Þrír flokkar leggja til þrjár leiðir sem brjóta upp tangarhald á sjávarútvegi
Verði nýtt frumvarp að lögum verður tangarhald nokkurra hópa á íslenskum sjávarútvegi brotið upp. Allar útgerðir sem halda á meira en eitt prósent kvóta verða að skrá sig á markað og skilyrði um hvað teljist tengdir aðilar þrengd mjög. Þá mætti enginn einn eiga meira en tíu prósent í útgerð sem héldi á meira en átta prósent af heildarkvóta.
Þingmenn úr þremur stjórnarandstöðuflokkum: Viðreisn, Samfylkingu og Pírötum, hafa lagt fram frumvarp sem felur í sér kúvendingu á því kerfi sem er við lýði vegna nýtingarréttar á fiskveiðiauðlindinni.
Í frumvarpinu felast þrjár megin breytingar. Í fyrsta lagi verði þeir aðilar skilgreindir sem tengdir sem eiga að minnsta kosti tíu prósent hlutafjár í öðrum sem heldur á meira en eitt prósent kvóta. Sama gildi um kröfur sem geri það að verkum að ætla megi að eigandi þeirra hafi áhrif á rekstur aðila sem ræður yfir eitt prósent hlutafjár eða meira. Samkvæmt gildandi lögum þarf sjávarútvegsfyrirtæki að eiga meirihluta í annarri útgerð til að hún teljist tengd, en eftirlit með því hvað teljist tengdir aðilar hefur auk þess verið í lamasessi.
Í öðru lagi er lagt til að allir þeir sem ráða yfir eitt prósent heildaraflahlutdeildar þurfi að stofna hlutafélag um reksturinn og skrá félagið á markað. Það myndi þýða, að óbreyttu, að 21 sjávarútvegsfyrirtæki þyrftu að skrá sig á markað til viðbótar við Brim, sem er eina fyrirtækið sem heldur á kvóta sem er skráð í dag.
Í þriðja lagi leggur frumvarpið til að að settar verði takmarkanir við hlutafjáreign eða atkvæðisrétt einstakra hluthafa og tengdra aðila í útgerðum sem fara með átta til tólf prósent af kvóta. Í frumvarpinu segir að í slíkum útgerðarfyrirtækjum eigi enginn aðili, einstaklingur, lögaðili eða tengdir aðilar, að eiga „meira en tíu prósent af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti í viðkomandi aðila. Þessu ákvæði er ætlað að koma í veg fyrir frekari samþjöppun eignaraðildar í allra stærstu útgerðarfyrirtækjunum.“
Allur þingflokkur Viðreisnar stendur að frumvarpinu og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins, er fyrsti flutningsmaður þess. Auk þeirra eru Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, og Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, flutningsmenn þess. Flokkarnir þrír sem standa að frumvarpinu hafa verið að mælast með á bilinu 35 til 38 prósent sameiginlegt fylgi í könnunum undanfarna mánuði og starfa þegar saman í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, ásamt Vinstri grænum.
Sagt aldrei mikilvægara út af Samherjaskjölunum
Í fréttatilkynningu frá Viðreisn vegna framlagningu frumvarpsins segir að þótt frumvarpið hafi verið í ríflega ár í undirbúningi hjá Viðreisn „þá hefur það sjaldan verið jafn mikilvægt og nú, í ljósi frétta af úr svonefndum Samherjaskjölum.“
Ljóst er að frumvarpið myndi kúvenda því kerfi sem nú er við lýði, þar sem mikil samþjöppun hefur átt sér stað á meðal þeirra sem hafa fengið úthlutað kvóta, eða hafa keypt úthlutaðan kvóta af öðrum.
Til að veiða fisk í íslenskri lögsögu þarf að komast yfir úthlutaðan kvóta. Slíkur er að uppistöðu í höndum nokkurra fyrirtækjahópa samkvæmt yfirliti um úthlutun sem Fiskistofa birti í september. Lög segja að tengdir aðilar megi ekki halda á meira en 12 prósent kvótans hverju sinni.
Eins og lögin eru í dag má einn aðili halda á allt að tólf prósent af kvóta. Eftirlit með því hvort að stærstu sjávarútvegsfyrirtækin hafi farið yfir það mark hefur hins vegar verið í molum.
Kanna ekki yfirráð tengdra aðila
Ríkisendurskoðun benti á það í stjórnsýsluúttekt á Fiskistofu, sem birt var í janúar síðastliðnum, að hún kanni ekki hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum væri í samræmi við lög. Þ.e. að eftirlitsaðilinn með því að enginn hópur tengdra aðila ætti meira en 12 prósent af heildarafla væri ekki að sinna því eftirliti í samræmi við lög. Ríkisendurskoðun sagði í skýrslu sinni að ráðast þyrfti í endurskoðun á ákvæðum laga um stjórn fiskveiða um „bæði yfirráð og tengsl aðila svo tryggja megi markvisst eftirlit með samþjöppun aflaheimilda“.
Vegna þessarar stöðu, þar sem eftirlitið hefur verið í molum, þá hefur átt sér stað mikil samþjöppun í geiranum.
Í september 2019 var Samherji, stærsta útgerðarfyrirtæki landsins sem nýlega var ásakað um vafasama og mögulega ólöglega viðskiptahætti víða um heim, með 7,1 prósent úthlutaðs kvóta. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,3 prósent kvótans og Sæból fjárfestingafélag heldur á 0,64 prósent hans. Síldarvinnslan heldur á 5,3 prósent allra aflaheimilda og sjávarútvegsfyrirtækið Bergur-Huginn er síðan með 2,3 prósent kvótans en það er að öllu leyti í eigu Síldarvinnslunnar.
Samanlagt er aflahlutdeild þessara aðila er því rúmlega 16,6 prósent.
Fleiri líka stórir
Brim, eina skráða sjávarútvegsfyrirtækið, er eitt og sér komið yfir kvótahámarkið í ákveðinni tegund og hefur sex mánuði til að koma sér undir það. Alls hélt félagið á 10,4 prósent alls kvóta í byrjun september.
Stærsti eigandi Brim er Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á um 46,26 prósent hlut í því félagi eftir að hafa selt stóran hlut til KG Fiskverkunar fyrir skemmstu. Það félag var 1. september síðastliðinn með 3,9 prósent af öllum úthlutuðum kvóta. Auk þess var félagið Ögurvík með 1,3 prósent aflahlutdeild. Stærstu einstöku eigendur þess eru Guðmundur Kristjánsson, aðaleigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur og forstjóri Brims, og tvö systkini hans með samanlagðan 36,66 prósent endanlegan eignarhlut. Eigandi KG Fiskverkunar er Hjálmar Þór Kristjánsson, bróðir Guðmundar.
Samanlagður kvóti þessara þriggja félaga, sem eru ekki skilgreind sem tengd, var því 15,6 prósent í byrjun september síðastliðins.
Kaupfélag Skagfirðinga á síðan FISK Seafood, sem heldur á 5,3 prósent heildarkvótans auk þess sem FISK á allt hlutafé í Soffanías Cecilsson hf., en það fyrirtæki heldur á um 0,3 prósent kvótans.. FISK á líka 32,9 prósent í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum sem er með fimm prósent heildaraflahlutdeild. Samtals nemur heildarkvóti þessara þriggja aðila 10,6 prósent.
Vísir og Þorbjörn í Grindavík halda síðan samanlagt á 8,4 prósent af heildarkvótanum, en þau tilkynntu fyrr á þessu ári að þau ætli sér að sameinast. Samanlagt eru þessar fjórar blokkir á tæplega 53 prósent kvótans hið minnsta.
Á meðal annarra útgerða sem myndu þurfa að skrá sig á markað ef frumvarpið yrði að lögum eru Skinney-Þinganes (4,2 prósent af kvóta), Ísfélag Vestmannaeyja (3,8 prósent af kvóta) og Rammi hf. (3,5 prósent af kvóta).
Lestu meira:
-
9. mars 2021Samherji sagður hafa greitt laun í Færeyjum til að komast hjá skattgreiðslum í Namibíu
-
9. mars 2021Þorsteinn Már kærir Jóhannes uppljóstrara til lögreglu fyrir rangar sakargiftir
-
8. mars 2021Íslenskir rannsakendur hafa aflað upplýsinga um þrjú félög tengd Samherja í Færeyjum
-
27. febrúar 2021Samherji Holding hefur enn ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2019
-
8. febrúar 2021Gagnaöflun skattrannsóknarstjóra um rekstur félags í Belís talin lögmæt
-
6. febrúar 2021Héraðssaksóknari fékk bókhald Samherjasamstæðunnar með dómsúrskurði
-
31. desember 2020Árið þar sem allar alvöru tilraunir til að breyta sjávarútvegskerfinu voru kæfðar
-
14. desember 2020Réttarhöld í Samherjamálinu í Namíbíu hefjast í apríl
-
14. desember 2020Samherji segir James Hatuikulipi hafa sent Jóni Óttari póst um leynireikninga, ekki öfugt
-
13. desember 2020Raunveruleg ástæða þess að norskur stórbanki sagði upp viðskiptum við Samherja