Bára Huld Beck

Íslendingar búnir að fá nóg af sjálftöku elítunnar

Alvarlegt ástand er nú komið upp í íslensku efnahagslífi. Mörg hundruð milljarða króna tap í ríkisrekstri er fyrirséð, tugir þúsunda verða án atvinnu að öllu leyti eða að hluta og þúsundir fyrirtækja standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau lifi eða deyi. Kjarninn talaði við fulltrúa í stjórnarandstöðunni til þess að kanna hvernig þeir sæju framtíðina fyrir sér – og hvaða leiðir væru bestar út úr þessu ástandi. Að þessu sinni er rætt við formann Flokks fólksins, Ingu Sæland.

Ég held að sjáv­ar­út­vegs­málin verði eitt af stóru kosn­inga­mál­unum á næsta ári – og þessi spill­ing og það sem við þurfum að horfa upp á dag­inn út og inn, þessi lít­ils­virð­ing við borg­ar­ana og þessi sjálf­taka elít­unn­ar. Við erum búin að fá nóg af þessu og ég trúi því að við eigum eftir að láta í okkur heyra.“

Þetta segir Inga Sæland, for­maður Flokks fólks­ins, um póli­tískar áherslur næsta árs og það sem hún telur að muni skipta almenn­ing máli á næstu miss­er­um.  

Þannig hafi svo­kallað Sam­herj­a­mál og „síð­asta sum­ar­gjöf­in“ – en þar vísar Inga í yfir­færslu eign­ar­halds á Sam­herja hf. eig­enda til barna sinn – ekki verið að gera sig og telur hún að Íslend­ingar muni í fram­hald­inu taka á sínum mál­um. Næsta kosn­inga­bar­átta muni í raun­inni draga þessi atriði fram. „Ég vona að hún dragi sjálftöku­væð­ing­una bein­ustu leið fram í dags­ljósið,“ segir hún. 

Auglýsing

Mis­jafnar skoð­anir eru á aðgerðum rík­is­stjórn­ar­innar í COVID-19 far­aldri eins og gengur og segir Inga það vera lág­marks­kröfu að stjórn­völd taki utan um fjöl­skyld­urnar og fátækt fólk í land­inu á tímum sem þessum – á sama hátt og þau bjarga fyr­ir­tækj­un­um. 



„Að ætla að halda því fram að fyr­ir­tæki sem hafa verið að greiða sér millj­arða í arð hafi þurft á því að halda að stinga föt­unni strax undir rík­is­kran­ann og eiga ekki krónu í eigið fé til þess að takast á við hol­skefl­una og þessa brekku. Auð­vitað hefðu þau átt að klifra sína brekku og nota sitt eigið fé og sýna að minnsta kosti smá reisn og virð­ingu við þjóð­ina sína. Við erum að henda björg­un­ar­hringum og við von­uð­umst til fyr­ir­tæki tækju við þeim sem þyrftu á að halda. En að hinir færu ekki að mis­nota þessa björg­un.“



Ingu finnst aðrar aðgerðir rík­is­stjórn­ar­innar þó algjör­lega lífs­nauð­syn­legar fyrir sam­fé­lag­ið, fyr­ir­tækin og vinn­andi fólk í land­inu. „Það kom þó að því að sem mér fannst aðgerð­irnar gjör­sam­lega hafa misst mark en það var þegar rík­is­stjórnin ákvað að greiða fyr­ir­tækjum fyrir að segja upp starfs­mönnum sín­um.“

Inga Sæland steig fyrstu skref sín sem þingmaður árið 2017.
Bára Huld Beck

Mark­miðið með hluta­bóta­leið­inni var að halda ráðn­inga­sam­bandi milli vinnu­veit­enda og laun­þeg­ans og finnst Ingu það hafa verið mik­il­væg aðferð. „Og okkur þótti það virki­lega vel gert og það tókst vel. Svo allt í einu hrópa fyr­ir­tækin hærra um að þau eigi svo óskap­lega bágt og hafi ekki einu sinni efni á að reka fólkið og borga þeim laun í upp­sagn­ar­fresti – og þá ákveður rík­is­stjórnin að gera það. Að borga laun í upp­sagn­ar­fresti burt­séð frá því hvort fyr­ir­tækið hafi efni á því eða ekki. Þannig að þarna er opn­aður ákveð­inn krani – krani íslenskra skatt­greið­enda og það flæða bara pen­ing­arnir út til þess að greiða laun í upp­sagn­ar­fresti. Þannig að það er nán­ast öllum meira eða minna sagt upp í stað þess að reyna að halda fólki í stör­f­un­um.“



Rík­is­stjórnin tók þessa umdeildu ákvörðun um að greiða upp­sagn­ar­frest­inn og telur Inga að þegar fyr­ir­tækin ætli að ráða fólkið aftur – þegar og ef allt gengur betur – þá verði það ekki gert í gegnum sama ráðn­inga­sam­band og hafi verið til staðar fyrir upp­sögn. 



„Og eins og ASÍ bendir á þá munu þessir ein­stak­lingar missa öll áunnin rétt­indi miðað við að hafa unnið ákveðið mörg ár. Þess vegna verður fleiri sagt upp en hugs­an­lega þurfti að gera. Vissu­lega er ekki hægt að svipta fólki áunnum rétt­indum sem til­tekin eru í kjara­samn­ingum en eins og við vitum eru lægstu launin mjög lág og þangað vill eng­inn fara, sér­stak­lega ef við­kom­andi hefur unnið sig upp hjá sínum vinnu­veit­anda og verið kom­inn með auka greiðslur á lægstu taxta.“

Mammon er alltaf nálægur

Inga segir að hún hefði viljað sjá gripið til aðgerða aðeins fyrr í sam­bandi við að hamla komu ferða­manna til lands­ins. „Ég vil meina að þá hefðum við sparað okkur marga tugi millj­arða vegna þess að það botn­fraus í ferða­þjón­ust­unni – og það hefði alltaf ger­st, sem og í afleiddum störf­um. En við hefðum getað losnað við lok­un­ar­styrki og ýmis­legt ann­að. Við hefðum losnað við það að banna heim­sóknir til ömmu og afa á hjúkr­un­ar­heim­ili og að mega ekki fara í rækt­ina og sund og verið í alls konar nálg­un­ar­tak­mörk­unum og í sam­komu­banni ef við hefðum við­ur­kennt ástandið aðeins fyrr.“

Ingi segir að mammon sé alltaf nálægur og að sumir forð­ist að við­ur­kenna vand­ann sem þjóðir heims­ins þurftu að takast á við. Íslend­ingar hefðu átt að taka mark á þessum vanda fyrr.

Hún segir aftur á móti að eftir að Íslend­ingar hafi farið að taka til hend­inni og vinna í þessum þáttum þá hafi þeim tek­ist dásam­lega vel til. „Það er alveg æðis­legt hvað þjóðin okkar er sam­stíga og hvað við gerðum þetta öll sam­an. Hvað allir hlýddu Víði vel, hvernig við til­báðum þrí­eykið og við gerðum allt sem þau sögðu okkur að gera. Það er þess vegna sem við náum þessum frá­bæra árangri.“

Hefur áhyggjur af fölsku öryggi

Landið var opnað þann 15. júní síð­ast­lið­inn og bendir Inga á að nú þurfi Íslend­ingar lík­leg­ast að fara að takast á við annað COVID-19 verk­efni. Hún seg­ist hafa áhyggjur af því falska öryggi sem fylgi skimun við kom­una til lands­ins. „Það er engin spurn­ing um það að aðrir hags­munir ráða hér för – en auð­vitað þarf einnig að huga að heild­ar­hags­munum okk­ar.“ Hún segir þessa heild­ar­hags­muni lúta að efna­hags­líf­inu og atvinnu fólks. „Það er hræði­legt að tugir þús­unda Íslend­inga séu atvinnu­lausir og er þetta nátt­úru­lega algjört heims­met á Íslandi á lýð­veld­is­tíma.“

Auglýsing

Varð­andi það sem vantað hefur upp á aðgerðir rík­is­stjórn­ar­innar að mati Ingu þá finnst henni að fólkið í land­inu hafi verið skilið eft­ir. „Heim­ilin eru ótrygg. Það er ekki búið að setja þak á verð­trygg­ingu. Það hefur ekk­ert verið gert til að tryggja það að við lendum í því sama og gerð­ist hér eftir efna­hags­hrunið 2008. Ekki neitt. Þeir segja bara fjár­mála­ráð­herra og seðla­banka­stjóri að við séum á frá­bærum stað í dag, þetta sé allt öðru­vísi en árið 2008 og að eng­inn þurfi að hafa áhyggjur af því.“

Inga segir að þrátt fyrir að aðstæður séu mjög ólíkar nú og fyrir 12 árum í hrun­inu þá geti hún ekki annað en spurt hvað sé að því „að setja örygg­is­ventil fyrir heim­ilin í land­inu sem séu skelf­ingu lost­in. Hvað er að því að setja belti og axla­bönd á fjöl­skyld­urnar í land­inu? Við erum komin með 17 pró­sent fall krón­unnar frá ára­mótum og meðan gengið fellur svona þá segir það sig sjálft að það sé upp­skrift að því að verð­bólgan fari af stað. Þá er nátt­úru­lega ekki að spyrja að verð­tryggðum lánum heim­il­anna.“

Mik­il­vægt að afnema verð­trygg­ing­una

Hún segir að mik­ill fókus sé hjá Flokki fólks­ins að afnema verð­trygg­ing­una. „Við vorum til dæmis með frum­varp um að afnema verð­trygg­ing­una á neyt­enda­lán en það fór því miður í rusla­tunn­una eins og margt ann­að. Við ætlum aftur á móti að koma aftur með það.

Rík­is­stjórnin er búin að berj­ast og berj­ast fyrir því að veita millj­örðum á millj­arða ofan í stuðn­ings­lán og lok­un­ar­styrki og nefndu það bara en ég fékk 25 millj­ónir króna fyrir hjálp­ar­sam­tök sem gefa svöngu fólki að borða. Ég fékk 30 millj­ónir fyrir SÁÁ sem er búið að missa allt sjálfsafla­féð sitt núna – 150 millj­óna króna sjálfsaflafé þeirra er lík­lega komið út um glugg­ann en álfa­salan er algjör­lega far­in. Þetta var sam­þykkt í þing­inu í maí en heldur þú að þetta fólk sé búið að fá krónu? Nei, þessi sam­tök eru ekki enn búin að fá eina ein­ustu krón­u,“ segir Inga.

Þessar aðgerðir ganga því allt of hægt fyrir sig, að hennar mati.

Inga Sæland
Bára Huld Beck

„Frá því ég kom inn á þing þá hefur mér ekki fund­ist þessi rík­is­stjórn hugsa um hag hins almenna borg­ara, fátæks fólks og fíkla. Það eru for­dómar gagn­vart fíklum og mér finnst alveg óskap­lega dap­urt – og það tekur mig sárt að horfa upp á þetta. Ég hélt að við gætum öll verið sam­mála um að það eru ákveðin grund­vall­ar­at­riði í sam­fé­lag­inu sem við eigum að sam­mæl­ast um að virða. Það er nú minnsta kosti að hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi, það hlýtur að vera lág­mark,“ segir hún.

Inga segir að íslensk stjórn­völd eigi það til að hafa öll eggin í sömu körf­unni og að treysta á ákveðnar stoðir í sam­fé­lag­inu. „Við ætlum greini­lega að halda því áfram og treysta á ferða­mennsku,“ segir hún en bætir því við að hún sé ein­stak­lega ánægð með áherslu rík­is­stjórn­ar­innar á nýsköp­un­ina en auð­vitað mætti gera enn bet­ur. 

„Það verður að efla nýsköpun og virkja hug­vitið okkar og virki­lega reyna að dreifa eggj­unum á fleiri körf­ur. Þegar eitt eggið brotnar þá séum við samt sem áður á nokkuð góðum stað. Við eigum svo mikla snill­inga í hug­vit­i,“ segir hún­.  

Hópur fólks hefur gleymst

Rík­is­stjórnin hefur einnig verið gagn­rýnd vegna aðgerða eða rétt­ara sagt aðgerða­leysis er varðar náms­menn. Inga segir að stór hluti þeirra hafi gleymst. „Náms­menn eru gjör­sam­lega að lenda hér á milli skips og bryggju. Rík­is­stjórnin er einnig að gleyma for­eldrum sem hafa þurft að fara heim og vera með börn­unum sínum þar út af sam­komu­banni – fötl­uðum börnum sem eru með miklar stuðn­ings­þarfir og sem þurfa algjöra sól­ar­hringsu­m­önn­un. Þetta eru ekki margir for­eldrar og væri þetta ekki slík upp­hæð að það sé verj­andi að taka ekki utan um þennan hóp og setja hann á sömu laun í sótt­kví eins og aðrir hafa feng­ið.

Það eru þús­undir náms­manna sem munu ekki fá atvinnu­leys­is­bætur og engin störf í sum­ar. Þetta eru náms­menn sem eru jafn­vel fjöl­skyldu­fólk og hafa stólað á það að vinna á sumr­in. Þau eiga að éta það sem úti frýs í sum­ar. Þetta er óverj­andi í raun­inn­i.“

Lendum alltaf stand­andi

Varð­andi fram­tíð­ina þá telur Inga að Íslend­ingar komi alltaf niður stand­andi. „Það er bara mín sann­fær­ing. Við lendum stand­andi og það fer bara eftir því hversu erfitt það verður fyrir íslenskan almenn­ing og skatt­greið­endur að takast á við þetta mikla efna­hags­hrun.“

Hún segir að Íslend­ingar þurfi á smá heppni að halda núna og með­byr. Vanda­málin séu risa­vaxin en hún sé þó von­góð.

Inga segir enn fremur að afleið­ing­arnar eigi eftir að koma í ljós, sér­stak­lega fyrir þá sem eru vanir því að geta haft ofan í sig og á. Sem hafa getað staðið sína plikt og borgað afborg­anir af lánum sín­um. Þarna sé um að ræða fólk sem hefur tekið á sig miklar fjár­hags­legar skuld­bind­ingar í trausti þess að það sé í góðri vinnu og geti staðið við sitt. Hún bendir á að það sé mik­ill skellur að fara á strípaðar atvinnu­leys­is­bæt­ur.

„Þá tekur ískaldur raun­veru­leik­inn við – að detta niður á atvinnu­leys­is­bætur ef lukkan hefur ekki þegar snú­ist þannig að hægt sé að halda áfram og fá starfið sitt aft­ur. Þá er nátt­úru­lega allur botn­inn dott­inn úr þeirri ábyrgð sem fólk hefur tekið á sig gagn­vart lánum og greiðslu og lífs­stand­ard sem það hefur van­ist. Það þarf allt í einu að detta niður í það sem við öryrkjar þekkjum svo rosa­lega vel.

Fátækt fólk hefur þurft að búa þannig lengi. Ef maður getur sagt það svo­leiðis þá væri það auð­veld­ara fyrir fátækan að fara allt í einu úr því að vera með ágætar tekjur og detta niður í ves­öld­ina en fyrir þann sem hefur haft mikið og dettur nið­ur. And­lega hefur það ofboðs­lega nei­kvæð áhrif og verður það erfitt félags­lega fyrir við­kom­and­i,“ segir hún.

Auglýsing

And­fé­lags­leg fjöl­skyldu­stefna rekin á Íslandi

Inga telur að íslenskur almenn­ingur eigi eftir að sjá þessar aðstæður í haust. „En þangað til viljum við sól og sum­ar, við grillum veiruna og höldum ótrauð áfram. Þetta er bara verk­efni sem við ætlum ekki að skor­ast undan að takast á við. En við verðum að gera það saman og mér þykir leið­in­legt hvernig er alltaf ákveð­inn kjarni sem hefur hátt og er ljótur í orð­fari og and­styggi­legur og ég held að við séum öll að gera okkar besta. Jafn­vel rík­is­stjórnin þrátt fyrir að ég sé ekki sátt við allt sem hún hefur verið að gera.

Og auð­vitað mun þetta allt saman kosta okkur mikla pen­inga en mér finnst ekki þurfa alltaf að skamma allt og alla. Ég hefði gert hlut­ina að sumu leyti eins og öðru leyti öðru­vísi.“

Inga seg­ist leggja mikla áherslu á að í svona ástandi eigi að passa upp á þá sem minnst mega sín – enda sýni rann­sóknir að það sé fólkið sem fari verst út úr svona krís­um. „Það verður að byrja að taka utan um þann hóp og bjarga hon­um. Mér finnst alveg óþol­andi, vegna þess að ég er með þetta alveg í púl­stöð­inni og þekki af eigin raun, að börn líði skort.“

Ástandið hafi versnað frá því hún kom á þing fyrir tæpum þremur árum. „Hvernig getum við horft í spegil með ástandið svona? Og þetta var fyrir COVID-19 og við þurfum að horfast í augu við það að stjórn­völd hafi vís­vit­andi haldið litlum börnum í fátækt. Gefa þeim ekki kost á að vera með í íþrótt­um, gefa þeim ekki kost á að eiga áhuga­mál, gefa þeim ekki kost á að eiga nóg að borða eða eiga föt. Þetta er algjör­lega upp­skriftin af því að þessir litlu ein­stak­lingar verða frekar útsettir fyrir ein­elti, stríðni og er ennþá meiri van­líðan sett á þau heldur en þau þurfa að búa við hvort sem er. Hugs­aðu þér!“

Inga telur jafn­framt að sú fjöl­skyldu­stefna sem rekin sé á Íslandi sé and­fé­lags­leg og ekki góð. „Mér finnst hún vond og hún er gjör­ó­lík því sem þekk­ist víða. Fátæk­ustu börnin eru börn öryrkja og það segir sig sjálf.“

Ein­hvern tím­ann verða Íslend­ingar að horfast í augu við raun­veru­leik­ann

Varð­andi fram­tíð­ina þá telur Inga að margt sé á huldu varð­andi hana. „Eins og ég sagði áðan þá veit ég að við Íslend­ingar munum lenda stand­andi en ég veit ekki hversu lengi við verðum að rétta úr kútnum eða ná okk­ur. Það fer aug­ljós­lega eftir aðgerð­unum og von­andi smá heppni – og hversu vel okkur geng­ur.“

Svo sé margt annað sem Íslend­ingar þurfi að takast á við en COVID-19 far­ald­ur­inn sé þó stór hjalli til að fara yfir.

„Mun allt botn­frjósa aftur og við lenda á byrj­un­ar­reit? Ein­hvern tím­ann verðum við að opna landið og ein­hvern tím­ann verðum við að horfast í augu við raun­veru­leik­ann – og við erum að gera það núna. Ég hefði að vísu vilja bíða aðeins lengur og horfa aðeins lengur í kringum okk­ur, þó það væri ekki nema í tvær vikur í við­bót. En svona er þetta og ég virði það bara.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal