Bára Huld Beck

Mennska og miðill dansa tangó

Sumir segja að veruleikinn sé í fleiri víddum en margir aðrir trúa. Auður Jónsdóttir rithöfundur hitti Önnu Birtu Lionaraki en hún upplifir látnar manneskjur, verur af ýmsum toga, atburði sem enn hafa ekki átt sér stað og hið liðna í lífi ókunnugs fólks; líðan þeirra, upplag og heilbrigði.

Mér þykir áhugavert að pæla í skynjun af því að við skynjum veruleikann á svo ólíkan hátt og kannski má segja að hugarheimur manneskju sé um leið skáldskapur hennar. Og þessi skáldskapur er allskonar, útfærður út frá lífsýn okkar og reynslu. Í huga Önnu Birtu eru látnir jafn lifandi og við hér og nú. Skynjun hennar og hugarheimur hljóma kannski eins og Harry Potter-bók í eyrum þeirra sem skynja heiminn frekar eins og í skáldsögu í raunsærri anda. En er ekki skynjun hvers og eins sannleikur í einhverjum skilningi?

Óður til víddanna í veruleikanum

Ef lesandi er forvitinn um víðtæka skynjun getur viðkomandi hlustað á Önnu Birtu í Bíó Paradís í kvöld, 2. janúar. Þar ætlar hún að stíga á stokk klukkan átta og miðla fyrir fjöldann, á eins konar nýársfagnaði sem verður óður til víddanna í veruleikanum.

Anna Birta sagði mér frá væntanlegri samkomu þegar við hittumst skömmu fyrir jól á Kaffi Vest. Ég vissi að þessi sérkennilega geislandi kona hefði áður miðlað fyrir sal áhorfenda og fann fyrir forvitni, slík samkoma þykir ekki beinlínis hefðbundin. En á meðan við spjölluðum tyllti vinkona mín sér hjá okkur og brá við næmni Önnu þegar hún þuldi upp úr hinu og þessu um líðan hennar; eitthvað við atvikið var eins skemmtilegt og spriklandi bíómynd eftir Almadovar, annað afsprengi úr ævintýralegum hugarheimi. Það er ævintýralegt að tala við Önnu Birtu, svo skemmtilega öðruvísi að ég gat ekki stillt mig um að fá hana í viðtal.

Hverju á ég að spyrja hana að velktist fyrir mér og fyrsta spurningin sem skaut upp kollinum var: Hefur skynjun þín á veruleikann alltaf verið svona?

Hún hallaði undir flatt, ögn hugsi og sagði að sér fyndist hún alltaf hafa skynjað fólk eins og hún geri í dag en haldið að það væri eðlilegt eða hefbundið. Hún hefði þó ekki séð það sem hún kallar handanheimsfólk fyrr en hún var orðin fimmtán ára.

Þá sprakk þetta út og ég vil meina að það hafi tengst hormónabreytingum. Mér fannst ég vera bara hefðbundið barn. Ég man ekki eftir neinni óraunverulegri skynjun en ég held ég hafi alltaf skynjað tilfinningar annarra meira en þykir hefðbundið; ég fann bragð af sorg eða sagði hluti sem barn myndi ekki segja. Ég átti til að segja við kennara að hún væri óhamingjusöm í hjónabandi sínu, það rifjaði til dæmis mamma upp með mér um daginn. En þegar ég var fimmtán ára bjó ég í Englandi og þar var kennari sem hafði nýlega klárað krabbameinsmeðferð. Ég man að ég fann svo til með henni að ég sagði: Mikið þykir mér þetta leitt, frú Liddle.

Hún starði á mig, henni var svo brugðið. Við horfðumst í augu og áttum einhvers konar augnablik. Þetta er sérkennilegur eiginleiki, fólk segir mér frá sorgunum sínum. Eins og ég sé með einhvers konar samhygðunargen.

Upplifirðu oft augnablik sem öðrum þykja skrýtin?

Ég upplifi stundum merkileg augnablik, svaraði Anna Birta og mundi eftir atviki í neðanjarðarlest þar sem henni hafði orðið starsýnt á konu og spurt upp úr þurru: Ertu með gigt? Konan jánkaði því, sagði að sér væri sérstaklega illt í hendinni svo Anna Birta tók í hendina á henni, hélt í hana um stund og sagði síðan að hún ætti að fara heim að hvíla sig. En konan þurfti að fara að vinna.

Konan sagði mér hversu mörg hús hún var að fara að þrífa þennan daginn og þegar ég fór út úr lestinni og vissi hvað biði hennar með gigtina sína, þá grét ég, sagði Anna Birta. En svo er ég bara venjuleg manneskja, fór heim og lagðist yfir Brooklyn Nine-Nine.

Annað skondið atvik var um borð í flugvél á leið til Grikklands þegar kom mikil ókyrrð. Konan á ská við hlið mér fór að biðja guð almáttugan á brasilískri portúgölsku að vernda sig. Hún æjaði af hræðslu og hélt að við værum að fara að hrapa. Ég rétti henni hendina mína og hún greip í hana, það sem eftir lifði flugsins voru tvær hendur sem mættust á ganginum. Ég róaði hana og allt í einu vorum við að ræða saman á portúgölsku, en ég hafði verið skiptinemi í Brasilíu. Í spjallinu birtist mér allt í einu maðurinn hennar – sem var dáinn – svo þetta varð að miðilsfundi í flugvél. Þessi kona hafði verið nunna en hætt því þegar hún kynntist manninum heitna. Hún hætti að gráta yfir mögulegu flughrapi og varð þakklát fyrir spjallið um manninn sinn. Þegar ég fór úr vélinni gat ég ekki annað en brosað út í annað og þakkaði fyrir að það voru fleiri grískumælandi í vélinni en þeir sem skildu portúgölsku.

Anna Birta
Bára Huld Beck

Þá var ekki úr vegi að spyrja: Kannski er skynjun sem þessi svipuð því að tala annað tungumál en margir?

Fólk á erfitt með að skilja þennan heim ef skynjun þess er mjög ólík. Þetta er eins konar ofur næmi og mennskan mín er oft berskjölduð, maður getur mætt gagnrýni við að tala um þetta. Maður er svo berrassaður, í þessari næmu samhyggð. En hún getur verið erfið, það er erfitt að vera alltaf á undan. Ég fæ fréttirnar fyrst! Við fáum samt ekki að sjá neitt um líf okkar, sem betur fer; nema við vitum allt með tengingar, skynjum fljótt sérstaka tengingu við aðra manneskju. En ef ég verð ástfangin blörrast sýnirnar.

Sársauki þinn er sársauki minn

Það var forvitnilegt að biðja Önnu að lýsa skynjun sinni á umhverfi sitt; hvernig fangar hún sjálf skynjunina með orðum?

Já, og ég held að það sé líkamlegt gen, þetta ofurnæmi, eins og að finna lykt af þungun eða skynja ástand á líffærum fólks – til dæmis að finna lykt af skjaldkirtilssjúkdómi, sagði Anna Birta og hló aðeins að sjálfri sér áður en hún sagðist skynja mikið í gegnum lykt.

Ég sé til dæmis ekki árur, eins og sumir, en ég skynja áruna, En burt frá því séð, þá er til sálarminni – vil ég meina. Ég á við að manneskjan fæðist með reynslu, eins konar vitund. Segjum að það sé til guð, án hugmyndafræði trúarbragða, einhvers konar alheimsvitund sem er allt efni og það er tíðni í efninu. Svo er það efnið sem hylur vitundina, líkaminn, en í genamengi líkamans búa sögur forfeðra okkar. Barn skynjar heiminn með sinni einlægu, barnslegu vitund og fullorðinn einstaklingur skynjar heiminn á allt annan máta en fyrir mér er guð æðsta vitundartíðnin, útlistaði Anna Birta, hikaði síðan og bætti við orðum til að fanga hugsýn sína betur: Því meiri sorg sem þú lifir af, því meiri kærleika finnurðu – og þannig, smátt og smátt, hverfur sjálfsvitundin. Hugmyndin okkar um þetta sjálf. Og því meira rými skapast fyrir sorgir og upplifanir annarra. Ég er stöðugt að vinna í öðrum en þessir allir aðrir eru um leið ég.

Þannig get ég tengt inn í manneskju, ég fer framhjá efninu og inn í vitund, það eru engin skil á vitund einnar manneskju og annarrar. Bara hugmynd okkar um líkama og egó. Þú finnur það sem annar finnur eins og það sé þitt, sársauki annarrar manneskju verður sársauki minn, ég er eins og ryksuga. Einu sinni var ég að meðhöndla konu með blöðrubólgu og ég fann svo til með henni að daginn eftir vaknaði ég sjálf með blöðrubólgu.

Vitundin er eins og strengur; hver minning eins og polaroid-mynd; hvar strengurinn hófst og hvar hann endar er stóra spurningin. Ég sé bara hvernig strengurinn liggur úr þessum heimi í hinn, þar halda minningarnar áfram og þær eru ekki lengur í ramma líkamans. Aðeins orka, ljósið án líkamans. Orka umbreytist, þannig birtist það mér, útskýrði Anna Birta áfram og sagðist vera með þennan eiginleika eins og svo margir á undan sér, þetta hefði alltaf verið til.

Fjarstæðukennt að verða miðill

Ég gæti falið þetta, sagði hún, eins og margir hafa gert til að verja mig og mína frá hefðbundnum skoðunum samfélagsins. En ég vil það ekki.

Það tók mig langan tíma að sannfærast, ennþá lengri tíma að samþykkja þessa skynjun. Ég trúi því að þetta sé genatískt og ég ætla að leggja mitt af mörkum til komandi kynslóða og svipta skömminn af þessu listformi. Ég skil svo vel hvernig þetta kann að hljóma fyrir þá sem ekki skynja á þennan máta. Ætli það sé ekki þess vegna sem ég vil leggja mitt af mörkum til að finna þetta gen. Þetta getur reynt mjög á líkama miðla og heilara, margir miðlar deyja til dæmis úr nýrnavandamálum. Við vinnum öðruvísi úr orku annarra, við sjáum meinin og sorgirnar, tökum það inn á líkama okkar og hreinsum út. Ég vona að fyrir minn hinsta dag verði hægt að læra á þennan vöðva í háskólum og að rannsóknir mínar um líkama miðla verði að veruleika.

Anna Birta er ung kona, ég myndi kalla hana skvísu í besta skilningi þess orðs; hún er sigld og reynd, alin upp að hluta til í Grikklandi, talar nokkur tungumál og menntaði sig í leiklist. Er kannski spes fyrir unga konu að starfa sem miðill?

Þegar ég var unglingur var ég svo innilega vantrúuð á allt sem heitir trúarbrögð og æðri máttur. Mér fannst ekkert fjarstæðukenndara en að trúa á eitthvað ósýnilegt afl. Ég eyddi dágóðum tíma í að kynna mér allskonar trúarbrögð og fussa yfir fáfræði manna, öllum þessa tilgangslausa dauða, stríðunum og angistinni, út af hugmynd um einhvern guð. Þá fannst mér ekkert fjarstæðukenndara en að ég yrði miðill.

Fimmtán ára byrja ég að sjá og fyrsta minningin mín er á Ísafirði þegar ég sá mann sem ég vissi að væri ekki úr þessum heimi. Ég fylltist skelfingu og sá fram á langtíma spítalavist, enda kem ég úr frekar hefðbundnu umhverfi og helmingurinn af fjölskyldunni vísindamenn. Þar fer ég á fund miðils sem sagði mér mjög hispurslaust að ég væri sjáandi.

Nokkuð sem mér fannst ekki henta mér en það var samt þægilegri pæling en að vera viti sínu fjær. Síðan reyndi ég að ýta þessu frá, ef ég skynjaði upplýsingar kom ég þeim áleiðis, en þetta var ekki eitthvað sem ég gaf of mikinn gaum.

Ekki endilega smart að vera óhefðbundinn

Þegar Anna Birta var í leiklistarnámi í Aþenu varð skynjun hennar að partítrixi, að hennar sögn. Hvernig þá?

Ef ég fékk mér vínglas þá heyrði ég og sá allt, vinum og kunningjum til mikillar gleði. En ég sá þetta frekar sem grín að koma með nákvæmar handanheims upplýsingar um líðan fólks hér og þar – þangað til það fundust peningar í lítill borg sem heitir Drama, þar sem látinn faðir hafði gefið mjög nákvæmar lýsingar hvar bankabókin væri geymd og peningarnir inni í henni. Eftir það var hringt í mig og ég varð eiginlega agndofa, mest yfir nafninu á bankanum: Agrotiki Trapeza! Mér fannt svo fyndið að hafa heyrt hvað bankinn hét. Þetta leysti mig úr álögum af mögulegri skynvillu, alltaf gott að fá smá sönnun.

En ég ætlaði nú bara að vera leikkona og fékk að verða það svo ég hugsaði ekki mikið um þetta en það fréttist og fólk átti til að spyrja mig um ráð og biðja um heilun.

Henni til mikils léttis hætti þetta síðan þegar hún varð barnshafandi en það stóð ekki lengi, þegar dóttir hennar fæddist segir hún það hafa sprungið endanlega út. Hvernig þá?

Bara eins og það hafði brotist út á unglingsárunum, svo ég tengi það líka hormónabreytingum, sagði Anna Birta. Þegar dóttir mín var tíu daga gömul heyri ég hurð skellast og það var svo raunverulegt að ég hélt það hefði verið útidyrahurðin. Þá runnu á mig tvær grímur og ég vissi að þetta væri komið aftur. En þegar barnið mitt var níu mánaða gúgglaði ég miðlar á Íslandi í þrá að fá frið frá handanheimi. Ég fékk tíma hjá konu sem heitir Bíbí og bað hana að loka fyrir þetta. En hún sagði bara: Nei, ég get ekki lokað á þig, svo ert þú arftaki minn! Ég man mér fannst ég vera stödd inni í einhverri sápuóperu. Mér fannst það hræðileg tilhugsun að þurfa að verða miðill! En hún bað mig um að koma í Sálarrannsóknarfélagið, mér að kostnaðarlausu, eina sem ég þyrfti að gera væri að lesa fólk og hún myndi leiðbeina mér, kenna mér á þennan vöðva. Ég man mér fannst þetta eins og ég hefði fengið boð í Hogwarts-skólann. Þessi hula, sem aðskilur heimana, er bara tíðni, draumkennd eins og dalalæða. En sannleikurinn getur verið afgerandi og við viljum ekki alltaf sjá hann, það sem er framandi getur tekið á.

Tíminn vann mér inn traust og fólkið sem kemur til mín er sannleikurinn, það styrkir mig því upplýsingarnar reynast sannar. Það er ég þakklát fyrir.

Anna Birta
Bára Huld Beck

Vill stofna stéttarfélag

Eftir fæðinguna upplifði Anna Birta að hún væri tengd við talstöð, þegar hún bjóst síst við því bárust mjög nákvæmar upplýsingar sem höfðu ekkert með hana að gera.

Það tók mig langan tíma að sætta mig við þetta, ég held það ætli enginn að verða miðill. Þetta er eins og að kunna að spila á píanó en þola ekki píanó, svolítið eins og að sjá í lit eða ekki lit. Eins konar ofskynjun.

Í sal með fólki finn ég alla líkamana, fortíðina, framtíðarmöguleikana. Það tók mörg ár að læra að stjórna þessari ofskynjun. Trylltur tangó á milli þess að vera mennsk og vitundareining, sagði hún.

Hvernig kemur þetta niður á mennskunni?

Asnalegt að segja það, samt, það er þetta að vera óhefðbundinn. Það þykir ekki endilega smart að sjá meira en það sem þykir venjulegt. Með tímanum verður þetta venjulegt, þetta er bara veruleiki minn. Og nú á ég fleiri miðlavini en fyrir tíu árum og það er ótrúlega skemmtilegt að sitja með hópi miðla sem er líka venjulegt fólk og stundar venjulega vinnu – en sér! Það er góð tilfinning. Eins og að vera ein af fáum sem talar gelísku. En ég vil samt stofna stéttarfélag fyrir okkur.

Í þjóðarminninu býr nafnið Einar á Einarsstöðum en hann var þekktur læknamiðill og nafn hans lifir enn á meðal margra, þar á meðal í skynjun Önnu Birtu. Hún sagði að faðir sinn hefði fallið fyrir eigin hendi og mamma hennar í kjölfarið fengið boð um að fara til Einars á Einarsstöðum.

Mamma fékk símhringingu frá tilvonandi guðmóður minni sem sagði að Einar hefði boðið henni að koma til sín ef hún vildi. Mamma hafði aldrei haft samband við hann og þekkti hann ekkert. En hún fór. Og í lok tímans sagði hann að hún þyrfti núna að vera sterk því hún ætti von á barni.

Nokkuð sem kom mömmu minni í opna skjöldu en reyndist síðan rétt og var hin dramatíska innkoma mín í þetta líf. Þegar ég var fimmtán ára fór ég að skynja Einar. Ég kynntist honum ekki á meðan hann lifði, samt er hann mér oft innan handar, sagði Anna Birta og hló aftur að sjálfri sér – og kannski lífinu!

Vilt þú vera með?

Frjálsir, hugrakkir fjölmiðlar eru ómetanlegir en ekki ókeypis. Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda og með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og við ætlum að standa vaktina áfram og bjóða almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Fyrir þá lesendur sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnAuður Jónsdóttir
Meira úr sama flokkiViðtal