Vill láta fjalla um „önnur rannsóknarúrræði“ en rannsóknarnefnd
Forseti Alþingis vill að kannað sé hvort að „önnur rannsóknarúrræði“ en rannsóknarnefnd Alþingis dugi ekki til að rannsaka fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Ekki sé útilokað að óska megi eftir mati ríkisendurskoðunar á henni. Ríkisendurskoðun segist ekki sjá að lagaskilyrði séu til þess að embættið geti komið í stað rannsóknarnefndar í málinu.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, gerir margháttaðar athugasemdir við þingsályktunartillögu um rannsókn á fjárfestingarleið Seðlabanka íslands sem allir þingmenn Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar lögðu fram í nóvember síðastliðnum, og er til meðferðar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
Í niðurstöðukafla umsagnar Steingríms, sem er alls 18 blaðsíðna löng, er tekið sérstaklega fram að árétta verði að það sé Alþingi sjálft sem ákveði hvort skipuð verður rannsóknarnefnd. Tilgangur umsagnar forseta Alþingis sé að draga saman upplýsingar og sjónarmið sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd geti litið til við undirbúning álits um tillögu til þingsályktunar um skipun rannsóknarnefndar um fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands.
Í tillögunni, sem var fyrst kynnt í nóvember 2019, er farið fram á að þriggja manna rannsóknarnefnd verði skipuð og að hún geri grein fyrir því hvaðan fjármagnið sem flutt var til landsins með fjárfestingarleiðinni kom, hvaða einstaklingar eða félög voru skráð fyrir fjármagninu sem flutt var til landsins, hvernig fénu sem flutt var inn til landsins var varið og hver áhrif þess voru á íslenskt efnahagslíf.
Þar er einnig kallað eftir að upplýsingar verði dregnar fram um hvort ríkissjóður hafi orðið af skatttekjum vegna leiðarinnar og þá hversu mikið það tap var, hvort að samþykkt tilboð í útboðum fjárfestingarleiðarinnar kunni í einhverjum tilvikum að hafa brotið gegn skilmálum hennar og hvort fjárfestingarleiðin kunni að hafa verið notuð til að koma óskráðum og óskattlögðum eignum Íslendinga á aflandssvæðum aftur til landsins, til að stunda peningaþvætti eða misnotuð með öðrum hætti.
Upphaflega var lagt til að rannsóknarnefndin myndi ljúka störfum í október 2020 en ljóst er að það markmið næst ekki, verði nefndin yfirhöfuð skipuð.
Athugasemdir í tíu punktum
Forseti Alþingis setur fram athugasemdir sínar við málið fram í tíu punktum í umsögninni. Hann segir meðal annars að huga þurfi nánar að markmiðum rannsóknarinnar og hvernig svör við álitaefnum þingsályktunartillögunnar tengjast eftirlitshlutverki Alþingis með framkvæmdavaldinu, að gæta þurfi að því að greina getur þurft á milli málefna einstaklinga og málsmeðferðar stjórnvalda og að huga þurfi sérstaklega að því hvort lög um rannsóknarnefndir séu til þess fallin að svara þeim spurningum sem snúist um meint lögbrot.
Steingrímur segir ennfremur að með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum, greinargerðum og skýrslum um fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, væri rétt að greina hverju sé ólokið við rannsókn á málefninu og hvaða spurningum sé ósvarað áður en að ráðist sé í að skipa rannsóknarnefnd Alþingis um málið.
Í tillögunni væri rétt að taka fram hvort rannsóknarnefnd um fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands sé ætlað að fjallað um lögfræðileg atriði sem varpað geta ljósi á hvort tilefni sé til þess að þar til bær stjórnvöld kanni grundvöll ábyrgðar einstaklinga eða lögaðila. „Við afmörkun tillögunnar verður að hafa í huga að skattrannsóknarstjóri annast skattrannsóknir og öðrum stjórnvöldum, þ.m.t. ríkisskattstjóra og fjármálaeftirliti, er falið eftirlit með framkvæmd laga um peningaþvætti.“
Seðlabankinn þegar búinn að taka út eigin verk
Seðlabankinn, sem stóð að fjárfestingarleiðinni og framkvæmdi hana, hefur sjálfur gert skýrslu um leiðina sem birt var í ágúst í fyrra. Þar kom meðal annars fram að aflandsfélög frá lágskattasvæðum hefðu flutt inn 2,4 prósent af heildarfjárfestingu í gegnum leiðina. Eðlilegt væri, í ljósi sögunnar, að gagnrýna að það hefði verið gerlegt að ferja fjármuni frá slíkum svæðum í gegnum hana.
Í skýrslunni sagði einnig að það væri ekki hlutverk Seðlabanka Íslands að útdeilda réttlæti í samfélaginu „með því að greina á milli æskilegra og óæskilegra fjárfesta, verðugra og óverðugra.“ Það sé ekki úrlausnarefni hans. „Önnur stjórnvöld og stofnanir hafa hlutverki að gegna við að framfylgja lögum landsins, m.a. Samkeppniseftirlitið, Fjármálaeftirlitið, ríkisskattstjóri, skattrannsóknarstjóri, lögregla, saksóknarar og svo dómstólar sem endanlega kveða á um sekt manna og réttarstöðu þeirra gagnvart lögum og stjórnvöldum. Seðlabankanum er ekki heimilt að fara inn á valdsvið þeirra þvert á öll sjónarmið um lögbundna stjórnsýslu og valdmörk stjórnvalda. Þá hefði Seðlabankinn ekki heldur getað aflað upplýsinga um fjárfesta frá lögreglu eða saksóknara, og á grundvelli þess útilokað fjárfesta sem kynnu að hafa verið til rannsóknar hjá öðrum stjórnvöldum, og tekið þannig afstöðu til sektar eða sýknu. Fyrir því skorti lagagrundvöll.“
Fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands
Fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands, sem einnig var nefnd 50/50 leiðin, var gríðarlega umdeild aðferð sem Seðlabankinn beitti til minnka hina svokölluðu snjóhengju, krónueignir erlendra aðila sem fastar voru innan fjármagnshafta og gerðu stjórnvöldum erfitt fyrir að vinna að frekari losun þeirra hafta. Samkvæmt henni gátu þeir sem samþykktu að koma með gjaldeyri til Íslands skipt þeim í íslenskar krónur á hagstæðara gengi en ef þeir myndu gera það í næsta banka.
Þeir sem tóku á sig „tapið“ í þessum viðskiptum voru aðilar sem áttu krónur fastar innan hafta en vildu komast út úr íslenska hagkerfinu með þær. Þeir sem „græddu“ voru aðilar sem áttu erlendan gjaldeyri en voru tilbúnir að koma til Íslands og fjárfesta fyrir hann. Seðlabankinn var síðan í hlutverki milligönguaðila sem gerði viðskiptin möguleg. Líkt og verslun sem leiddi heildsala og neytendur saman.
Alls fóru fram 21 útboð eftir fjárfestingaleiðinni frá því í febrúar 2012 til febrúar 2015, þegar síðasta útboðið fór fram. Alls komu um 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðarinnar, sem samsvarar um 206 milljörðum króna.
Ef þeir sem komu með þennan gjaldeyri til Íslands hefðu skipt þeim á opinberu gengi Seðlabankans, líkt og venjulegt fólk þarf að gera, hefðu þeir fengið um 157 milljarða króna fyrir hann. Virðisaukningin sem fjárfestingaleiðin færði eigendur gjaldeyrisins í íslenskum krónum var því 48,7 milljarðar króna. Skilyrt var að binda þyrfti féð sem fært var inn í landið með þessu hætti í fasteignum, verðbréfum, fyrirtækjum eða öðrum fjárfestingakostum. Því má segja að þeir sem hafi nýtt sér fjárfestingarleiðina hafi fengið um 20 prósent afslátt af þeim eignum sem þeir keyptu.
794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði um 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi. Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar. Afslátturinn, eða virðisaukningin, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans er um 17 milljarðar króna.
Þegar Seðlabanki Íslands skilaði umsögn um skipun rannsóknarnefndarinnar segir að bankinn leggist ekki sérstaklega gegn því að fram fari rannsókn á flutningi fjár til landsins á grundvelli fjárfestingarleiðar Seðlabankans telji Alþingi líklegt að slík rannsókn bæti einhverju við þá rannsókn sem þegar hefur farið fram á vegum ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra á leiðinni.
Skattrannsóknarstjóri hvorki með mannskap né tíma til að rannsaka
Ekkert þeirra embætta sem Seðlabankinn taldi upp í skýrslu sinni, og sagði að hefðu það hlutverk að útdeilda réttlæti, hafa rannsakað fjárfestingarleið Seðlabankans af einhverri alvöru. Það hefur Kjarninn fengið ítrekað staðfest í samtölum við fólk sem starfar hjá þeim embættum. Fyrir liggur til að mynda að á þeim tíma þegar leiðin var opin, á árunum 2011 til 2015, voru peningaþvættisvarnir þeirra sem áttu að kanna færslur á fé í gegnum leiðina, íslensku bankanna, í lamasessi og Fjármálaeftirlitið, sem átti að hafa eftirlit með vörnum bankanna, brást með engu við á þeim tíma.
Þá hafa skattayfirvöld hafa ekki framkvæmt neina tæmandi rannsókn á því hvort skattasniðganga hafi átt sér stað. Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri sagði í umsögn sinni um málið, sem skilað var til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrr á þessu ári, að embætti hennar hafi ekki haft tök á því að rannsaka að fullu þau gögn sem það hefur fengið afhent um þá aðila sem nýttu sér fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands vegna manneklu og „annarra aðkallandi verkefna“.
Embættið hefur einungis framkvæmt úrtakskönnun sem náði til ellefu einstaklinga sem búsettir voru hérlendis og úr þeirri könnun tekið eitt mál til frekari rannsóknar, þar sem grunur var um undanskot á fjármagnstekjum er nemur á þriðja hundrað milljóna króna. Því máli var vísað til héraðssaksóknara í maí 2020 vegna þess að skattrannsóknarstjóri taldi að þar hefði átt sér stað refsiverð háttsemi. Sú niðurstaða hefur þó ekki leitt af sér frekari rannsóknir á öðrum sem nýttu fjárfestingarleiðina.
Vill að þau skýri betur orðalag
Samkvæmt lögum um rannsóknarnefndir verður rannsóknarnefnd ekki jafnframt falin rannsókn slíkra mála eða dómsvald. Hlutverk rannsóknarnefndar er fyrst og fremst að afla upplýsinga um málsatvik í mikilvægu máli sem varði þýðingu fyrir eftirlitshlutverk Alþingis.
Í umsögn Steingríms segir að sum atriði tillögu stjórnarandstöðuflokkanna „mætti skýra betur þar sem orðalag getur valdið vafa við framkvæmd rannsóknar“.
Þá sé umfang rannsóknarinnar allnokkuð og helst valdi vafa að rannsóknarnefndin eigi að leggja mat á „m.a." framkvæmd fjárfestingarleiðarinnar og efnahagsleg áhrif en þessi framsetning geti valdið vafa um afmörkun rannsóknar og orðið til þess að hún dragist úr hófi. Forseti Alþingis leggur líka til að frekara mat verði lagt á nauðsynlegan fjölda nefndarmanna í rannsóknarnefnd um fjárfestingarleið Seðlabanka íslands, fjölda starfsmanna nefndarinnar og hvaða hæfniskröfur gera eigi til þeirra. „Loks er lagt til að fram fari eins greinargott mat á kostnaði við þá rannsókn, sem lagt er upp með í þingsályktunartillögunni, og kostur er og með hliðsjón af endurmati á starfstíma rannsóknarnefndarinnar, svo Alþingi geti tekið afstöðu til málsins í heild sinni.“
Ríkisendurskoðun segist ekki geta komið í stað rannsóknarnefndar
Steingrímur telur að fjalla þurfi nánar um ástæður þess að grípa skuli til þess sérúrræðis sem skipun rannsóknarnefndar sé „og af hverju önnur rannsóknarúrræði duga ekki.“ Ekki sé til að mynda útilokað að óska „megi eftir mati ríkisendurskoðanda á frammistöðu Seðlabanka Íslands við framkvæmd fjárfestingarleiðarinnar.“
Steingrímur sendi bréf til Ríkisendurskoðunar 27. maí síðastliðinn þar sem óskaði eftir umsögn um „hvort það mál sem þingsályktunartillagan lýtur að falli undir starfssvið ríkisendurskoðanda“.
Í umsögn sem Ríkisendurskoðun sendi til baka 3. júní, og Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi skrifar undir, segir að embættið telji starfssvið sitt ekki ná til þeirrar rannsóknar sem lagt er til að fari fram. Það verði ekki séð að lagaskilyrði séu til þess að embættið geti komið í stað rannsóknarnefndar í þessu tilfelli.
Í umsögn Ríkisendurskoðunar segir að reynslan hafi sýnt að þegar Alþingi hafi skipað rannsóknarnefnd hafi verið óumdeilt að nauðsynlegt hafi verið að grípa til slíks úrræðis. „Með öðrum orðum þá hefur rannsóknarnefnd sem falið er að gera ítarlega athugun á tilteknu máli, mikið og alvarlegt yfirbragð. Fáar rannsóknarnefndir hafa verið skipaðar og flestar þeirra eiga það sameiginlegt að hafa verið falið að rannsaka ákveðna þætti í falli íslensku bankanna haustið 2008 og þá samfélagslegu og efnahagslegu kollsteypu sem varð á íslensku þjóðlífi vegna þess. Þegar rannsóknarnefnd hefur lokið störfum hefur kynning á niðurstöðum vakið athygli og skapað umræður í samfélaginu. Af þessu má því ráða að tillaga um skipan rannsóknarnefndar hefur mikla þýðingu pólitískt séð, er þýðingarmikil í fréttum og hver svo sem niðurstaða rannsóknarinnar verður mun hún vekja umræður og jafnvel nýjar spurningar.“
Ríkisendurskoðun telur að skýrslubeiðni til sín hafi allt annað yfirbragð og aðra pólitíska þýðingu heldur skipan rannsóknarnefndar. „Þannig vekur tillagan um rannsóknarnefnd mun meiri athygli heldur en að Ríkisendurskoðun framkvæmi afmarkaða úttekt hvort heldur það væri stjórnsýsluúttekt eða úttekt á fjárhagsstöðu tiltekinnar stofnunar. Þegar af þeim ástæðum sem fyrr er lýst má vera ljóst að flutningsmenn að 39. þingmáli munu tæplega sætta sig við að málinu verði breytt í svo miklum grundvallaratriðum að í stað rannsóknarnefndar komi eftirlitsstofnun að málinu þar sem téð mál verði eitt af mörgum sem slík stofnun afgreiðir.“
Í umsögn Steingríms segir að af skoðun ríkisendurskoðandanda leiði að honum verði „almennt ekki falin rannsókn á þeim atriðum sem þingsályktunartillagan tekur til. Þó er ekki útilokað að óska megi eftir mati ríkisendurskoðanda á frammistöðu Seðlabanka Íslands við framkvæmd fjárfestingarleiðarinnar.“
Lestu meira:
-
24. apríl 2021Ásgeir: Fjárfestingaleiðin hefði aldrei gerst á minni vakt
-
5. desember 2020Rannsókn á undanskotum vegna fjárfestingarleiðarinnar stutt á veg komin
-
11. júní 2020Vill láta fjalla um „önnur rannsóknarúrræði“ en rannsóknarnefnd
-
19. maí 2020Hundruð milljóna króna undanskot vegna fjárfestingarleiðar vísað til héraðssaksóknara
-
24. febrúar 2020Telur að rannsókn á fjárfestingarleið verði að vera „ítarleg og heildstæð“
-
24. febrúar 2020Seðlabankinn leggst ekki gegn skipun rannsóknarnefndar um fjárfestingarleiðina
-
23. janúar 2020Enn neitað að opinbera hverjir nýttu sér fjárfestingarleið Seðlabankans
-
16. nóvember 2019Rannsókn Alþingis á fjárfestingarleiðinni gæti náð yfir Samherja
-
17. ágúst 2019Hneykslið þar sem tilgangur helgar peningaþvætti
-
2. febrúar 2019Úrskurðarnefnd staðfestir neitun Seðlabankans – Áfram mun ríkja leynd um fjárfestingarleiðina