Mynd: Bára Huld Beck

Bankarnir bentu aldrei á neina alvöru viðskiptavini

Á árunum fyrir hrun, þegar framin voru stórfelld efnahagsbrot í bankakerfinu og víðar, var Helgi Magnús Gunnarsson yfir efnahagsbrotadeild landsins. Hann segir að peningaþvættistilkynningar hafi flestar borist frá gjaldkerum vegna pilta í fíkniefnaviðskiptum en að bankarnir hafi aldrei sent ábendingar um stóru viðskiptavinina sem voru að flytja milljarða milli staða. Þá bendir hann á að það ráði enginn utanaðkomandi sérfræðinga til að finna sannleikann um sig, enda ekki rökrétt að leggja sönnunargögn fram gegn sjálfum sér.

Helgi Magnús Gunn­ars­son hefur verið vara­rík­is­sak­sókn­ari frá árinu 2011. Þar áður hafði hann veitt efna­hags­brota­deild rík­is­lög­reglu­stjóra for­stöðu frá árinu 2007. Hann stund­aði auk þess á sínum tíma fram­halds­­­nám í rann­­sókn og sak­­sókn efna­hags­brota við Polit­høg­skolen. 

Á þessum árum hefur hann komið að öllum stærstu efna­hags­brota­málum sem sak­sótt hafa verið á Íslandi, fyrst Baugs­mál­inu, síðan þeim málum sem voru til rann­sóknar hjá efna­hags­brota­deild­inni á meðan að hann stýrði henni og loks sótti hann flest stóru hrun­málin í Hæsta­rétti þegar þeim var áfrýjað þangað sem rík­is­sak­sókn­ari.

Hann hefur því miklar reynslu af efna­hags­brotum og yfir­sýn yfir þær breyt­ingar sem orðið hafa í þeim mála­flokki á und­an­förnum árum. Frá sinnu­leys­inu sem var fyrir hrun­ið, að auknum kröfum um aðgerðir og ábyrgð eftir það, og yfir í ákveðið sinnu­leysi á ný. 

Þetta er í þriðja sinn sem höf­undur tekur við­tal við Helga Magnús um þessi mál. Fyrstu tvö skiptin áttu þau sér stað árið 2007 og svo síð­sum­ars 2008, skömmu fyrir banka­hrun­ið. Í þeim báðum gagn­rýndi hann harð­lega þann aðbúnað og þær aðstæður sem rann­sak­endum efna­hags­brota voru sniðn­ar. 

Sá tónn hefur lítið breyst á þeim rúma ára­tug sem lið­inn er.

Athuga­semdir komu ekki á óvart

Þegar Helgi Magnús var sak­sókn­ari efna­hags­brota­deildar þá heyrði hin svo­kall­aða pen­inga­þvætt­is­skrif­stofa undir hann. 

Pen­inga­þvætti hefur verið mikið til umfjöll­unar á Íslandi síð­ustu vik­ur, eftir að alþjóð­legu sam­tökin Fin­ancial Act­ion Task Force (FATF) settu Ísland á gráan lista í októ­ber. Það gerð­ist í kjöl­far þess að Ísland fékk fall­ein­kunn í úttekt sam­tak­anna sem birt var í apríl 2018, og síðan mis­tek­ist að verða við öllum úrbót­ar­kröfum innan gef­ins tímara­mma. 



Helgi Magnús segir að það hafi ekki komið honum á óvart að það hefðu komið fram athuga­semdir við stöð­una á Íslandi í úttekt­inni, en að það hafi komið honum á óvart að Ísland hefði verið sett á gráan lista. „Við vorum að fá nei­kvæða umsögn og mér fannst það ekk­ert skrýt­ið. Þetta er bara eins og svo margt hjá okkur Íslend­ing­um. Við erum aldrei með neitt lang­tíma plan, heldur erum alltaf bara að slökkva elda. Við erum allt of oft að bregð­ast við vand­anum eftir á í stað þess að fyr­ir­byggja hann í tíma. Ég held að þetta sé bara þannig að menn séu frá degi til dags að ákveða í hvað pen­ingar eiga  að fara. Það kostar pen­inga að gera breyt­ingar og tryggja að varnir lands­ins gegn pen­inga­þvætti séu í lagi. Það var eng­inn að garga á stjórn­mála­menn til að setja pen­inga í pen­inga­þvætt­is­varnir og það var eng­inn að hlusta á okkur sem vorum að benda á þetta.“

Þetta var í annað sinn sem Ísland kom illa út úr FATF úttekt. Í fyrra skiptið gerð­ist það 2006. 

Aðspurður um hvernig þessum málum hafi verið háttað hjá pen­inga­þvætt­is­skrif­stof­unni, sem heyrði þá undir hann, á sínum tíma segir Helgi Magnús að það hafi verið einn starfs­maður á henni. „Hann var líka í öðrum verk­efn­um. Það að kalla þetta skrif­stofu var meira að form­inu til en að efn­inu til.“

Við­kom­andi hafi verið verið lög­reglu­full­trúi, staðið sig ágæt­lega og verið dug­legur að afla upp­lýs­inga. „Þetta var byggt upp þannig að það komu skrif­legar ábend­ingar nær ein­göngu á þessum tíma frá bönkum og spari­sjóð­um. Þær voru færðar inn í möppu og svo var búið til eitt­hvað utan­um­hald sem einn starfs­maður setti sam­an, þar sem hægt var að skrá­setja grunn­upp­lýs­ingar upp úr þessum ábend­ing­um.

Úrvinnslan var síðan þannig að þessi starfs­maður las ábend­ing­arnar yfir og mat hvort eitt­hvað væri ger­andi með þetta og kom svo til okkar með hug­myndir hvort það væri eitt­hvað sem við ættum að bregð­ast við. Vit­neskja lög­reglu­yf­ir­valda um hugs­an­legt pen­inga­þvætti ræðst að miklu leyti af því hvort þeir sem eru til­kynn­inga­skyldir til­kynni um grun­sam­legar pen­inga­færslur til pen­inga­þvætt­is­skrif­stof­unn­ar. Það komu nokkur mál upp sem áttu upp­haf sitt í slíkum til­kynn­ing­um, til dæmis varð­andi konu sem var að hafa fé af eldri karl­mönnum víða um land­ið. Það kom eftir ábend­ingu starfs­manns Íslands­banka úti á landi. Svo voru tvö mál Níger­íu­manna sem voru að svindla sem ég man eft­ir. Allt þetta fólk hlaut þunga dóma fyrir fjár­svik eftir rann­sókn sem hófst með ábend­ingu um mögu­legt pen­inga­þvætti“

Flestar til­kynn­ingar tengd­ust fíkni­efna­við­skiptum

Á þessum árum hafði Ísland opn­ast mikið og fjár­magns­flutn­ingar milli landa, sam­hliða auknum umsvifum einka­væddu bank­anna, marg­fald­ast. Það sem var athygl­is­vert í þessum upp­gangi þarna fyrir hrun var að það komu aldrei neinar ábend­ingar um neina alvöru við­skipta­vini frá bönk­un­um. Það var verið að flytja millj­arða í gegnum bank­ana í allskyns við­skipt­um. Ég hafði spurnir af því frá aðila sem þekkti til í Seðla­bank­anum á þessum tíma, þar sem er yfir­sýn yfir gjald­eyr­is­færsl­ur, að honum hafi fund­ist sumar af þessum færslum hafa verið þannig að kannski hafi verið ástæða til þess að skoða þær. En við fengum aldrei ábend­ingar frá bönk­unum um þetta.“

Mynd: Bára Huld Beck

Helgi Magnús segir að á þessum árum hafi verið haldin nám­skeið fyrir banka­starfs­menn þar sem farið var yfir skyldur þeirra til að til­kynna sam­kvæmt pen­inga­þvætt­is­lög­um. Samt hafi 80-85 pró­sent allra til­kynn­inga verið tengdar fíkni­efna­við­skipt­um, þegar ein­stak­lingar fóru í banka til að kaupa sér gjald­eyri til að kaupa fíkni­efni í Hollandi eða ann­ars stað­ar. „Þessi nám­skeið náðu ágæt­lega til gjald­kera í bönk­un­um. En fyrir þá sem voru að eiga við þessa stóru við­skipta­vini, og voru að milli­færa stórar upp­hæðir fyrir þá, þeir kusu að koma ekki þessum upp­lýs­ingum á fram­færi. Nú ætla ég ekk­ert að full­yrða að það hafi verið til­efni til þess en mér finnst lík­legt að í ein­hverjum til­vikum hafi eitt­hvað verið sem hefði átt að leiða til að upp­lýs­ingum yrði að minnsta kosti komið á fram­færi þannig að meta mætti hvort til­efni væri til frek­ari rann­sókn­ar. Stórar fjár­muna­færsl­ur, til­kynn­ingar um þær, við bara sáum þær held ég aldrei.“

Reiðin ýtti við ráða­mönnum

Það var þó ekki ein­ungis í þeim málum sem snéru að pen­inga­þvætti sem pottur var brot­inn í aðbún­aði efna­hags­brota­deild­ar­innar á þessum árum. Helgi Magnús var óhræddur við að gagn­rýna þá ójöfnu stöðu sem gefin var þegar kom að rann­sókn efna­hags­brota árunum fyrir hrun, og gerði það meðal ann­ars í áður­nefndum tveimur við­tölum við Blaðið 2007 og 24 Stundir sum­arið 2008. Í hinu fyrra, á hátindi banka­góð­ær­is­ins, sagði hann meðal ann­ars: „Það er eng­inn sem gerir athuga­semd við það að refsa manni sem stelur sér kók­flösku á Lauga­veg­inum og oft verður mikil umræða um lítil mál sem valda tak­mörk­uðum skaða. Þegar hvít­flibbar eiga í hlut og það frétt­ist að þeir hafi jafn­vel stungið ævi­tekjum verka­manns­ins undan skatti skap­ast oft engin opin­ber umræða um mál­ið. Það er þetta sem ég vil að fólk vakni til vit­undar um. Þessir hags­munir almenn­ings sem við erum að berj­ast fyrir eru svo gríð­ar­lega mikl­ir. Þessir menn sem við fáumst við eru í þeirri aðstöðu að geta svipt okkur starf­inu, eign­unum og eft­ir­laun­un­um.“

Þetta truflar hann enn í dag. Hann seg­ist hafa talað fyrir því að efna­hags­brota­deildin yrði styrkt á sínum tíma þar sem að það hefði ekki verið neitt sam­hengi milli stærðar deild­ar­innar og stærðar atvinnu­lífs­ins á þessum tíma. „Svo gerð­ist það eftir hrunið að þá verður nógu mikil reiði í sam­fé­lag­inu til að menn neyð­ast til að horfast í augu við þetta og finna það á eigin skinni að efna­hags­brot geti kannski snert ein­hvern. Það ríkti skiln­ingur á að nauðg­un, níð á börn­um, mann­dráp eða annað ofbeldi og fíkni­efna­mál væru glæpir sem hefðu áhrif á sam­fé­lag­ið. En það var alltaf erfitt að fá ráða­menn til að skilja að efna­hags­brot gætu haft ein­hverja raun­veru­lega þýð­ingu fyrir þá eða hags­muni sam­fé­lags­ins í heild.“

Ákæru­vald þarf að vera sjálf­stætt

Hrun­málin voru sótt af miklum krafti og mörg þeirra skil­uðu þungum dómum yfir þeim sem sátu á saka­manna­bekk í þeim. Í  miðri á, þ.e. árið 2013, var hins vegar ráð­ist í mik­inn nið­ur­skurð á fram­lögum til emb­ættis sér­staks sak­sókn­ara, sem gerði það meðal ann­ars að verkum að emb­ættið gat ekki klárað rann­sókn á mörgum málum tengdum hrun­inu. Nýlega, þegar Sam­herj­a­málið svo­kall­aða kom upp á yfir­borð­ið, varð svo harð­vítug póli­tísk umræða um hvers konar fjár­heim­ildir emb­ætti hér­aðs­sak­sókn­ara, sem sinnir nú efna­hags­brota­rann­sókn­um, þyrfti til að geta tek­ist á við það. Í minn­is­blaði sem Ólafur Þór Hauks­son hér­aðs­sak­sókn­ari sendi til dóms­mála­ráðu­neyt­is­ins í nóv­em­ber kom fram að um hund­rað mál biði rann­sóknar hjá emb­ætt­inu og að núver­andi starfs­manna­fjöldi dygði ekki til að sinna öllum þeim rann­sókn­ar­verk­efnum sem það þarf að takast á við að óbreyttu, hvað þá við­bót­ar­málum af stærra umfangi. Meiri fjár­muni þyrfti til. 

Helgi Magnús segir að þetta sé orðið kunn­ug­legt stef. „Ákæru­valdið þarf að vera sjálf­stætt. Með sjálf­stæði á ég við að það séu engin utan­að­kom­andi öfl, pen­inga­öfl eða póli­tísk sem hafi áhrif á afgreiðslur saka­mála. Það er mjög mik­il­vægt. Stærsti þátt­ur­inn í sjálf­stæði ákæru­valds­ins er að það hafi pen­inga til að sinna þeim verk­efnum sem ákæru­valdið á að sinna. Besta leiðin til að skerða sjálf­stæði ákæru­valds­ins og skerða getu þess til að rann­saka og sak­sækja mál er að passa upp á að það hafi ekki næga pen­inga. Það er ósköp ein­falt.“ 

Ómögu­leg staða fyrir ráða­menn að vera í 

Að hans mati er það ómögu­leg staða að vera í að póli­tísk kjör­inn ráð­herra sé að veita sér­stak­lega fjár­heim­ildir til rann­sókna eða sak­sókna á til­teknum mál­um. „Í okkar smáa og fámenna kerfi koma reglu­lega upp stór mál sem setja alla verk­efna­stöðu á hlið­ina. Ef slík mál eiga að fá full­nægj­andi fram­gang innan eðli­legs tíma þarf oft tíma­bundið að fjölga starfs­mönnum og kosta meiru til einnig vegna ann­arra mála sem ann­ars geta lent á bið. Til þess þarf að tryggja pen­inga og fjár­veit­inga­valdið er hjá Alþingi en oft­ast með milli­göngu ráð­herra sem gera til­lögur um fjár­út­lát­in. Slíkar ákvarð­anir um fjár­út­lát í ein­stökum málum eru óheppi­leg­ar. Í fyrsta lagi býður þetta upp á það að, ef við værum með þannig stjórn­mála­menn að þeir vilji hafa áhrif á nið­ur­stöðu stórra efna­hags­brota­mála gegn fjár­sterkum aðilum sem gætu verið tengdir þeim á ein­hvern hátt, að þeir vilji nú kannski ekk­ert að þetta eða hitt málið fái fram­gang. Þetta býður líka heim þeirri hættu að stjórn­mála­menn eru settir í þá aðstöðu að trú­verð­ug­leiki þeirra er alltaf und­ir. 

Hæfi getur bæði virkað þannig að ef þú ert van­hæf­ur, vegna tengsla við ein­hvern aðila máls, þá getur þú mis­notað aðstöðu þína þeim í hag sem er þér tengd­ur, en þú getur líka lent í því að til að sanna að þú sért ekki að mis­nota aðstæður þínar þá geng­urðu lengra en til­efni er til og brýtur á þeim hinum sama. Hæfi snýst því ekki endi­lega um raun­veru­lega mis­notkun á stöðu ein­hverjum til góðs eða ills heldur að það sé hægt að treysta því að slíkt ger­ist ekki. Þetta er ómögu­legar aðstæður fyrir bæði ákæru­valdið og stjórn­mála­menn að vera í.“



Helgi Magnús seg­ist hafa rætt þessi mál við rík­is­sak­sókn­ara á hinum Norð­ur­lönd­unum á fundi þeirra fyrir nokkrum árum þar sem sjálf­stæði ákæru­valds­ins var til umfjöll­unar og hvort fram­gangur ein­stakra stórra mála ráð­ist af sér­stökum fjár­heim­ildum sem veittar eru utan hins venju­lega ramma fjár­laga. Í máli þeirra hafi komið fram að þar væri ætið svig­rúm innan ákæru­valds­ins til að færa til fé þegar það þarf á því að halda þegar ein­hver stór­mál koma upp. „Þetta þurfum við að gera hér þannig að það þurfi ekki að eiga sér stað sam­tal við ráð­herra um hvort að um mál sé að ræða sem hann telur að pen­ingar eigi að fara í svo við getum sinnt þeim. Það er ómögu­leg staða fyrir alla, ekki síst ráð­herr­ann. Hvaða stjórn­mála­maður eða ráð­herra vill sitja undir því að verða stans­laust tor­tryggður við slíkar aðstæð­ur. Hann getur ekki tekið góða ákvörð­un, hún er tor­tryggð á hvorn veg­inn sem er. Ég vill þó taka fram að ég er ekki að ætla neinum stjórn­mála­manni, eða ráð­herra, að vilja hafa óeðli­leg áhrif á ákæru­valdið eða hefta rann­sókn­ir, en því miður getur slíkt komið upp eins og dæmin sanna. Það er nauð­syn­legt að tryggja að hvergi sé ástæða til að efast um sjálf­stæði ákæru­valds­ins og fullt gagn­sæi sé í sam­skiptum þess­ara aðila.“

Svo­lítið til í því að hér sé einnota rétt­ar­far

Helgi Magnús segir þessa „stemmn­ingu“ sem ríki hverju sinni líka vera sýni­lega hjá dóm­stól­unum sjálf­um. „Það skrif­aði einu sinni maður nafn­laust bréf um einnota rétt­ar­far í Baugs­mál­in­u[Jón Steinar Gunn­laugs­son, sem þá var dóm­ari í Hæsta­rétti, opin­ber­aði að hann hefði skrifað þetta bréf í bók sem hann gaf út árið 2014]. Ég held að það sé nokkuð til í þessu. Ég hef verið að flytja þessi hrun­mál mörg hver í Hæsta­rétti og Lands­rétti. Og í nán­ast hverju máli er verið að sveifla dómum í Baugs­mál­inu, þar sem sak­ar­efnum var vísað frá dómi, og krefj­ast frá­vís­un­ar. Það er aldrei uppi á borð­inu. Það er bara liðin tíð að málum sé vísað frá á þeim for­sendum nema eitt­hvað meira komi til. 

mynd: Bára Huld Beck

Í Baugs­mál­inu þá var mikið af gögnum og það var þungt að setja sig inn í það. En það var að mínu mati ekki skiln­ingur á því hjá dóm­stólum að þarna væru ekki um raun­veru­leg við­skipti að ræða heldur raun­veru­leg við­fangs­efni fyrir ákæru­vald og lög­reglu. Þar var atriðum lýst sem eðli­legum við­skiptum sem við töldum aug­ljós­lega ekki vera það. Maður bara skildi ekki í sumum til­vikum í hvaða heimi menn byggju ef þeir teldu það sem þar var lýst vera eðli­leg við­skipti. Með því ætla ég ekki að halda því fram að sak­born­ingar hafi verið sekir um eitt­hvað sem þeir voru sýkn­aðir af. Það er auð­vitað ekki hægt. Sumt hefði átt að fá efn­is­lega umfjöllun í stað frá­vís­un­ar. En meg­in­reglan á að vera að saka­mál fái efn­is­lega umfjöll­un, en það virt­ist ekki vera meg­in­reglan sem gilti um stærri efna­hags­brota­mál fyrir hrun.

En svo kemur hrunið og þá fóru menn í dóms­kerf­inu raun­veru­lega að horfast í augu við þetta. Það er mikið átak fyrir til dæmis Hæsta­rétt sem var með gríð­ar­lega mörg mál, kannski fjögur eða fimm saka­mál í hverri viku auk einka­mála, og mikið álag. Svo koma verj­endur eða sak­sókn­arar með gríð­ar­legan bunka af gögnum um efna­hags­brota­mál og ætl­ast til þess að dóm­ar­arnir fari að eyða heilu vik­unum í að lesa sig inn í mál­in. Efn­is­at­riðin eru ekki eitt­hvað sem þeir hafa lært í laga­deild heldur þurfti þeir raun­veru­lega, dóm­ar­arnir eins og ákærendur og lög­regla, að setja sig inn í mál­in.“

Dóm­stól­arnir vildu fara auð­veld­ari leið­ina

„Mér fann­st, fyrir hrun, að það skorti þennan vilja eða þrek ef það má orða það svo. Þess vegna voru margar frá­vís­anir á málum sem okkur fannst aug­ljós­lega hafa átt að fá efn­is­lega umfjöll­un. Þetta leit þannig út þá að dóm­stól­arnir veldu að fara auð­veld­ari leið­ina, í stað­inn fyrir að setja sig efn­is­lega inn í mál­ið. Það er vel hægt að sætta sig við efn­is­lega umfjöllun sem leiðir til nið­ur­stöðu sem e.t.v. var ekki sú sem lagt var upp með af hálfu ákæru­valds, en það gildir annað um að mál­um, sem kostað hefur verið miklu til við rann­sókn, sé vísað frá án efn­is­legrar umfjöll­unar eða að full­nægj­andi rök­stuðn­ing skorti fyrir nið­ur­stöð­unn­i.“

Segir Harald hafa lagt sig fram við að gera fólk óánægt í starfi

Helgi Magnús segist hafa verið mjög ósáttur við þá aðferðarfræði sem beitt var á sínum tíma þegar embætti sérstaks saksóknara var sett á fót. „Þetta var gert svona, að stofna nýtt embætti, vegna þess að Haraldur Johannessen, þáverandi ríkislögreglustjóri, sem var þá í ágætis sambandi við dómsmálaráðherrann á þeim tíma, vildi ekki sitja uppi með þennan pakka úr bankahruninu. Hann var búinn að brenna sig á Baugsmálinu, sem honum fannst í lagi þegar allt virtist ganga vel og líta vel út fyrir embætti hans en strax og það fór að verða erfitt þá snéri hann baki við því og þeim sem komu nálægt málinu. Kannski var það að einhverju leyti skynsamlegt hjá Haraldi, að víkja sér undan rannsókn hrunmála, vegna þess að hann hefur gert sér grein fyrir að það myndi ekki peningur fylgja með verkefninu. Að embættið myndi sitja uppi með bankahrunsmál í efnahagsbrotadeild án nokkurra peninga.

Kannski hefði þetta orðið þannig ef þessar breytingar hefðu ekki orðið. Eva Joly, ný stjórn og mikil reiði og allt hitt sem fylgdi sem gerði það á endanum að verkum að embætti sérstaks saksóknara varð ekki andvana fætt heldur fékk peninga til að lifa og gera það sem það þurfti að gera mjög lengi. Ég hef þó ekki enn fengið skýringu á því hvers vegna hann vildi ekki standa með tillögu minni um að flytja efnahagsbrotadeildina frá ríkislögreglustjóraembættinu? Hvers vegna að hanga á deildinni þegar hann hafði engan metnað til að standa með henni eða að baki þeim störfum sem þar voru unnin? Eitt af því sem hafði gert efnahagsbrotadeild erfitt fyrir í rannsókn Baugsmálsins voru vangaveltur, eða ásakanir, um stöðu ríkislögreglustjóra gagnvart dómsmálaráðherra, og skort á sjálfstæði frá pólitísku valdi. Ég tel þetta hafa verið til mikils skaða fyrir trúverðugleika efnahagsbrotadeildar í mörgum málum og einkum í Baugsmálinu. Sama hefði án ef orðið uppi í hrunmálum hefðu þau komið til kasta efnahagsbrotadeildar en lausnin var ekki að stofna aðra efnahagsbrotadeild.“

Hann spyr sig hins vegar hvers konar kerfi það sé sem þurfi slíkan þrýsting til að magna upp reiði svo að það sé gripið til aðgerða. „Það er áhyggjuefni ef að ákæruvaldið og lögregla eigi að virka eins og einhverjar stormsveitir þegar næg reiði blossar upp. Þetta er eins og að vera með heilbrigðiskerfi sem myndi ekki fá neinn pening nema þegar nógu margir yrðu nógu reiðir yfir því hversu margir væru að deyja á biðlistum.“

Faglega telur hann að það hafi verið della að setja á fót embætti sérstaks saksóknara, í stað þess að byggja nýja og sterkari stofnun efnahagsbrota í kringum þá efnahagsbrotadeild sem var þegar til staðar. En til þess þurfti að flytja hana frá ríkislögreglustjóranum og gera hana sjálfstæða ákæruvaldsstofnun. „Við vorum með einhverjar 12-13 manneskjur sem voru nothæfar til að rannsaka efnahagsbrot og þær voru í efnahagsbrotadeildinni, en samt átti að fara að stofna nýtt embætti, safna þar saman fólki og búa til nýjan stofnanakúltúr til hliðar við þann sem við vorum búin að vera að þróa í efnahagsbrotadeildinni í einhver tíu ár, líta til fyrirmynda og sækja okkur menntun til Noregs til að hafa grunn í þetta.

Það var ljóst að það yrðu slagsmál um fólk og til yrðu tvær stofnanir í þessu litla landi að rannsaka samskonar brot og að þú fengir mismunandi meðferð eftir því hvort þú værir að draga þér fé í byggingavöruverslun eða banka. Þú myndir fá miklu skjótari meðferð hjá annarri deildinni vegna meiri fjárheimilda. Að það væru rýmri rannsóknarheimildir öðru megin. Og svo framvegis. Þetta er bara þvæla. Ég taldi betra að taka efnahagsbrotadeildina frá Ríkislögreglustjóra og byggja síðan í kringum hana þannig að úr yrði stofnun eins og Økokrim í Noregi, sem stendur sjálfstætt. Ég lagði þetta til við ráðuneyti og Alþingi í tengslum við lögtöku laga um meðferð sakamála árið 2007. Það er nú komið eftir að til varð embætti Héraðssaksóknara, en mörgum árum of seint. Þá var búið að setja á fót embætti sérstaks saksóknara sem varð til þess að efnahagsbrotadeildin varð í raun gjaldþrota, vegna þess að fólkið fór allt yfir til sérstaks saksóknara og fékk hærri laun. Fyrir utan að Haraldur lagði sig fram við að gera það sem eftir stóð óánægt í starfi með sinni framkomu, eins og honum hefur tekist við alla núna loksins. Ég hefði getað sagt þetta fyrir tíu árum síðan, sem nú er að gerast, að það væri eðlilegt að Haraldur færi á eftirlaun.“

Deildirnar tvær hafi meira að segja farið í húsleitir á sömu lögmannsstofunni, annar fyrir hádegi og hinn eftir hádegi í sitthvoru málinu. „Einu sinni gerðist það. Við mættumst bara í dyrunum. Þá er það svo að mörg stór mál í efnahagsbrotadeild drógust á langinn vegna manneklu og spekileka til sérstaks saksóknara. Þessi mál voru mörg sambærileg í umfangi og þau mál sem sérstakur var að fást við ef frá eru talin þau fáu allra stærstu. Dragist sakamál á langinn er með því brotið gegn rétti sakbornings og refsingar taka mið af þeim drætti til góða fyrir sakborning.“

Nú, eftir að reiðin hefur minnk­að, sé hætta á að málin séu því miður að fara aftur í það far sem þau voru í áður. „Mér finnst ég merkja við­horfs­breyt­ingu í þeim hrun­málum sem hafa verið afgreidd í Lands­rétti. Það hefur þó ekki lýst sér í frá­vís­unum mála heldur frekar efn­is­tök­um. Málin eru flókin og krefj­ast mik­ils af dóm­urum til að hægt sé að kom­ast að nið­ur­stöðu um ein­staka efn­is­þætti þeirra. Þessi for­ysta sem Hæsti­réttur tók við að láta þessi mál fá með­ferð, sem leiddi svo niður í hér­aðs­dóm, mér finnst hún hafa dofn­að. Sem er mið­ur. Þetta virð­ist ráð­ast af ein­hverjum dæg­ur­sveiflum í geðslagi fólks eða þjóð­ar­inn­ar.  Eftir öll þessi hrun­mál, sem mörg skil­uðu þungum dóm­um, málum sem sum hver eru enn í með­ferð og við eigum örugg­lega eftir að flytja mörg þeirra aftur úr af ein­hverjum form­göllum sem Mann­rétt­inda­dóm­stóll­inn er búinn að finna út að hafi orðið af hálfu dómstóla, þá var farið í að breyta lögum um fulln­ustu dóma árið 2016. Var við þessa breyt­ingu á lögum um fulln­ustu refs­inga gengið lengra í að heim­ila afplánun utan fang­elsa, en nefnd sér­fræð­inga sem sett hafði verið saman til að gera til­lög­ur, hafði lagt til.

Það þarf eng­inn að segja mér að þar hafi ekki spilað inn í að menn hefðu í huga við þessa breyt­ingu þá sem voru dæmdir í þessum hrun­mál­um. Maður sá alþing­is­menn að þessu til­efni klappa hvorir öðrum á bakið fyrir að hafa sýnt svo mikla mann­gæsku við að milda fulln­ustu refs­inga þeirra sem dæmdir eru. Það er ekk­ert við það að athuga að lögum um fulln­ustu sé breytt eða reyndar nýjar leiðir í þeim efn­um. En við skulum hafa það í huga að það var Alþingi sem brást við reiði fólks nokkrum árum áður, eftir hrun­ið, og stuðl­aði að rann­sóknum mála því tengdu sem leiddu til þess­ara þungu dóma og að eftir því var kall­að. Það hvarflar að manni að við­horf manna til þess­ara brota ráð­ist svo­lítið af hversu reiðir þeir eru, og hversu hávær krafan sé í sam­fé­lag­inu nákvæm­lega þá um að menn sæti ábyrgð. Það er ekk­ert eðli­legt við það að með­ferð saka­mála og fulln­usta refs­inga ráð­ist af dægursveiflum frekar en laga­text­anum sem í hlut á. Við höfum séð eftir hrunið að það þarf minna til að almenn­ingur grípi til mót­mæla og eft­ir­hruns­reiðin vakni upp. Það hefur kosti og galla. Vissu­lega heldur það þrýst­ingi á stjórn­mála­mönnum um að sinna þessum málum en nei­kvæða hliðin er að reiði er aldrei góður hvati til verka.“

Eigum ekki að elta æsing­inn

Hann hefur verið í þessu starfi bæði þegar það var vin­sælt, eftir hrun­ið, og þegar það var óvin­sælt, á tímum Baugs­máls­ins. „Við viljum ekki vera í öðrum hvorum þessum fasa eða til­heyra liði, eða meta árangur okkar af dæg­ur­sveifl­um. Ákæru­valdið á að mínu viti að vera þarna á milli og vera fag­legt og byggja nálgun sína á  lög­unum og leita réttrar nið­ur­stöðu út frá lögum og dómafor­dæmum óháð reiði eða utan­að­kom­andi pressu. Gæta að mann­rétt­indum og ekki að þókn­ast ein­hverjum stjórn­mála­mönnum eða popúlistum eins og Evu Joly eða ein­hverjum öðrum sem æsa almenn­ing upp í að mæta nán­ast með tjöru og fið­ur. 

Við eigum ekk­ert að vera þar. Við eigum að reyna að finna fag­lega réttu lín­una í þessu og fylgja henni í gegnum súrt og sætt. Ann­ars er ekki hægt að tala um rétt­læti. Við­skipta­lífið á að geta treyst því að ef þeir sem þar starfa mis­stíga sig, eins og aðr­ir, sé kerfið til­búið að fjalla um mál þeirra og fylgja lögum eft­ir. Slíkt kall­ast varn­að­ar­á­hrif. Ef sam­fé­lagið er ekki sátt við refsi­lögin sem ákæru­valdið vinnur við að fylgja eftir þá er sjálf­sagt að breyta þeim.“

Sárt að við­ur­kenna að pen­ingar geti keypt árangur

Helga Magn­úsi er tíð­rætt um Baugs­mál­ið, sem var lík­lega í fyrsta sinn sem ákæru­valdið reyndi að fá menn sem höfðu nær ótak­mark­aðan aðgang að fjár­mun­um, dæmda fyrir lög­brot á Íslandi. Það var miklu til kostað í vörnum þeirra sem voru undir í mál­inu og á end­anum voru þeir sýkn­aðir af flestum ákæru­lið­u­m. 

Það var líka þekkt stef í hrun­mál­un­um, eins og efna­hags­brota­málum almennt hér á landi og á hinum Norð­ur­lönd­unum sem, að afar efn­aðir sak­born­ingar keyptu sér þjón­ustu ýmissa sér­fræð­inga til að vinna sér­tæka rann­sókn  á málum þeirra og leggja fram. Helgi Magnús seg­ist ekki geta vegna hæf­is­reglna tjáð sig um nýlegt mál Sam­herja en þar hefur það fyr­ir­tæki ráðið norska lög­manns­stofu til að fara yfir sín mál og til stendur að birta nið­ur­stöðu úr þeirri einka­rann­sókn snemma á næsta ári, löngu áður en að rann­sókn­ar­að­ilar á Íslandi ljúka sinni rann­sókn á mál­inu og kom­ast að nið­ur­stöðu um hvort ákæra eigi í því eða ekki. 

Hann vill því taka fram að hér sé hann að ræða með­ferð efna­hags­mála almennt en ekki til­tekin mál sem eru til með­ferðar hjá lög­reglu eða ákæru­vald­i.  

Mynd: Bára Huld Beck

En aðspurður hvort þetta virki, hvort efnað fólk geti keypt sér sitt eigið rétt­ar­far, segir Helgi Magnús það sann­ar­lega ekki úti­lokað að fjár­hags­legur styrkur dugi til að hafa áhrif á almenn­ings­á­litið og stjórn­málin með því að draga úr trú­verð­ug­leika lög­reglu, ákæru­valds og dóm­stóla. Um til­burði í þessa átt eru fjöldi dæma á liðnum árum en það sem breyst hafi eftir hrunið er að dóm­stól­arnir fengu einnig að finna fyrir því sem áður dundi einkum á lög­reglu og ákæru­valdi. „Það er sárt að við­ur­kenna að það geti ger­st, en það er alveg ljóst að þetta hefur áhrif gagn­vart almenn­ings­á­lit­inu. Eðli­lega reyna sak­born­ingar að koma sínum sjón­ar­miðum á fram­færi og reyna að verj­ast. Ein aðferðin sem er þekkt í efna­hags­brotum er að vera með einka­rann­sókn á málum eða ein­stökum þáttum þess með aðstoð end­ur­skoð­un­ar- eða lög­manns­skrif­stofa  sem stilla upp ein­hverri nið­ur­stöðu. Ein­hverjum veru­leika sem þeir segja að sé raun­veru­leik­inn. 

Það getur vissu­lega verið að rétt nið­ur­staða komi út úr slíku ef ásak­anir eru til­hæfu­laus­ar. Það þarf samt eng­inn að láta sér detta það í hug að ein­hver einka­að­ili eða einka­fyr­ir­tæki muni nokkurn tím­ann leita að sann­leik­anum í eigin málum sem varða mikla hags­muni þeirra eða stjórn­enda þeirra, með ærnum til­kostn­aði, ef hann er þeim ekki hag­felld­ur. Það kemur ekki til greina og auð­vitað ekki hægt að ætl­ast til þess. Menn fara ekki að leggja fram sönn­un­ar­gögn gegn sjálfum sér. Þannig að til­gang­ur­inn með þessu er oft­ast að búa til ein­hverja mynd sem hentar til varnar í saka­máli. Annað væri of vit­laust til að gera ráð fyrir því. 

Þetta hefur áhrif. Sak­born­ingar stilla því oft þannig upp að ákæru­valdið sé í ein­hverri veiði­ferð og allt sé gert af ein­hverjum ill­vilja gagn­vart þeim. Tengt við póli­tík eða annað slíkt til að gera mála­til­bún­að­inn tor­tryggi­leg­an. Svo ræðst það svo­lítið af því hversu mót­tæki­legt sam­fé­lagið er fyrir skýr­ingum fólks hvort að þetta gangi upp eða ekki. 

Ef þetta tekst þá minnkar áhugi sam­fé­lags­ins og vilji stjórn­mála­manna til að leggja pen­inga í mála­flokk­inn sömu­leið­is.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiViðtal