Bankarnir bentu aldrei á neina alvöru viðskiptavini
Á árunum fyrir hrun, þegar framin voru stórfelld efnahagsbrot í bankakerfinu og víðar, var Helgi Magnús Gunnarsson yfir efnahagsbrotadeild landsins. Hann segir að peningaþvættistilkynningar hafi flestar borist frá gjaldkerum vegna pilta í fíkniefnaviðskiptum en að bankarnir hafi aldrei sent ábendingar um stóru viðskiptavinina sem voru að flytja milljarða milli staða. Þá bendir hann á að það ráði enginn utanaðkomandi sérfræðinga til að finna sannleikann um sig, enda ekki rökrétt að leggja sönnunargögn fram gegn sjálfum sér.
Helgi Magnús Gunnarsson hefur verið vararíkissaksóknari frá árinu 2011. Þar áður hafði hann veitt efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra forstöðu frá árinu 2007. Hann stundaði auk þess á sínum tíma framhaldsnám í rannsókn og saksókn efnahagsbrota við Polithøgskolen.
Á þessum árum hefur hann komið að öllum stærstu efnahagsbrotamálum sem saksótt hafa verið á Íslandi, fyrst Baugsmálinu, síðan þeim málum sem voru til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeildinni á meðan að hann stýrði henni og loks sótti hann flest stóru hrunmálin í Hæstarétti þegar þeim var áfrýjað þangað sem ríkissaksóknari.
Hann hefur því miklar reynslu af efnahagsbrotum og yfirsýn yfir þær breytingar sem orðið hafa í þeim málaflokki á undanförnum árum. Frá sinnuleysinu sem var fyrir hrunið, að auknum kröfum um aðgerðir og ábyrgð eftir það, og yfir í ákveðið sinnuleysi á ný.
Þetta er í þriðja sinn sem höfundur tekur viðtal við Helga Magnús um þessi mál. Fyrstu tvö skiptin áttu þau sér stað árið 2007 og svo síðsumars 2008, skömmu fyrir bankahrunið. Í þeim báðum gagnrýndi hann harðlega þann aðbúnað og þær aðstæður sem rannsakendum efnahagsbrota voru sniðnar.
Sá tónn hefur lítið breyst á þeim rúma áratug sem liðinn er.
Athugasemdir komu ekki á óvart
Þegar Helgi Magnús var saksóknari efnahagsbrotadeildar þá heyrði hin svokallaða peningaþvættisskrifstofa undir hann.
Peningaþvætti hefur verið mikið til umfjöllunar á Íslandi síðustu vikur, eftir að alþjóðlegu samtökin Financial Action Task Force (FATF) settu Ísland á gráan lista í október. Það gerðist í kjölfar þess að Ísland fékk falleinkunn í úttekt samtakanna sem birt var í apríl 2018, og síðan mistekist að verða við öllum úrbótarkröfum innan gefins tímaramma.
Helgi Magnús segir að það hafi ekki komið honum á óvart að það hefðu komið fram athugasemdir við stöðuna á Íslandi í úttektinni, en að það hafi komið honum á óvart að Ísland hefði verið sett á gráan lista. „Við vorum að fá neikvæða umsögn og mér fannst það ekkert skrýtið. Þetta er bara eins og svo margt hjá okkur Íslendingum. Við erum aldrei með neitt langtíma plan, heldur erum alltaf bara að slökkva elda. Við erum allt of oft að bregðast við vandanum eftir á í stað þess að fyrirbyggja hann í tíma. Ég held að þetta sé bara þannig að menn séu frá degi til dags að ákveða í hvað peningar eiga að fara. Það kostar peninga að gera breytingar og tryggja að varnir landsins gegn peningaþvætti séu í lagi. Það var enginn að garga á stjórnmálamenn til að setja peninga í peningaþvættisvarnir og það var enginn að hlusta á okkur sem vorum að benda á þetta.“
Þetta var í annað sinn sem Ísland kom illa út úr FATF úttekt. Í fyrra skiptið gerðist það 2006.
Aðspurður um hvernig þessum málum hafi verið háttað hjá peningaþvættisskrifstofunni, sem heyrði þá undir hann, á sínum tíma segir Helgi Magnús að það hafi verið einn starfsmaður á henni. „Hann var líka í öðrum verkefnum. Það að kalla þetta skrifstofu var meira að forminu til en að efninu til.“
Viðkomandi hafi verið verið lögreglufulltrúi, staðið sig ágætlega og verið duglegur að afla upplýsinga. „Þetta var byggt upp þannig að það komu skriflegar ábendingar nær eingöngu á þessum tíma frá bönkum og sparisjóðum. Þær voru færðar inn í möppu og svo var búið til eitthvað utanumhald sem einn starfsmaður setti saman, þar sem hægt var að skrásetja grunnupplýsingar upp úr þessum ábendingum.
Úrvinnslan var síðan þannig að þessi starfsmaður las ábendingarnar yfir og mat hvort eitthvað væri gerandi með þetta og kom svo til okkar með hugmyndir hvort það væri eitthvað sem við ættum að bregðast við. Vitneskja lögregluyfirvalda um hugsanlegt peningaþvætti ræðst að miklu leyti af því hvort þeir sem eru tilkynningaskyldir tilkynni um grunsamlegar peningafærslur til peningaþvættisskrifstofunnar. Það komu nokkur mál upp sem áttu upphaf sitt í slíkum tilkynningum, til dæmis varðandi konu sem var að hafa fé af eldri karlmönnum víða um landið. Það kom eftir ábendingu starfsmanns Íslandsbanka úti á landi. Svo voru tvö mál Nígeríumanna sem voru að svindla sem ég man eftir. Allt þetta fólk hlaut þunga dóma fyrir fjársvik eftir rannsókn sem hófst með ábendingu um mögulegt peningaþvætti“
Flestar tilkynningar tengdust fíkniefnaviðskiptum
Á þessum árum hafði Ísland opnast mikið og fjármagnsflutningar milli landa, samhliða auknum umsvifum einkavæddu bankanna, margfaldast. Það sem var athyglisvert í þessum uppgangi þarna fyrir hrun var að það komu aldrei neinar ábendingar um neina alvöru viðskiptavini frá bönkunum. Það var verið að flytja milljarða í gegnum bankana í allskyns viðskiptum. Ég hafði spurnir af því frá aðila sem þekkti til í Seðlabankanum á þessum tíma, þar sem er yfirsýn yfir gjaldeyrisfærslur, að honum hafi fundist sumar af þessum færslum hafa verið þannig að kannski hafi verið ástæða til þess að skoða þær. En við fengum aldrei ábendingar frá bönkunum um þetta.“
Helgi Magnús segir að á þessum árum hafi verið haldin námskeið fyrir bankastarfsmenn þar sem farið var yfir skyldur þeirra til að tilkynna samkvæmt peningaþvættislögum. Samt hafi 80-85 prósent allra tilkynninga verið tengdar fíkniefnaviðskiptum, þegar einstaklingar fóru í banka til að kaupa sér gjaldeyri til að kaupa fíkniefni í Hollandi eða annars staðar. „Þessi námskeið náðu ágætlega til gjaldkera í bönkunum. En fyrir þá sem voru að eiga við þessa stóru viðskiptavini, og voru að millifæra stórar upphæðir fyrir þá, þeir kusu að koma ekki þessum upplýsingum á framfæri. Nú ætla ég ekkert að fullyrða að það hafi verið tilefni til þess en mér finnst líklegt að í einhverjum tilvikum hafi eitthvað verið sem hefði átt að leiða til að upplýsingum yrði að minnsta kosti komið á framfæri þannig að meta mætti hvort tilefni væri til frekari rannsóknar. Stórar fjármunafærslur, tilkynningar um þær, við bara sáum þær held ég aldrei.“
Reiðin ýtti við ráðamönnum
Það var þó ekki einungis í þeim málum sem snéru að peningaþvætti sem pottur var brotinn í aðbúnaði efnahagsbrotadeildarinnar á þessum árum. Helgi Magnús var óhræddur við að gagnrýna þá ójöfnu stöðu sem gefin var þegar kom að rannsókn efnahagsbrota árunum fyrir hrun, og gerði það meðal annars í áðurnefndum tveimur viðtölum við Blaðið 2007 og 24 Stundir sumarið 2008. Í hinu fyrra, á hátindi bankagóðærisins, sagði hann meðal annars: „Það er enginn sem gerir athugasemd við það að refsa manni sem stelur sér kókflösku á Laugaveginum og oft verður mikil umræða um lítil mál sem valda takmörkuðum skaða. Þegar hvítflibbar eiga í hlut og það fréttist að þeir hafi jafnvel stungið ævitekjum verkamannsins undan skatti skapast oft engin opinber umræða um málið. Það er þetta sem ég vil að fólk vakni til vitundar um. Þessir hagsmunir almennings sem við erum að berjast fyrir eru svo gríðarlega miklir. Þessir menn sem við fáumst við eru í þeirri aðstöðu að geta svipt okkur starfinu, eignunum og eftirlaununum.“
Þetta truflar hann enn í dag. Hann segist hafa talað fyrir því að efnahagsbrotadeildin yrði styrkt á sínum tíma þar sem að það hefði ekki verið neitt samhengi milli stærðar deildarinnar og stærðar atvinnulífsins á þessum tíma. „Svo gerðist það eftir hrunið að þá verður nógu mikil reiði í samfélaginu til að menn neyðast til að horfast í augu við þetta og finna það á eigin skinni að efnahagsbrot geti kannski snert einhvern. Það ríkti skilningur á að nauðgun, níð á börnum, manndráp eða annað ofbeldi og fíkniefnamál væru glæpir sem hefðu áhrif á samfélagið. En það var alltaf erfitt að fá ráðamenn til að skilja að efnahagsbrot gætu haft einhverja raunverulega þýðingu fyrir þá eða hagsmuni samfélagsins í heild.“
Ákæruvald þarf að vera sjálfstætt
Hrunmálin voru sótt af miklum krafti og mörg þeirra skiluðu þungum dómum yfir þeim sem sátu á sakamannabekk í þeim. Í miðri á, þ.e. árið 2013, var hins vegar ráðist í mikinn niðurskurð á framlögum til embættis sérstaks saksóknara, sem gerði það meðal annars að verkum að embættið gat ekki klárað rannsókn á mörgum málum tengdum hruninu. Nýlega, þegar Samherjamálið svokallaða kom upp á yfirborðið, varð svo harðvítug pólitísk umræða um hvers konar fjárheimildir embætti héraðssaksóknara, sem sinnir nú efnahagsbrotarannsóknum, þyrfti til að geta tekist á við það. Í minnisblaði sem Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari sendi til dómsmálaráðuneytisins í nóvember kom fram að um hundrað mál biði rannsóknar hjá embættinu og að núverandi starfsmannafjöldi dygði ekki til að sinna öllum þeim rannsóknarverkefnum sem það þarf að takast á við að óbreyttu, hvað þá viðbótarmálum af stærra umfangi. Meiri fjármuni þyrfti til.
Helgi Magnús segir að þetta sé orðið kunnuglegt stef. „Ákæruvaldið þarf að vera sjálfstætt. Með sjálfstæði á ég við að það séu engin utanaðkomandi öfl, peningaöfl eða pólitísk sem hafi áhrif á afgreiðslur sakamála. Það er mjög mikilvægt. Stærsti þátturinn í sjálfstæði ákæruvaldsins er að það hafi peninga til að sinna þeim verkefnum sem ákæruvaldið á að sinna. Besta leiðin til að skerða sjálfstæði ákæruvaldsins og skerða getu þess til að rannsaka og saksækja mál er að passa upp á að það hafi ekki næga peninga. Það er ósköp einfalt.“
Ómöguleg staða fyrir ráðamenn að vera í
Að hans mati er það ómöguleg staða að vera í að pólitísk kjörinn ráðherra sé að veita sérstaklega fjárheimildir til rannsókna eða saksókna á tilteknum málum. „Í okkar smáa og fámenna kerfi koma reglulega upp stór mál sem setja alla verkefnastöðu á hliðina. Ef slík mál eiga að fá fullnægjandi framgang innan eðlilegs tíma þarf oft tímabundið að fjölga starfsmönnum og kosta meiru til einnig vegna annarra mála sem annars geta lent á bið. Til þess þarf að tryggja peninga og fjárveitingavaldið er hjá Alþingi en oftast með milligöngu ráðherra sem gera tillögur um fjárútlátin. Slíkar ákvarðanir um fjárútlát í einstökum málum eru óheppilegar. Í fyrsta lagi býður þetta upp á það að, ef við værum með þannig stjórnmálamenn að þeir vilji hafa áhrif á niðurstöðu stórra efnahagsbrotamála gegn fjársterkum aðilum sem gætu verið tengdir þeim á einhvern hátt, að þeir vilji nú kannski ekkert að þetta eða hitt málið fái framgang. Þetta býður líka heim þeirri hættu að stjórnmálamenn eru settir í þá aðstöðu að trúverðugleiki þeirra er alltaf undir.
Hæfi getur bæði virkað þannig að ef þú ert vanhæfur, vegna tengsla við einhvern aðila máls, þá getur þú misnotað aðstöðu þína þeim í hag sem er þér tengdur, en þú getur líka lent í því að til að sanna að þú sért ekki að misnota aðstæður þínar þá gengurðu lengra en tilefni er til og brýtur á þeim hinum sama. Hæfi snýst því ekki endilega um raunverulega misnotkun á stöðu einhverjum til góðs eða ills heldur að það sé hægt að treysta því að slíkt gerist ekki. Þetta er ómögulegar aðstæður fyrir bæði ákæruvaldið og stjórnmálamenn að vera í.“
Helgi Magnús segist hafa rætt þessi mál við ríkissaksóknara á hinum Norðurlöndunum á fundi þeirra fyrir nokkrum árum þar sem sjálfstæði ákæruvaldsins var til umfjöllunar og hvort framgangur einstakra stórra mála ráðist af sérstökum fjárheimildum sem veittar eru utan hins venjulega ramma fjárlaga. Í máli þeirra hafi komið fram að þar væri ætið svigrúm innan ákæruvaldsins til að færa til fé þegar það þarf á því að halda þegar einhver stórmál koma upp. „Þetta þurfum við að gera hér þannig að það þurfi ekki að eiga sér stað samtal við ráðherra um hvort að um mál sé að ræða sem hann telur að peningar eigi að fara í svo við getum sinnt þeim. Það er ómöguleg staða fyrir alla, ekki síst ráðherrann. Hvaða stjórnmálamaður eða ráðherra vill sitja undir því að verða stanslaust tortryggður við slíkar aðstæður. Hann getur ekki tekið góða ákvörðun, hún er tortryggð á hvorn veginn sem er. Ég vill þó taka fram að ég er ekki að ætla neinum stjórnmálamanni, eða ráðherra, að vilja hafa óeðlileg áhrif á ákæruvaldið eða hefta rannsóknir, en því miður getur slíkt komið upp eins og dæmin sanna. Það er nauðsynlegt að tryggja að hvergi sé ástæða til að efast um sjálfstæði ákæruvaldsins og fullt gagnsæi sé í samskiptum þessara aðila.“
Svolítið til í því að hér sé einnota réttarfar
Helgi Magnús segir þessa „stemmningu“ sem ríki hverju sinni líka vera sýnilega hjá dómstólunum sjálfum. „Það skrifaði einu sinni maður nafnlaust bréf um einnota réttarfar í Baugsmálinu[Jón Steinar Gunnlaugsson, sem þá var dómari í Hæstarétti, opinberaði að hann hefði skrifað þetta bréf í bók sem hann gaf út árið 2014]. Ég held að það sé nokkuð til í þessu. Ég hef verið að flytja þessi hrunmál mörg hver í Hæstarétti og Landsrétti. Og í nánast hverju máli er verið að sveifla dómum í Baugsmálinu, þar sem sakarefnum var vísað frá dómi, og krefjast frávísunar. Það er aldrei uppi á borðinu. Það er bara liðin tíð að málum sé vísað frá á þeim forsendum nema eitthvað meira komi til.
Í Baugsmálinu þá var mikið af gögnum og það var þungt að setja sig inn í það. En það var að mínu mati ekki skilningur á því hjá dómstólum að þarna væru ekki um raunveruleg viðskipti að ræða heldur raunveruleg viðfangsefni fyrir ákæruvald og lögreglu. Þar var atriðum lýst sem eðlilegum viðskiptum sem við töldum augljóslega ekki vera það. Maður bara skildi ekki í sumum tilvikum í hvaða heimi menn byggju ef þeir teldu það sem þar var lýst vera eðlileg viðskipti. Með því ætla ég ekki að halda því fram að sakborningar hafi verið sekir um eitthvað sem þeir voru sýknaðir af. Það er auðvitað ekki hægt. Sumt hefði átt að fá efnislega umfjöllun í stað frávísunar. En meginreglan á að vera að sakamál fái efnislega umfjöllun, en það virtist ekki vera meginreglan sem gilti um stærri efnahagsbrotamál fyrir hrun.
En svo kemur hrunið og þá fóru menn í dómskerfinu raunverulega að horfast í augu við þetta. Það er mikið átak fyrir til dæmis Hæstarétt sem var með gríðarlega mörg mál, kannski fjögur eða fimm sakamál í hverri viku auk einkamála, og mikið álag. Svo koma verjendur eða saksóknarar með gríðarlegan bunka af gögnum um efnahagsbrotamál og ætlast til þess að dómararnir fari að eyða heilu vikunum í að lesa sig inn í málin. Efnisatriðin eru ekki eitthvað sem þeir hafa lært í lagadeild heldur þurfti þeir raunverulega, dómararnir eins og ákærendur og lögregla, að setja sig inn í málin.“
Dómstólarnir vildu fara auðveldari leiðina
„Mér fannst, fyrir hrun, að það skorti þennan vilja eða þrek ef það má orða það svo. Þess vegna voru margar frávísanir á málum sem okkur fannst augljóslega hafa átt að fá efnislega umfjöllun. Þetta leit þannig út þá að dómstólarnir veldu að fara auðveldari leiðina, í staðinn fyrir að setja sig efnislega inn í málið. Það er vel hægt að sætta sig við efnislega umfjöllun sem leiðir til niðurstöðu sem e.t.v. var ekki sú sem lagt var upp með af hálfu ákæruvalds, en það gildir annað um að málum, sem kostað hefur verið miklu til við rannsókn, sé vísað frá án efnislegrar umfjöllunar eða að fullnægjandi rökstuðning skorti fyrir niðurstöðunni.“
Segir Harald hafa lagt sig fram við að gera fólk óánægt í starfi
Helgi Magnús segist hafa verið mjög ósáttur við þá aðferðarfræði sem beitt var á sínum tíma þegar embætti sérstaks saksóknara var sett á fót. „Þetta var gert svona, að stofna nýtt embætti, vegna þess að Haraldur Johannessen, þáverandi ríkislögreglustjóri, sem var þá í ágætis sambandi við dómsmálaráðherrann á þeim tíma, vildi ekki sitja uppi með þennan pakka úr bankahruninu. Hann var búinn að brenna sig á Baugsmálinu, sem honum fannst í lagi þegar allt virtist ganga vel og líta vel út fyrir embætti hans en strax og það fór að verða erfitt þá snéri hann baki við því og þeim sem komu nálægt málinu. Kannski var það að einhverju leyti skynsamlegt hjá Haraldi, að víkja sér undan rannsókn hrunmála, vegna þess að hann hefur gert sér grein fyrir að það myndi ekki peningur fylgja með verkefninu. Að embættið myndi sitja uppi með bankahrunsmál í efnahagsbrotadeild án nokkurra peninga.
Kannski hefði þetta orðið þannig ef þessar breytingar hefðu ekki orðið. Eva Joly, ný stjórn og mikil reiði og allt hitt sem fylgdi sem gerði það á endanum að verkum að embætti sérstaks saksóknara varð ekki andvana fætt heldur fékk peninga til að lifa og gera það sem það þurfti að gera mjög lengi. Ég hef þó ekki enn fengið skýringu á því hvers vegna hann vildi ekki standa með tillögu minni um að flytja efnahagsbrotadeildina frá ríkislögreglustjóraembættinu? Hvers vegna að hanga á deildinni þegar hann hafði engan metnað til að standa með henni eða að baki þeim störfum sem þar voru unnin? Eitt af því sem hafði gert efnahagsbrotadeild erfitt fyrir í rannsókn Baugsmálsins voru vangaveltur, eða ásakanir, um stöðu ríkislögreglustjóra gagnvart dómsmálaráðherra, og skort á sjálfstæði frá pólitísku valdi. Ég tel þetta hafa verið til mikils skaða fyrir trúverðugleika efnahagsbrotadeildar í mörgum málum og einkum í Baugsmálinu. Sama hefði án ef orðið uppi í hrunmálum hefðu þau komið til kasta efnahagsbrotadeildar en lausnin var ekki að stofna aðra efnahagsbrotadeild.“
Hann spyr sig hins vegar hvers konar kerfi það sé sem þurfi slíkan þrýsting til að magna upp reiði svo að það sé gripið til aðgerða. „Það er áhyggjuefni ef að ákæruvaldið og lögregla eigi að virka eins og einhverjar stormsveitir þegar næg reiði blossar upp. Þetta er eins og að vera með heilbrigðiskerfi sem myndi ekki fá neinn pening nema þegar nógu margir yrðu nógu reiðir yfir því hversu margir væru að deyja á biðlistum.“ Faglega telur hann að það hafi verið della að setja á fót embætti sérstaks saksóknara, í stað þess að byggja nýja og sterkari stofnun efnahagsbrota í kringum þá efnahagsbrotadeild sem var þegar til staðar. En til þess þurfti að flytja hana frá ríkislögreglustjóranum og gera hana sjálfstæða ákæruvaldsstofnun. „Við vorum með einhverjar 12-13 manneskjur sem voru nothæfar til að rannsaka efnahagsbrot og þær voru í efnahagsbrotadeildinni, en samt átti að fara að stofna nýtt embætti, safna þar saman fólki og búa til nýjan stofnanakúltúr til hliðar við þann sem við vorum búin að vera að þróa í efnahagsbrotadeildinni í einhver tíu ár, líta til fyrirmynda og sækja okkur menntun til Noregs til að hafa grunn í þetta. Það var ljóst að það yrðu slagsmál um fólk og til yrðu tvær stofnanir í þessu litla landi að rannsaka samskonar brot og að þú fengir mismunandi meðferð eftir því hvort þú værir að draga þér fé í byggingavöruverslun eða banka. Þú myndir fá miklu skjótari meðferð hjá annarri deildinni vegna meiri fjárheimilda. Að það væru rýmri rannsóknarheimildir öðru megin. Og svo framvegis. Þetta er bara þvæla. Ég taldi betra að taka efnahagsbrotadeildina frá Ríkislögreglustjóra og byggja síðan í kringum hana þannig að úr yrði stofnun eins og Økokrim í Noregi, sem stendur sjálfstætt. Ég lagði þetta til við ráðuneyti og Alþingi í tengslum við lögtöku laga um meðferð sakamála árið 2007. Það er nú komið eftir að til varð embætti Héraðssaksóknara, en mörgum árum of seint. Þá var búið að setja á fót embætti sérstaks saksóknara sem varð til þess að efnahagsbrotadeildin varð í raun gjaldþrota, vegna þess að fólkið fór allt yfir til sérstaks saksóknara og fékk hærri laun. Fyrir utan að Haraldur lagði sig fram við að gera það sem eftir stóð óánægt í starfi með sinni framkomu, eins og honum hefur tekist við alla núna loksins. Ég hefði getað sagt þetta fyrir tíu árum síðan, sem nú er að gerast, að það væri eðlilegt að Haraldur færi á eftirlaun.“ Deildirnar tvær hafi meira að segja farið í húsleitir á sömu lögmannsstofunni, annar fyrir hádegi og hinn eftir hádegi í sitthvoru málinu. „Einu sinni gerðist það. Við mættumst bara í dyrunum. Þá er það svo að mörg stór mál í efnahagsbrotadeild drógust á langinn vegna manneklu og spekileka til sérstaks saksóknara. Þessi mál voru mörg sambærileg í umfangi og þau mál sem sérstakur var að fást við ef frá eru talin þau fáu allra stærstu. Dragist sakamál á langinn er með því brotið gegn rétti sakbornings og refsingar taka mið af þeim drætti til góða fyrir sakborning.“Nú, eftir að reiðin hefur minnkað, sé hætta á að málin séu því miður að fara aftur í það far sem þau voru í áður. „Mér finnst ég merkja viðhorfsbreytingu í þeim hrunmálum sem hafa verið afgreidd í Landsrétti. Það hefur þó ekki lýst sér í frávísunum mála heldur frekar efnistökum. Málin eru flókin og krefjast mikils af dómurum til að hægt sé að komast að niðurstöðu um einstaka efnisþætti þeirra. Þessi forysta sem Hæstiréttur tók við að láta þessi mál fá meðferð, sem leiddi svo niður í héraðsdóm, mér finnst hún hafa dofnað. Sem er miður. Þetta virðist ráðast af einhverjum dægursveiflum í geðslagi fólks eða þjóðarinnar. Eftir öll þessi hrunmál, sem mörg skiluðu þungum dómum, málum sem sum hver eru enn í meðferð og við eigum örugglega eftir að flytja mörg þeirra aftur úr af einhverjum formgöllum sem Mannréttindadómstóllinn er búinn að finna út að hafi orðið af hálfu dómstóla, þá var farið í að breyta lögum um fullnustu dóma árið 2016. Var við þessa breytingu á lögum um fullnustu refsinga gengið lengra í að heimila afplánun utan fangelsa, en nefnd sérfræðinga sem sett hafði verið saman til að gera tillögur, hafði lagt til.
Það þarf enginn að segja mér að þar hafi ekki spilað inn í að menn hefðu í huga við þessa breytingu þá sem voru dæmdir í þessum hrunmálum. Maður sá alþingismenn að þessu tilefni klappa hvorir öðrum á bakið fyrir að hafa sýnt svo mikla manngæsku við að milda fullnustu refsinga þeirra sem dæmdir eru. Það er ekkert við það að athuga að lögum um fullnustu sé breytt eða reyndar nýjar leiðir í þeim efnum. En við skulum hafa það í huga að það var Alþingi sem brást við reiði fólks nokkrum árum áður, eftir hrunið, og stuðlaði að rannsóknum mála því tengdu sem leiddu til þessara þungu dóma og að eftir því var kallað. Það hvarflar að manni að viðhorf manna til þessara brota ráðist svolítið af hversu reiðir þeir eru, og hversu hávær krafan sé í samfélaginu nákvæmlega þá um að menn sæti ábyrgð. Það er ekkert eðlilegt við það að meðferð sakamála og fullnusta refsinga ráðist af dægursveiflum frekar en lagatextanum sem í hlut á. Við höfum séð eftir hrunið að það þarf minna til að almenningur grípi til mótmæla og eftirhrunsreiðin vakni upp. Það hefur kosti og galla. Vissulega heldur það þrýstingi á stjórnmálamönnum um að sinna þessum málum en neikvæða hliðin er að reiði er aldrei góður hvati til verka.“
Eigum ekki að elta æsinginn
Hann hefur verið í þessu starfi bæði þegar það var vinsælt, eftir hrunið, og þegar það var óvinsælt, á tímum Baugsmálsins. „Við viljum ekki vera í öðrum hvorum þessum fasa eða tilheyra liði, eða meta árangur okkar af dægursveiflum. Ákæruvaldið á að mínu viti að vera þarna á milli og vera faglegt og byggja nálgun sína á lögunum og leita réttrar niðurstöðu út frá lögum og dómafordæmum óháð reiði eða utanaðkomandi pressu. Gæta að mannréttindum og ekki að þóknast einhverjum stjórnmálamönnum eða popúlistum eins og Evu Joly eða einhverjum öðrum sem æsa almenning upp í að mæta nánast með tjöru og fiður.
Við eigum ekkert að vera þar. Við eigum að reyna að finna faglega réttu línuna í þessu og fylgja henni í gegnum súrt og sætt. Annars er ekki hægt að tala um réttlæti. Viðskiptalífið á að geta treyst því að ef þeir sem þar starfa misstíga sig, eins og aðrir, sé kerfið tilbúið að fjalla um mál þeirra og fylgja lögum eftir. Slíkt kallast varnaðaráhrif. Ef samfélagið er ekki sátt við refsilögin sem ákæruvaldið vinnur við að fylgja eftir þá er sjálfsagt að breyta þeim.“
Sárt að viðurkenna að peningar geti keypt árangur
Helga Magnúsi er tíðrætt um Baugsmálið, sem var líklega í fyrsta sinn sem ákæruvaldið reyndi að fá menn sem höfðu nær ótakmarkaðan aðgang að fjármunum, dæmda fyrir lögbrot á Íslandi. Það var miklu til kostað í vörnum þeirra sem voru undir í málinu og á endanum voru þeir sýknaðir af flestum ákæruliðum.
Það var líka þekkt stef í hrunmálunum, eins og efnahagsbrotamálum almennt hér á landi og á hinum Norðurlöndunum sem, að afar efnaðir sakborningar keyptu sér þjónustu ýmissa sérfræðinga til að vinna sértæka rannsókn á málum þeirra og leggja fram. Helgi Magnús segist ekki geta vegna hæfisreglna tjáð sig um nýlegt mál Samherja en þar hefur það fyrirtæki ráðið norska lögmannsstofu til að fara yfir sín mál og til stendur að birta niðurstöðu úr þeirri einkarannsókn snemma á næsta ári, löngu áður en að rannsóknaraðilar á Íslandi ljúka sinni rannsókn á málinu og komast að niðurstöðu um hvort ákæra eigi í því eða ekki.
Hann vill því taka fram að hér sé hann að ræða meðferð efnahagsmála almennt en ekki tiltekin mál sem eru til meðferðar hjá lögreglu eða ákæruvaldi.
En aðspurður hvort þetta virki, hvort efnað fólk geti keypt sér sitt eigið réttarfar, segir Helgi Magnús það sannarlega ekki útilokað að fjárhagslegur styrkur dugi til að hafa áhrif á almenningsálitið og stjórnmálin með því að draga úr trúverðugleika lögreglu, ákæruvalds og dómstóla. Um tilburði í þessa átt eru fjöldi dæma á liðnum árum en það sem breyst hafi eftir hrunið er að dómstólarnir fengu einnig að finna fyrir því sem áður dundi einkum á lögreglu og ákæruvaldi. „Það er sárt að viðurkenna að það geti gerst, en það er alveg ljóst að þetta hefur áhrif gagnvart almenningsálitinu. Eðlilega reyna sakborningar að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og reyna að verjast. Ein aðferðin sem er þekkt í efnahagsbrotum er að vera með einkarannsókn á málum eða einstökum þáttum þess með aðstoð endurskoðunar- eða lögmannsskrifstofa sem stilla upp einhverri niðurstöðu. Einhverjum veruleika sem þeir segja að sé raunveruleikinn.
Það getur vissulega verið að rétt niðurstaða komi út úr slíku ef ásakanir eru tilhæfulausar. Það þarf samt enginn að láta sér detta það í hug að einhver einkaaðili eða einkafyrirtæki muni nokkurn tímann leita að sannleikanum í eigin málum sem varða mikla hagsmuni þeirra eða stjórnenda þeirra, með ærnum tilkostnaði, ef hann er þeim ekki hagfelldur. Það kemur ekki til greina og auðvitað ekki hægt að ætlast til þess. Menn fara ekki að leggja fram sönnunargögn gegn sjálfum sér. Þannig að tilgangurinn með þessu er oftast að búa til einhverja mynd sem hentar til varnar í sakamáli. Annað væri of vitlaust til að gera ráð fyrir því.
Þetta hefur áhrif. Sakborningar stilla því oft þannig upp að ákæruvaldið sé í einhverri veiðiferð og allt sé gert af einhverjum illvilja gagnvart þeim. Tengt við pólitík eða annað slíkt til að gera málatilbúnaðinn tortryggilegan. Svo ræðst það svolítið af því hversu móttækilegt samfélagið er fyrir skýringum fólks hvort að þetta gangi upp eða ekki.
Ef þetta tekst þá minnkar áhugi samfélagsins og vilji stjórnmálamanna til að leggja peninga í málaflokkinn sömuleiðis.“
Lestu meira:
-
1. janúar 2020Mest lesnu aðsendu greinar og skoðanagreinar ársins 2019
-
1. janúar 2020Árið þar sem áhyggjur af peningaþvætti flutu upp á yfirborðið á Íslandi
-
1. janúar 2020Ómöguleg staða að pólitískt kjörinn ráðherra veiti sérstakar fjárheimildir til rannsókna
-
31. desember 2019Árið 2019: Endalok GAMMA
-
31. desember 2019Heilt ár á Hótel Tindastól
-
30. desember 2019Mest lesnu viðtöl ársins 2019
-
30. desember 2019Árið 2019: Allir ríkisstjórnarflokkar fengu fé frá sjávarútvegnum í fyrra
-
30. desember 2019Ár vinnandi fólks
-
30. desember 2019Hvernig líður þér, elsku vinur? Bara prýðilega, takk, ég er með ykkur öll í vasanum
-
29. desember 2019Mest lesnu fréttir ársins 2019