Tækifæri í svartri stöðu ferðaþjónustunnar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir að þrátt fyrir að staðan sé svört í ferðaþjónustunni þá skapist nú á tímum COVID-19 ákveðin tækifæri. Ferðaþjónustan hafi fyrst og fremst byggt á náttúru Íslands – og það að vera með stefnu sem gengur út á það að vernda þessa náttúru til framtíðar sé til þess fallið að styðja við endurreisn ferðaþjónustunnar.
Losun gróðurhúsalofttegunda hefur dregist gífurlega saman á þessu ári vegna COVID-19 faraldursins þar sem útgöngubann er víða í heiminum. En hvernig er hægt að halda þessum samdrætti áfram og munu stjórnvöld breyta einhverju í aðgerðum sínum í umhverfis- og loftslagsmálum vegna þess ástands sem nú er uppi? Kjarninn náði tali af Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, til þess að fá svör til þessum spurningum.
Ráðherra segir að Íslendingar sjái samdráttinn í umferðartölum á helstu götum og umferðaræðunum í Reykjavík og úti á landi. Það sama megi augljóslega sjá með fækkun flugferða. Þá bendir hann á að fréttir frá útlöndum segi sömu sögu. Alls staðar dragi úr losun góðurhúsalofttegunda og í stórum borgum víðsvegar um heiminn sé fólk farið að sjá út fyrir mengunarskýið í bili.
Varðandi ástæður losunarinnar segir Guðmundur Ingi að auðvitað hefði hann óskað þess að þessi samdráttur ætti sér stað út af aðgerðum þjóða í loftslagsmálum en ekki COVID-19 faraldrinum sem veldur gríðarlegu álagi á heilbrigðiskerfi og á líf fólks. „Við þurfum að horfa til þess með hvaða móti við getum náð árangri í loftslagsmálum án þess að það þurfi að koma til þvílíkra hamfara í efnahagslífinu eins og hér er um að ræða. Verkefnið er að ná að komast þangað.“
Um skammtímaáhrif að ræða
Guðmundur Ingi segir að um skammtímaáhrif sé að ræða varðandi losunina vegna COVID-19. „Þá getur maður hugsað og velt fyrir sér hvernig hægt sé að horfa til lengri tíma. Þegar við förum í þá efnahagslegu uppbyggingu sem þarf að eiga sér stað alls staðar í heiminum er mikilvægt að gleyma ekki loftslagsgleraugunum. Það er stóra verkefnið til þess að loftslagskrísan, sem við höfum verið að sjá raungerast meðal annars í stökum atburðum eins og flóðum eða þurrkum, versni ekki en við verðum að reyna að fækka og draga úr slíkum atburðum í framtíðinni,“ segir ráðherrann.
Hann telur enn fremur að hægt sé að læra af þeim samtakamætti sem sjá megi í faraldrinum. Hægt sé að takast á við samfélagslegar áskoranir ef fólk stendur saman. Það séu mjög mikilvæg skilaboð inn í þessa umræðu.
„Svo þurfum við í rauninni að hafa loftslagsgleraugun á nefinu – sem og allar þjóðir heims – á meðan við kröflum okkur fram úr þeirri efnahagslægð sem núna er. Þá skiptir máli, eins og við erum að horfa á hérna heima, að setja aukið fjármagn í orkuskipti, kolefnisbindingu og nýsköpun. Og þá almennt inn í nýsköpun sem nýtist í tæknilausnum og fyrirtækjum sem eru að fara í umhverfisvæna átt. Við leggjum áherslu á aukna matvælaframleiðslu, til dæmis í garðyrkju, sem er eitthvað sem skiptir máli. Svona mætti áfram telja.“
Hann segir að aðgerðir stjórnvalda til að örva efnahagslífið færi okkur í þá átt að draga úr losun og að geta bundið meira kolefni úr andrúmsloftinu.
Fólk og fyrirtæki geta hugsað á skapandi hátt
Venjur fólks hafa breyst í samkomubanni – en margir vinna nú heima og nýta fjarfundabúnað við störf sín. Guðmundur Ingi segir að ef fyrirtæki eða stofnanir séu í þeirri stöðu að starfsmenn þeirra þurfi ekki að mæta alla daga á vinnustaðinn þá skuli nýta það tækifæri. „Eitt af því sem við þurfum að gera er að draga úr umferð. Það er alveg ljóst. Ég held að við getum lært eftir þennan tíma að fólk getur unnið heima einn dag í viku, jafnvel tvo daga í viku, á sumum vinnustöðum. Fólk og fyrirtæki geta hugsað á skapandi hátt hvernig hægt sé að skipuleggja starfið til þess að þetta sé mögulegt. Og þannig myndi draga varanlega úr losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum.“
Þetta eigi jafnframt við um ferðir erlendis sem muni enn meira um. „Þannig að bæði það sem snýr að skipulagi hjá fyrirtækjum og stofnunum og lífi okkar einstaklinganna þá held ég að þetta hafi sýnt okkur það að við getum svo sannarlega stigið einföld skref sem skipta miklu máli. Þetta er náttúrulega það sem snýr að daglegu lífi. Svo þurfa líka að eiga sér stað kerfisbreytingar þar sem hið opinbera ýtir við nýsköpun, beitir hvötum og styrkjum og fyrirtæki og atvinnulíf fjárfesta í loftslagsvænum lausnum og þróun, sem færir okkur nær umhverfisvænni heimi.“
Hann segir að það verði áskorun fyrir fyrirtæki hvað varðar fjárfestingar út af þeirri efnahagslægð sem er gengin í garð en þá sé mikilvægt að hvatar séu til staðar til þess að fjárfestingin fari í grænni átt. „Við höfum náttúrulega verið að setja inn ákveðna hvata hvað varðar til dæmis orkuskipti og mun meira fjármagn í nýsköpun sem munu nýtast núna í framhaldinu. Við þurfum að skoða hvata líka fyrir fleiri geira.“
Segir að með aðgerðapakkanum sé ákveðnum umhverfismálum flýtt
Guðmundur Ingi segir að í fyrsta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar, sem samþykktur var á Alþingi í lok mars síðastliðins, hafi verið aukið fjármagn til orkuskipta sem meðal annars nýtist varðandi vegasamgöngur og hafnarstarfsemi. „Við vinnum nú að því að koma því fjármagni í gagnið og útfæra með hvaða móti við gerum það,“ segir hann og bætir því við að í því samhengi horfi þau til að mynda til hafna, bílaleigubíla og þungaflutningabíla með loftslagsvænu gleraugunum.
Þá segir ráðherrann að auknu fjármagni verði varið til kolefnisbindingar; endurheimtar votlendis, gróðursetningar á birkitrjám og til nýsköpunar innan þessa geira. Hann spyr jafnframt með hvaða hætti hægt sé til dæmis að nota moltu, sem verður til úr lífrænum úrgangi í landgræðslu og skógrækt og einnig í landbúnaði. Þannig sé hægt að draga úr því hvað fólk noti af auðlindum og nýta þær á skilvirkari hátt.
Þannig telur Guðmundur Ingi að með aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar sé ákveðnum umhverfismálum flýtt og vonast hann til að hægt verði að sjá losun fara hraðar niður á næstu árum.
Flýta uppbyggingu innviða á vinsælum ferðamannastöðum
Þá vill ráðherrann nefna þau tækifæri sem nú skapast þrátt fyrir að staðan sé svört í ferðaþjónustunni. „Við verðum að horfa til þess að það sem ferðaþjónustan hefur fyrst og fremst byggt á er náttúra Íslands. Og það að vera með stefnu sem gengur út á það að vernda þessa náttúru okkar til framtíðar er til þess fallið að styðja við endurreisn ferðaþjónustunnar,“ segir hann.
„Við höfum verið að setja mikið fjármagn í að byggja innviði á vinsælustu ferðamannastöðunum og því erum við að halda áfram. Við erum að flýta slíkum verkefnum með fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar,“ segir hann og nefnir sem dæmi Jökulsárlón, Dyrhólaey og Þingvelli. Á sama tíma þurfum við að hugsa hvernig hægt sé að byggja upp ferðaþjónustuna eftir þetta áfall sem nú ríður yfir. Hvernig hægt sé að byggja upp ferðaþjónustu þar sem áhrifin á náttúruna og umhverfið séu sem allra minnst.
„Þá getum við horft til þess á næstu árum að gera bílaflota ferðaþjónustunnar umhverfisvænni, hvort sem um er að ræða metanbíla, vetnisbíla eða rafbíla. Á sama tíma pössum við upp á að álagið af ferðaþjónustunni sé ekki of mikið á náttúruna okkar,“ segir hann.
Stærsta áskorun framtíðar verður flugið
Enn fremur minnist Guðmundur Ingi á hálendisþjóðgarð en ráðherra telur slíkan þjóðgarð vera gott tækifæri fyrir landkynningu á Íslandi þrátt fyrir að ekki allir fari upp á hálendi. „Það að vera með stærsta þjóðgarð í Evrópu er aðdráttarafl í sjálfu sér og mikil tækifæri felast í slíkri markaðssetningu.“
Stærsta áskorun framtíðar verður þó flugið, að mati ráðherra. „Vegna þess að flestir sem koma til eyjunnar okkar fögru koma með flugi. Þá er ofboðslega mikilvægt að það verði ekki dráttur á því að þjóðir heims setji fjármagn í að þróa umhverfisvænni leiðir til þess að koma okkur á milli staða, líka þegar um flug er að ræða. Það verður alltaf stór þáttur þegar kemur að Íslandi upp á losun gróðurhúsalofttegunda þangað til umhverfisvænni tæknilausnir verða innleiddar,“ segir hann að lokum.
Lesa meira
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Möguleg ljós- og lyktmengun af nýju landeldi við Þorlákshöfn þurfi nánari skoðun
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
5. janúar 2023Skipulagsstofnun dregur fram kosti Miðleiðar að Fjarðarheiðargöngum
-
30. desember 2022Áskorun til þingmanna: Takið þátt í Veganúar!
-
30. desember 2022Árið sem Íslendingar hentu minna af fötum en kínverskur tískurisi hristi upp í hlutunum
-
30. desember 2022Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi
-
29. desember 2022Vindmyllur við Lagarfoss þurfa í umhverfismat
-
28. desember 2022Vilja nota kopar á kvíar í Arnarfirði – eitrað og jafnvel skaðlegt segir Hafró
-
26. desember 2022Framtíðin er núna