Tæknirisinn sem Bandaríkin vilja stöðva
Bandaríkin saka Huawei um njósnir en þeim ásökunum hefur fyrirtækið hafnað. Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa hvatt bandamenn sína til að meina Huawei aðkomu að uppbyggingu fjarskiptakerfa sinna og nú í vikunni bættist Bretland á lista þeirra landa sem gera það. Forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar segir ákvörðun Breta hafa komið mörgum á óvart.
Bretar bættust á dögunum í hóp nokkurra ríkja sem bannað hafa aðkomu Huawei að uppbyggingu 5G kerfa sinna en ákvörðunin gæti tafið fyrir uppbyggingu kerfisins þar í landi. Bandaríkin saka fyrirtækið um að sinna njósnum fyrir yfirfvöld í Peking og hvetja bandamenn sína til að sniðganga fyrirtækið.
Huawei var stofnað árið 1987 í Shenzen í suðurhluta Kína af Ren Zhenfei sem enn gegnir starfi forstjóra fyrirtækisins. Fyrirtækið hefur frá upphafi framleitt búnað fyrir fjarskiptakerfi og er nú orðið eitt af stærstu tæknifyrirtækjum í heiminum. Til marks um stærð þess nægir að nefna starfsmannafjöldan; um 180 þúsund manns. Fyrirtækið framleiðir einnig farsíma en markaðshlutdeild fyrirtækisins í farsímasölu á heimsvísu er um 18 prósent. Einungis Samsung hefur meiri hlutdeild á þeim markaði.
Bandarísk yfirvöld fullyrða að vörur Huawei geti verið notaðar til njósna af hálfu kínverskra yfirvalda. Í því sambandi hafa þau reynt að gera stofnandi fyrirtækisins, áðurnefndan Ren Zhenfei, tortryggilegan með því að benda á að hann hafi þjónað um árabil í kínverska hernum og sé félagi í Kommúnistaflokknum þar í landi. Þá halda bandarík yfirvöld því fram að samkvæmt kínverskum upplýsingalögum sé kínverskum fyrirtækjum beinlínis skylt að aðstoða þarlend yfirvöld við að afla upplýsinga fyrir leyniþjónustuna. Þar af leiðandi geti yfirvöld í Peking farið fram á að Huawei njósni fyrir sig.
Segjast aldrei hafa sinnt njósnum
Huawei segir þennan bakgrunn Ren ekki skipta máli. Hann sé öllu heldur rökréttur, enda hafi Ren sem ungur maður þurft að vera félagi í Kommúnistaflokknum til þess að eiga möguleika á því að gegna ábyrgðastöðu. Varðandi njósnirnar segir fyrirtækið að það hafi aldrei tekið þátt í slíku og muni ekki gera.
Í maí var komið á nýjum viðskiptaþvingunum sem eru afar íþyngjandi fyrir Huawei. Bandarísk yfirvöld hafa meinað fyrirtækjum sem fremleiða íhluti sem Huawei notar í sinni framleiðslu að nota bandaríska tækni, bæði hugbúnað og vélbúnað. Þessar þvinganir taka gildi í september og munu bitna helst á fyrirtækjum sem framleiða tölvuflögur fyrir Huawei.
Í frétt New York Times er haft eftir John Neuffer, en hann fer fyrir samtökum fyrirtækja sem framleiða hálfleiðara, að banninu fylgi mikil óvissa. Það geti sett framleiðslu hálfleiðara úr skorðum og haft veruleg áhrif á framboð hálfleiðara á heimsvísu enda Huawei stór aðili á markaði.
Hófu framleiðslu á sínum eigin tölvuflögum
Bannið er enn ein aðgerð bandarískra yfirvalda sem beinast sérstaklega að Huawei. Í maí í fyrra var sams konar viðskiptabann sett á Huawei og dótturfyrirtæki þess. Í kjölfarið þurfti Huawei að hætta kaupum á tölvuflögum frá bandarískum fyrirtækjum á borð við Qualcomm og hefja sína eigin framleiðslu. Við tók uppbygging á dótturfyrirtækinu HiSilicon sem framleiðir slíkar flögur.
En HiSilicon reiðir sig á önnur fyrirtæki í hálfleiðarabransanum, svo sem S.M.I.C sem staðsett er í Shanghæ og T.S.M.C frá Tævan. Þau fyrirtæki reiða sig svo á tækni frá Bandaríkjunum í sinni framleiðslu. Nýja bannið kemur þar af leiðandi í veg fyrir að S.M.I.C og T.S.M.C geti framleitt tölvuflögur fyrir Huawei.
Þvinganir Bandaríkjanna virðast vera að skila tilætluðum árangri, að minnsta kosti í Bretlandi. Í frétt BBC frá því fyrr í mánuðinum segir að vegna viðskiptaþvingana gæti sú staða komið upp að Huawei þurfi því að leita til fyrirtækja eftir íhlutum sem ekki fái grænt ljós hjá breskum stofnunum sem hafa umsjón yfir netöryggismálum.
Fjarlægja þarf allan búnað Huawei úr breska kerfinu
Bretar hafa í ár verið mjög tvístígandi í málefnum Huawei. Upphaflega var tekin sú ákvörðun að búnaður Huawei yrði leyfður í 5G kerfinu, en hlutur Huawei mætti þó ekki fara yfir ákveðið hámark. Sú ákvörðun var endurskoðuð í kjölfar frekari þvingana Bandaríkjanna og nú er svo komið að búnaður Huawei verður með öllu bannaður í fjarskiptakerfinu.
Það þýðir að allur búnaður frá Huawei sem nú þegar er í breska kerfinu verður að vera fjarlægður fyrir árið 2027. Nú þegar er búnaður Huawei í kerfum BT og Vodafone, svo dæmi séu tekin, en þau eru stór fyrirtæki á breskum fjarskiptamarkaði. Samkvæmt frétt BBC er kostnaðurinn vegna þessa talinn geta numið allt að tveimur milljörðum punda, sem samsvarar um 350 milljörðum króna. Þar að auki gæti ákvörðun Breta tafið fyrir 5G uppbyggingu þar í landi um tvö til þrjú ár.
Bretar eru fjarri því að vera fyrsta þjóðin til að banna aðkomu Huawei að uppbyggingu 5G kerfisins. Auk Bretlands og Bandaríkjanna er búið að banna aðkomu Huawei að uppbyggingu 5G kerfisins í Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Kanada og Japan.
Telur ólíklegt að Huawei hafi komið að njósnum
„Þessi ákvörðun Bretanna kom mörgum á óvart,“ segir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, í samtali við Kjarnann. Hann segir Breta hingað til hafa verið á sömu línu og lönd Evrópusambandsins hvað varðar aðkomu Huawei. Stofnunin sem fer með netöryggismál innan Evrópusambandsins er European Union Agency for Cybersecurity (Enisa) en hún hefur gefið út svkollaða verkfærakistu (e. toolbox) um ýmsar aðgerðir til að efla öryggi fjarskiptakerfa.
„Í þessu „toolboxi“ sem liggur fyrir á netinu eru alls konar ráðstafanir og ein af þeim snýr að birgjakeðjunni og lýtur að því að vera ekki um of háður einum tilteknum birgja,“ segir Hrafnkell. Þessari nálgun hafi Bretar upphaflega fylgt, samanber upphafleg ákvörðun um að leyfa búnað Huawei í fjarskiptakerfinu upp að vissu hámarki. En nú hefur orðið stefnubreyting og Bretar fylgt harðari afstöðu Bandaríkjanna til Huawei.
Hrafnkell segir að enn sem komið er sé ólíklegt að Huawei hafi stundað njósnir. „Mér er ekki kunnugt um það að nokkrum einasta manni hafi tekist að sýna fram á það að það er eða hafi verið einhver njósnabúnaður eða óeðlileg virkni í kerfum frá Huawei,“ segir hann. Möguleikinn sé hins vegar til staðar.
Takmörkuð geta til að greina kóðann í uppfærslum
„Umræðan snýst um tvennt. Það snýst annars vegar um ákveðið „potential“. Um að það sé hægt að setja þennan búnað inn, til þess að gera með litlum fyrirvara og lítilli fyrirhöfn vegna þess að þetta er allt saman meira og minna hugbúnaður. Og hins vegar er það að þessi kerfi, er þú ætlar að fara að greina kóðann í þeim og kefisuppbyggingu kerfanna þá gætu kannski Svíar gert það af því að þeir hafa þessa miklu þekkingu á fjarskiptum. Kannski geta njósnastofnanir í Bretlandi gert það. En þar með held ég að það séu upptaldir evrópskir aðilar sem gætu ráðið við það.“
Hrafnkell líkir þessu við uppfærslur á stýrikerfum. „Það er nú ekki með nákvæmlega sama hætti, en það er með samskonar hætti. Þegar verið er að uppfæra þessi tæknikerfi, þessi flóknu tæknikerfi, þá koma bara uppfærslur frá framleiðanda,“ segir hann. Um kóðann í uppfærslum kerfanna gildi það sama og um kóðann í tölvuuppfærslum, í raun og veru viti notandinn lítið um innihald hans.
„Þá fer inn einhver virkni sem á að bæta kerfið eða auka öryggið en þú veist í raun og veru ekkert hvað gerist. Og það er þessi möguleiki, að það komi bara einhver virkni, hún er sett inn og á vondum degi þegar að ástandið er orðið verra en það er í dag þá getur þessi virkni verið óheppileg út frá einhverjum sjónarmiðum,“ segir Hrafnkell.
Lesa meira
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi