Mynd: EPA

Hvað gerði Manchester City eiginlega?

Eitt ríkasta knattspyrnufélag Evrópu, Manchester City, er í vandræðum. Evrópska knattspyrnusambandið hefur dæmt það í bann frá þátttöku í Meistaradeild Evrópu í tvö ár fyrir blekkingar í framsettum fjármálum félagsins. Afleiðingar þessa gætu verið margvíslegar og jafnvel leitt til þess að eitt metnaðarfyllsta knattspyrnuverkefni sögunnar liðist í sundur.

Það eru komin nær tólf ár frá því að Sheikh Mansour, sem er hluti af konungsfjölskyldunni sem stýrir Sameinuðu arabísku furstadæmunum (forseti þeirra er bróðir hans), keypti hið sögufræða enska knattspyrnulið Manchester City á 210 milljónir punda. 

Í kjölfarið hófst einhver eftirtektarverðasta tilraun fótboltaheimsins, þar sem ótrúlegu magni af peningum var dælt inn í félag sem sem hafði ekki unnið efstu deild í Englandi frá árinu 1968. Þeim fjármunum var eytt í að kaupa elítu-leikmenn, gera alla umgjörð í kringum félagið á heimsmælikvarða og ráða færustu þjálfara sem hægt er að fá til starfa hjá öllum aldursflokkum.

Sumarið eftir yfirtökuna eyddi City tæplega 150 milljónum evra og fékk meðal Carlos Tevez frá erkifjendunum í Manchester United. 

Skiltið sem Manchester City lét setja upp til að bjóða Carlos Tevez, sem hafði þó spilað í sömu borg um skeið hjá erkifjendunum í United, skrifaði undir hjá félaginu. Það var broddur í yfirlýsingunni sem í skiltinu fólst.
Mynd: Skjáskot

2010 eyddi félagið um 140 milljónum punda í leikmenn á borð við David Silva og Yaya Toure, sem voru áður óheyrðar upphæðir á þeim tíma. Ári síðar komu Sergio Agüero, Samir Nasri og Gaël Clichy. Það ár kom fyrsti deildartitill nýju eigendanna í hús, eftir dramatískt mark Agüero í uppbótatíma í leik gegn QPR, stýrt af fyrrverandi knattspyrnustjóra City, Mark Hughes, og með hinn óstyrláta Joey Barton í sínu skammarlegasta formi. 

City sýndi það svart á hvítu að það var víst hægt að kaupa titla. Eða réttara sagt, það var hægt að kaupa fokdýra leikmenn, þjálfara og nýja umgjörð og ná þeim árangri að vinna titla. Og það var hægt að gera það á skömmum tíma. 

Ekki allt gekk upp

City hélt áfram að kaupa marga af eftirsóttustu leikmönnum í heimi næstu árin fyrir háar fjárhæðir. Sum kaupin heppnuðust stórvel, önnur síður. Þar standa upp úr nöfn eins og Jack Rodwell, Stevan Jovetic og Álvaro Negredo, Matilja Nastasic og auðvitað þá dýrasti varnarmaður í heimi: Eliaqim Mangala. 

Titlarnir héldu þó áfram að koma. City yrðu bikarmeistarar 2013 og unn bæði deild og deildarbikarkeppnina ári síðar, undir stjórn Manuel Pellegrini sem varð þar með fyrsti knattspyrnustjórinn sem er frá landi utan Evrópu til að klófesta fyrrvefnda titilinn (Pellegrini er frá Síle). 

Verr gekk árið eftir og sumarið 2015 eyddi City feikilegu fjármagni í nokkur risastór nöfn. Dýrastur var Kevin De Brunye en skammt á hæla hans kom Raheem Sterling og hinn misjafni Nicólas Otamendi kostaði líka skildinginn. Allt kom fyrir ekki og City mistókst, annað árið í röð, að vinna deildina. 

Við það var ekki unað og eftirsóttasti knattspyrnustjóri í heimi, hinn þráhyggjukenndi og yfirþyrmandi snillingur Pep Guardiola var fenginn til að rétta af kúrsinn. Til þess fékk hann, líkt og fyrirrennarar sínir, ógrynni fjármuna. 

Fyrsta sumarið bættust John Stones, Leroy Sané, Gabriel Jesus og Ilkay Gündogan meðal annars í hópinn og þegar það dugði ekki til titils var en eitt eyðslumetið sett sumarið 2017, þegar félagið eyddi um 318 milljónum evra í leikmenn á borð við Aymeric Laporte, Benjamin Mendy, Kyle Walker, Bernandro Silva, Ederson og Danilo. í þeim glugga einvörðungu keypti City bakverði fyrir meiri pening en mörg lið í ensku úrvalsdeildinni ná að eyða á mörgum árum. 

Miklar vangaveltur eru uppi um hvort að Pep Guardiola muni halda áfram að starfa fyrir City ef bannið heldur.
Mynd: EPA

Áformin skotgengu eftir. nýju leikmennirnir reyndust frábærir og City liðið rúllaði yfir deildina. Það varð fyrsta lið í sögu ensku úrvalsdeildarinnar til að 100 stigum. Þrátt fyrir þessa yfirburði þótti tilhlýðilegt að bæta Riyad Mahrez í sarpinn sumarið 2018 fyrir hátt í 70 milljónir evra. Og aftur vannst titillinn.

„Fjármálaleg lyfjaneysla“

Í ár er nokkuð ljóst að City mun ekki vinna ensku úrvalsdeildina þriðja árið í röð, þrátt fyrir að Rodri og Joao Cancelo hafi verið bætt í hópinn í fyrrasumar fyrir svívirðilegar upphæðir. Liverpool er þegar búið að vinna þá keppni að öllu leyti nema að forminu til. Síðustu vikur hefur því verið augljóst að markmið City hefur verið að ná því sem félagið hefur aldrei náð frá því að Sheikh Monsour keypti félagið: að vinna Meistaradeild Evrópu.

En spólum aðeins til baka. Síðastliðið rúma árið hefur nefnilega hangið skuggi yfir City sem var þess eðlis að hann gæti spillt veislunni sem þar hefur verið við lýði frá 2008, jafnvel varanlega. Sá skuggi á rætur sínar að rekja til þess að í byrjun knattspyrnuvertíðarinnar 2011 tók gildi svokallaðar Finacial Fair Play reglur UEFA, eða FFP. Þeim var að uppistöðu ætlað að gera tvennt: að koma í veg fyrir að lið eyddu um efni fram og fórnuðu þannig langtímahagsmuni sínum í skammtímaáhættuhegðun til að reyna að ná árangri, og að koma í veg fyrir að hægt yrði að kaupa sér árangur án þess að sú uppbygging byggði á sjálfbærum viðskiptalegum forsendum. Michel Platini, þáverandi formaður UEFA, kallaði á þessum tíma fjáraustur inn í félög til að reyna að ná árangri „fjármálalega lyfjaneyslu“, með vísun í að frammistöðubætandi lyf hafa tryggt mörgum íþróttamanninum forskot á heiðarlega samkeppnisaðila. 

Í einföldu máli snýst FFP um það að félög þurfa að afla sér tekna sem standa undir því sem þau eyða. Það er gert með því að festa tölu um hversu mikið þau mega tapa á ákveðnu tímabili til að halda sig innan reglnanna. Brjóti félög þessar reglur þá geta þau fengið sekt eða þeim getur verið meinað að taka þá í öllum keppnum á vegnum UEFA, þar á meðal Meistaradeild Evrópu. 

Tölvupóstar leka

Í nóvember 2018 birti hið þýska Der Spiegel umfjöllun sem byggði á miklu magni gagna sem lekið hafði verið til blaðsins. Í þeim gögnum, sem innihéldu meðal annars tölvupósta, kom fram að Manchester City hefði ítrekað blekkt UEFA með því að gefa ekki upp að stór hluti af styrktarsamningum sem félagið aflaði sér, meðal annars með því að selja auglýsinga framan á búninginn sinn eða nafnaréttinn að akademíu og velli liðsins, kom í raun frá Sheikh Monsour. Samningarnir voru auk þess „blásnir upp“, þ.e. umfang þeirra fjármuna sem greiddir voru til City voru var miklu meira en viðskiptalegar forsendur voru fyrir að greiða. 

Til að gæta fullkomnar nákvæmni þá snerist málið um að Abu Dhabi United Group, eignarhaldsfélagið sem á City, borgaði 59,5 milljónir punda árið 2015 af árlegum 67,5 milljón punda styrktarsamningi sem félagið átti að hafa gert við flugfélagið Etihad Ariways vegna ofangreinds. Flugfélagið sjálft, sem er í eigu stjórnvalda í Abu Dhabi (höfuðborgar Sameinuðu arabísku furstadæmanna), borgaði einungis átta milljónir punda af greiðslunni sem fór til City. Þetta kom beinlínis fram í tölvupóstum sem birtir voru í Der Spiegel.

City neitaði að tjá sig um málið þegar það kom upp en ljóst var strax, sérstaklega vegna eðlis tölvupóstanna sem fóru á milli ráðamanna innan félagsins, að það gæti haft alvarlegar afleiðingar. Í mars 2019, fyrir tæpu ári síðan hóf UEFA formlega rannsókn. 

Í maí sama ár greindi New York Times frá því að sá armur UEFA sem hefur eftirlit með fylgni fjármálareglna, CFBC, myndi fara fram á að City yrði sett í bann frá þátttöku í Meistaradeild Evrópu í að minnsta kosti eitt tímabil. City reyndi á þessum tíma að vísa tilurð rannsóknarinnar til Alþjóðlega íþróttadómstólsins (CAS). Sú vegferð fékk endalok í nóvember í fyrra. 

Þann 12. febrúar síðastliðinn greindi áfrýjunardómstóllinn frá því að City hefði reynt að sækja miskabætur til UEFA vegna þess sem félagið kallaði „ólöglega“ leka til fjölmiðla vegna rannsóknar á meintum brotum City á fjármálareglum sambandsins. 

Tveimur dögum síðar, 14. febrúar 2020, greindi UEFA frá því að City hefði verið dæmt í bann frá þátttöku í Meistaradeildinni í tvö ár fyrir „alvarleg brot“ á fjármálareglum á árununum 2012 til 2016. City var auk þess sektað um 30 milljónir evra. Um er að ræða þyngstu refsingu sem lið hefur hlotið. Ástæðan fyrir því að refsingin var jafn þung og raun ber vitni er sú að City er talið hafa reynt að blekkja UEFA við skoðun sambandsins á fjármálum félagsins, en tölvupóstarnir sem Der Spiegel birti sýndu svart á hvítu hvað hefði átt sér stað við gerð styrktarsamninga við Etihad Airways. 

Augljóst var á viðbrögðum City, sem voru birt 20 mínútum eftir að UEFA greindi frá niðurstöðu sinni, að félagið hafði búist við henni. Viðbrögðin voru á þann veg að gagnrýna að UEFA hafi verið kvartandi, ákærandi og dómari í málinu og að sambandið hafi verið búið að gefa sér sekt félagsins fyrirfram. Málinu var samstundis áfrýjað til Alþjóðlega íþróttadómstólsins þar sem ugglaust verður tekist hart á um málið. 

Mun Gerrard vinna titil eftir allt saman?

Það er enda mikið undir. Tekjur af því að vera í Meistaradeildinni eru um og yfir 100 milljónir evra á hverju ári fyrir lið eins og City. Það verður því enn erfiðara en áður fyrir félagið að sýnast vera rekstrarlega sjálfbært ef bannið, sem er það þyngsta sem UEFA hefur nokkru sinni sett á félag frá því að FFP reglurnar voru teknar upp, verður staðfest.

Vert er að taka fram að bannið hefur engin áhrif á þátttöku City í keppninni í ár. Þar mætir liðið Real Madrid síðar í þessum mánuði, en City hefur aldrei unnið Meistaradeildina. Því gæti sú staða komið upp að City vinni keppnina en fái ekki að verja titilinn á næsta ári vegna bannsins.

Bannið mun líka hafa áhrif á getu City til að fá til sín bestu leikmenn heims, en þeir vilja eðlilega flestir spila í Meistaradeildinni á hverju ári. Þá gæti staðan líka haft þau áhrif að lykilmenn hjá félaginu í dag myndu vilja fara og einhverjir lögmenn vilja meina að þeir gætu gert það án greiðslu, þar sem að í banninu felist forsendubrestur á þeim samningum sem þeir gerðu við City. 

Þá er ótalið að enska úrvalsdeildin hefur líka tekið málið til skoðunar. Vangaveltur eru um að sú skoðun gæti, fari hún á versta veg fyrir City, meðal annars ógilt sigur félagsins í deildinni árið 2014. Þá vann City hana með tveimur stigum en enginn sem á horfði var í vafa að titilbaráttan réðst um miðjan apríl það ár þegar Steven Gerrard, lifandi goðsögn hjá Liverpool og fyrirliði liðsins, rann klaufalega í leik gegn Chelsea sem varð til þess að Demba Ba skoraði og kom liði sínu yfir í leiknum. City vann á endanum titilinn með tveimur stigum. Gerrard, sem lagði knattspyrnuskóna á hilluna fyrir nokkrum árum, náði aldrei að vinna deildina. Það gæti breyst núna. 

Og staðan gæti orðið enn svartari. Samkvæmt umfjöllun Í The Independent þá gæti City einnig misst stig í deildinni, og heimild er til staðar að dæma félagið niður í neðstu deild ensku deildarkeppninnar (League Two), þótt sú niðurstaða þyki ólíkleg. Enska úrvalsdeildin er, samkvæmt umfjölluninni, þegar farin að ræða um eigin viðbrögð við málinu, enda er keppnisleyfi í henni bundið því að upplýsingum um til dæmis fjármál séu sannar og réttar. 

Við blasir að City mun ráða dýrustu og grimmustu lögmenn sem peningar fá keypt til að reyna að fá málinu snúið við áfrýjun. En eins og staðan er í dag þá er niðurstaðan sú að eitt besta knattspyrnulið Evrópu, og þar með heims, mun ekki fá að keppa í eftirsóttustu keppni álfunnar næstu tvö árin. 

Ekki gráta það þó allir. Haldi niðurstaða UEFA mun það þýða að liðið sem lendir í fimmta sæti í ensku úrvaldsdeildinni ætti að komast í Meistaradeildina á næsta tímabili. Það hefur fært liðum á borð við spútnikinu Sheffield United eða vonbrigðarliðum tímabilsins: Tottenham, Manchester United, Everton eða Arsenal, tækifæri til þess að komast inn í heldri liða keppnina bakdyramegin.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar