tekjur, sé unninn í sjálfboðavinnu og sé í raun „bara í gamni“. Hann vill ekki upplýsa um hverjir skrifi á vef Fréttatímans.

Frétta­tím­inn er, sam­kvæmt Face­book-­síðu sinni, óháður mið­ill. Hann er líka fjöl­mið­ill sem er unn­inn í sjálf­boða­vinnu án eig­in­legra starfs­manna. Þar vinna hvorki rit­stjóri né blaða­menn þrátt fyrir að um skráðan fjöl­miðil sé að ræða. Eini kostn­að­ur­inn sem fylgir rekstri mið­ils­ins er árlegur kostn­aður vegna end­ur­nýj­unar á léni hans. Tekjur Frétta­tím­ans eru eng­ar. 

Þetta segir Guð­laugur Her­manns­son, eig­andi mið­ils­ins. Í sam­tali við Kjarn­ann stað­festi Guð­laugur að hann hefði keypt lén Frétta­tím­ans og Face­book-­síðu hans út úr þrota­búi Morg­un­dags, fyrr­ver­andi útgáfu­fé­lags þess, og síðan í upp­hafi árs 2018 hafi hann, í sam­ein­ingu við kollega, birt efni á vefn­um. „Þetta er lít­ill fjöl­mið­ill bara í gamn­i“.

Allt efni sem birt­ist á vef Frétta­tím­ans er birt undir höf­und­inum „rit­stjórn Frétta­tímanns“. Guð­laugur vill ekki upp­lýsa hverjir skrifa það efni. Hann segir að vel hafi verið tekið í þetta fram­tak, sér­stak­lega að und­an­förnu í tengslum við umræður um þriðja orku­pakk­ann. 

Aðspurður um hver bæri ábyrgð á miðl­in­um, í ljósi þess að eng­inn sé skráður höf­undur frétta, sagði Guð­laugur að það væri hann sjálf­ur. 

Er sæbjúgna­út­flytj­andi

Frétta­tím­inn er rek­inn af félagi sem heitir G. Her­manns­son ehf., félagið sem hefur þann skil­greinda til­gang sam­kvæmt skrán­ingu að stunda heild­verslun með fisk og fiskaf­urð­ir.  G. Her­manns­son hét áður Sel­ect Seafood og árið 2016 var engin starf­semi í félag­inu. Árið 2017 var hún í lág­marki en tekjur þess á því ári námu 16,3 millj­ónum króna.

Í fyrra tók starf­semi G. Her­manns­sonar ehf. hins vegar kipp og tekjur þess marg­föld­uð­ust. Á árinu 2108 námu þær 475,5 millj­ónum króna og félagið skil­aði smá­vægi­legum hagn­aði á rekstri sín­um. Í árs­reikn­ingi G. Her­manns­sonar ehf. kemur fram að félagið hafi selt „fiskaf­urðir til erlendra kaup­enda á síð­ari hluta árs­ins 2017 og allt árið 2018. Umfangið jókst mikið árið 2018 og gekk rekst­ur­inn sam­kvæmt áætl­un.“

Engin sund­ur­liðun er gerð á þeirri starf­semi sem G. Her­manns­son ehf. stund­aði á árinu 2018 í árs­reikn­ingn­um. Guð­laugur segir í sam­tali við Kjarn­ann að G. Her­manns­son sé stærsti útflytj­andi á sæbjúgum á Íslandi og að tekju­aukn­ing félags­ins sé vegna þeirrar starf­semi. Engin kostn­aður né tekjur sé af rekstri Frétta­tím­ans. Eina aug­lýs­ingin sem birt­ist á vef mið­ils­ins er frá fyr­ir­tæk­inu Glæsigeymsl­ur.­is. 

Þarf ekki að aðgreina rekstur fjöl­mið­ils frá öðru

Kjarn­inn hafði sam­band við fjöl­miðla­nefnd, en allir fjöl­miðlar lands­ins þurfa sam­kvæmt lögum að vera skráðir hjá stofn­un­inni, og leit­aði svara við því hvort að fjöl­miðlar mættu reka sig í félagi með bland­aðan rekst­ur. Hvort til að mynda fisk­sala og fjöl­miðla­rekstur gæti farið saman í félagi með sömu kenni­tölu án þess að fjöl­miðla­nefnd kall­aði sér­stak­lega eftir rekstar­upp­lýs­ingum um fjöl­miðla­hlut­ann. Þar var bent á að sam­kvæmt fjöl­miðla­lögum séu sér­stakar skyldur lagðar á leyfi­skylda fjöl­miðla í þessum efn­um. í 19. grein þeirra laga seg­ir: „Rekstri, bók­haldi og fjár­reiðum vegna hinnar leyf­is­skyldu starf­semi skal haldið aðgreindum frá öðrum rekstri og fjár­reiðum leyf­is­hafa. Fjöl­miðla­nefnd getur kraf­ist upp­lýs­inga úr bók­haldi og reikn­ingum leyf­is­hafa, ef þess er talin þörf, um hvort laga- eða reglu­gerð­ar­á­kvæði eða leyf­is­skil­málar hafi verið brotn­ir.“

Leyf­is­skyldir miðlar eru hins vegar ein­ungis þeir sem miðla hljóð og mynd­máli og þurfa að sækja um leyfi til útsend­inga. Sú skil­grein­ing nær því bara til sjón­varps- og útvarps­miðla. Prent- og net­miðlar eru ekki leyf­is­skyld­ir, heldur ein­ungis skrán­ing­ar­skyld­ir. Slíkir miðlar þurfa ekki að aðgreina rekstur sinn sér­stak­lega. Því er ekk­ert ólög­legt við það að rekstr­ar­fé­lag Frétta­tím­ans sýni ekki hverjar tekj­ur,  gjöld eða lán­veit­ingar þess séu vegna fjöl­miðla­starf­sem­i. 

Fjöl­miðla­nefnd óskar árlega eftir skýrslu­gjöf fjöl­miðla þar sem meðal ann­ars er farið er fram á að allir skráðir fjöl­miðlar upp­lýsi stofn­un­ina um fjöl­miðla­rekstur sinn og hvers eðlis tekjur þeirra séu. Ekki er opin­bert hversu stórt hlut­fall skráðra fjöl­miðla skilar þess­ari skýrslu en fyrir liggur að mik­ill minni­hluti fjöl­miðla hefur gert það und­an­farin ár. Stjórn­valds­sektum hefur ekki verið beitt gagn­vart þeim sem ekki skila inn skýrsl­unn­i. 

Var umsvifa­mik­ill fjöl­mið­ill

Frétta­tím­inn var upp­haf­lega stofn­aður sem íslenskt frétta­blað sem kom út einu sinni í viku og var dreift frítt á föstu­dögum í 82 þús­und ein­tök­um. Fyrsta ein­tak blaðs­ins kom út 1. októ­ber 2010. 

Í lok nóv­em­ber 2015 keypti hópur fjár­festa undir stjórn Gunn­ars Smára Egils­sonar blað­ið. Aðrir fjár­festar voru Árni Hauks­son, Hall­björn Karls­son og Sig­urður Gísli Pálma­son. Árni og Hall­björn eru á meðal eig­enda Kjarn­ans í dag eftir að hafa keypt 4,67 pró­sent hlut í honum í sum­ar. 

Gunnar Smári Egilsson, landskunnur fjölmiðlamaður, leiddi hóp sem keypti Fréttatímann 2015. Hann hvarf frá miðlinum snemma árs 2017 og tengist þeirri útgáfu hans sem nú er í loftinu ekki á nokkurn hátt.
Mynd: Bára Huld Beck

Útgáfu­tíðni blaðs­ins var aukin og margt reynslu­mikið starfs­fólk ráð­ið. Rekst­ur­inn gekk hins vegar illa og í febr­úar 2017 var greint var frá því að fjár­hags­leg end­ur­skipu­lagn­ing á frí­blað­inu Frétta­tím­anum stæði yfir. 

Í byrjun apríl var ljóst að það stefndi í óefni. Gunnar Smári til­kynnti þá að hann væri hættur afskiptum af útgáf­unni. Starfs­menn höfðu á þessum tíma ekki fengið greidd laun og erf­ið­lega gekk að fá nokkrar upp­lýs­ingar frá stjórn­endum um hvort að slíkt stæði til. 

Frétta­tím­inn kom út í síð­asta sinn föstu­dag­inn 7. apríl 2017. Skömmu áður hafði verið greint frá því að blaðið hefði tapað 151 millj­ónum króna á árinu 2016. Tapið hafði tífald­ast milli ára. 

Útgáfu­fé­lag Frétta­tím­ans var tekið til gjald­þrota­skipta í júlí og kröfur í búið námu 236 millj­ónum króna.

Keypti úr þrota­búi

Í jan­úar 2018 fór vefur Frétta­tím­ans skyndi­lega aftur í loft­ið.

Þann 11. jan­úar 2018 var Frétta­tím­inn.is skráður sem fjöl­mið­ill hjá fjöl­miðla­nefnd. G. Her­manns­son ehf., sem er skráður eig­andi hans, hafði eign­ast lénið www.fretta­tim­inn.is og Face­book-­síðu mið­ils­ins, sem hefur 23.802 fylgj­end­ur. Því er ljóst að sá sem stýrir miðl­inum getur náð til að miðla efni sínu mjög víða um íslenskt staf­rænt sam­fé­lag. 

Í skrán­ingu á vef fjöl­miðla­nefnd segir að rit­stjórn­ar­stefna Frétta­tím­ans sé „al­mennar fréttir og afþrey­ing­ar­efni, eins og tíðkast hjá öðrum vef­miðlum á inter­net­in­u.“ 

Ekk­ert annað kemur fram utan þess að Guð­laugur Her­manns­son sé fyr­ir­svars- og ábyrgð­ar­mað­ur. Hann seg­ist sjálfur bera ábyrgð á efn­inu sem birt­ist á vefnum en að vefnum sé haldið úti í sam­starfi við kollega. Guð­laugur vill ekki gefa upp hver eða hverjir það séu. 

„Rit­stjórn Frétta­tímanns“

Síðan að hinn nýi Frétta­tími fór í loftið hafa verið birt mörg efni þar dag­lega, nú í á annað ár. Margt sem þar birt­ist er unnið með hætti sem stenst illa grund­vall­ar­reglur blaða­mennsku, t.d. hvað varðar heim­ildar­öflun og fram­setn­ingu. Auk þess er eng­inn blaða­maður skráður á vefnum og allt efni sem þar birt­ist skráð sem skrifað af „Rit­stjórn Frétta­tímanns“. 

Það efni sem Frétta­tím­inn birtir er margs­kon­ar. Margt af því er unnið upp úr frétta­til­kynn­ingum sem sent er á alla íslenska miðla dag­lega. Sumt snýst um veð­ur­far. En það efni sem tekur mest pláss, og vekur mesta athygli, snýst um stjórn­mál sam­tím­ans og er oft sett fram sem opnar spurn­ingar í tengslum við mál sem eru ofar­lega á baugi á hverjum tíma. 

Guð­laugur segir að það hafi verið tekið vel í umfjöllun Frétta­tím­ans frá því að hann hóf að birta efni í byrjun árs í fyrra. Það eigi sér­stak­lega við í tengslum við umræður um þriðja orku­pakk­ann. Þar hefur mið­ill­inn enda farið mik­inn. 

Ráð­herra hótað líf­láti

Síð­ustu daga hafa efni Frétta­tím­ans verið mjög áber­andi. Mesta athygli hafa vakið fréttir sem tengj­ast þriðja orku­pakk­anum eða stjórn­mála­mönnum sem hafa tekið virkan þátt í umræðum um hann. Þannig birt­ist frétt á fimmtu­dag undir fyr­ir­sögn­inni: „Skilar orku­pakki 3, 625 millj­ónum í vasa utan­rík­is­ráð­herra?“ Efn­is­lega snýst frétt­inn um að upp­reikna mögu­legar tekjur af virkjun sem hefur ekki verið byggð miðað við að raf­magns­verð hækki og hverju það gæti skilað Guð­laugi Þór Þórð­ar­syni utan­rík­is­ráð­herra í vas­ann vegna eign­ar­halds hans og eig­in­konu hans á jörð sem er á áhrifa­svæði Búlands­virkj­unar og Hólmsár­virkj­un­ar. 

Guð­laugur hafði áður svarað opin­ber­lega fyrir slíkar ávirð­ing­ar, í apríl 2019, þegar þær voru settar fram á Eyj­unni, og þá greint frá því að þetta væri skóg­rækt­ar­jörð sem hann og eig­in­kona hans hefðu keypt af tengda­for­eldrum hans, en þau hefðu átt hana frá 1982. „Hvorki ég né fjöl­­skylda mín eigum nokkra aðild að áformum um þá virkj­un. Ef svo ólík­­­lega færi að hún yrði að veru­­leika yrðu áhrifin á Tungufljót og umhverfi þess afar nei­­kvæð. Von­andi eru allar hug­­myndir um þessa virkjun út af borð­inu um alla fram­­tíð. Um það erum við fjöl­­skyldan öll sam­mála[...]Dylgjur sem fram koma í ofan­­greindri umfjöllun Eyj­unnar bera vitni um mál­efna­­fá­tækt þeirra sem hafa ákveðið að berj­­ast gegn þriðja orku­­pakk­­anum með öðru en rök­­um. Von­andi verður hægt að ræða þetta mál með mál­efna­­legri hætti í fram­­tíð­inn­i.“

Í ummælum við færslu um frétt­ina á Face­book var Guð­laugi Þór meðal ann­ars hótað líf­láti vegna þess sem fram kom í henni og hefur verið gripið til sér­stakra örygg­is­ráð­staf­ana vegna máls­ins. Hót­unin er auk þess komin í far­veg hjá emb­ætti rík­is­lög­reglu­stjóra. 

Guð­laugur Her­manns­son segir að hann eða Frétta­tím­inn geti ekki borið ábyrgð á ummælum sem fólk lætur falla um fréttir Frétta­tím­ans á Face­book. 

Hér er orku­pakk­inn, um orku­pakk­ann...

Annað dæmi er frétt með fyr­ir­sögn­inni: „Sæ­strengs­verk­efni milli Íslands og Bret­lands er til­búið og full­fjár­magnað – Allt klappað og klárt“. Henni hefur verið dreift aftur og aftur á Face­book-­síðu Frétta­tím­ans. 

Í raun er ekki um frétt að ræða heldur ein­hvers­konar pistil eftir Arn­hildi Ásdísi Kol­beins, sem titluð er fjár­mála­stjóri og lög­fræði­nemi. Arn­hildur var á lista Mið­flokks­ins í Hafn­ar­firði í síð­ustu sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um. Pistill­inn byggir á álykt­unum vegna verk­efn­is­ins Atl­antic Superconn­ect­ion sem margir hverjar hafa verið ítar­lega hraktar opin­ber­lega í fjöl­miðl­um, meðal ann­ars af for­svars­mönnum Atl­antic Superconn­ect­ion og íslenskum ráða­mönn­um. 

Í gær birt­ist frétt þar sem fyr­ir­sögn var enn og aftur í spurn­ing­ar­formi: „Er for­seti van­hæf­ur?“. Í umfjöll­un­inni er því haldið fram að frétt Frétta­tím­ans um Guð­laug Þór, sem hann fékk lífsláts­hótun í kjöl­farið á, væri rétt og að „hver fylgd­ar­sveinn ráð­herra hefur síðan sprottið fram og hrópað úlfur úlfur og borið fyrir sig að um rang­færslur sé að ræða í frétt­inn­i.“ Í kjöl­farið er lagt upp frá því að Frétta­blaðið hafi tekið þátt í „klúð­urs­legri vörn“ fyrir utan­rík­is­ráð­herrann, en einn eig­anda þess er fjár­festir­inn Helgi Magn­ús­son. 

Þar sem Helgi hefði gefið sam­tals 800 þús­und krónur til fram­boðs Guðn­a Th. Jóhann­es­sonar í gegnum ann­ars vegar félag sitt og hins vegar í eigin nafni, þá gæti for­set­inn verið van­hæfur til að skrifa undir lög sem tengj­ast inn­leið­ingu þriðja orku­pakk­ans. 

Fréttin er þétt­setin af rang­færslum og hálf­sann­leik, meðal ann­ars um hverjir eig­endur félaga eru sem gáfu til fram­boðs Guðna. Þar er Ásgeir Mar­geirs­son, frá­far­andi for­stjóri HS Orku, meðal ann­ars kall­aður við­skipta­fé­lagi eig­in­konu Guð­laugs Þórs, sem á hlut í Bláa lón­in­u. HS Orka á ekki hlut í Bláa lón­inu og Ásgeir á heldur ekki hlut í HS Orku. Alls námu fjár­fram­lög til fram­boðs Guðn­a Th. 25 millj­ónum króna og fram­lög Helga, sem eru í sam­ræmi við lög um hámark fram­laga til fram­boða og greint var frá opin­ber­lega ásamt öllum fram­lögum yfir 200 þús­und krón­um, því um þrjú pró­sent af heild­ar­fram­lögum til fram­boðs­ins.

Mið­flokk­ur­inn áber­andi

Þá eru fréttir af fram­göngu Mið­flokks­ins, með jákvæðum for­merkj­um, mjög áber­andi á vef Frétta­tím­ans. Á síð­ast­lið­inni rúmri viku hefur vef­ur­inn meðal ann­ars end­ur­birt aðsenda grein eftir Gunnar Braga Sveins­son, vara­for­mann Mið­flokks­ins, sem birt­ist fyrst í Morg­un­blað­inu og bar heit­ið „Að gyrða sig í brók sjálf­stæð­is­menn“, og birt fréttir af fundum sem Mið­flokk­ur­inn hélt um þriðja Orku­pakk­ann ann­ars vegar í Kefla­vík og hins vegar á Sel­fossi þar sem áhersla var lögð á hversu fjöl­mennir fund­irnir hefðu ver­ið.

Þá var birt frétt með fyr­ir­sögn­inni: „Mið­flokk­ur­inn leið­réttir ósann­indi for­sæt­is- og utan­rík­is­ráð­herra“ þar sem full­yrt er að að for­sæt­is­ráð­herra og utan­rík­is­ráð­herra hafi sagt ósatt í ræðum sínum í umræðum um þriðja orku­pakk­ann. Í þeirri frétt sagði meðal ann­ars að mynda­vélar sem taka upp þing­ræð­ur, sem streymt er beint á net­inu, taki „því mið­ur“ ekki myndir af salnum þar sem þing­menn sitji. Þar hefði mátt „sjá fliss og grettur fylgj­enda þriðja orku pakkanns“ þegar Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, for­maður Mið­flokks­ins, hélt 46. ræðu sína um orku­pakk­ann. Sú setn­ing gefur til kynna að höf­undur frétt­ar­innar hafi verið staddur í þing­sal en ekki verið að horfa á ræð­urnar í gegnum streymi Alþing­is. 

Loks var birt frétt um „ágætis við­tal“ við Sig­mund Davíð á Sky sjón­varps­stöð­inni í vik­unni sem leiddi svo inn í skrif Sig­mundar Dav­íðs um þriðja orku­pakk­ann.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar