Tæknispá 2020: Komandi áratugur
Umhverfismál, matvæli, námuvinnsla, mannlegar hliðar tækninnar og fjártækni eru helstu umfjöllunarefnin í árlegri tæknispá Hjálmars Gíslasonar, sem nú spáir í þróun mála næsta áratuginn.
Um árabil hef ég gert mér það að leik um áramót að spá fyrir um það sem væri líklegt til að vera efst á baugi í tæknimálum á komandi ári. Það hefur gengið misjafnlega. Ég spáði því til dæmis að árið 2008 myndi Nova leggja af slagorðið „Stærsti skemmtistaður í heimi". 12 árum seinna er þetta enn slagorð fyrirtækisins - og virðist síst á förum! Sama ár vakti ég athygli á „tiltölulega óþekktum armi íslensku bankaútrásarinnar” undir vörumerkjunum Kaupthing Edge og Icesave og að bankarnir myndu leggja aukna áherslu á þá. Stundum á maður kannski bara að hafa sig hægan!
Ég spáði því líka 2009 að netið og þá sérstaklega samfélagsmiðlar myndu leika stórt hlutverk í komandi kosningaherferðum, 2010 að vélabú (sem mér finnst enn betra orð en gagnaver) ættu eftir að verða umtalsverður iðnaður á Íslandi og 2014 að Facebook ætti eftir að teygja sig inn á sífellt fleiri svið mannlegrar tilveru. Allt spár sem eru svo augljóslega réttar núna að það er furðulegt að hugsa til þess að þeir hafi á því hafi einhvern tímann verið vafi.
Reyndar eiga margir spádómanna það sameiginlegt að hafa komið fram, en þó kannski ekki endilega á því ári sem þeir voru settir fram. Það rímar ágætlega við það sem sagt er að þegar kemur að tæknibreytingum ofmetum við tæknifólkið það sem gerist á 2 árum en vanmetum það sem getur gerst á 10.
Mér datt því í hug í þetta sinn að horfa lengra og víðar og velta fyrir mér hvaða breytingar sé líklegt að við sjáum á næsta áratug, frekar en að einblína bara á komandi ár. Ég reyni líka frekar að horfa til stórra breytinga sem líklegar eru til að móta líf okkar og samfélag í heild frekar en einstakar tæknibreytingar. Dembum okkur í þetta.
Umhverfismál
Stóru áskoranir komandi áratugs snúa að umhverfismálum, og þá sérstaklega því að draga úr losun koltvísýrings. Tæknin mun þar leika stórt hlutverk. Einn af lyklunum í þeirri baráttu er betri rafhlöðutækni: Léttari rafhlöður sem endast lengur og geyma meiri orku. Þarna eru að verða stórstígar framfarir. Það þarf ekki að líta lengra en á götur miðborgarinnar í Reykjavík síðustu 1-2 árin til að sjá hvaða áhrif slíkt getur haft á samgöngumál. Rafhjól, rafskutlur, rafskútur og allskyns „örflæði” sem auðveldar fólki að komast á milli staða. Slíkum kostum á bara eftir að fjölga og munu á komandi áratug hafa áhrif ekki bara á ásýnd, heldur beinlínis hönnun og uppbyggingu miðborgarsvæða og nærliggjandi hverfa.
En það eru ekki bara litlu tækin sem bætt rafhlöðutækni er að snarbreyta. Rafmagnsbílum fer ört fjölgandi og eru orðnir raunverulegur valkostur við þá sem notast við sprengihreyfla. Jafnvel án sérstakra hvata verða rafmagnsbílar orðnir í meirihluta seldra bíla undir lok áratugarins, enda þá bæði ódýrari í framleiðslu og margfalt einfaldari í viðhaldi og „uppfærslu” en bílar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Þarna er Ísland raunar í dauðafæri og það má alveg sjá fyrir sér að framsýn stjórnvöld muni beita sér - hvort heldur með gulrót eða priki - fyrir því að auka hlutdeild rafmagnsbíla miklu hraðar. Í raun felst eina raunverulega tækifæri Íslands til að ná skuldbundnum markmiðum Parísarsamkomulagsins í því að tryggja að bílaflotinn verði orðinn rafvæddur að nær öllu leyti fyrir 2030.
Og bætt rafhlöðutækni skiptir máli í enn stærra samhengi. Það er nefnilega enginn skortur á umhverfisvænum leiðum til að framleiða ódýra orku, einkum með sólar- og vindorku. Vandinn felst í því að geyma og flytja þessa orku. Hér á landi er þetta reyndar ekki vandamál þar sem slíka orku má „geyma” í stórum uppistöðulónum (vindorku þá, ekki förum við í sólarorkuframleiðslu næsta áratuginn :). Annars staðar er þetta gríðarlegt vandamál. Ástrali skortir til að mynda ekki sólarorku, en til að geta nýtt hana til almennra nota allan sólarhringinn þarf að geyma orkuna sem framleidd er á daginn til að geta miðlað þegar sólarinnar nýtur ekki við. Stórar rafhlöður munu svara þessari þörf að einhverju leyti, en eins gætu komið fram aðrar nýstárlegar leiðir til orkuvarðveislu og þar með gerbylta samkeppnishæfni sólar- og vindorkuvera við þau sem knúin eru jarðefnaeldsneyti.
Að lokum er svo rétt að nefna kjarnorkuna sem mun koma til baka með einhverjum hætti á komandi áratug og menn hefja byggingu á nýstárlegum kjarnorkuverum. Reyndar er talsverð uppbygging á slíkum nú þegar, en nær eingöngu utan Vesturlanda.
Ég hallast mjög að kenningum um það að brennsla á jarðefnaeldsneyti geti fallið mjög skyndilega þegar réttar aðstæður myndast. Um leið og framleiðsla og dreifing á orku sem framleidd er með öðrum hætti verður samkeppnishæf í verði, hverfur hvatinn til áframhaldandi vinnslu. Í raun er það svo að um leið og sú framtíð er fyrirsjáanleg mun fjárstreymi flytjast úr jarðefnaeldsneytisgeiranum í nýja orkutækni. Til eru greiningaraðilar sem telja jafnvel að þetta hafi þegar gerst árið 2019. Í öllu falli verður þessi tækni og innviðir þróuð á næstu 10 árum og mér finnst líklegt að við verðum nálægt þessum vendipunkti (e. „tipping point”) í raforkuframleiðslu eftir um það bil 10 ár.
Það ógnvænlega við þessa - annars afar jákvæðu - þróun er að þetta mun stórlega riðla valdajafnvæginu í heiminum og hætt við að það geti haft alvarlega afleiðingar í alþjóðapólitík. Í öllu falli verða svona breytingar ekki hljóðlega!
Matvæli
Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum að mataræði er að breytast hratt. Í stuttu máli má draga þá samfélagslegu breytingu saman með setningu sem sett var fram í frægri heilsubók fyrir allnokkrum árum: „Borðið (alvöru) mat, ekki of mikið, mest grænmeti.” Bæði er þarna um að ræða kynslóðamun, þar sem yngstu kynslóðirnar hallast mjög í þessa átt, en sömuleiðis er einhver breyting meðal þeirra sem eldri eru. Það fyrrnefnda hefur samt miklu meiri áhrif hér. Á næsta áratug munu - eðli málsins samkvæmt - vaxa úr grasi 10 árgangar af fólki sem full ástæða er til að ætla að muni halda áfram á þessari braut, og árgangar sem fylgja eldri neyslumynstrum minnka og hverfa.
Matvælaframleiðsla mun líka breytast. Aukin eftirspurn eftir matvælum sem ljóstillífa og minni eftir kjöti (sem er alið á mat sem ljóstillífar) snarbreytir og minnkar landnotkun til matvælaframleiðslu. Á sama tíma er að koma fram tækni og aðferðir sem gerir það að verkum að hægt er að framleiða grænmeti á miklu færri fermetrum og miklu nær neytendunum en áður hefur verið, jafnvel inni í og inn á milli borgarbyggðar. Hvort tveggja dregur auðvitað enn frekar úr umhverfisfótsporinu.
Fyrir þau okkar sem sjá svo kannski ekki fyrir okkur að hætta alveg í kjötinu - og þeim sem leiða ekki einu sinni hugann að þessum málum er sömuleiðis að koma fram tækni til að rækta kjöt og annan mat sem líkist því sem kynslóðirnar á undan okkur ólust upp við, með allt öðrum hætti en hingað til hefur verið. Hér er beinlínis átt við ræktun á kjöti án þess að lifandi dýr - í nokkrum hefðbundnum skilningi - komi þar við sögu. Þessi tækni þróast hratt þessi misserin og slíkt kjöt verður komið í almenna dreifingu innan 10 ára, þó það muni sjálfsagt á þeim tíma frekar keppa við hamborgara og kjúklingabringur en safaríkar hátíðarsteikur. En þar liggur jú „massinn”. Þetta mun hafa gríðarleg áhrif.
Námuvinnsla
Loks er ljóst að á næsta áratugnum mun hefjast námuvinnsla á tveimur svæðum sem hingað til hafa verið lítt könnuð: Í geimnum og á hafsbotni.
Námuvinnsla í geimnum er gríðarlega spennandi, og þar gæti lausnin legið við margvíslegum umhverfisvanda sem fylgir námuvinnslu á jörðu niðri. Tilkostnaðurinn er auðvitað ærinn og það kostar sitt að koma nauðsynlegum búnaði „upp”, en eftir það er sjálf námavinnslan tiltölulega sjálfbær um orku og önnur aðföng, sérstaklega eftir að ljóst er að vatn finnst mun víðar í geimnum en talið hafði verið. Það er svo miklu ódýrara að koma afurðunum - einkum sjaldgæfari málmum og jarðefnum - aftur „niður”. Hér er þó rétt að taka fram að þróun á þessu sviði tekur gríðarlega langan tíma og því ekki að búast við öðru en undirbúningi og einhverri tilraunastarfsemi á litlum skala næstu 10 árin.
Mun nærtækari - og mögulega ógnvænlegri - er sú þróun að á næstu árum mun stórfelld námavinnsla á hafsbotni hefjast. Alþjóðalöggjöf um slíka starfsemi er í mótun og því miður er allt útlit fyrir að hér verði farið af stað af miklu kappi og margfalt minni forsjá. Enda eftir miklu að slægjast. Heilt yfir má búast við að jafn mikið - ef ekki meira - af nemanlegum efnum megi finna undir yfirborði sjávar og ofan þess. Úrgangur og afgangsefni geta hins vegar borist miklu lengra og víðar og haft áhrif á hluta lífríkisins sem hingað til hafa verið svo gott sem ósnortnir af tilveru mannsins. Hlutum þess sem við þekkjum raunar og skiljum aðeins að mjög litlu leyti. Ætla má að þetta sé svið þar sem hagsmunir Íslands eru miklir og rétt að fylgjast með af athygli.
Mannlegu hliðar tækninnar
Tækniframfarir síðustu áratuga hafa heilt yfir fært okkur gríðarleg lífsgæði, en henni hafa líka fylgt skuggahliðar. Þar á meðal eru falsfréttir, margvísleg ógn við friðhelgi einkalífsins, bergmálshellar, öryggisvandamál, stafræn mismunun og vanlíðan vegna óraunhæfs samanburðar við glansmyndalíf annarra.
Flest stafa þessi vandamál af því að við - bæði sem einstaklingar og samfélag - erum enn að læra að höndla og skilja þessar nýjustu tæknibreytingar til fulls. Ég er fullviss um að margvíslegum árangri verður náð á þessu sviði á komandi áratug.
Vandamálið við falsfréttir leyfi ég mér að segja að verði úr sögunni innan 10 ára. Lausnin felst líklega í „síun” svipaðri þeirri sem svo gott sem útrýmdi ruslpósti úr lífi okkar fyrr á þessari öld. Í boði verður búnaður - sem líklega mun fyrr en síðar verða staðalbúnaður í vöfrum - sem merkir tengla á falsfréttir með skýrum hætti og forðar fólki þannig frá því að smella á þá óafvitandi. Seinna mun þykja sjálfsagt að fela slíkt efni algerlega, rétt eins og ruslpóstur fær ekki að birtast í pósthólfum flestra okkar. Djúpfölsuð (e. „deepfake”) vídeó munu fara sömu leið, enda hugbúnaður sem þekkir slíkt efni í örri þróun og raunar þegar til.
Svipaðar lausnir má sjá fyrir sér að verði notaðar til að fjarlægja og þannig draga úr áhrifum eitraðra athugasemda og umræðu á helstu samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfum. Tröllin á internetinu munu þannig eiga undir högg að sækja á hinu almenna interneti á komandi áratug.
Þegar kemur að persónuvernd og öryggismálum spái ég því að eitthvert stórfyrirtækið muni reyna að marka sér sérstöðu með því að taka þessi mál alvarlega. Þarna eru útilokuð fyrirtæki sem eru þegar með of laskað orðspor á þessu sviði. Það á sannarlega við um Facebook, en líklega bæði Google og Microsoft líka. Apple er í raun líklegast til að láta til skarar skríða hér, og ég spái því að næsta stóra framrás Apple verði á sviði persónuverndar og öryggismála frekar en á formi nýrrar vörulínu af tæknibúnaði. Orðspor fyrirtækisins er þegar ágætt á þessu sviði, eitt allra stórfyrirtækjanna í tæknigeiranum hafa þau ekki lagst í nýtingu persónuupplýsinga til tekjuöflunar og raunar tekið ágæt skref í þá átt að vera í „liði með neytandanum” þegar kemur að stjórnun á skjátíma og aðgangi að upplýsingum.
Skilningur almennings á þessum málum mun líka aukast og regluverk opinberra aðila halda áfram að styrkjast. Það má ímynda sér að horft verði til baka á þennan tíma óheftrar söfnunar persónuupplýsinga með svipuðum hætti og þess tíma þegar það þótti í góðu lagi í byrjun síðustu aldar að fyrirtæki næðu og verðu einokunarstöðu á markaði. Og kannski verða lausnirnar ekki ósvipaðar: Uppskipting fyrirtækja, strangara regluverk og meira eftirlit.
Stærsta viðfangsefni „mannlegu hliðarinnar” er þó án efa sú röskun á vinnu og eftirspurnar á vinnuafli og hæfileikum sem er að verða samhliða fjórðu iðnbyltingunni. Hugtakið sjálft er reyndar orðið útjaskað, en í mínum huga þýðir það einkum þetta: verkefni sem áður voru í mannlegum höndum en verða ýmist óþörf eða leyst með sjálfvirkum búnaði vegna tæknibreytinga.
Heilt yfir er þetta auðvitað stórkostlegt tækifæri. Eftir því sem vélar og hugbúnaður leysa meira af því sem leysa þarf losnar tími fyrir okkur til að sinna verkefnum sem ekki hafa fengið næga athygli hingað til: Umönnun, félagsstörfum, kennslu, menningu, fræðistörfum, vísindum, nýsköpun og svo framvegis. Vandinn felst í því að tryggja samfélagsgerð þar sem annars vegar fólk í störfum og með kunnáttu sem verður „óþörf” hefur tækifæri til að þjálfa sig og finna á nýjum sviðum; og hins vegar í því að verðmætin sem skapast við þessar breytingar lendi ekki bara í höndum fárra, heldur nái samfélagið allt að njóta góðs af. Rétt eins og fyrri iðnbyltingar leiddu af sér margvísleg velferðar- og samfélagskerfi mun þessi kalla á breytingar á núverandi kerfum og innleiðingu nýrra.
Fjártækni
Við hlið umhverfismálanna og mannlegu þáttanna er ef til vill svolítið skrítið að gera fjártækni nánast jafn hátt undir höfði í svona pistli. Og svo það sé skýrt, þá legg ég þessa hluti alls ekki að jöfnu.
Það er hins vegar svo að fjármálageirinn, geiri sem er bráðnauðsynlegur sem stoð- og þjónustugeiri við allt annað sem gert er, hefur á undanförnum áratugum vaxið samfélaginu yfir höfuð. Þannig tekur þessi þjónustugeiri nú til dags til sín allt að þriðjungi alls samanlagðs hagnaðar fyrirtækja! Það þarf ansi kokhraustan fjármálamann (eins og þeir séu til :) til að halda því fram að slíkt sé réttlætanlegt. Og núna eru að verða gríðarlega miklar sviptingar í þessum geira í samspili breytinga á tækni og regluverki. Það mun ekki gerast hljóðalaust.
Í fyrsta lagi hafa verið gerðar breytingar á regluverki sem eru líklegar til að leiða af sér mikið uppbrot á almennum bankamarkaði. Fjöldi nýrra aðila, ekki síst tæknifyrirtækja fær þar með tækifæri til nýsköpunar og breytinga. Þarna skapast mikil tækifæri fyrir nýja aðila, en það er ekki bara her lítilla Davíða sem mun herja á Golíata bransans, heldur ætla stóru tæknifyrirtækin sér líka sneið af þessari köku. Eins og á svo mörgum öðrum sviðum verður þessi geiri líklega að talsverðu leyti mótaður af því hvaða nálgun Amazon, Google, Facebook, Microsoft og Apple taka. Margar þessara lausna eru líka líklegar til að verða í boði þvert á landamæri og jafnvel einhverjar yfir heimsbyggðina alla, meðan hingað til hefur fjármálastarfsemi - einkum hefðbundin bankastarfsemi - verið tiltölulega bundin við hvert þjóðríki fyrir sig. Það er alls ekki fráleitt að eftir 10 ár verði jafnmargir hér á landi í bankaviðskiptum við Amazon og taki við greiðslum með Facebook eins og í dag eru í bankaviðskiptum hjá Íslandsbanka og fá millifærslur með Aur.
Bálkakeðjutæknin (e. block chain) mun líka hafa áhrif hér. Ég er reyndar talsvert meiri efasemdamaður um erindi þessarar tækni á öll svið mannlegrar tilveru en margir í tæknigeiranum virðast vera, og tel að flestar „X á bálkakeðjum” hugmyndir - þar sem „X” er nær hvaða app, hugbúnaður eða þjónusta sem vera skal - séu slæmar hugmyndir og í raun verið að boða lausnir sem séu verri, dýrari og flóknari í smíðum en hefðbundnari nálgun. Það eru hins vegar svið þar sem þessi tækni á sannarlega erindi og mun breyta miklu. Fjártæknin er þar efst á blaði.
Annars vegar er ég sannfærður um að Bitcoin og ef til vill 1-3 aðrar bálkakeðjumyntir séu komnar til að vera og muni leika stóraukið hlutverk í viðskiptum í framtíðinni. Ástæðan er furðuleg, en sú sama og veldur því að gull er verðmætt: Gull er verðmætt af því að það er fágætt og nánast tryggt að það muni ekki finnast í stórauknu magni mjög skyndilega. Bitcoin hefur sömu eiginleika. Tilkoma Bitcoin er því svolítið eins og ef mannkynið hefði uppgötvað nýjan góðmálm. Munurinn er samt sá að í stað þess að vera eitt þyngsta frumefnið sem aðeins er hægt að flytja með ærnum tilkostnaði og öryggisráðstöfunum má færa þennan stafrænt yfir internetið. Og þar sem engin miðlæg skrá er haldin, getur fólk þannig skipst á verðmætum heimshorna á milli án þess að nokkur geti rakið viðskiptin.
Þannig grefur þessi tækni annars vegar undan skattheimtu og eftirliti og gerir alls kyns miður eftirsóknarverða starfsemi auðveldari, en opnar líka margvíslega möguleika til nýsköpunar og til að brjóta niður múra og aðstöðu annarra stofnana sem hafa haft tangarhald á tilflutningi fjármuna undanfarnar aldir.
Eins og sumt annað af því sem áður hefur verið nefnt í þessum pistli, er spáin ekki sett fram af því að ég sé endilega hrifinn af þessari þróun á allan hátt, heldur vegna þess að ég hef trú á að hún sé að og muni eiga sér stað og sé af því tagi sem ekki verði þegjandi og hljóðalaust.
Öll er þessi þróun svo þannig að með aukinni alþjóðavæðingu finnst manni líklegt að gjaldmiðlum sem notaðir eru í viðskiptum muni fækka. Að minnsta kosti þjóðargjaldmiðlum. Þessi þróun tekur auðvitað tíma, en við gætum séð umtalsverðar breytingar þar á næstu 10 árum. Þarna er enn eitt svið þar sem Ísland þarf að fylgjast vel með, því það er sannarlega betra að fara inn í slíkar breytingar með opin augu og ráða einhverju um sinn næturstað en að átta sig ekki fyrr en of seint og fljóta ófyrirséð með straumnum. Já, ég er að tala um að tæknin muni knýja okkur til að taka - eða í það minnsta að undirbúa - stórar ákvarðanir í gjaldmiðlamálum á komandi áratug!
Samantekt
Á komandi áratug er margvísleg tækniþróun líkleg til að hrista allmargar rótgrónar stoðir í núverandi samfélagi og heimsmynd, jafnvel þannig að hrikti í.
Hér hafa verið raktir þrír straumar sem mér finnst líklegt að verði meðal meginstraumanna í þessa veru á næstu 10 árum: Umhverfistækni, mannlegum þáttum tækninnar og fjártækni.
Auðvitað er svo margt annað í farvatninu sem er smærra í sniðum, og að sama skapi ekki ólíklegt að mér hafi yfirsést einhverjar enn stærri bylgjur en þær sem hér voru raktar. Það verður í öllu falli fróðlegt að líta til baka árið 2030 og sjá hversu nærri tæknispámaðurinn fór um þessa þróun.
Höfundur er stjórnarformaður Kjarnans og forstjóri GRID.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi