Mannlíf/Ivan Burkni

Milli tveggja heima – Pólskur veruleiki á Íslandi

Miklar breytingar hafa orðið á íslensku samfélagi á síðustu áratugum og er ein breytan þar gífurlegur fjöldi innflytjenda sem hefur ákveðið að taka sitt hafurtask, söðla um og flytjast landa á milli. Stærsti hópur innflytjenda samanstendur af Pólverjum og hafa þeir eins misjafna reynslu af dvöl sinni á Íslandi og þeir eru margir.

Pól­verjar á Íslandi fóru yfir 20 þús­unda múr­inn í sumar og eru þeir lang­fjöl­menn­asti hópur inn­flytj­enda hér á landi. Þeir byrj­uðu að koma hingað fyrir mörgum ára­tugum en í góð­ær­inu fyrir hrun jókst fjöldi þeirra til muna. Sá fjöldi minnk­aði í og eftir hrun og nú heldur þeim áfram að fjölga. En hvernig líður Pól­verjum á Íslandi, hvaða áskor­anir þurfa þeir helst að glíma við hér á landi og hvernig er hægt að hjálpa þeim að aðlag­ast landi og þjóð? 

Vinnu­að­stæður hér á landi hafa breyst á síð­ustu ára­tugum og má jafn­framt merkja ákveðnar breyt­ingar í við­horfi gagn­vart inn­flytj­end­um. Kjarn­inn náði tali af tveimur Pól­verjum sem búsettir eru hér á landi til að ræða mál­efni tengd pólsku sam­fé­lagi á Íslandi. Annar er sendi­herra Pól­lands og hinn er sér­fræð­ingur sem unnið hefur á Íslandi og rann­sakað tengsl pólsks verka­fólks á Íslandi við heima­landið og hvaða áhrif þessi tengsl hafa á hversu vel þeir hafa sam­lag­­ast ís­­lensku sam­­fé­lag­i. 

Fer að hægj­ast á inn­flytj­endum frá Pól­landi

Ger­ard Pokruszyński er fyrsti pólski sendi­herr­ann á Íslandi en hann tók við stöð­unni í lok árs 2017. Hann segir í sam­tali við Kjarn­ann að erfitt geti verið að reikna út nákvæman fjölda Pól­verja á Íslandi því þrátt fyrir að sam­kvæmt Þjóð­skrá séu þeir rúm­lega 20.000 þús­und tals­ins þá sé lík­legt að þeir séu fleiri. „Inn í þess­ari tölu eru til dæmis ekki þeir sem einnig eru orðnir Íslend­ingar en þeir eru á bil­inu fjögur til fimm þús­und tals­ins.“

Sendi­herr­ann segir að Pól­verjum fjölgi um 2.000 á hverju ári hverju. „Ég tel að þessi þróun muni halda áfram næstu ár. Vegna þess að efna­hags­á­stand í Pól­landi er að verða mun betra þá munu færri koma hingað til lands, að mínu mati. Atvinnu­leysi er um fimm pró­sent núna í Pól­landi og er það á stefnu­skrá nýrrar rík­is­stjórnar að hækka lægstu laun­in. Ef þau mark­mið nást þá þýðir það að lægstu laun­in, sem og miðl­ungs, verða á við helm­ings­laun á Íslandi. Og vegna þess að það kostar mjög mikið að lifa hér á landi þá verða launin svipuð fyrir sömu vinnu hér og í Pól­land­i,“ segir hann.

Á næstu fjórum til átta árum mun fólk því halda áfram að flytja frá Pól­landi til Íslands, að hans mati en eftir það mun fjöld­inn snar­minnka. „Sumir munu auð­vitað ákveða að halda áfram að búa hér á landi en aðrir munu óhjá­kvæmi­lega flytja aftur til Pól­lands.“

Gerard Pokruszyński, sendiherra Póllands á Íslandi.
Bára Huld Beck

Margir sneru til baka í og eftir hrun

Ger­ard bendir á að oft dvelji Pól­verjar hér á landi og vinni í nokkur ár og fari síðan til baka. „Hinn hefð­bundni Pól­verji dvelur hér á landi í tíu til tólf ár en á ein­hverjum tíma­punkti ákveði hann hvort hann vilji halda áfram að vera hér eða fara til bak­a.“ Þar skipti miklu máli hvort börn séu í spil­inu, hvort fólk vilji að afkom­end­urnir alist upp á Íslandi eða í Pól­landi. „Ef börnin fara í íslenska skóla þá er það ákveðnum vand­kvæðum bundið að fara til bak­a.“

Lang­flestir Pól­verjar fluttu hingað til lands fyrir efna­hags­hrunið 2008. Fjölg­aði þeim í kjöl­far þess að Pól­land gekk í Evr­ópu­sam­bandið árið 2004 og þegar tak­mörk­unum á frjálsu flæði launa­fólks frá nýjum ríkjum ESS var aflétt á Íslandi um vorið 2006. Efna­hags­upp­gangur hér á landi á þessum árum hafði mikið að segja og ekki var vöntun á atvinnu í aðdrag­anda hruns­ins. 

Í og eftir hrunið sneru aftur á móti um 7.000 manns aftur til heima­lands­ins og fór þá fjöldi Pól­verja á Íslandi niður í rúm­lega 9.000 manns árið 2012.

Tungu­mála­kennsla númer eitt, tvö og þrjú

Þegar hann er spurður út í það hvort íslensk stjórn­völd geti gert eitt­hvað til að taka betur á móti Pól­verjum svarar hann að þau í sendi­ráð­inu leggi áherslu á aðeins einn hlut: Að bæta aðstöðu fyrir pólsk börn í skól­um. „Fyrir þá sem ákveða að dvelja á Íslandi til lengri tíma er mik­il­vægt að huga að pól­skri tungu­mála­kennslu fyrir börn­in. Það er nauð­syn­legt að geta við­haldið móð­ur­mál­inu því þegar börn eru vel stödd þar þá eiga þau auð­veld­ara með læra önnur tungu­mál.“

Auð­vitað verði þau að læra íslenska tungu­málið en til þess að þau geti gert það vel þá sé mik­il­vægt fyrir þau að fá góða kennslu í pólsku einnig. „Ef þau velja síðan að búa hér áfram þá aukast tæki­færi þeirra ef þau eru góð í íslensku. Þetta hef ég einnig rætt við mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herrann, Lilju Alfreðs­dótt­ur, að börnin læri pólsku og íslensku. Það er auð­vitað eðli­legt að þau læri tungu­málið í land­inu þar sem þau búa.“

Betur má ef duga skal

Pólskur orðaforði barna á aldrinum 4 til 6 ára sem eiga pólska foreldra en hafa alist upp á Íslandi frá fæðingu eða frumbernsku er innan viðmiðunarmarka fyrir eintyngd pólsk börn. Þetta kemur fram í rannsókninni Pólskur og íslenskur orðaforði tvítyngdra leikskólabarna eftir Anetu Figlarska, Rannveigu Oddsdóttur, Samúel Lefever og Hrafnhildi Ragnarsdóttur sem birt var í lok árs 2017. Þetta eru jákvæðar niðurstöður því góð tök á móðurmáli hafa jákvæð áhrif á tileinkun annars máls.

Íslenskur orðaforði þeirra var hins vegar mun slakari en orðaforði eintyngdra íslenskra barna á sama aldri. Niðurstöður úr spurningakönnun sýndu að fyrir tveggja ára aldur höfðu öll börnin fyrst og fremst heyrt pólsku dagsdaglega en lítil kynni haft af íslensku. Foreldrar barnanna voru meðvitaðir um mikilvægi þess að börnin þeirra lærðu pólsku og hlúðu vel að máltöku hennar.

Í rannsókninni kemur fram að fái börn góða kennslu í leikskólunum og áfram í grunnskólunum geti þau hæglega náð viðunandi tökum á íslensku. Niðurstöður fyrri rannsókna bendi hins vegar til þess að þar þurfi að gera betur því tvítyngd börn sem alast upp á Íslandi virðist ekki ná góðum tökum á íslensku og svipaðar vísbendingar megi sjá í þessari rannsókn þar sem staða eldri barnanna var síst betri en þeirra yngri.

Fengu tæki­færi til að aðlag­ast

Anna Wojtynska er doktor í mann­fræði frá Háskóla Íslands en hún kom fyrst til Íslands árið 1996 og lýsir hún gjör­ó­líkum aðstæðum Pól­verja hér á landi á þeim tíma. Hún segir að þeir hafi ein­ungis verið nokkur hund­ruð tals­ins, flestir hafi búið í þorpum úti á landi og aðeins örfáir í Reykja­vík.

Hún flutti síðan til Ísa­fjarðar árið 2005. „Fyrst þegar pólskir inn­flytj­endur fluttu til þess­ara þorpa þá höfðu þeir tæki­færi til að aðlag­ast sam­fé­lag­inu. Til að mynda var litið á pólskar konur sem komu til Ísa­fjarðar og eign­uð­ust íslenskan maka og töl­uðu íslensku sem inn­fædd­ar. Svo þegar fólk talar um „þessa Pól­verja“ þá er það lík­leg­ast ekki að tala um til dæmis þessar kon­ur.“ Þannig megi segja að þegar Pól­verjar aðlag­ist vel þá sé á vissan hátt ekki lengur litið á þá sem „Pól­verja“.

Svo þegar fólk talar um „þessa Pólverja“ þá er það líklegast ekki að tala um til dæmis þessar konur.

Hún hefur rætt við marga Pól­verja í rann­sóknum sín­um, bæði úti á landi og á höf­uð­borg­ar­svæð­inu en flestir vinna í fisk­vinnslu úti á landi. „Fólk finnur því ekki fyrir því að það sé lág­stétt og jafn­vel hér í Reykja­vík segja sumir að vinna þeirra sé metin að verð­leikum og þar af leið­andi séu þeir einnig metnir að verð­leik­um.“

Upp­lifun ólík eftir ein­stak­lingum

Anna telur þó að þetta hafi breyst að ein­hverju leyti á und­an­förnum árum. Eftir að svo margir Pól­verjar komu til lands­ins til að vinna og eftir að sam­band atvinnu­rek­enda og laun­þega breytt­ist þá hafi við­horfin jafn­framt breyst. Þá hafi til að mynda einn við­mæl­andi hennar sagt að Íslend­ingar komi fram við þau eins og varn­ing. Sumum líði eins og þeir séu inn­flutt vinnu­afl og ekk­ert meira. Hún tekur sér­stak­lega fram að ástandið hafi þó ekki verið full­komið hér áður fyrr og sé ekki alslæmt núna. Sumt hafi lag­ast með tím­anum og nefnir hún sem dæmi að ákveðin vit­und­ar­vakn­ing hafi orðið varð­andi mik­il­vægi pólska tungu­máls­ins. Á öðrum sviðum hafi við­horf Íslend­inga versn­að. 

Anna Wojtynska kom fyrst til Íslands árið 1996.
Bára Huld Beck

Hópur Pól­verja fjöl­breyttur

Að flytja búferlum milli landa og festa rætur í öðru landi getur verið flók­ið. Þegar Anna er spurð út í við­horf Pól­verja gagn­vart Íslandi sem heim­kynnum þá segir hún að það sé auð­vitað ólíkt milli ein­stak­linga. „Ein pólsk kona sem ég tók við­tal við fyrir um þremur árum og býr enn hér á Íslandi, en hún hefur lík­lega búið hér hálfa ævina, talar enn eins og hún sé hérna tíma­bund­ið. Það er til fólk eins og hún. Og hún lifir sínu eigin lífi á Íslandi en eng­inn úr fjöl­skyld­unni hennar býr á Íslandi þannig að í hvert sinn sem hún á frí þá fer hún heim til þeirra," segir hún og bætir því við að vinnan haldi þess­ari til­teknu konu hér á land­i. 

„En stundum er ekki hægt að gefa ein­falt svar við þess­ari spurn­ingu. Nýlega kynnt­ist ég konu sem flutti hing­að, dvaldi í stuttan tíma og sneri aftur til Pól­lands en nú er hún aftur komin og seg­ist vilja búa á Ísland­i,“ segir hún. 

Anna segir að önnur breyt­ing sem orðið hafi á und­an­förnum árum sé sú að hópur Pól­verja sé orð­inn mjög fjöl­breyttur hvað varðar ald­ur, plön og vonir og hvaðan þau komi frá Pól­landi. „Hér eru far­and­verka­menn sem eiga fjöl­skyldur í Pól­landi og munu þeir snúa aftur til síns heima. Svo er til fólk sem er mitt á milli og einnig fólk sem er búið að koma sér vel fyrir hér.“

Pólska sam­fé­lagið hér á landi svipað hinu íslenska

Þegar Anna er spurð út í það hvort pólska sam­fé­lagið standi styrkum fótum hér á landi segir hún að það virki svipað og hið íslenska. „Sumir Pól­verjar myndu segja að við séum ekki nógu sam­heldin og hjálp­umst ekki nægi­lega að en á hinn bóg­inn hef ég séð að þetta virkar eins og á meðal Íslend­ing­anna. Sam­fé­lagið er smátt þannig að við vitum hvert af öðru og það er mun auð­veld­ara að mynda sam­bönd.“ Hún telur sjálf að pólska sam­fé­lagið sé mjög sam­heldið enda hafi hún séð mörg dæmi þess á þessum árum sem hún hefur dvalið á Ísland­i. 

Samfélagið er smátt þannig að við vitum hvert af öðru og það er mun auðveldara að mynda sambönd.

Hún segir frá pól­skri vin­konu sinni sem flutti til Dan­merkur eftir að hafa búið hér á landi um nokk­urt skeið. „Hún sagði að það væri mun auð­veld­ara að tengj­ast Pól­verjum hér en úti í Kaup­manna­höfn. Hún vann í þrifum þar rétt eins og hér en borgin er svo stór.“

Hóp­arnir innan pólska sam­fé­lags­ins eru orðnir nokkuð margir, að sögn Önnu. Þá sé til að mynda búið að stofna hlaupa­hóp, ljós­mynd­ara­hóp og svo fram­veg­is. Þannig séu Pól­verjar orðnir nógu margir á Íslandi til að mynda ýmiss konar hópa í kringum ákveðin áhuga­mál.

„Það er ljóst að Pól­verja langar að hitt­ast og koma sér á fram­færi. Og þeir telja Íslend­inga á meðal sinna bestu vina og kunna vel við þá sem ein­stak­linga. Aftur á móti getur heild­ar­myndin litið aðeins öðru­vísi út, sér­stak­lega hvað varðar vinnu­að­stæð­ur. Þær hafa breyst mik­ið, finnst mér, síðan góð­ærið hófst. Þær hafa versn­að,“ segir hún. 

Skiptir máli að vera hluti af vinnu­staðnum

Varð­andi við­horf gagn­vart Pól­verjum á Íslandi þá segir Anna að vegna stærðar hóps­ins þá sé auð­veld­ara að líta á þau sem nafn­lausan hóp frekar en sem ein­stak­linga og sem fjöl­mennt vinnu­afl í ófag­lærðum störf­um. „Áður fyrr var hrein­gern­inga­fólkið oft­ast ráðið beint af atvinnu­rek­and­anum en nú er það breytt. Nú sjá sér­stök fyr­ir­tæki um ráðn­ingar og hefur það fyr­ir­komu­lag breytt teng­ingu inn á vinnu­stöð­un­um. Nú er það fólk, sem ráðið er í gegnum þjón­ustu­fyr­ir­tæki, ekki hluti af starfs­manna­hópn­um. Það skapar sundr­ung.“

Anna telur þar af leið­andi að þegar fólk er ráðið beint en ekki í gegnum þjón­ustu­fyr­ir­tæki mynd­ist önnur dýnamík milli starfs­manna. Það skipti máli að vera hluti af vinnu­staðnum en ekki ein­hvern veg­inn á jaðr­in­um. Þess vegna gagn­rýnir hún til að mynda þessi ræst­ing­ar­fyr­ir­tæki og segir hún að launin séu oft það lág að fólk rétt nær endum sam­an. 

Geta fallið milli tveggja heima

En hvernig er það að vera inn­flytj­andi á Íslandi, að mati Önnu? Hún segir í því sam­hengi að sjálfs­mynd fólks sé mis­mun­andi, enda aðlag­ist fólk með ólíkum hætti og jafn­framt séu aðstæður ólík­ar. Hún bendir á að aug­ljós­lega líti Pól­verjar, sem búið hafa lengi hér á landi, á sig í fyrsta lagi sem Pól­verja en einnig sem Íslend­inga. „Fyrir suma er mik­il­vægt að halda í þessa sjálfs­mynd. Fyrir börn er þetta aftur á móti flókn­ara. Stundum eru for­eldr­arnir bæði Íslend­ingar og Pól­verjar,“ segir hún. Þá falli þau jafn­vel milli þess­ara tveggja heima og geti börnin litið á sig sem bæði Íslend­inga og Pól­verja. 

„Við lifum á tímum þar sem fjöl­breyti­leik­anum er fagn­að. Það er því ákveð­inn kostur þegar fólk er með ólíkan bak­grunn. Það er þó erf­ið­ara fyrir Pól­verja að við­ur­kenna þjóð­erni sitt á Íslandi þegar hlut­irnir eru orðnir þannig að þeir vinna í lág­launa­vinnu. Ef sam­fé­lagið verður mjög stétta­skipt – jafn­vel eftir þjóð­erni – þá erum við komin á mjög slæman stað,“ segir hún. 

Frétta­skýr­ingin birt­ist einnig í nýjasta tölu­blaði Mann­lífs. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar