MYND: GAMMA

Hlupu hratt, uxu mikið en hrösuðu á endanum

Fjármálafyrirtækið GAMMA hefur verið mikið til umfjöllunar undanfarið vegna þess að hluti sjóða þess reyndust ekki jafn burðugir og áður hafði verið greint frá. Vöxtur GAMMA á þeim rúma áratug sem það var sjálfstætt fyrirtæki var hraður og margir högnuðust vel á viðskiptum sínum við það. Nú er hins vegar lítið eftir af því og líklegra en ekki að GAMMA verði vart til í fyrirsjáanlegri framtíð.

Sum­arið 2008, nánar til­tekið í júní, tók til starfa nýtt fjár­mála­fyr­ir­tæki. Því var valið nafnið GAM Mana­gement, en hefur aldrei verið þekkt undir öðru nafni en GAMMA. 

Stofn­end­urnir voru tveir, þeir Gísli Hauks­son og Agnar Tómas Möll­er. Þeir höfðu áður starfað saman í Bún­að­ar­bank­anum og Kaup­þing­i. 

Lík­lega er vart hægt að velja verri tíma til að stofna nýtt fyr­ir­tæki á fjár­mála­mark­aði, sem ætl­aði sér að ein­beita sér að sjóða­stýr­ingu. GAMMA var skráð hjá fyr­ir­tækja­skrá rúmum fjórum mán­uðum áður en nán­ast allt íslenska banka­kerfið hrund­i. 

Fók­us­inn var nokkuð skýr til að byrja með: á skulda­bréfa­mark­að­inn sem stofn­end­urnir töldu óplægðan akur. MP Banki, sem síðar varð að Kviku, keypti 37 pró­sent hlut í fyr­ir­tæk­inu og það fékk starfs­leyfi sem rekstr­ar­fé­lag verð­bréfa­sjóða 20. mars 2009, þegar Ísland var í miðju efna­hags­legu öng­þveiti og enn átti eftir að kom­ast til botns í end­ur­fjár­mögnun nýju við­skipta­bank­anna þriggja. 

Starfs­menn­irnir hjá GAMMA voru fjórir og allt var mjög smátt í snið­um. Fyrsta heila rekstr­ar­árið voru stofn­aðir tveir sjóðir sem áttu sam­an­lagt hreina eign upp á 2,6 millj­arða króna í lok árs 2009. Tap af rekstr­in­um, sem sner­ist um að rukka umsýslu­þókn­anir fyrir að ann­ars dag­legan rekstur sjóð­anna, var 15,3 millj­ónir króna. 

Fast­eigna­fjár­fest­ing­arnar fleyta GAMMA upp á yfir­borðið

GAMMA fór hins vegar að vaxa strax á árinu 2010 og á því ári nam hagn­aður af rekstri fyr­ir­tæk­is­ins 76 millj­ónum króna. Árið síðar var hagn­að­ur­inn kom­inn upp í 125,3 millj­ónir króna. Sjóð­irnir í stýr­ingu voru ekki nema sex, þrír verð­bréfa­sjóðir og þrír fag­fjár­festa­sjóð­ir. Hrein eign þeirra óx hins vegar og var 17,1 millj­arður króna í árs­lok 2011. 

Á því ári varð þó breyt­ing á hjá GAMMA. Þá voru stigin skref inn á markað sem hafði ekki verið fyr­ir­ferða­mik­ill hjá fyr­ir­tæk­inu áður og átti eftir að reyn­ast því ábata­samur en leiða líka til sam­fé­lags­legrar úlfúðar í garð þess, fast­eigna­mark­að­inn.

Árið 2011 var Sölvi Blön­dal, hag­fræð­ingur sem var þekkt­astur fyrir að hafa verið trommari og drif­fjöður hljóm­sveit­ar­innar Quaras­hi, og Ásgeir Jóns­son, þá efna­hags­ráð­gjafi GAMMA og lektor við Háskóla Íslands en í dag seðla­banka­stjóri, beðnir um að skrifa skýrslu um fast­eigna­mark­að­inn á Íslandi. Þar kom fram að hús­næð­is­verð hefði lækkað mikið árið 2009 og hefði ekki náð sér eftir það. Lítið sem ekk­ert hafði þá verið byggt af nýju hús­næði á Íslandi frá hruni og von var á risa­stórum árgöngum á mark­að­inn. Leigu­verð hefði sömu­leiðis lækkað eftir hrunið og leiga væri 20 til 30 pró­sent lægri að raun­virði en hún hafði verið árið 2007. Nið­ur­staða skýrsl­unnar var að fyr­ir­sjá­an­legur skortur væri á hús­næði og að það væri tæki­færi að mynd­ast til að fjár­festa í íbúð­ar­hús­næð­i. 

Skýrslan var kynnt fyrir hópi fjár­festa á lok­uðum fundi í lok árs 2011. Þeir sáu tæki­færin sömu­leiðis og tveir fag­fjár­festa­sjóð­ir, GAMMA: Centrum og GAMMA:  Eclip­se, voru settir á lagg­irnar til að kaupa upp lítið og með­al­stórt íbúð­ar­hús­næði í mið­borg Reykja­víkur og grónum hverfum í kringum hana. Það var gert án þess að mikið færi fyrir því. Það lá á að ná að kaupa eins mikið og hægt væri áður en að aðrir rynnu á lykt­ina. Það tókst vel. 

Veðj­uðu rétt en gagn­rýndir mjög

Tveimur árum síðar var eft­ir­spurnin eftir leigu­hús­næði orðin marg­falt fram­boðið á slíku. Búið var að stofna leigu­fé­lag, sem síðar fékk nafnið Almenna leigu­fé­lag­ið, utan um útleigu íbúð­anna sem sjóð­irnir sem GAMMA stýrðu höfðu keypt, sem voru nokkur hund­ruð. Ljóst var á þróun íbúða- og leigu­verðs að grein­ingin sem sett hafði verið fram í lok árs 2011 hafði verið hár­rétt. Og hækk­anir meira að segja meiri en menn reikn­uðu með. Fjár­fest­ar, sem voru meðal ann­ars líf­eyr­is­sjóð­ir, högn­uð­ust vel og hróður GAMMA sem sjóð­stýr­ing­ar­fyr­ir­tækis óx. 

En fjár­fest­ing í íbúð­ar­hús­næði er ekki eins og að fjár­festa í verð­bréfum eða atvinnu­hús­næði. Hún getur haft bein áhrif á dag­legt líf fólks. Fyrir því fékk GAMMA að finna.

Fyr­ir­tækið var gagn­rýnt fyrir að hafa skrúfað upp leigu­verð, fyrir að beita þrýst­ingi á íbúð­ar­eig­endum í fjöl­býl­is­húsum sem sjóðir þess höfðu keypt sig inn í til að selja og fyrir að vera erfitt í sam­starfi við aðra íbúð­ar­eig­endur þegar kom að við­haldi.Forsíða Kjarnans 30. janúar 2014. 

Í við­tali við Frétta­tím­ann sál­uga sem birt var 22. mars 2013 sagði Svanur Guð­munds­son, þá for­maður Félags lög­giltra leigu­miðl­ara:„ „Þeir eru að búa til bólu sem springur eins og graft­ar­kýli á ung­lingi. Þeir eru líka eins og ung­lingar á þessum mark­aði. Þetta eru bara verð­bréfa­miðl­arar sem eru í öðrum heimi. Það kæmi mér ekk­ert á óvart að leigu­verðið þyrfti að hækka um fimm­tíu pró­sent til að standa undir verði eign­anna. Þessir menn eru ekki tengdir inn á hinn almenna borg­ara.“

For­svars­menn GAMMA tóku gagn­rýn­inni illa og töldu hana ómak­lega. Þeir bentu á að þeir væru hvorki ráð­andi á leigu­mark­aði og að stór­aukin útleiga á íbúð­ar­hús­næði til ferða­manna í gegnum Air­BnB hefði miklu meiri áhrif til hækk­unar á leigu­verði en umsvif sjóða GAMMA. 

Áfram veg­inn

Umfjöll­unin dró hins vegar ekk­ert úr vexti GAMMA. Árið 2012 var hagn­aður félags­ins 225 millj­ónir króna og ári síðar 182,6 millj­ónir króna. Stofn­end­urnir og MP banki voru enn langstærstu eig­end­urnir en í hóp­inn hafði bæst Straum­nes eign­ar­halds­fé­lag, í eigu Ara, Bjargar og Krist­ínar Fen­ger. Það gerð­ist í kjöl­far þess að Jón Sig­urðs­son, fyrr­ver­andi for­stjóri FL Group og eig­in­maður Bjargar Fen­ger, gekk til liðs við GAMMA sum­arið 2012 til að stýra sér­hæfðum fjár­fest­ing­um. Hann hætti störfum þar árið 2016.. 

Auk þess eign­uð­ust lyk­il­starfs­menn­irnir Lýður Þór Þor­geirs­son, Guð­mundur Björns­son og Valdi­mar Ármann á þessum árum minni hluti. Í árs­lok 2013 voru árs­verkin orðin 14, sjóð­irnir í stýr­ingu orðnir 20 (þar af fjórtán fag­fjár­festa­sjóð­ir) og hrein eign sjóð­anna sam­an­lagt um 30,5 millj­arðar króna.

Mesti vöxt­ur­inn var samt sem áður eft­ir. Árið 2014 var hagn­að­ur­inn 258,3 millj­ónir króna og 416,6 millj­ónir króna árið eft­ir. Arð­greiðslur urðu ger­legar og sam­tals voru greiddir úr 300 millj­ónir króna í slíkan á árunum 2013 og 2014. 100 millj­ónir króna bætt­ust við árið eft­ir.  

Þegar þarna var komið við sögu höfðu helstu ein­stak­ling­arnir á bak við GAMMA keypt hlut MP banka á rúmar 200 millj­ónir króna, en það gerð­ist í byrjun árs 2014. Miðað við þann verð­miða var virði fyr­ir­tæk­is­ins um einn millj­arður króna. Arð­greiðsl­urnar dugðu lang­leið­ina fyrir kaup­verð­in­u. 

Þegar komið var inn á árið 2016 voru árs­verkin orðin 21, sjóð­irnir 33 og eignir í stýr­ingu 112 millj­arðar króna. Alls voru 25 þeirra fag­fjár­festa­sjóð­ir, þar sem oftar en ekki er tekin meiri áhætta í von um meiri hagnað á þeim fjár­fest­ingum sem ráð­ist var í. Oft skil­aði þessi áhættu­taka GAMMA, sem hagn­að­ist áfram sem áður á umsýslu- og árang­urstengdum þókn­unum auk sem rekstr­ar­fé­lagið sjálft átti hlut­deild­ar­skír­teini í sjóð­um, góðum arð­i. 

Styrktu menningu og vildu einkafjárfesta í innviðafjárfestingu

Það fór að vera völlur á GAMMA þegar fyrirtækið fór að stækka ört. Strax 2011 var til að mynda greint frá því að GAMMA myndi vera aðalstyrktaraðili Sinfóníuhljómsveitar Íslands.GAMMA flutti í stærra húsnæði í Garðastræti í upphafi árs 2014. Þar var útbúið gallerí til að sýna samtímalist, Gallery GAMMA. Síðar gerðist fyrirtækið aðalstyrkaraðili Reykjavíkurskákmótsins og bakhjarl Hins íslenska bókmenntafélags.

Gísli Hauksson tók þátt í að stofna hugveituna Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt árið 2012 ásamt mönnum á borð við Hannes Hólmstein Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, Jónas Sigurgeirsson bókaútgefanda og Jónmund Guðmarsson, þá framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins sem átti síðar eftir að ganga til liðs við GAMMA.

Ári síðar tók hann við sem formaður fjármálaráðs Sjálfstæðisflokksins, stöðu sem hann gegnir enn. Það ráð hefur aðallega það hlutverk að afla fjár fyrir flokkinn.

GAMMA fór líka að gera umfangsmiklar greiningar á sviðum sem fyrirtækið hafði ekki verið á áður og birta þær opinberlega í formi skýrslna. Árið 2013 var gefin út skýrsla um mögulega lagningu sæstrengs til Íslands og áhrifa þess á íslensk heimili og komist að þeirri niðurstöðu að nær öruggt væri að hann myndi auka þjóðhagslegan ábata Íslendinga.

Þremur árum síðar gaf GAMMA út stóra skýrslu um innviðafjárfestingar þar sem hvatt var til þess að hleypa einkafjárfestum að slíkum. Heildar­umfang verkefna sem nefnd voru í skýrslu GAMMA og voru talin henta í einkafjármögnun nam ríflega 900 milljörðum króna. Meðal fleiri verkefna sem þar voru nefnd var mögulegur sæstrengur, gagnaflutningsfyrirtæki, orkufyrirtæki og lest milli Keflavíkur og Reykjavíkur.

GAMMA vann líka að beinni þátttöku í skilgreindum innviðaverkefnum. Sjóður fyrirtækisins samdi meðal annars um að fjármagna hina umdeildu Hvalárvirkjun og GAMMA myndaði um tíma vinnuhóp með lögfræðistofunni LEX til að skoða byggingu Sundabrautar í einkaframkvæmd.

Á því ári varð met­hagn­aður bók­færð­ur, alls 846 millj­ónir króna. GAMMA hafði haft alls rúma tvö millj­arða króna í þókn­ana­tekj­ur. Þær höfðu tvö­fald­ast á milli ára. Arð­greiðslan nam 300 millj­ónum króna, en hlut­höf­unum hafði fjölgað nokkuð þegar hér var komið við sögu. Þeir Jón­mundur Guð­mars­son, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri Sjálf­stæð­is­flokks­ins sem hafði þá hafið störf hjá GAMMA, og Ragnar Jón­as­son, met­sölu­höf­undur sem hafði verið ráð­inn yfir­lög­fræð­ingur GAMMA á árinu 2015, voru báðir komnir í hlut­hafa­hóp­inn. Gísli og Agnar voru enn langstærstir þar, með sitt hvorn 31 pró­sent hlut­inn. 

Tæki­færin í hafta­losun reynd­ust dýr

Frá árinu 2015 og fram á vorið 2017 voru stig­inn stærstu skrefin í átt að afnámi fjár­magns­haft­anna sem sett höfðu verið upp eftir hrun­ið. Þegar þeim var lyft gátu inn­lendir fag­fjár­fest­ar, sér­stak­lega líf­eyr­is­sjóð­ir, loks leitað út fyrir land­stein­ana eftir fjár­fest­ing­u. 

Líf­eyr­is­sjóð­irnir þurfa enda að finna fjá­fest­ing­ar­tæki­færi ­fyrir á annað hund­rað millj­arða króna á hverju ári og voru komnir upp í topp í þátt­töku í flestum verk­efnum á Íslandi. Raunar var staðan orðin þannig að þeir sem stóðu fyrir verk­efn­un­um, á vett­vangi ýmissa fjár­mála­fyr­ir­tækja, vissu að margir líf­eyr­is­sjóðir þyrftu lík­lega að taka þátt í þeim vegna þess að þeir hefðu úr fáum öðrum tæki­færum að moða. Flóki Hall­­dór­s­­son, þáver­andi fram­­kvæmda­­stjóri ­sjóð­­stýr­ing­­ar­­fyr­ir­tæk­is­ins Stefnis sem er í eig­u ­Arion ­banka, orð­aði stöð­una ágæt­lega á fundi sem hald­inn var í maí 206. Þar sagði að ef líf­eyr­is­sjóð­ir­kæmust ekki  út úr höftum fljót­lega þá verði þeir farnir að kaupa „sjón­vörp og þvotta­­vél­­ar“ eftir nokkur mis­s­eri. Allir aðrir fjár­­­fest­inga­­kostir verð­i ­upp­­­urn­­ir. 

GAMMA, og fleiri í íslenskum fjár­mála­heimi, ætl­uðu að vera til­búnir fyrir þessa breyt­ingu. Sum­arið 2015 hafði fyr­ir­tækið fengið heim­ild til að hefja starf­semi í London og á fyrstu mán­uðum árs­ins 2017, þegar höftin voru að mestu afnum­in, opn­aði GAMMA líka skrif­stofur í New York og Svis­s. 

Gísli Hauksson, annar stofnandi GAMMA, fór að einbeita sér að starfsemi fyrirtækisins erlendis síðustu árin sem hann starfaði fyrir það.
Mynd: Skipan.is

Sam­hliða þessum áherslu­breyt­ingum var skipu­lagi GAMMA breytt. Í febr­úar 2017 var greint frá því að Gísli Hauks­son, sem hafði þá flutt til London, myndi hætta sem for­stjóri og ger­ast stjórn­ar­for­mað­ur. Auk þess ætl­aði hann að stýra upp­bygg­ingu á starf­semi GAMMA í New York og London. Valdi­mar Ármann sett­ist í for­stjóra­stól­inn. Lýður Þór hætti störfum en Ingvi Hrafn Ósk­­ar­s­­son kom inn sem fram­­kvæmda­­stjóri sér­­hæfðra fjár­­­fest­inga og fyr­ir­tækja­verk­efna. 

Í lok árs 2017 virt­ist allt enn í blóma. Hagn­að­ur­inn var 626 millj­ónir króna á árinu. Þóknana­greiðsl­urnar sem höfðu verið inn­heimtar voru áfram rúm­lega tveir millj­arðar króna og alls voru heilir 137 millj­arðar króna í stýr­ingu. Ekki slæmur árangur hjá fyr­ir­tæki sem hafði stýrt 2,6 millj­örðum króna níu árum áður. Arð­greiðsl­urnar ákveðnar 300 millj­ónir króna. Engar slíkar voru hins vegar á end­anum greiddar út á árinu 2018.

Það voru erf­ið­leikar fram und­an.

Dýrt að starfa í útlöndum

Erlenda starf­semin reynd­ist afar kostn­að­ar­söm. Frétta­blaðið greindi frá því að rekstr­ar­kostn­aður GAMMA hefði auk­ist um 65 pró­sent á fyrstu sex mán­uðum árs­ins 2017 vegna þeirra. Á árinu í heild jókst hann um 32 pró­sent og nam tæp­lega 1,4 millj­arði króna. 

Í mars 2018 var til­kynnt um að Gísli myndi alfarið hætta störfum fyrir GAMMA, en myndi vera áfram stærsti hlut­hafi félags­ins. Í til­kynn­ingu sagði að hann myndi nú ein­beita sér að eigin fjár­fest­ingum og fjöl­skyldu sinn­ar, stjórn­ar­setu í fyr­ir­tækjum og verk­efnum á sviði menn­ing­ar­mála. Fyr­ir­tækið væri í góðum höndum sam­starfs­manna til margra ára „og veit ég að GAMMA verður áfram í fremstu röð fjár­­­mála­­fyr­ir­tækja.“

Mán­uði áður hafði skrif­stof­unni í Sviss verið lok­að, innan við ári eftir að hún var opn­uð. Mikil umræða átti sér stað milli aðila á fjár­mála­mark­aði að allt væri ekki eins og það ætti að vera hjá GAMMA og ljóst var að fyr­ir­tækið ætl­aði sér að reyna að ein­beita sér meira að sjóð­stýr­ingu, en minna á mik­illi áhættu­fjár­fest­ingu líkt og verið hafði árin á und­an, og hafði gef­ist vel.

Í júní í fyrra barst til­kynn­ing til Kaup­hallar Íslands um að vilja­yf­ir­lýs­ing hefði verið und­ir­rituð um kaup bank­ans á öllu hlutafé í GAMMA. Kaup­verðið átti að vera tæp­lega 3,8 millj­arðar króna, og greið­ast með ann­ars vegar reiðufé og hins vegar hlutafé í Kviku. „Til­teknar eign­ir“ yrðu hins vegar und­an­skild­ar. Þar var um að ræða meðal ann­ars starfs­manna­leig­una Elju, sem er einn stærsti leik­and­inn á þeim mark­aði hér­lend­is, og verk­taka­starf­semi sem meðal ann­ars leigði sumum þeirra starfs­mönnum sem Elja flutti inn hús­næði. Stærsti eig­andi Elju í dag eru Arnar Hauks­son, bróðir Gísla, en hann hafði áður starfað hjá GAMMA. Auk þess eru Pétur Árni Jóns­son, fram­kvæmda­stjóri Heildar fast­eigna­fé­lags sem rekið var að GAMMA og aðal­eig­andi VIð­skipta­blaðs­ins, og Jón Einar Eyj­ólfs­son á meðal eig­enda. 

Fengu lán hjá Stoðum

Í sept­em­ber keyptu tveir sjóðir í stýr­ingu hjá GAMMA skulda­bréf í frægu skulda­bréfa­út­boði WOW air, sem þá háði dauða­stríð, fyrir tvær millj­ónir evra. Flug­fé­lagið fór síðan í þrot í mars síð­ast­liðnum og litlar sem engar líkur eru taldar á því að nokkuð fáist upp í 138 millj­arða króna almennar kröfur í búið. Við­ræð­urnar við Kviku stóðu enn yfir á þessum tíma og ljóst að eitt­hvað var ekki í lagi í lausa­fjár­stöðu GAMMA. Haustið 2018 lán­aði fjár­fest­inga­fé­lagið Stoðir GAMMA einn millj­arð króna gegn því að fá 15 pró­sent vexti fyrir við­vik­ið. Stjórn­ar­for­maður Stoða er í dag Jón Sig­urðs­son, sem starfaði, líkt og áður sagði, um tíma hjá GAMMA og eig­in­kona hans var á meðal eig­enda fyr­ir­tæk­is­ins. 

Þegar til­kynnt var að saman hefði náðst um kaup Kviku á GAMMA hafði verð­mið­inn lækkað veru­lega. Nú var sam­an­lagt verð sagt 2,4 millj­arðar króna en ekk­ert átti lengur að greið­ast með hlutafé í Kviku. Eig­endur GAMMA áttu að fá 839 millj­ónir króna í reiðufé en rest­ina í hlut­deild­ar­skír­teinum í sjóðum GAMMA og í formi árang­urstengdra greiðslna sem áttu að „greið­ast þegar lang­tíma­kröfur á sjóði GAMMA inn­heimt­ast.“

Ármann Þor­valds­son, þáver­andi for­stjóri Kviku, sagði í til­kynn­ingu að það væri „mik­ill fengur fyrir Kviku að fá góðan hóp til liðs við sig.“ Gísli Hauks­son sagði að það fælust mikil „tæki­færi í þeirri breyt­ingu að kaup­verðið sé greitt að hluta til í hlut­deild­ar­skír­teinum sjóða félags­ins auk þess sem hlut­hafar munu njóta góðs af áfram­hald­andi góðum rekstri sjóð­anna.“

Þegar árs­reikn­ing­ur­inn fyrir 2018 var birtur sást betur glitta í hina breyttu stöðu. Þókn­anna­greiðslur höfðu dreg­ist veru­lega sam­an, úr rúm­lega tveimur millj­örðum króna í 1,3 millj­arð króna. Tekjur GAMMA í heild minnk­uðu um rúm­lega 800 millj­ónir króna, eða um rúm­lega þriðj­ung. Rekstr­ar­kostn­aður hafði hins vegar auk­ist. 

Alls tap­aði GAMMA 268 millj­ónum króna í fyrra. Það var í fyrsta sinn frá árinu 2009 sem tap hafði orðið á rekstr­in­um. 

Kaup­verðið lækkar hratt

Eft­ir­lits­að­ilar sam­þykktu sam­runa Kviku og GAMMA í mars 2019 og í kjöl­farið fengu Stoðir 150 millj­­­óna króna þókn­un­ina sína fyrir að veita GAMMA lán sem var að fullu greitt upp í byrjun mars 2019, eða strax eftir að Kvika banki hafði gengið form­lega frá kaup­unum á GAMMA. Skrif­stofu GAMMA í New York var lokað og skrif­stof­unni í London rennt inn í Kviku Securities.

Áfram var þó kvittur um að ekki væri allt eins og af hefði verið látið hjá GAMMA. Í hálfs­árs­upp­gjöri Kviku banka fyrir árið 2019 kom til að mynda skýrt fram að áhyggjur voru af stöðu sjóða í stýr­ingu hjá GAMMA. 

Um mitt þetta ár hafði Kvika ein­ungis greitt tæp­lega 1,4 millj­arð króna af kaup­verð­inu. Auk þess er greint frá því í hálfs­árs­upp­gjöri Kviku að 200 millj­ónir króna af kaup­verð­inu myndu verða lagðar inn á svo­kall­aðan escrow-­reikn­ing til að mæta mögu­legum kröfum sem Kvika banki gæti gert vegna kaupanna næstu þrjú árin eftir að kaupin voru frá­geng­in. Ef slíkar kröfur mynd­ast ekki á tíma­bil­inu verður fjár­hæðin greidd út til fyrr­ver­andi eig­enda GAMMA. 

Vegna þess að stór hluti kaup­verðs Kviku banka á GAMMA er bund­inn í árang­urstengdum þókn­unum þá liggur áhættan á því að eignir GAMMA súrni hjá fyrr­ver­andi eig­endum félags­ins, ekki bank­an­um. 

Súrir sjóðir

Í lok júní var greint frá því að tveimur fjár­fest­ing­ar­sjóðum félags­ins, GAMMA: Total Return Fund og GAMMA: Global, hefði verið lokað og sjóðs­fé­lögum til­kynnt að við slit þeirra yrðu þeim fjár­munum sem myndu fást við sölu eigna ráð­stafað til hlut­deild­ar­skír­tein­is­hafa. Skömmu áður en að ofan­greindum tveimur sjóðum var lokað þá var fjórum sjóðum GAMMA rennt saman við sjóði Júpít­ers, sem er líka í eigu Kviku banka. 

Í byrjun sept­em­ber 2019 var svo greint frá því að stjórn Kviku banka hefði ákveðið að sam­eina alla eigna- og sjóða­­­stýr­ing­­­ar­­­starf­­­semi sam­­­stæð­unn­­ar í eitt dótt­ur­fé­lag. GAMMA yrði þá ekki lengur til sem sjálf­stæð ein­ing þegar fram liðu stund­ir. Sam­hliða þeirri til­kynn­ingu var greint frá því að Valdi­mar Ármann myndi hætta sem for­stjóri GAMMA.

Í lok þess mán­aðar kom stóri skell­ur­inn. Greint var frá því, með til­kynn­ingu til Kaup­hall­ar, að tveir sjóðir í stýr­ingu GAMMA væru í mun verra standi en gert hafði verið ráð fyr­ir. Um var að ræða sjóði í efsta lagi áhættu sem gæti mögu­lega skilað mik­illi ávöxt­un, og fjár­festar í þeim áttu að vita að þeir væru að taka þátt í verk­efnum sem gætu súrn­að. Það kom hins vegar flestum í opna skjöldu þegar annar sjóð­ur­inn var færður niður að nán­ast öllu leyti, og hinn að miklu leyti.

 Fag­fjár­festar sjá fram á umtals­vert tap vegna þessa, en þó er um litlar upp­hæðir að ræða t.d. þegar horft er á heild­ar­eignir líf­eyr­is­sjóða­kerf­is­ins. Hægt er að lesa ítar­lega umfjöllun um sjóð­ina hér að neð­an.

Eigið fé sem þurrkaðist út

Í lok síðasta mánaðar sendi Kvika banki frá sér tilkynningu til Kauphallar Íslands þar sem greint var frá því að tveir fag­fjár­festa­sjóð­ir, Novus og Anglia, hefðu verið í mun verra ásig­komu­lagi en gert hafði verið ráð fyrir og að skráð gengi þeirra hefði verið lækkað sem því nem­ur. Kjarninn greindi síðar frá því að Novus, sem á fasteignafélagið Upphaf, hafi verið með 4,4 milljarða króna í bókfært eigið fé um síðustu áramót en að það hafi nánast þurrkast út, og væri nú metið á 42 milljónir króna. Í einblöðungi sem sendur var út til hlutdeildarskírteinishafa kom fram að raunveruleg framvinda verkefnisins hafi verið ofmetin.

Novus hafði ráðist í skuldabréfaútboð í sumar og náð sér í 2,7 milljarða króna á mjög háum vöxtum. Ljóst er að þeir sem keyptu í því útboði voru mátulega tortryggnir gagnvart getu sjóðsins til að standa við fyrirheit um að borga þeim til baka á 15 prósent vöxtum eftir tvö ár, þar sem þeir tóku veð í fjölmörgum eignum, meðal annars öllu hlutafé í Upphafi fasteignafélagi, Upphafi fasteignum og fjórum öðrum félögum. Auk þess voru ýmsar fjárkröfum settar að veði og hlutdeildarskírteini í eigu Upphafs í Almenna leigufélaginu eignarhaldssjóði. Þeir voru því með belti og axlabönd, eins og það er kallað.

Hlutdeildarskírteinishafar töpuðu hins vegar umtalsverðu. Novus hafði þegar greitt út 850 milljónir króna í arð en ljóst var að milljarðar sem lagðir höfðu verið inn myndu ekki endurheimtast. Á meðal þeirra sem færðu niður eignir vegna þessa voru tryggingafélögin TM, VÍS og Sjóvá, sem töpuðu samtals 610 milljónum króna. Auk þess höfðu lífeyrissjóðir og einkafjárfestar lagt sjóðnum til fé.

Til að Upphaf geti klárað þau verkefni sem það er með í gangi, en félagið er að byggja á þriðja hundrað íbúðir á höfuðborgarsvæðinu, vantaði milljarð króna í viðbót. Í byrjun viku samþykktu skuldabréfaeigendurnir sem keypt höfðu útgáfuna í sumar að breyta skilmálum hennar og lækka vexti hennar niður í sex prósent. Þá samþykktu þeir að leggja Upphafi til milljarðinn sem upp á vantar samkvæmt nýjustu greiningu svo hægt sé að hámarka endurheimtir. Kvika banki lagði sjálfur til helming þeirrar upphæðar. Í tilkynningu sem GAMMA sendi frá sér vegna þessa kom fram að stjórn fyrirtækisins liti þá stöðu sem upp væri komin mjög alvarlegum augum og að Fjármálaeftirlitið hefði verið upplýst um stöðu sjóðsins. Auk þess hefði stjórnin áðið Grant Thornton sem óháða sér­fræð­inga til þess að fara yfir mál­efni Novus og Upp­hafs. „Á grund­velli nið­ur­stöðu úttektar þeirra verður lagt mat á hvaða frek­ari aðgerða verður gripið til að upp­lýsa um mál­ið. Jafn­framt munu stjórn­endur vinna með hag­höfum að frek­ari upp­lýs­inga­öflun og verður fundur eig­enda sjóðs­ins boð­aður innan skamm­s.“ Á meðal þess sem verið er að skoða er hvort að greiðslur hafi runnið frá Upphafi til félaga sem tengjast fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins, starfsmannaleigunnar Elju, í eigu bróður fyrrverandi forstjóra GAMMA, og verkfræðistofunnar Ferils, samkvæmt frétt Fréttablaðsins.

Hinn sjóðurinn sem var færður niður, GAMMA: Anglia, var stofnaður sumarið 2017. Um var að ræða fast­eigna­sjóð í London sem átti að fjár­festa í hinum ýmsu verk­efn­um. Í frétt Við­skipta­blaðs­ins frá þeim tíma var haft eftir Gísla Hauks­syni að frá­bær tíma­punktur væri fyrir Íslend­inga til að fjár­festa erlend­is. Ákveðið hefði verið að setja sjóð­inn á lagg­irnar í kjöl­far frétta um aflétt­ingu hafta á Íslandi og að umfang hans væri fimm milljarðar króna. Þeir sem settu fé í sjóð­inn voru íslenskir einstaklingar, tryggingafélag og lífeyrissjóðir.

Gengi þess sjóðs, sem fyrir lá að fylgdi mikil áhætta en líka mikil hagnaðarvon ef forsendur hefðu gengið upp, var fært niður úr 105 í 55.

Enda­lokin í aug­sýn

GAMMA er vart til leng­ur. Nær allir lyk­il­starfs­menn GAMMA eru horfnir frá, margir með yfir­lýs­ingum síð­ustu daga um að þeir hafi verið fyrir nokkru ákveðið að breyta til, og hefðu alls ekki verið rekn­ir. Hinn góði hópur sem for­stjóri Kviku hlakk­aði til við að fá til liðs við bank­ann þegar hann keypti GAMMA er orð­inn ansi þunn­ur, raunar telj­andi á fingrum ann­arrar hand­ar. Helst ber að nefna að Agnar Tómas Möll­er, annar stofn­andi GAMMA er for­stöðu­maður skulda­bréfa­mark­aða hjá Júpít­er, dótt­ur­fé­lagi Kviku, og Jón­mund Guð­mars­son, sem starfar innan eigna­stýr­ingar Kviku. 

Á heima­síðu GAMMA eru nú taldir upp níu starfs­menn. Þar af eru fimm sem voru færðir yfir frá Kviku á þessu ári. Auk þeirra er einn starfs­maður í mót­töku, lög­fræð­ing­ur, fjár­mála­stjóri og einn af gömlu eig­end­un­um, Guð­mundur Björns­son. 

Full­vissa Gísla Hauks­sonar þegar hann kvaddi GAMMA, um að fyr­ir­tækið sem hann stofn­aði rétt fyrir hrun myndi áfram verða í fremstu röð fjár­mála­fyr­ir­tækja, virð­ist ekki eiga sér stoð í raun­veru­leik­an­um. 

Fyr­ir­tækið GAMMA, sem flaug hátt, stækk­aði ört, skil­aði mörgum við­skipta­vinum sínum arð­semi um tíma, hafði umtals­verð áhrif á íslenskt sam­fé­lag með atferli sínu, var gagn­rýnt harka­lega en hafði hagn­ast um sam­tals tæpa 2,5 millj­arða króna á ára­tug og greitt eig­endum sínum um 700 millj­ónir króna í arð, virð­ist vera á loka­metrum til­vistar sinn­ar. 



Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar