Birta niðurstöðu athugana á peningaþvættisvörnum ríkisbanka fyrir jól
Fjármálaeftirlitið mun birta niðurstöðu athugana á peningaþvættisvörnum Landsbankans og Íslandsbanka, sem báðir eru í ríkiseigu, og Kviku banka, sem er einkabanki, á næstu tveimur vikum. Áður hefur eftirlitið birt niðurstöðu Arion banka. Í þeirri athugun opinberuðust fjölmargar brotalamir.
Niðurstöður á athugun á aðgerðum Landsbankans, Íslandsbanka og Kviku banka gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem Fjármálaeftirlitið hefur þegar framkvæmd, verður birtar fyrir jól, eða á næstu tveimur vikum. Þá verður niðurstaða á athugun á einu eftirlitsskyldu fyrirtæki til viðbótar einnig birt í nánustu framtíð.
Þetta kemur fram í svari eftirlitsins við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Athuganir á bönkunum þremur hófust á mismunandi tíma fyrr á þessu ári. Áður hafði Fjármálaeftirlitið framkvæmt athugun á Arion banka, en hún hófst í október 2018.
Þann 29. maí síðastliðinn birti Fjármálaeftirlitið niðurstöðu athugunar á aðgerðum Arion banka gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þar kom meðal annars fram að bankinn hefði sent eftirlitinu áætlun um ýmis konar úrbætur og að þeim yrði fylgt eftir.
Fjármálaeftirlitið segist ekki geta veitt upplýsingar um hvaða úrbætur það væru né í hverju eftirfylgnin væri fólgin.
Í svari eftirlitsins sagði enn fremur: „Auk framangreindra athugana standa nú yfir tvær vettvangsathuganir til viðbótar. Jafnframt hefur Fjármálaeftirlitið framkvæmt þemaathugun hjá 38 eftirlitsskyldum aðilum varðandi afmarkaðan þátt í tengslum við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og eru þær athuganir á lokametrunum.“
Ísland á gráum lista
Alþjóðlegur vinnuhópur um um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, Financial Action Task Force (FATF), skilaði kolsvartri úttekt á frammistöðu Íslands í málaflokknum í apríl í fyrra. Í kjölfarið var gripið til mikils átaks sem í fólst að uppfæra lög, regluverk og framfylgni eftirlits með peningaþvættis hérlendis.
Allt kom fyrir ekki og á endanum reyndust aðgerðirnar ekki nægjanlegar. Ísland var sett á gráan lista fyrir að bregðast ekki nægilega vel við fjölmörgum athugasemdum samtakanna um brotalamir í vörnum gegn peningaþvætti á Íslandi í október síðastliðnum. Auk Íslands bættust Mongólía og Simbabve á listann. Á meðal annarra ríkja sem þar er að finna, og talin eru að séu með alvarlega annmarka á sviði varna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, eru Kambódía, Jemen, Sýrland og Panama.
Ein af athugasemdunum sem FATF gerði sneri að því að ekki þurfti að greina frá raunverulegum eigendum félaga á Íslandi. Enda felst í því að þekkja ekki viðskiptavininn, að þekkja ekki hvaðan peningarnir hans koma.
Fjölmargar athugasemdir við stöðuna hjá Arion banka
Hér á landi hefur eftirlit með slíku aðallega verið á hendi banka. Í kjölfar þess að FATF gerði úttekt á Íslandi þá hóf Fjármálaeftirlitið að gera nýjar athuganir á íslenskum fjármálafyrirtækjum og getu þeirra til að verjast peningaþvætti.
Enn sem komið er hefur Fjármálaeftirlitið einungis birt niðurstöðu athugunar sinnar á einum banka, Arion banka. Fyrir liggur að það var fyrsta athugunin sem eftirlitið réðst í eftir að FATF hafði gefið Íslandi falleinkunn í apríl 2018. Niðurstaðan var, líkt og áður sagði, birt 29. maí síðastliðinn, rúmum fjórum mánuðum eftir að niðurstaða athugunarinnar lá fyrir. Það var gert að beiðni Arion banka sem vildi fá að bregðast við úrbótakröfum áður en niðurstaðan yrði gerð opinber. Bankinn segist hafa brugðist við öllum úrbótakröfum.
Í athugun Fjármálaeftirlitsins á Arion banka kom meðal annars fram að bankinn hefði hefði ekki metið með sjálfstæðum hætti hvort upplýsingar um raunverulega eigendur viðskiptavina væru réttar og fullnægjandi og að þær upplýsingar hafi ekki verið uppfærðar með reglulegum hætti, líkt og lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka gerðu ráð fyrir. Eftirlitið gerði einnig athugasemd um að Arion banki hefði ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni í tilviki erlends viðskiptavinar, það taldi að reglubundið eftirlit bankans með viðskiptavinum hafi ekki fullnægt kröfum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka né að verklag í tengslum við uppfærslu á upplýsingum um viðskiptavini hafi ekki verið fullnægt. Þá taldi Fjármálaeftirlitið að skýrslur Arion banka um grunsamlegar og óvenjulegar færslur hefðu ekki verið fullnægjandi.
Gáfu Kviku góða einkunn 2017
Á árinu 2017, áður en að áfellisdómur FATF lá fyrir, framkvæmdi Fjármálaeftirlitið athuganir á peningaþvættisvörnum ýmissa eftirlitsskylda aðila. Á meðal þeirra voru fjármálastofnanir.
Þannig lauk eftirlitið athugun á Kviku banka í febrúar 2017. Í niðurstöðu þeirrar athugunar, sem er dagsett 14. mars 2017 og er ekki hálf blaðsíða að lengd, segir að í athuguninni hafi verið lögð sérstök áhersla á könnun Kviku á „áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn sína, reglubundið eftirlit með samningssambandinu við viðskiptamenn, tilkynningarskyldu og þjálfun starfsfólks.“
Niðurstöður athugunarinnar hafi verið byggðar á upplýsingum og gögnum sem aflað var við athugunina og stöðunni eins og hún var á þeim tíma sem athugunin fór fram. Í niðurstöðunni segir að það hafi verið mat Fjármálaeftirlitsins að framkvæmd Kviku við könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn sína, reglubundið eftirlit með þeim, tilkynningarskyldu og þjálfun starfsfólks væri almennt viðunandi. Nokkrar ábendingar hafi verið settar fram um atriði sem betur mætti fara. En heilt yfir stóðst Kvika banki prófið. Rúmum tveimur árum, og einni falleinkunn frá FATF, síðar sá Fjármálaeftirlitið tilefni til að taka Kviku banka, og alla hina bankanna, til nýrrar athugunar.
Sparisjóðirnir fengu athugasemdir
Í október 2017 hóf Fjármálaeftirlitið á stöðu peningaþvættisvarna hjá öllum starfandi sparisjóðumlandsins, þ.e. Sparisjóði Austurlands hf., Sparisjóði Höfðhverfinga ses., Sparisjóði Strandamanna ses. og Sparisjóði Suður-Þingeyinga ses. Sömu þættir voru skoðaðir og hjá Kviku banka.
Niðurstöður athugunarinnar lágu fyrir í maí 2018. Þær voru á þá leið að tilefni þótti til að gera ýmsar athugasemdir, m.a. við reglubundið eftirlit með samningssambandi við viðskiptamenn.
Í niðurstöðunni sagði einnig: „Fjárhæðarmörk viðskipta sem tölvukerfi sparisjóðanna flaggaði voru að mati Fjármálaeftirlitsins of há og stillingarmöguleikar kerfisins ekki nýttir til fulls. Til þess að koma auga á viðskipti sem grunur leikur á að megi rekja til peningaþvættis eða fjármögnun hryðjuverka þarf að stilla virkni tölvukerfa á þann hátt að mörgum minni færslum hjá sama viðskiptamanni sé flaggað þegar ákveðnum fjárhæðarmörkum er náð og varpað sé ljósi á óeðlilegt viðskiptamynstur miðað við uppgefnar upplýsingar um tilgang og eðli viðskipta. Þar fyrir utan var það mat Fjármálaeftirlitsins að sparisjóðirnir stæðu ekki nægilega vel að því að uppfæra með reglulegum hætti upplýsingar um viðskiptamenn sína. Fjármálaeftirlitið fór fram á að viðeigandi úrbætur yrðu gerðar.“
Í lok nóvember síðastliðins var greint frá því að sparisjóðir landsins muni ekki lengur geta þjónustað viðskiptavini sína með erlendar millifærslur vegna þess að samstarfsaðili sparisjóðanna, Kvika banki, getur ekki lengur veitt þessa þjónustu vegna krafna frá erlendum samstarfsaðila hans. Ástæðan fyrir þessu eru auknar kröfur erlendra fyrirtækja, í tengslum við varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Lestu meira:
-
19. desember 2021Forgangsverkefni lögreglu að berjast gegn umfangsmiklu peningaþvætti
-
24. apríl 2021Ásgeir: Fjárfestingaleiðin hefði aldrei gerst á minni vakt
-
2. apríl 2021Það er hægt að ákæra þá sem sviku undan skatti fyrir áratugum fyrir peningaþvætti
-
2. febrúar 2021Fjármálaeftirlitið birtir lista yfir opinber störf sem teljast háttsett
-
31. janúar 2021Ábendingum vegna peningaþvættis hefur fjölgað um 70 prósent á tveimur árum
-
25. september 2020Glæpirnir sem gera aðra glæpi mögulega
-
21. september 2020FinCEN-skjölin: Aumar peningaþvættisvarnir afhjúpaðar
-
12. ágúst 2020Hjaltalín getur ekki fengið millifærslur frá bresku fyrirtæki vegna gráa listans
-
8. maí 2020Landsréttur staðfestir peningaþvættisdóm yfir fyrrverandi borgarfulltrúa
-
26. mars 2020Fossar markaðir mátu ekki upplýsingar um raunverulega eigendur með sjálfstæðum hætti