Samkeppniseftirlitið opinberaði á fimmtudag að Novator, fjárfestingafélag ríkasta manns Íslands, Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefði fjármagnað kaup á DV og tengdum fjölmiðlum haustið 2017 og gríðarlegan taprekstur þeirra alla tíð síðan.
Það gerði Novator með því að lána eigenda útgáfufélags fjölmiðlanna að minnsta kosti 745 milljónir króna vaxtalaust.
Lengi hefur verið orðrómur um að Björgólfur Thor væri sá sem stæði á bakvið DV, en skráður eigandi hefur ætið verið lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson. Sá orðrómur byggði meðal annars á því að með kaupunum á miðlunum, í september 2017, hafi hann náð að gera gömlum fjandmönnum sínum, Róberti Wessman og Árna Harðarsyni, skráveifu.
Kjarninn hefur sent fyrirspurnir um málið á talsmann Björgólfs Thors, en ætið fengið þau svör að orðrómurinn væri ekki sannur. Heimildir Kjarnans herma að fjölmiðlanefnd hafi líka kallað eftir upplýsingum um það til að meta raunveruleg yfirráð yfir einu stærsta fjölmiðlafyrirtæki á Íslandi en því hafi einfaldlega verið neitað.
Nefndin taldi sig ekki hafa nein lögmæt tól til að grípa til aðgerða vegna þessa og því fékk leyndin að lifa.
Niðurstaðan var sú að hér var rekið stórt fjölmiðlafyrirtæki fyrir peninga huldumanns árum saman án þess að gerð væri opinber grein fyrir aðkomu hans. Í millitíðinni var meðal annars farið í tæknilega uppstokkun á vefmiðlum fjölmiðlasamstæðunnar sem leiddi til þess að gamlar fréttir af DV, frá árunum eftir bankahrun, urðu ekki lengur aðgengilegar.
Á endanum brast þó þolinmæðin gagnvart taprekstri útgáfunnar og henni var rennt inn í Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins og fleiri miðla, fyrr á þessu ári. Það var við skoðun á þeim samruna sem Samkeppniseftirlitið krafðist þess að fá upplýsingar um hver hefði fjármagnað DV.
Hér að neðan verður þessi saga öll rakin.
Björn Ingi Hrafnsson smíðar fjölmiðlaveldi
Mikil dramatík var á fjölmiðlamarkaði á árinu 2017. Mest var hún í kringum Pressusamstæðu Björns Inga Hrafnssonar, sem hafði árin á undan farið mikinn og sankað að sér allskyns fjölmiðlum oft með skuldsettum yfirtökum. Síðasta yfirtakan var á tímaritaútgáfunni Birtingi í lok árs 2016 og eftir hana voru tæplega 30 miðlar í Pressusamstæðunni. Þeirra þekktastir voru DV, DV.is, Eyjan, Pressan, sjónvarpsstöðin ÍNN og tímaritin Vikan, Gestgjafinn, Nýtt líf og Hús og híbýli.
Í apríl 2017 var tilkynnt um að hlutafé Pressunnar yrði aukið um 300 milljónir króna og að samhliða myndi Björn Ingi stíga til hliðar. Sá aðili sem ætlaði að koma með mest fé inn í reksturinn var Fjárfestingafélagið Dalurinn, félag í eigu Róberts Wessman, Árna Harðarsonar og þriggja annarra manna, sem höfðu áður lánað Birni Inga. Með þeim var hópur annarra fjárfesta og svo virtist sem Pressusamstæðunni væri borgið.
Þessi hópur hefur eldað grátt silfur saman við Björgólf Thor Björgólfsson árum saman, eða frá því að Róbert og Árni störfuðu hjá Actavis þegar Björgólfur Thor átti það félag að mestu. Birtingarmyndir þess hafa verið margskonar.
Björgólfur Thor hefur ætið haldið því fram að hann hafi rekið Róbert fyrir að setja félagið á hliðina en Róbert hefur hafnað því. Björgólfur Thor hefur meðal annars stefnt bæði Róberti og Árna til greiðslu skaðabóta fyrir meintan fjárdrátt og báðir aðilar hafa atyrt hinn á opinberum vettvangi við hvert tækifæri árum saman. Deilurnar náðu síðan nýjum hæðum í haustið 2015 þegar í ljós kom að um 60 prósent þeirra hlutabréfa sem var að baki hópmálsókn fyrrverandi hluthafa Landsbankans gegn Björgólfi Thor voru í eigu félags sem Árni Harðarson á. Björgólfur Thor sagði á heimasíðu sinni að „fingraför þessarra kumpána [Róberts og Árna] hafa verið á málinu frá upphafi“.
Þeir kumpánar, sem hafa undanfarin ár einbeitt sér að uppbyggingu samheitalyfjafyrirtækisins Alvogen, voru þarna, á árinu 2017, komnir á fullt í fjölmiðlageirann.
DV og tengdir miðlar seldir fyrir huldufé
Þeir komust þó fljótt að því að mun meira vantaði til þess að rétta af reksturinn en þeir höfðu talið áður. Um miðjan maí voru þeir hættir við aukna fjárfestingu en áttu þó enn meirihluta hlutafjár í samstæðunni. Á sama tíma var kaupum Pressunnar á Birtingi rift og Dalurinn keypti í kjölfarið allt hlutafé þess fyrirtækis.
Dramatíkinni var þó hvergi nærri lokið. Í byrjun september var tilkynnt að Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður hefði ásamt hópi fjárfesta keypt flesta lykilmiðla Pressusamstæðunnar með hlutafjáraukningu. Um var að ræða DV, DV.is, Pressuna, Eyjuna, Bleikt, ÍNN og tengda vefi. Eftir í gamla eignarhaldsfélaginu voru skildir héraðsfréttamiðlar. Forsvarsmenn Dalsins sögðu að þeir hefðu ekki vitað um þennan gjörning fyrr en hann var afstaðinn. Verið væri að selja undan þeim eignir sem þeir ættu með réttu.
Í tilkynningu frá Birni Inga sem send var út vegna þessa sagði að kaupverðið væri „vel á sjötta hundrað milljónir króna og er greitt með reiðufé og yfirtöku skulda.“
Ekki var gerð grein fyrir því hvernig kaupin voru fjármögnuð.
Reyndi að greiða fyrir hlutafé með steikum
Eigendur Dalsins kærðu Björn Inga í kjölfarið fyrir fjársvik og sögðu hann hafa haft í hótunum við sig persónulega. Í yfirlýsingu sem Árni Harðarson sendi frá sér í febrúar 2018 sagði að markmið þeirra hótana hafi verið að komast hjá „skoðun opinberra aðila á bókhaldi og fjárreiðum Pressunar og tengdra miðla.“ Þá sagði Árni að Björn Ingi hafi reynt að greiða fá að greiða fyrir hlutafé í Pressunni með steikum frá veitingahúsinu Argentínu, að Björn Ingi hafi fengið persónulega greiddar 80 miljónir króna þegar hann seldi allar eignir DV og Pressunnar og að í smáskilaboðum sem hann hafi sent Árna á kjördegi í fyrra hafi Björn Ingi sagt: „Er núna að klastra saman ríkisstjórn og langar að koma á friði okkar í millum“.
Þar sagði enn fremur að hótanir hefðu borist þegar Dalurinn „vildi ekki láta hann persónulega fá meiri pening[...]þegar hann sá að Dalurinn vildi ekki setja meiri pening í að bjarga illa reknum einkabanka hans í formi Pressunnar og[...]þegar Dalurinn vildi ekki láta hann fá hlutafé sitt í Pressunni eftir að hann seldi allar eigur þess.“
Í febrúar 2020 gerði Héraðsdómur Vesturlands Birni Inga að greiða þrotabúi Pressunnar milljónirnar 80, sem hann fékk greiddar eftir að Frjáls fjölmiðlun keypti fjölmiðla úr veldi hans, vegna þess að ekkert hafi bent til þess að Pressan hafi í raun skuldað honum peninganna. Um „örlætisgjörning“ hafi verið að ræða.
Það breytti því ekki að flestir miðlar fjölmiðlaveldis hans höfðu verið seldir til Frjálsrar fjölmiðlar. Eftir í eignarsafni Dalsins var einungis útgáfufélagið Birtingur, sem gaf út Mannlíf og nokkur tímarit.
Ljóst var að nýir eigendur fjölmiðlanna sem seldir voru í september 2017 vildu núa Dalsmönnum því um nasir. Skýrasta birtingarmynd þess var að eignarhaldsfélagið utan um útgáfufélagið Frjálsa fjölmiðlum var nefnt Dalsdalur.
Skuldir upp á 759 milljónir króna
Birtingur er enn í eigu Dalsins. Það félag er nú skráð í eigu Halldórs Kristmannssonar, framkvæmdastjóra hjá Alvogen og náins samstarfsmanns Róberts Wessman og Árna Harðarsonar til margra ára. Í mars 2020 dæmdi Landsréttur að Frjáls fjölmiðlun ætti að greiða Dalnum 15 milljónir króna auk vaxta vegna samnings sem gerður var í tengslum við kaupin á miðlunum í september 2017.
Birtingur tapaði samtals 317 milljónum króna á árunum 2017 og 2018. Ársreikningur fyrir árið 2019 hefur ekki verið birtur. Það tap hefur að öllu leyti verið greitt af Dalnum.
Frjáls fjölmiðlun hefur gengið enn verr. Kjarninn greindi frá því í lok október í fyrra að Dalsdalur, eigandi útgáfufélagsins, hefði skuldað tæplega 759 milljónir króna í lok árs 2018. Uppistaða skuldarinnar var vaxtalaust langtímalán upp á alls 745 milljónir króna sem átti að greiðast síðar en 2022. Skuldirnar jukust um 270 milljónir króna á árinu 2018.
Sigurður G. Guðjónsson, skráður eigandi Dalsdals, hefur aldrei viljað upplýsa um við hvern þessi vaxtalausa skuld var.
Rennt inn í Torg
Sigurður hafði ráðið Karl Garðarsson, fyrrverandi þingmann Framsóknarflokksins sem stofnaði fríblaðið Blaðið með Sigurði árið 2005, sem framkvæmdastjóra Frjálsrar fjölmiðlunar strax eftir kaupin á DV og tengdum miðlum haustið 2017. Karl sótti um stöðu útvarpsstjóra RÚV fyrr á þessu ári en var ekki ráðinn.
Reksturinn gekk hins vegar hörmulega og tapið var mikið. Á fyrstu fjórum mánuðum starfseminnar tapaði félagið 43,6 milljónum króna. Á árinu 2018 jókst tapið umtalsvert og var um 240 milljónir króna. Samtals tapaði fjölmiðlasamstæðan því 283,6 milljónum króna á 16 mánuðum. Ekki liggur fyrir hversu mikið tapið var 2019 em ljóst að það var umtalsvert. Sigurður sagði við RÚV í desember að „reksturinn er mjög erfiður[...]þetta er búið að vera rekið með tapi frá árinu 2017.“
Þann 12. desember 2019 greindi Kjarninn frá því að Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins, væri að kaupa DV og tengda miðla af Frjálsri fjölmiðlun. Útgáfufélögin staðfestu svo kaupin daginn eftir. Ástæðan fyrir kaupunum var sögð vera erfitt rekstrarumhverfi.
Með kaupunum á DV og tengdum miðlum var Torg, sem hafði nokkrum mánuðum áður tekið yfir sjónvarpsstöðina Hringbraut, orðið að einu stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins. Stærsti eigandi Torgs er Helgi Magnússon fjárfestir, sem á 82 prósent í samstæðunni.
Samkeppniseftirlitið blessaði kaupin í mars síðastliðnum án þess að það teldi ástæðu til að aðhafast.
Samkeppniseftirlitið stígur inn
Á fimmtudag birtist ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna samrunans á vef þess. Þar kom meðal annars fram að DV og tengdir miðlar hefðu átt í rekstrarerfiðleikum sem m.a. birtist í fækkun útgáfudaga og gríðarlegum taprekstri, sem væri aflvaki samrunans. Í samrunaskránni rökstuddu aðilar málsins hann með því að benda á að „Morgunblaðið sé rekið ár eftir ár með mörg hundruð milljóna tapi á ári og tap Birtíngs sem gefi út Mannlíf og tímarit sé rekið með tapi upp á annað hundrað milljónir á liðnu ári. Fljótt á litið virðist sem innlendir einkareknir fjölmiðlar hafi á árinu 2018 tapað í kringum eitt þúsund milljónum og uppsafnað tap innlendra miðla á liðnum árum sé nokkur þúsund milljónir[...]Yfirvöld í landinu verði að fara að gera sér grein fyrir því að það sé engan veginn sjálfgefið í þessum veruleika að innlendir fjölmiðlar muni starfa áfram. Einn daginn gæti staðan verið sú, ef fram fer sem horfir að í landinu verði ein ríkisrekin fréttastofa.“
Samkeppniseftirlitið óskaði eftir umsögnum frá samkeppnisaðilum fjölmiðlafyrirtækjanna tveggja. Í álitinu segir að þrír umsagnaraðilar hafi tjáð sig um samrunann og töldu fyrirhugaðan samruna ekki koma til með að hafa teljandi áhrif á samkeppni á þeim mörkuðum sem um væri að ræða. „Einn af þeim óskaði þó eftir því að Samkeppniseftirlitið setti það sem skilyrði fyrir samrunanum að upplýst yrði um raunverulega eigendur Frjálsrar fjölmiðlunar. Leyndin yfir því hver raunverulegur eigandi þess sé valdi öðrum fjölmiðlafyrirtækjum miklum skaða og bjagi markaðsstöðu óhjákvæmilega.“
Samkeppniseftirlitið ákvað að taka tillit til þessa og krafðist þess að upplýst yrði hver það væri sem fjármagnaði rekstur Frjálsrar fjölmiðlunar. Þann 14. janúar 2020 barst svar. í því kom „fram að félagið Novator ehf. hefur verið eini lánveitandi Dalsdals og Frjálsrar fjölmiðlunar og helsti bakhjarl fjölmiðilsins frá eigendaskiptum árið 2017.“
Einn ríkasti maður heims
Novator er aðallega í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, sem hefur lengi verið einn ríkasti Íslendingurinn. Hann efnaðist á því að selja bjórverksmiðju í Rússlandi, fjárfesti svo mikið í lyfja- og fjarskiptaiðnaðinum auk þess að kaupa ráðandi hlut í Landsbanka Íslands ásamt föður sínum og viðskiptafélaga þeirra. Fjármálahrunið 2008 setti veldi hans í hættu.
Í ágúst 2014 var tilkynnt að skuldauppgjöri Björgólfs Thors væri lokið og að hann hefði greitt kröfuhöfum sínum, að mestu stórum alþjóðlegum bönkum, samtals um 1.200 milljarða króna. Það uppgjör tryggði honum mikinn auð þar sem hann, og Novator, fengu að halda góðum eignarhluta í Actavis að því loknu, sem hefur síðan verið seldur. Sá eignarhluti hefur gert Björgólf Thor og aðra eigendur Notavor mjög efnaða á ný. Björgólfur Thor gaf árið 2015 út bók um fall sitt og endurkomu. Kjarninn birti umfjöllun um bókina skömmu eftir að hún kom út.
Björgólfur Thor, og samstarfsmenn hans í Novator, þeir Birgir Már Ragnarsson og Andri Sveinsson, hafa farið mikinn í fjárfestingum síðastliðinn rúman áratug, að mestu annars staðar en á Íslandi. Novator er þó enn með umsvif hérlendis, og er meðal annars stór hluthafi í fjarskiptafyrirtækinu Nova. Þá tók Björgólfur Thor þátt í skuldabréfaútboði WOW air í september 2018, nokkrum mánuðum áður en að flugfélagið fór í þrot, en í gegnum eigin félag. Og nú liggur fyrir að Novator fjármagnaði líka mikinn taprekstur DV og tengdra miðla árum saman.
Í mars í fyrra var sagt frá því að Björgólfur Thor sæti í 1.116 sæti á lista Forbes yfir milljarðamæringa heimsins og að auður hans væri metinn á 2,1 milljarð Bandaríkjadali.
Tveimur mánuðum síðar, í maí 2019, var Björgólfur Thor í 91. sæti yfir ríkustu menn Bretlands samkvæmt lista The Sunday Times.
Sterkur orðrómur hafði verið um það frá upphafi að Novator eða Björgólfur Thor persónulega væru að fjármagna rekstur Frjálsrar fjölmiðlunar. Þegar Kjarninn hefur leitað eftir svörum hjá félaginu um hvort það væri sagt var því ætið neitað.
Áhyggjur af fjársterkum aðilum og markmiðum þeirra
Samkeppniseftirlitið hefur látið sig fjölmiðlamarkaðinn varða á fleiri vegu undanfarnar vikur. Í janúar skilaði það inn umsögn um fjölmiðlafrumvarp Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem átti að koma upp styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla á Íslandi, að sambærilegu meiði og er til staðar á öðrum Norðurlöndum. Þar sagði eftirlitið að það teldi brýnt að stuðningur við fjölmiðla af almannafé hafi það að meginmarkmiði að styðja við fjölræði og fjölbreytni. „Í þessu sambandi hefur Samkeppniseftirlitið í huga að eignarhald stærri einkarekinna fjölmiðla hefur í vaxandi mæli þróast á þann veg að eignarhaldið hefur færst á hendur fjársterkra aðila sem standa fyrir tiltekna skilgreinda hagsmuni í íslensku atvinnulífi. Í sumum tilvikum blasir við að ráðstöfun þessara aðila á fjármunum í fjölmiðlarekstur hefur það meginmarkmið að Ijá hagsmunum viðkomandi aðila enn sterkari rödd og vinna þeim þannig frekari framgang.“
Umsögn Samkeppniseftirlitsins er dagsett 13. janúar. Daginn eftir fékk það upplýsingar um að ríkasti maður Íslandi hefði fjármagnað umtalsverðan taprekstur fjölmiðlafyrirtækis í lengri tíma án þess að gert væri nokkur opinber grein fyrir aðkomu hans.
Í áliti eftirlitsins vegna kaupa Torgs á Frjálsri fjölmiðlun segir að þau „muni hafa í för með sér að fjölmiðlar Torgs verði í meirihlutaeigu eins manns, auk þriggja annarra sem fari með smærri hlut. Að því leytinu til feli fyrirhugaðar breytingar í sér samþjöppun á fjölmiðlamarkaði sem áhrif hafi á fjölræði á markaði.“
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi