Óvissan liggur í loftinu
Rithöfundurinn Auður Jónsdóttir og blaðamaðurinn Bára Huld Beck fóru í göngutúr um auðar götur miðbæjar Reykjavíkur. Þrátt fyrir gjörbreytta götumynd þá mátti sjá ljós í myrkrinu við hvert fótmál.
Á örfáum dögum hefur Reykjavík, líkt og margar borgir, breyst úr því að vera iðandi mannlífspottur yfir í eyðileg torg og stræti. Þessa dagana er sérkennileg upplifun að fá sér göngutúr um miðbæinn, nánast eins og að rölta um inni í dystópískri kvikmynd – eða! Kannski minnir nú borgin öllu frekar á veröld sem var, sjálfa sig fyrir einhverjum áratugum síðan. Göturnar tómar, regluverkið stíft. Flestir útlendingar farnir úr landi og borgarbúar halda sig heima.
Óvissan liggur í loftinu, nánast áþreifanleg í tómlegri götumyndinni. Hvað bíður okkar, hvað bíður fyrirtækjanna, hvað er að gerast? Um leið og hætta steðjar að heilsu okkar, jafnvel lífi, blasir við hættan á djúpri kreppu. Það verður kreppa, en hversu djúp hún verður, vitum við ekki ennþá. Rétt eins og við vitum ekki hversu margir munu veikjast alvarlega.
Samt! Það er byrjað að birta, vorið er á næsta leiti. Úti má heyra fuglasöng. Við erum ennþá lifandi.
Ekki er allt svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Nú gefst færi á að dansa einn á torginu fyrir framan Hallgrímskirkju, torgi sem vanalega er iðandi af lífi. Krökkt af fólki. Einhverju sem er ekki lengur þarna. Kirkjan gnæfir yfir tómum strætum.
Við göngum frá Hallgrímskirkju niður tóman Skólavörðustíginn, tvö eintök af Palli var einn í heiminum. Upplifunin er ögn óraunveruleg, um leið og umhverfið minnir okkur á æskuna. Þá vorum við báðar vanar að dóla okkur svo mikið einar, nema án síma, tölvu og meira að segja stundum án sjónvarps. Maður spyr sig þó: Hversu lengi á þetta eftir að vara svona?
Verður veröldin aftur söm? Við trúum því að hún verði aftur söm við sig. Samt, þegar svona margt breytist á örstuttum tíma verður maður meðvitaður um hversu litla stjórn manneskjan hefur á lífinu almennt. Nú þegar ósýnileg veira er búin að kollvarpa háþróuðum tæknisamfélögum heimsins.
Næst liggur leiðin á Bergstaðastræti svo rithöfundurinn geti kíkt á mömmu sína, Sigríði Halldórsdóttur. Mamman er, eins og mæður svo margra, að nálgast sjötugt og því sjálfkrafa í ákveðnum áhættuhópi. Þar sem mamman býr miðsvæðis fylgir því líka sú áhætta að fólk droppi við. Það er vant því að detta inn í kaffi og spjall við notalegt eldhúsborðið. En nú getur það verið lífshættulegt, eins og ýmislegt annað sem við höfum tekið sem gefnu í hversdeginum! Samt sem áður er hægt að heilsa upp á fólk, bara svo lengi sem maður stígur ekki inn fyrir dyraþröskuldinn.
Rithöfundurinn reynir að heimsækja móður sína reglulega en gætir þess að hvika ekki frá graffití-veggnum andspænis útidyrunum, jafnvel þó að móðirin andvarpi, allt að því þjáð: Ætlarðu í alvörunni ekki að koma inn!
Við röltum aftur út Bergstaðastrætið, út á Skólavörðustíg, og göngum framhjá Kaffifélaginu. Vanalega kemur þar saman fjölmennur hópur á morgnana, ýmsir kjaftaglaðir með eindæmum og ósparir á skoðanir sínar á öllu því sem gengur á í samfélaginu. Þarna fáum við okkur stundum morgunkaffi því það getur verið svo góð innspýting fyrir greinaskrif að heyra ólíkar raddir. En núna vita ekki einu sinni mælskustu manneskjur hvað er eiginlega hægt að segja.
Að vísu mæta einhverjir ennþá í morgunsopann og gæta að því að standa með fjarlægð á milli sín. En þeir eru miklu færri en vanalega og nú, þegar liðið er á daginn, er hvergi neinn að sjá. Eina nærveran sem við skynjum er ilmurinn af góða, ítalska kaffinu hans Einars í Kaffifélaginu. Hættulega lokkandi!
Oft hefur verið líflegra um að litast í Bankastrætinu. Við horfum á eftir einni manneskju hraða sér eitthvert út í bláinn. Tóbaksbúðin Björk er þó opin á þessum síðustu og verstu. Sýnilega er tilviljunarkennt hvaða búðir eru opnar og þrátt fyrir allt og allt, viðvaranir lækna og heilbrigðisyfirvalda þess efnis að tóbak auki líkurnar á hættulegum veikindum, þá er vinalegt að sjá opna búð.
Og reyndar er Ríkið líka opið. Þar fyrir utan húkir einmana hundur og bíður eiganda síns. Vonandi var þó minna um heimapartí þessa helgina heldur en þá síðustu þegar lögreglan þurfti að sinna óvenju mörgum útköllum í heimahús. Það getur vissulega verið hjartastyrkjandi að fá sér sopa en um leið lúrir hættan á að hömlurnar farist fyrir. En það þarf svo sem ekkert áfengi þessa dagana til að stíga villtan dans á Lækjartorgi, alveg blygðunarlaus. Eini vegfarandinn á ferli hefur þó gaman af.
Það er einhver heimsendastemning við að sjá Kaffi París svo innilega lokað að búið er að stafla öllum stólum upp á borð. Það er af sem áður var, hugsum við.
Óneitanlega er eitthvað ögn listrænt við að sjá bréfbera einan á hjóli fyrir framan Listasafn Reykjavíkur. Það leiðir hugann að því að víðs vegar í samfélaginu er fólk að vinna störf sín og á sinn hátt að halda gangverki þess lifandi. Á sinn hátt er allt þetta fólk björgunarsveit. Það stendur vaktina í fremstu víglínu.
Og hér er svo allt fólkið – eftir allt saman! Allir bara á Bæjarins bestu! Sama hvað gerist í heiminum, fólk heldur áfram að fá sér pylsu með öllu. Eða bara með sinnepi eins og Clinton forðum.
Í apótekinu er vel tekið á móti okkur. Þar má finna hitt og þetta sem er gott og jafnvel ráðlegt að eiga. Lyfjafræðingarnir halda sér í öruggri fjarlægð, viðræðugóðir og hlýlegir. Sérstakt sprittteymi sér um að spritta og þrífa fyrir viðskiptavini. Tveir menn sem mæta nú í apótekið tvisvar í viku til að spritta.
Það er ekki úr miklu að moða fyrir einhleypa þessa dagana. Stranglega bannað að kyssa og knúsa aðra en heimilismeðlimi. Þá má halla sér upp að svona dúkkuvini, nema maður búi svo vel að eiga kynlífsdúkku.
Í dyrunum af einni af þessum opnu búðum stendur myndlistarmaðurinn og verslunareigandinn Jóhann Torfason. Hann glottir góðlátlega framan í daginn og segir okkur að hjá sér sé hægt að panta vöru, þó nokkuð sé um að fólk panti Reykjavíkurpúsl. Það getur þá stytt sér stundir við að rústa Reykjavík og púsla henni aftur saman.
Okkur líður bara nokkuð vel eftir göngutúrinn, enda þjóðráð að fara í göngutúr, þó að borgin sé tómleg að sjá. Bara að hafa í huga að passa upp á fjarlægðina og detta ekki á neinn! Göngutúrar gera okkur gott og eru kraftaverkameðal í ástandi sem þessu.
Myndir: Bára Huld Beck
Lesa
-
6. janúar 2023Mögulega mest smitandi afbrigðið hingað til
-
3. janúar 2023Segja skimun kínverskra ferðamanna ekki byggða „á neinum vísindalegum rökum“
-
15. desember 2022Segir aðstoðarmann Ásmundar Einars hafa „staðfest“ að ÍBV ætti að fá 100 milljóna styrk
-
5. nóvember 2022Bóluefnakapphlaupið kostaði 1,3 milljónir manna lífið
-
19. júlí 2022Takmarkanir myndu þjóna takmörkuðum tilgangi
-
12. júlí 2022Skjátími barna rauk upp í faraldrinum
-
2. júlí 2022Alls fóru 0,0002% af fjármagni í COVID-viðbragðsáætlunum í að uppræta kynbundið ofbeldi
-
29. júní 2022Staðfest: Köttur smitaði manneskju af COVID-19
-
3. júní 2022Ferðaskrifstofur fá áratug til þess að greiða lánin frá Ferðaábyrgðarsjóði til baka
-
12. maí 2022„Þarf að huga betur að mér sjálfum og minni fjölskyldu“