Rannsóknir sýna stórfelld skattsvik í 64 Panamamálum
Búið er að vísa 64 málum sem tengjast Panamaskjölunum til héraðssaksóknara til refsimeðferðar. Alls er rannsókn lokið í 96 málum sem tengjast skjölunum og sjö mál er enn í ferli. Undandregnir skattstofnar í þeim málum sem búið er að rannsaka eru 16,4 milljarðar króna. Þorri fjármunanna var falin í skattaskjólum.
Embætti skattrannsóknarstjóra hefur lokið rannsókn í alls 96 málum sem eiga uppruna sinn í svonefndum Panamaskjölum. Af þeim hefur alls 64 málum verið vísað til refsimeðferðar hjá héraðssaksóknara, farið var fram á sektarkröfu fyrir yfirskattanefnd í 17 málum, refsimeðferð í tveimur málum er lokið með sektargerð hjá skattrannsóknarstjóra og ekki var hlutast til um refsimeðferð í 13 málum.
Rannsókn tveggja annarra mála á lokastigi og áætlað er að rannsókn fimm mála til viðbótar verði lokið fyrir áramót. Alls eru Panamamálin hjá embætti skattrannsóknarstjóra, þau sem rannsókn er lokið í og þau sem rannsókn stendur yfir á, alls 103 talsins.
Þetta kemur fram í svarið Bryndísar Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Þar segir enn fremur að í þeim 96 málum sem að lokið er með þeirri niðurstöðu að fjármunum hafi verið skotið undan skatti eru undandregnir skattstofnar um 16,4 milljarðar króna. Áætlaðir undandregnir skattstofnar í þeim sjö málum sem er ólokið eru um 2,2 milljarðar króna.
Keyptu gögn af huldumanni
Árið 2015 keypti íslenska ríkið skattaskjólsgögn um 500 félög í eigu um 400 Íslendinga af huldumanni. Gögnin komu frá lögmannsstofu í Panama, Mossack Fonseca & Co, sem hafði unnið umtalsvert fyrir íslensku bankanna á árunum fyrir hrun. Alls voru greiddar 37 milljónir króna fyrir gögnin, en upphaflega vildi seljandinn fá 150 milljónir króna.
Ári síðar, í apríl 2016, greindu fjölmiðlar víða um heim frá afrakstri vinnu sinnar úr gagnaleka sem þekktur varð sem Panamaskjölin. Um var að ræða skjöl úr sama ranni og þau sem skattrannsóknarstjóri hafði keypt. Þ.e. frá Mossack Fonseca.
Þar kom meðal annars fram að skattaskjólaeign Íslendinga var enn umfangsmeiri en áður hafði verið ýjað að. Alls er þar að finna upplýsingar um 600 Íslendinga sem tengjast um 800 aflandsfélögum. Fyrir liggur að mestu er um að ræða viðskiptavini Landsbanka Íslands sem stunduðu aflandsviðskipti. Ekki liggur fyrir hvaða milligönguliði Kaupþing og Glitnir notuðu helst, en samkvæmt viðmælendum Kjarnans sem þekktu vel til í starfsemi íslensku bankanna fyrir hrun er ljóst að fjöldi aflandsfélaga sem stofnuð voru fyrir íslenska viðskiptavini eru mörg þúsund talsins. Því eru mörg þeirra enn óuppgötvuð.
Allt að 810 milljarðar króna á aflandssvæðum
Það kom til að mynda í ljós í byrjun janúar 2017 þegar gerð var opinber skýrsla starfshóps sem skoðaði umfang aflandseigna Íslendinga, sem unnin var sem viðbragð við birtingu Panamaskjalana, og áætlaði hversu miklu eigendur slíkra eigna hefðu stungið undan skatti.
Þar sagði að stökkbreyting hefði orðið á flæði fjár til aflands- og lágskattasvæða á fyrsta áratug þessarar aldar, og fjöldi aflandsfélaga í eigu Íslendinga hefði fertugfaldast frá árinu 1999 og fram að hruni. Eignir í stýringu íslensku bankanna í Lúxemborg 46-földuðust á sama tímabili. Uppsafnað umfang eigna Íslendinga á aflandssvæðum frá árinu 1990 til 2015 nam einhvers staðar á bilinu 350 til 810 milljörðum króna, og tekjutap hins opinbera á árunum 2006 til 2014 vegna þessa nam líklega um 56 milljörðum króna, samkvæmt skýrslunni.
Tugir mála felld niður
Kjarninn greindi frá því í í lok árs 2017 að alls 66 skattsvikamál sem héraðssaksóknari hafði haft til meðferðar hefðu verið felld niður. Undandregin skattstofn í þeim var samanlagt 9,7 milljarðar króna. Hluti þeirra mála voru svokölluð Panamamál sem ratað höfðu til embættisins frá skattarannsóknarstjóra, en ekki öll.
Ástæðan fyrir þessari stöðu var rof í málsmeðferð sem varð vegna þess að ákæruvaldið og íslenskir dómstólar voru að bíða eftir niðurstöðu í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, og síðan bið eftir því hvernig Hæstiréttur túlkaði þá niðurstöðu.
Málin voru felld niður vegna þess að málsmeðferð þeirra hjá annars vegar skattyfirvöldum og hins vegar héraðssaksóknara var ekki nægilega samtvinnuð í efni og tíma, aðallega vegna þess að þeim var slegið á frest vegna þess að beðið var niðurstöðu máls sem var til meðferðar hjá Mannréttindadómstóli Evrópu.
Samkvæmt heimildum Kjarnans voru mál íslenskra sjómanna sem störfuðu hjá íslenskum útgerðum erlendis, meðal annars Sjólaskipum, á meðal þeirra mála sem felld voru niður. Hin meintu brot mannanna fólust í því að þeir greiddu ekki skatt af launum sínum á Íslandi á meðan að þeir unnu hjá íslenskum útgerðum í Afríku, þótt þeir hafi átt heimilisfesti hér. Alls voru 33 þeirra mála sem hafa verið látin niður falla vegna tekna sem urðu til vegna starfa erlendis. Um tugi milljóna króna var um að ræða í vanframtöldum tekjum í hverju tilfelli fyrir sig.
En stóru tölurnar í málunum sem voru látin niður falla voru í málum af öðrum toga. Umfangsmesta málið snerist um vanframtaldar tekjur og fjármagnstekjur vegna greiðslna frá erlendu félagi, vaxtagreiðslna og hlutabréfaviðskipta upp á samtals um 2,2 milljarða króna. Annað stórt mál snerist um vanframtaldar tekjur upp á 876 milljónir króna vegna kaupa á hlutabréfum á lægra verði en gangverði, óheimilar úthlutunar úr lögaðila og vanframtalinna stjórnarlauna.
Þá voru felld niður stór mál sem snérust um tekjur vegna óheimilar úthlutunar úr félögum og vegna framvirkra samninga. Þar voru vanframtaldar tekjur og fjármagnstekjur upp á mörg hundruð milljónir króna í einstökum málum.
Sjólaskipasystkinin ákærð
Það mál úr Panamaskjölunum sem ákært hefur verið í., og hefur vakið mesta athygli, er gegn systkinunum sem áttu áðurnefnda útgerð, Sjólaskip. Systkinin, tveir bræður og tvær systur, voru ákærð fyrir umfangsmikil skattsvik fyrr á þessu ári. Þau seldu fyrirtækið, sem stundaði veiðar við strendur Afríku, til Samherja árið 2007 á 12 milljarða króna og málið snýst meðal annars um skattalega meðferð þeirrar upphæðar.
Nöfn systkinanna fjögurra, þeirra Guðmundar Steinars Jónssonar, Haraldar Reynis Jónssonar, Ragnheiðar Jónu Jónsdóttur og Berglindar Bjarkar Jónsdóttur, var að finna í Panamaskjölunum.
Fréttatíminn greindi frá því í nóvember árið 2016 að skattrannsóknarstjóri hefði kært viðskipti systkinanna í skattaskjólinu Tortólu, sem tilheyrir Bresku Jómfrúareyjunum, til héraðssaksóknara. Í frétt blaðsins kom meðal annars fram að aflandsfélögin á Tortólu hefðu verið notuð til að greiða kreditkortareikninga fjölskyldumeðlima.
Lestu meira:
-
19. desember 2021Forgangsverkefni lögreglu að berjast gegn umfangsmiklu peningaþvætti
-
24. apríl 2021Ásgeir: Fjárfestingaleiðin hefði aldrei gerst á minni vakt
-
2. apríl 2021Það er hægt að ákæra þá sem sviku undan skatti fyrir áratugum fyrir peningaþvætti
-
2. febrúar 2021Fjármálaeftirlitið birtir lista yfir opinber störf sem teljast háttsett
-
31. janúar 2021Ábendingum vegna peningaþvættis hefur fjölgað um 70 prósent á tveimur árum
-
25. september 2020Glæpirnir sem gera aðra glæpi mögulega
-
21. september 2020FinCEN-skjölin: Aumar peningaþvættisvarnir afhjúpaðar
-
12. ágúst 2020Hjaltalín getur ekki fengið millifærslur frá bresku fyrirtæki vegna gráa listans
-
8. maí 2020Landsréttur staðfestir peningaþvættisdóm yfir fyrrverandi borgarfulltrúa
-
26. mars 2020Fossar markaðir mátu ekki upplýsingar um raunverulega eigendur með sjálfstæðum hætti