Milli tveggja heima – Pólskur veruleiki á Íslandi
Miklar breytingar hafa orðið á íslensku samfélagi á síðustu áratugum og er ein breytan þar gífurlegur fjöldi innflytjenda sem hefur ákveðið að taka sitt hafurtask, söðla um og flytjast landa á milli. Stærsti hópur innflytjenda samanstendur af Pólverjum og hafa þeir eins misjafna reynslu af dvöl sinni á Íslandi og þeir eru margir.
Pólverjar á Íslandi fóru yfir 20 þúsunda múrinn í sumar og eru þeir langfjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi. Þeir byrjuðu að koma hingað fyrir mörgum áratugum en í góðærinu fyrir hrun jókst fjöldi þeirra til muna. Sá fjöldi minnkaði í og eftir hrun og nú heldur þeim áfram að fjölga. En hvernig líður Pólverjum á Íslandi, hvaða áskoranir þurfa þeir helst að glíma við hér á landi og hvernig er hægt að hjálpa þeim að aðlagast landi og þjóð?
Vinnuaðstæður hér á landi hafa breyst á síðustu áratugum og má jafnframt merkja ákveðnar breytingar í viðhorfi gagnvart innflytjendum. Kjarninn náði tali af tveimur Pólverjum sem búsettir eru hér á landi til að ræða málefni tengd pólsku samfélagi á Íslandi. Annar er sendiherra Póllands og hinn er sérfræðingur sem unnið hefur á Íslandi og rannsakað tengsl pólsks verkafólks á Íslandi við heimalandið og hvaða áhrif þessi tengsl hafa á hversu vel þeir hafa samlagast íslensku samfélagi.
Fer að hægjast á innflytjendum frá Póllandi
Gerard Pokruszyński er fyrsti pólski sendiherrann á Íslandi en hann tók við stöðunni í lok árs 2017. Hann segir í samtali við Kjarnann að erfitt geti verið að reikna út nákvæman fjölda Pólverja á Íslandi því þrátt fyrir að samkvæmt Þjóðskrá séu þeir rúmlega 20.000 þúsund talsins þá sé líklegt að þeir séu fleiri. „Inn í þessari tölu eru til dæmis ekki þeir sem einnig eru orðnir Íslendingar en þeir eru á bilinu fjögur til fimm þúsund talsins.“
Sendiherrann segir að Pólverjum fjölgi um 2.000 á hverju ári hverju. „Ég tel að þessi þróun muni halda áfram næstu ár. Vegna þess að efnahagsástand í Póllandi er að verða mun betra þá munu færri koma hingað til lands, að mínu mati. Atvinnuleysi er um fimm prósent núna í Póllandi og er það á stefnuskrá nýrrar ríkisstjórnar að hækka lægstu launin. Ef þau markmið nást þá þýðir það að lægstu launin, sem og miðlungs, verða á við helmingslaun á Íslandi. Og vegna þess að það kostar mjög mikið að lifa hér á landi þá verða launin svipuð fyrir sömu vinnu hér og í Póllandi,“ segir hann.
Á næstu fjórum til átta árum mun fólk því halda áfram að flytja frá Póllandi til Íslands, að hans mati en eftir það mun fjöldinn snarminnka. „Sumir munu auðvitað ákveða að halda áfram að búa hér á landi en aðrir munu óhjákvæmilega flytja aftur til Póllands.“
Margir sneru til baka í og eftir hrun
Gerard bendir á að oft dvelji Pólverjar hér á landi og vinni í nokkur ár og fari síðan til baka. „Hinn hefðbundni Pólverji dvelur hér á landi í tíu til tólf ár en á einhverjum tímapunkti ákveði hann hvort hann vilji halda áfram að vera hér eða fara til baka.“ Þar skipti miklu máli hvort börn séu í spilinu, hvort fólk vilji að afkomendurnir alist upp á Íslandi eða í Póllandi. „Ef börnin fara í íslenska skóla þá er það ákveðnum vandkvæðum bundið að fara til baka.“
Langflestir Pólverjar fluttu hingað til lands fyrir efnahagshrunið 2008. Fjölgaði þeim í kjölfar þess að Pólland gekk í Evrópusambandið árið 2004 og þegar takmörkunum á frjálsu flæði launafólks frá nýjum ríkjum ESS var aflétt á Íslandi um vorið 2006. Efnahagsuppgangur hér á landi á þessum árum hafði mikið að segja og ekki var vöntun á atvinnu í aðdraganda hrunsins.
Í og eftir hrunið sneru aftur á móti um 7.000 manns aftur til heimalandsins og fór þá fjöldi Pólverja á Íslandi niður í rúmlega 9.000 manns árið 2012.
Tungumálakennsla númer eitt, tvö og þrjú
Þegar hann er spurður út í það hvort íslensk stjórnvöld geti gert eitthvað til að taka betur á móti Pólverjum svarar hann að þau í sendiráðinu leggi áherslu á aðeins einn hlut: Að bæta aðstöðu fyrir pólsk börn í skólum. „Fyrir þá sem ákveða að dvelja á Íslandi til lengri tíma er mikilvægt að huga að pólskri tungumálakennslu fyrir börnin. Það er nauðsynlegt að geta viðhaldið móðurmálinu því þegar börn eru vel stödd þar þá eiga þau auðveldara með læra önnur tungumál.“
Auðvitað verði þau að læra íslenska tungumálið en til þess að þau geti gert það vel þá sé mikilvægt fyrir þau að fá góða kennslu í pólsku einnig. „Ef þau velja síðan að búa hér áfram þá aukast tækifæri þeirra ef þau eru góð í íslensku. Þetta hef ég einnig rætt við mennta- og menningarmálaráðherrann, Lilju Alfreðsdóttur, að börnin læri pólsku og íslensku. Það er auðvitað eðlilegt að þau læri tungumálið í landinu þar sem þau búa.“
Betur má ef duga skal
Pólskur orðaforði barna á aldrinum 4 til 6 ára sem eiga pólska foreldra en hafa alist upp á Íslandi frá fæðingu eða frumbernsku er innan viðmiðunarmarka fyrir eintyngd pólsk börn. Þetta kemur fram í rannsókninni Pólskur og íslenskur orðaforði tvítyngdra leikskólabarna eftir Anetu Figlarska, Rannveigu Oddsdóttur, Samúel Lefever og Hrafnhildi Ragnarsdóttur sem birt var í lok árs 2017. Þetta eru jákvæðar niðurstöður því góð tök á móðurmáli hafa jákvæð áhrif á tileinkun annars máls.
Íslenskur orðaforði þeirra var hins vegar mun slakari en orðaforði eintyngdra íslenskra barna á sama aldri. Niðurstöður úr spurningakönnun sýndu að fyrir tveggja ára aldur höfðu öll börnin fyrst og fremst heyrt pólsku dagsdaglega en lítil kynni haft af íslensku. Foreldrar barnanna voru meðvitaðir um mikilvægi þess að börnin þeirra lærðu pólsku og hlúðu vel að máltöku hennar.
Í rannsókninni kemur fram að fái börn góða kennslu í leikskólunum og áfram í grunnskólunum geti þau hæglega náð viðunandi tökum á íslensku. Niðurstöður fyrri rannsókna bendi hins vegar til þess að þar þurfi að gera betur því tvítyngd börn sem alast upp á Íslandi virðist ekki ná góðum tökum á íslensku og svipaðar vísbendingar megi sjá í þessari rannsókn þar sem staða eldri barnanna var síst betri en þeirra yngri.Fengu tækifæri til að aðlagast
Anna Wojtynska er doktor í mannfræði frá Háskóla Íslands en hún kom fyrst til Íslands árið 1996 og lýsir hún gjörólíkum aðstæðum Pólverja hér á landi á þeim tíma. Hún segir að þeir hafi einungis verið nokkur hundruð talsins, flestir hafi búið í þorpum úti á landi og aðeins örfáir í Reykjavík.
Hún flutti síðan til Ísafjarðar árið 2005. „Fyrst þegar pólskir innflytjendur fluttu til þessara þorpa þá höfðu þeir tækifæri til að aðlagast samfélaginu. Til að mynda var litið á pólskar konur sem komu til Ísafjarðar og eignuðust íslenskan maka og töluðu íslensku sem innfæddar. Svo þegar fólk talar um „þessa Pólverja“ þá er það líklegast ekki að tala um til dæmis þessar konur.“ Þannig megi segja að þegar Pólverjar aðlagist vel þá sé á vissan hátt ekki lengur litið á þá sem „Pólverja“.
Svo þegar fólk talar um „þessa Pólverja“ þá er það líklegast ekki að tala um til dæmis þessar konur.
Hún hefur rætt við marga Pólverja í rannsóknum sínum, bæði úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu en flestir vinna í fiskvinnslu úti á landi. „Fólk finnur því ekki fyrir því að það sé lágstétt og jafnvel hér í Reykjavík segja sumir að vinna þeirra sé metin að verðleikum og þar af leiðandi séu þeir einnig metnir að verðleikum.“
Upplifun ólík eftir einstaklingum
Anna telur þó að þetta hafi breyst að einhverju leyti á undanförnum árum. Eftir að svo margir Pólverjar komu til landsins til að vinna og eftir að samband atvinnurekenda og launþega breyttist þá hafi viðhorfin jafnframt breyst. Þá hafi til að mynda einn viðmælandi hennar sagt að Íslendingar komi fram við þau eins og varning. Sumum líði eins og þeir séu innflutt vinnuafl og ekkert meira. Hún tekur sérstaklega fram að ástandið hafi þó ekki verið fullkomið hér áður fyrr og sé ekki alslæmt núna. Sumt hafi lagast með tímanum og nefnir hún sem dæmi að ákveðin vitundarvakning hafi orðið varðandi mikilvægi pólska tungumálsins. Á öðrum sviðum hafi viðhorf Íslendinga versnað.
Hópur Pólverja fjölbreyttur
Að flytja búferlum milli landa og festa rætur í öðru landi getur verið flókið. Þegar Anna er spurð út í viðhorf Pólverja gagnvart Íslandi sem heimkynnum þá segir hún að það sé auðvitað ólíkt milli einstaklinga. „Ein pólsk kona sem ég tók viðtal við fyrir um þremur árum og býr enn hér á Íslandi, en hún hefur líklega búið hér hálfa ævina, talar enn eins og hún sé hérna tímabundið. Það er til fólk eins og hún. Og hún lifir sínu eigin lífi á Íslandi en enginn úr fjölskyldunni hennar býr á Íslandi þannig að í hvert sinn sem hún á frí þá fer hún heim til þeirra," segir hún og bætir því við að vinnan haldi þessari tilteknu konu hér á landi.
„En stundum er ekki hægt að gefa einfalt svar við þessari spurningu. Nýlega kynntist ég konu sem flutti hingað, dvaldi í stuttan tíma og sneri aftur til Póllands en nú er hún aftur komin og segist vilja búa á Íslandi,“ segir hún.
Anna segir að önnur breyting sem orðið hafi á undanförnum árum sé sú að hópur Pólverja sé orðinn mjög fjölbreyttur hvað varðar aldur, plön og vonir og hvaðan þau komi frá Póllandi. „Hér eru farandverkamenn sem eiga fjölskyldur í Póllandi og munu þeir snúa aftur til síns heima. Svo er til fólk sem er mitt á milli og einnig fólk sem er búið að koma sér vel fyrir hér.“
Pólska samfélagið hér á landi svipað hinu íslenska
Þegar Anna er spurð út í það hvort pólska samfélagið standi styrkum fótum hér á landi segir hún að það virki svipað og hið íslenska. „Sumir Pólverjar myndu segja að við séum ekki nógu samheldin og hjálpumst ekki nægilega að en á hinn bóginn hef ég séð að þetta virkar eins og á meðal Íslendinganna. Samfélagið er smátt þannig að við vitum hvert af öðru og það er mun auðveldara að mynda sambönd.“ Hún telur sjálf að pólska samfélagið sé mjög samheldið enda hafi hún séð mörg dæmi þess á þessum árum sem hún hefur dvalið á Íslandi.
Samfélagið er smátt þannig að við vitum hvert af öðru og það er mun auðveldara að mynda sambönd.
Hún segir frá pólskri vinkonu sinni sem flutti til Danmerkur eftir að hafa búið hér á landi um nokkurt skeið. „Hún sagði að það væri mun auðveldara að tengjast Pólverjum hér en úti í Kaupmannahöfn. Hún vann í þrifum þar rétt eins og hér en borgin er svo stór.“
Hóparnir innan pólska samfélagsins eru orðnir nokkuð margir, að sögn Önnu. Þá sé til að mynda búið að stofna hlaupahóp, ljósmyndarahóp og svo framvegis. Þannig séu Pólverjar orðnir nógu margir á Íslandi til að mynda ýmiss konar hópa í kringum ákveðin áhugamál.
„Það er ljóst að Pólverja langar að hittast og koma sér á framfæri. Og þeir telja Íslendinga á meðal sinna bestu vina og kunna vel við þá sem einstaklinga. Aftur á móti getur heildarmyndin litið aðeins öðruvísi út, sérstaklega hvað varðar vinnuaðstæður. Þær hafa breyst mikið, finnst mér, síðan góðærið hófst. Þær hafa versnað,“ segir hún.
Skiptir máli að vera hluti af vinnustaðnum
Varðandi viðhorf gagnvart Pólverjum á Íslandi þá segir Anna að vegna stærðar hópsins þá sé auðveldara að líta á þau sem nafnlausan hóp frekar en sem einstaklinga og sem fjölmennt vinnuafl í ófaglærðum störfum. „Áður fyrr var hreingerningafólkið oftast ráðið beint af atvinnurekandanum en nú er það breytt. Nú sjá sérstök fyrirtæki um ráðningar og hefur það fyrirkomulag breytt tengingu inn á vinnustöðunum. Nú er það fólk, sem ráðið er í gegnum þjónustufyrirtæki, ekki hluti af starfsmannahópnum. Það skapar sundrung.“
Anna telur þar af leiðandi að þegar fólk er ráðið beint en ekki í gegnum þjónustufyrirtæki myndist önnur dýnamík milli starfsmanna. Það skipti máli að vera hluti af vinnustaðnum en ekki einhvern veginn á jaðrinum. Þess vegna gagnrýnir hún til að mynda þessi ræstingarfyrirtæki og segir hún að launin séu oft það lág að fólk rétt nær endum saman.
Geta fallið milli tveggja heima
En hvernig er það að vera innflytjandi á Íslandi, að mati Önnu? Hún segir í því samhengi að sjálfsmynd fólks sé mismunandi, enda aðlagist fólk með ólíkum hætti og jafnframt séu aðstæður ólíkar. Hún bendir á að augljóslega líti Pólverjar, sem búið hafa lengi hér á landi, á sig í fyrsta lagi sem Pólverja en einnig sem Íslendinga. „Fyrir suma er mikilvægt að halda í þessa sjálfsmynd. Fyrir börn er þetta aftur á móti flóknara. Stundum eru foreldrarnir bæði Íslendingar og Pólverjar,“ segir hún. Þá falli þau jafnvel milli þessara tveggja heima og geti börnin litið á sig sem bæði Íslendinga og Pólverja.
„Við lifum á tímum þar sem fjölbreytileikanum er fagnað. Það er því ákveðinn kostur þegar fólk er með ólíkan bakgrunn. Það er þó erfiðara fyrir Pólverja að viðurkenna þjóðerni sitt á Íslandi þegar hlutirnir eru orðnir þannig að þeir vinna í láglaunavinnu. Ef samfélagið verður mjög stéttaskipt – jafnvel eftir þjóðerni – þá erum við komin á mjög slæman stað,“ segir hún.
Fréttaskýringin birtist einnig í nýjasta tölublaði Mannlífs.
Lesa meira
-
16. desember 2022Segir Múlaþing ekki vera að útiloka flóttafólk frá öðrum ríkjum en Úkraínu
-
14. desember 2022Hlutverk RÚV ekki „að mála opinbera embættismenn upp sem einhverjar grýlur“
-
13. desember 2022„Í alvörunni vinna engar gribbur hjá Útlendingastofnun“
-
9. desember 2022Segja stjórnarmeirihlutann stilla öryrkjum upp á móti útlendingum
-
8. desember 2022Leggja til að fjölskyldur sem ekki var hægt að senda úr landi fái dvalarleyfi
-
6. desember 2022„Þau hefðu bara átt góðan séns á því að fá hæli á Íslandi“
-
17. nóvember 2022Ítalskir lögregluþjónar hafi undrast komu Antons og Viktoríu
-
17. nóvember 2022Fáum verið vísað frá Noregi og Danmörku til Grikklands á grundvelli verndar þar
-
16. nóvember 2022Telja að heimilislausum muni fjölga og mansal aukast ef útlendingalögum verði breytt
-
15. nóvember 2022Svona varð ég „glæpamaður“ á Íslandi