Frá því rétt fyrir aldamót hafa Samtök atvinnulífsins (SA) staðið vörð um hagsmuni atvinnurekenda í íslensku samfélagi. Umsvif samtakanna eru mikil en í dag eru sex stór hagsmunasamtök með aðild að samtökunum og yfir 2.000 fyrirtæki. Þá eru samtökin með 180 fulltrúa í um hundrað nefndum og stjórnum. Samtökin hafa fengið flestar umsagnabeiðnir um þingmál frá Alþingi af öllum samtökum, samböndum og félögum á yfirstandandi þingi, eða alls 161 beiðni. Rekstur samtakanna hefur vaxið í krónum talið á síðustu árum og í fyrra nam heildarvelta félagsins rúmlega 720 milljónum króna.
Stjórnvöld hafa áform um að setja hagsmunavörslu hér á landi frekari skorður en afar takmarkaðar reglur eru um slíkt. Forsætisráðuneytið hyggst leggja til að hagsmunaverðir sem eiga samskipti við stjórnmálamenn og stjórnsýslu verði gert að skrá sig sem slíka. Samtök atvinnulífsins eru hins vegar mótfallin slíkri skráningu en samtökin leggja áherslu á að eftirlit hins opinbera megi ekki vera of íþyngjandi.
Velta samtakanna aukist um 300 milljónir frá 2010
Samtök atvinnulífsins fagna 20 ára afmæli sínu í haust en stofnfundur samtakanna var haldinn 15. september 1999. Þau eiga sér þó enn lengri sögu, enda var forveri þeirra, Vinnuveitendasamband Íslands, stofnað 1934. Samtökin skilgreina sig sem heildarsamtök íslenskra atvinnurekenda og markmið samtakanna er að vera öflugur málsvari þeirra gagnvart stjórnvöldum og almenningi.
Þá annast SA samskipti við stéttarfélög og gera kjarasamninga fyrir hönd aðildarfyrirtækja sem falið hafa samtökunum umboð til þess. Jafnframt taka samtökin þátt í alþjóðlegu samstarfi atvinnurekenda sem vinna að sameiginlegum hagsmunamálum.
Ljóst er að umsvif samtakanna eru mikil en um 70 prósent launafólks á almennum vinnumarkaði starfa hjá einhverjum af þeim rúmlega 2.000 fyrirtækjum sem heyra undir samtökin. Hjá samtökunum starfa í dag 31 starfsmaður. Sumir þeirra eru afar vel launaðir. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, var til að mynda með með þrjár milljónir króna í mánaðarlaun í fyrra, samkvæmt nýjasta tekjublaði Frjálsrar verslunar. Forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs SA, Davíð Þorláksson, var með 1,9 milljónir króna í mánuði.
Innan samtakanna er stjórn, fulltrúaráð og framkvæmdastjórn. Stjórnin, sem kosin er árlega af fulltrúaráði samtakanna, er skipuð 20 einstaklingum auk formanns. Þá er framkvæmdastjórn samtakanna skipuð átta manns sem stjórnin skipar úr hópi stjórnarmanna og stýrir starfsemi samtakanna í samræmi við stefnumörkun stjórnar og aðalfundar. Auk þess er starfrækt innan samtakanna fulltrúaráð sem hefur æðsta vald í málefnum þeirra milli aðalfunda sem hundrað manns sitja í. Þeir sem þar sitja koma frá flestum af stærstu fyrirtækjum landsins.
Rekstur samtakanna hefur aukist til muna á síðustu árum. Heildarvelta samtakanna nam 723,4 milljónum króna í fyrra en 2010 nam veltan 334,5 milljón króna, á verðlagi þess árs. Raunaukning á veltu samtakanna á síðustu átta árum, að teknu tilliti til verðbólgu, er yfir 300 milljónir.Standa vörð um hagsmuni með umsögnum um þingmálum og setu í nefndum
Hagsmunasamtök og þrýstihópar eru skipulögð samtök einstaklinga eða félaga sem beita sér í þágu hagsmuna samtaka sinna með því að setja fram ákveðnar kröfur á hendur öðrum hópum eða stjórnvöldum. Hagsmunasamtök geta verið verkalýðsfélög, neytendasamtök, umhverfissamtök, mannréttindasamtök og hagsmunasamtök atvinnugreina sem oft eru jafnframt atvinnuveitendur.
Skiptar skoðanir eru um hvernig hagsmunavörslu, sem á ensku kallast „lobbýismi“, skuli háttað, það er að segja hversu mikinn aðgang og áhrif þau eiga að hafa á stefnumótandi ákvarðanir stjórnvalda og lagasetningar. Í skýrslu starfshóps forsætisráðuneytisins um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu, sem kom út í september 2018, segir að almennt þyki æskilegt að lagasetning og stefnumótun taki mið af hagsmunum þeirra sem mál varða og leitað sé til sérþekkingar þeirra sem hana hafa vegna reynslu þeirra eða innsýnar í ákveðna málaflokka.
Á hinn bóginn bendir starfshópurinn á að hagsmunavarsla geti leitt til ótilhlýðilegra áhrifa einstakra aðila, veitt þeim ávinning á kostnað annarra í sömu stöðu, skekkt samkeppni og svo framvegis. Enda séu fjársterkir aðilar í betri aðstöðu til að stunda skipulega hagsmunavörslu en til dæmis félaga- og borgarasamtök.
Hagsmunasamtök hafa ýmsar leiðir til þess að hafa áhrif á aðgerðir stjórnvalda, bæði formlegar og óformlegar. Hagsmunasamtök geta til að mynda skilað inn umsögnum um lagafrumvörp og þingsályktanir stjórnvalda. Auk þess sitja fulltrúar hagsmunasamtaka oft í starfshópum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera. Enn fremur geta hagsmunasamtök haft áhrif og vakið athygli á sínum hagsmunamálum með skrifum, ráðstefnum og í gegnum óformleg samskipti við stjórnmálamenn.
Á annað hundrað umsagnabeiðnir um þingmál
Samkeppnishæfnissvið Samtaka atvinnulífsins vinnur öfluga hagsmunagæslu í þágu aðildarfyrirtækja sinna enda er það hlutverk sviðsins að standa vaktina þegar nýjar reglur eru settar er varða rekstrarskilyrði fyrirtækja og atvinnulífið í heild sinni.
Samtök atvinnulífsins fá á hverju ári hundruð mála á sitt borð frá Alþingi, ráðuneytum, stofnunum og fyrirtækjum. Auk þess segir í ársskýrslu samtakanna að þau taki oft upp mál að eigin frumkvæði og vekji athygli stjórnvalda eða almennings á þeim. „Með ritun umsagna og vöktun nýrra reglna sem varða atvinnulífið gæta samtökin að því að rödd atvinnulífsins fái að hljóma,“ segir í ársskýrslunni.
Nefndir Alþingis senda að jafnaði öll þingmál sem þær hafa til umfjöllunar til umsagnar hjá þeim er málið varðar. Það fer hins vegar eftir eðli og umfangi máls hve margir fá það til umsagnar og er ákvörðun um hverjum skuli send þingmál tekin á nefndarfundi. Rétt er að taka fram að þeim sem fá mál til umsagnar er ekki skylt að svara.
Afar takmarkaðar reglur hafa verið settar hér á landi um hagsmunavörslu.
Á yfirstandandi þingi hafa Samtök atvinnulífsins fengið flestar umsagnabeiðnir af öllum hagsmunasamtökum, sveitarfélögum og öðrum félögum, eða alls 161 umsagnabeiðnir. Á síðustu tíu árum hafa samtökin verið á meðal þeirra þriggja samtaka eða sambanda sem fá flestar umsagnabeiðnir frá Alþingi eða yfir þúsund beiðnir frá árinu 2008.
Enn fremur hefur samráðsgátt stjórnvalda auðveldað hagsmunaaðilum að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á fyrri stigum máls. Í ársrskýrslu SA segir að samtökin skoði öll mál sem komi í gáttina og meti hvort þau hafi áhrif á atvinnulífið og geri þá eftir atvikum umsögn.
Með fulltrúa í hundrað nefndum og ráðum
SA tilnefnir fjölda fulltrúa í ýmsar stjórnir, nefndir og ráð á vegum hins opinbera og annarra. Þar á meðal á sviði efnahags- og kjaramála, umhverfis- og menntamála og í stjórnir lífeyrissjóða. Í svari SA við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að alls sitji fulltrúar samtakanna í um 100 ólíkum nefndum, ráðum og vinnuhópum og í heildina skipar SA í um 180 sæti aðalmanna.
Samtökin eiga jafnframt aðild að erlendum nefndum og ráðum. Í ársskýrslu samtakanna segir að stór hluti lagaumhverfis atvinnulífsins komi frá Evrópusambandinu og snúist áhersla samtakanna í erlendum samskiptum því fyrst og fremst um að gæta hagsmuna íslenskra fyrirtækja gagnvart þeirri löggjöf. Það er gert með aðild SA að ráðgjafanefnd EFTA, BusinessEurope, BIAC og norrænu samstarfi.
Samtökin í Húsi atvinnulífsins
Innan Samtaka atvinnulífsins eru sex stór aðildarsamtök: Samorka, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.
Hver samtök eru með sína eigin starfsemi, sín aðildarfyrirtæki, starfsmenn og sína fulltrúa í nefndum og ráðum sem snúa að þeirra hagsmunum. Samtökin sjálf skila einnig inn umsögnum til Alþingis og í samráðsgátt stjórnvalda. Samtök iðnaðarins (SI) eru stærst af samtökunum sex en innan þeirra eru 1.400 fyrirtæki og félög. Starfsmenn SI eru 19 og eru samtökin eru með fulltrúa í yfir 40 nefndum og stjórnum. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, er með 2,6 milljónir í mánaðartekjur, samkvæmt nýjasta tekjublaði Frjálsrar verslunar.Traust hvarf á Íslandi
Eftir fjármálahrunið árið 2008 hrundi traust til helstu stofnana samfélagsins og þá sérstaklega til Alþingis og fjármálastofnana. Illa hefur gengið hjá stjórnvöldum að endurheimta traustið í kjölfarið og í niðurstöðum síðasta þjóðarpúls Gallups, sem birt var í febrúar 2019, um traust til stofnana kemur í ljóst að traust til Alþingis mælist einungis 18 prósent. Það er um 11 prósentustigum minna en í könnun Gallups árið áður.
Aðrar kannanir hafa jafnframt sýnt að Íslendingar hafa áhyggjur af spillingu í stjórnmálum. Í könnun MMR frá því í maí síðastliðnum voru svarendur spurðir um hvaða þrjú atriði þeir hefðu mestar áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku samfélagi og nefndu flestir spillingu í stjórnmálum og fjármálum eða alls 45 prósent.
Spillingarhætta fyrir hendi
Starfshópurinn skilaði skýrslu um málefnið í september sama ár þar sem lagðar voru fram 25 tillögur til að efla traust á stjórnsýslunni. Í skýrslu starfshópsins segir að Íslendingar hafi farið sér hægar en nágrannaþjóðir í aðgerðum til að tryggja heilindi í opinberum störfum og að hér á landi hafi minna tillit verið tekið til tilmæla og leiðbeininga alþjóðlegra stofnana um varnir gegn spillingu en æskilegt hefði verið.
Þar á meðal eru tilmæli frá GRECO, samtaka ríkja innan Evrópuráðsins, sem sett voru fram í fimmtu úttekt samtakanna á Íslandi. Þá var mælst til þess að settar yrðu reglur um samskipti æðstu handhafa framkvæmdarvalds við hagsmunaverði og aðra sem leitast við að hafa áhrif á störf stjórnvalda.
Afar takmarkaðar reglur hafa verið settar hér á landi um hagsmunavörslu, samkvæmt skýrslu starfshópsins. Þingmönnum, ráðherrum, aðstoðarmönnum þeirra eða embættismönnum er til að mynda ekki skylt að skrá samskipti sín við hagsmunaaðila sérstaklega, hvort sem um er að ræða bein tengsl við fyrirtæki eða forystumenn þeirra eða við hagsmunaverði fyrirtækja eða samtaka.
Starfshópurinn taldi það mikilvægt að gæta sérstaklega að þremur þáttum í samskiptum stjórnvalda við hagsmunaaðila. Í fyrsta lagi þyrfti að vera hafið yfir allan vafa að jafnræði ríkti um aðkomu hagsmunaaðila. Í öðru lagi að tryggja að ekki væri hægt að halda því fram að sérhagsmunir væru teknir fram yfir almannahagsmuni og í þriðja lagi þyrfti að ríkja gagnsæi um aðkomu hagsmunaaðila, þar á meðal um samskipti við ráðherra, þingmenn og opinbera starfsmenn.
Opinber skrá yfir hagsmunaverði
Í kjölfar skýrslunnar hefur forsætisráðuneytið birt áform um lagasetningu þess efnis í samráðsgátt stjórnvalda sem byggð eru á tillögum starfshópsins. Ráðuneytið hyggst meðal annars gera öllum aðilum sem sinna hagsmunavörslu – þeim sem hafa það að aðalstarfi að tala máli einkaaðila, eins eða fleiri, gagnvart handhöfum ríkisvalds – skylt að tilkynna sig til stjórnvalda svo unnt sé að birta opinberlega skrá yfir þá. Þar á meðal eru almannatenglar og lögmenn sem koma fram fyrir hönd tiltekinna aðila. Og auðvitað þeir sem starfa beint fyrir hagsmunasamtök.
Þá gerir ráðuneytið ráð fyrir að skráin verði birt í B-deild Stjórnartíðinda og á vef Stjórnarráðs Íslands. Jafnframt segir ráðuneytið skoða þurfi hvort og þá hvaða viðurlög eigi að vera við því að vanrækja tilkynningarskylduna.
Enn fremur er fyrirhugað að mælt verði fyrir því í lagafrumvarpinu að ráðherrar, aðstoðarmenn, ráðuneytisstjórar, skrifstofustjórar og sendiherrar geti ekki í tiltekinn tíma eftir að opinberu starfi lýkur gegnt starfi fyrir skráða hagsmunaverði. Gert er ráð fyrir þeirri meginreglu að framangreindir aðilar þurfi að bíða í átta mánuði frá starfslokum en þó með undantekningum.
Starfshópurinn lagði þessi tillögu fram í ljósi þess að þegar einstaklingur sem starfað hefur fyrir hið opinbera færir sig úr starfi er annarsvegar hætta á að hagsmunir verðandi vinnuveitanda geti haft áhrif á ákvarðanir á meðan einstaklingur starfar enn fyrir hið opinbera. Hins vegar er sá möguleiki fyrir hendi að upplýsingar sem viðkomandi öðlast í starfi sínu séu nýttar á ótilhlýðilegan hátt í þágu einkaaðila þegar skipt er um starfsvettvang, en slíkt getur bæði haft ólögmæt áhrif á samkeppni og gengið gegn opinberum hagsmunum.
Tillögum Viðskiptaráðs reglulega mætt með andstöðu
Í Húsi atvinnulífsins er annar öflugur málsvari atvinnulífsins með aðsetur, Viðskiptaráð Íslands. Viðskiptaráð er heildarsamtök fyrirtækja, félaga og einstaklinga í íslensku atvinnulífi sem hafa það hlutverk að gæta hagsmuna viðskiptalífsins. Samkvæmt síðustu ársskýrslu samtakanna er grundvallarþáttur hagsmunabaráttu samtakanna að efla skilning almennings á mikilvægi frjálsræðis í viðskiptum, lágmörkun opinberra afskipta, hagfellds skattaumhverfis og annarra þátta er miða að því að auka samkeppnishæfni Íslands. Í ársskýrslunni segir jafnframt að tillögur ráðsins mæti reglulega andstöðu frá ýmsum aðilum í þjóðfélaginu en til lengri tíma hafi árangur ráðsins verið ótvíðræður. .
Hjá Viðskiptaráði starfa átta manns og alls skipa 38 manns stjórn ráðsins. Starf samtakanna samanstendur af umsögnum um lagafrumvörp en á yfirstandandi þingi hefur Viðskiptaráð fengið sendar 79 umsagnabeiðnir frá Alþingi. Einnig sitja starfsfólk og stjórnarmenn ráðsins í margvíslegum nefndum og starfshópum þar sem þau beita sér fyrir hagsmunum viðskiptalífsins.SA mótfallin hagsmunaskráningu
Samtök atvinnulífsins gagnrýna þessi áform stjórnvalda í umsögn sinni við áform ráðuneytisins í samráðsgátt stjórnvalda. Í umsögn samtakanna segir að hér á landi tíðkist það ekki að spilling birtist í því að sterkir sérhagsmunaaðilar „nái tangarhaldi“ á stjórnvöldum og hafi áhrif á þau með viðbrögðum sínum við einstökum ákvörðunum, líkt og fjallað er um í fyrrnefndri úttektarskýrslu GRECO.
Því telja samtökin að ekki sé þörf á því að taka upp skráningu hagsmunaaðila hér á landi. „Aðstaðan hér er um flest frábrugðin því hvernig hún er í margfalt stærri þjóðfélögum. Í langflestum tilvikum er alveg ljóst hvaða hagsmunum einstök samtök eða starfsmenn þeirra þjóna hvort sem það eru samtök fyrirtækja, verkafólks, umhverfisverndarfólks, neytenda, dýravina eða önnur,“ segir í umsögninni.
Samtökin eru einnig andvíg því að sett séu almenn yfirgripsmikil ákvæði um takmörkun á almennu atvinnufrelsi starfsmanna stjórnarráðsins eða kjörinna fulltrúa. „Það er jákvætt að einkafyrirtæki finni hæfa starfsmenn í þjónustu ríkis og sveitarfélaga og að yfirsýn og þekking þeirra sem af einhverjum ástæðum hætta í stjórnmálum nýtist sem víðast. Takmörkun á starfsvali getur því ekki orðið til annars en tjóns fyrir samfélagið.“
Að lokum segir í umsögn samtakanna að mikilvægt sé að íslenskt atvinnulíf búi við skýrar og góðar leikreglur sem auki trúverðugleika og verji gegn ólögmætri háttsemi. Aftur á móti telja samtökin að eftirlit megi ekki vera of íþyngjandi vegna þess að það auki kostnað fyrirtækja og veiki samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.
Fréttaskýringin birtist einnig í Mannlífi.
Lesa meira
-
30. maí 2018Jakob segir sig úr stjórn Arion banka
-
20. apríl 2018Þurfa að gera yfirtökutilboð upp á 65 milljarða króna
-
9. mars 2018Ákvörðun ríkissaksóknara felld úr gildi
-
6. ágúst 2017Frumkvöðlastarfsemi eða rentusókn?
-
11. júlí 2017Fá merki um kólnun en framboð að aukast
-
10. mars 2017Hannes Smárason snúinn aftur
-
6. mars 2017Hagsmunakórarnir farnir að syngja
-
16. febrúar 2017Eigendur Borgunar fái 4,7 milljarða arðgreiðslu
-
13. febrúar 2017Félag Helga selur í Marel fyrir 309 milljónir
-
13. febrúar 2017Hagnaður Arion banka 21,7 milljarður króna