Landsmenn eru almennt frekar jákvæðir í garð innflytjenda og fjölmenningarsamfélagsins, samkvæmt könnunum Félagsvísindastofnunar Íslands. Töluverður munur er þó í viðhorfum gagnvart innflytjendum eftir bakgrunni og stjórnmálaskoðunum landsmanna.
Þá vilja færri landsmenn fjölga komum innflytjenda til landsins nú en árið 2017 og fleiri vilja halda fjöldanum óbreyttum. Meirihluti landsmanna telur þó að innflytjendur hafi góð áhrif á efnahag landsins og auðgi menningu Íslands.
Nærri 50 þúsund erlendir ríkisborgarar
Komum innflytjendum til Íslands hefur fjölgað mjög hratt á síðustu árum og á árunum 2017 og 2018 átti sér stað metfjölgun erlendra ríkisborgara. Á því tímabili fjölgaði þeim um alls 13.930, eða um tæp 46 prósent.
Þessa miklu fjölgun má rekja til þess að á Íslandi var mikill efnahagsuppgangur og mikill fjöldi starfa var að fá samhliða þeim uppgangi, sérstaklega í þjónustustörfum tengdum ferðaþjónustu og í byggingaiðnaði.
Alls eru nú 49.344 erlendir ríkisborgarar hér á landi, samkvæmt nýjustu tölum Þjóðskrár, og hefur þeim fjölgað um 11,7 prósent á einu ári.
Félagsvísindastofnun Íslands framkvæmdi könnun á viðhorfum almennings til innflytjenda og fjölmenningarsamfélagsins síðasta haust en sambærileg könnun var framkvæmd árið 2017. Könnunin var gerð að beiðni félagsmálaráðuneytisins en hún er liður í mælingum á viðhorfum samfélagsins til innflytjenda á gildistíma framkvæmdaáætlunar í málefnum innflytjenda fyrir árin 2016 til 2019.
Fleiri vilja halda fjöldanum óbreyttum
Í tilkynningu ráðuneytisins um könnunina segir að landsmenn séu og hafi verið almennt frekar jákvæðir gagnvart innflytjendum á þessu tímabili og að lítil breyting orðið á viðhorfum landsmanna.
Viðhorfið gagnvart fjölda innflytjenda sem koma til landsins breyttist þó töluvert á milli áranna 2017 og 2019. Samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar frá því í haust vilja nú færri fjölga komum innflytjenda til landsins en í sömu könnun fyrir tveimur árum.
Alls vilja 31 prósent svarenda auka fjöldann nokkuð eða mikið samanborið við 36 prósent árið 2017. Þá vilja um 37 prósent svarenda halda fjöldanum óbreyttum samanborið við 30 prósent tveimur árum áður.
Þá er lítil munur á milli ára á hlutfalli þeirra sem vilja draga nokkuð eða mikið úr fjölda innflytjenda sem koma til landsins en alls sögðust 32 prósent svarenda vilja draga úr fjöldanum í fyrra en 34 prósent árið 2017.
Tekjulægsti hópurinn vill fleiri innflytjendur
Í niðurstöðum könnunarinnar í fyrra má sjá mun í viðhorfi eftir kyni, búsetu aldri og menntun þegar kemur að komum innflytjenda til landsins. Konur vilja frekar fjölga komum innflytjenda til landsins en karlar. Þeir sem yngri eru vilja jafnframt frekar fjölga innflytjendum heldur en þeir sem eldri eru.
Þá vilja þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu heldur frekari fjölgun en þeir sem búa á landsbyggðinni. Jafnframt eru þeir sem eru með háskólamenntun fremur fylgjandi fjölgun innflytjenda en þeir sem eru með minni menntun.
Enn fremur kemur fram í niðurstöðum könnunarinnar að þeir sem eru með lægstu heimilistekjurnar vilja frekar fjölga komum innflytjenda til landsins en þeir sem eru með hærri tekjur. Alls vilja 42 prósent þeirra sem eru sem eru með 400 þúsund krónur eða lægri í heimilistekjur auka fjölda þeirra innflytjenda sem koma til landsins.
Stuðningsmenn Miðflokksins vilja draga úr komum innflytjenda
Ef litið er til afstöðu til fjölda innflytjenda eftir stjórnmálaflokkum má sjá að stuðningsmenn Miðflokksins vilja mun frekar draga úr fjölda innflytjenda en að fjölga þeim.
Alls vilja 72,5 prósent stuðningsmanna flokksins draga nokkuð eða mikið úr fjölda þeirra innflytjenda sem koma til landsins. Einungis 5 prósent þeirra vilja fjölga komum.
Þá er meirihluti stuðningsmanna Vinstri grænna, Pírata og Samfylkingarinnar fylgjandi því að fjölga komum innflytjenda til landsins.
Meirihluti landsmanna sammála um að innflytjendur séu góðir fyrir efnahaginn
Í könnuninni var jafnframt spurt um hvort að innflytjendur hafi almennt góð eða slæm áhrif á íslenskan efnahag. Um 64 prósent svarenda töldu innflytjendur hafa góð áhrif á efnahaginn árið 2019 í samanburði við tæp 60 prósent árið 2017.
Þá telur meirihluti landsmanna jafnframt að innflytjendur auðgi menningu á Íslandi eða alls 64 prósent svarenda.
Jafnframt var spurt um hversu mikilvægt svarendum þótti að fólk sem kemur frá löndum utan evrópska efnahagssvæðisins fái dalvalarleyfi væri kristin. Færri töldu það mikilvægt árið 2019 en tveimur árum áður eða alls 19 prósent svarenda samanborið við 25 prósent svarenda tveimur árum áður.