Stórir lífeyrissjóðir hafa ekki farið vel út úr fjárfestingu í Icelandair
Aðkoma stærstu hluthafa Icelandair, sem hafa það hlutverk að ávaxta lífeyri landsmanna, að félaginu síðastliðinn áratug hefur ekki skilað mikilli arðsemi, og í tveimur tilfellum miklu tapi. Þessir sömu sjóðir munu á næstu dögum þurfa að taka ákvörðun um hvort þeir leggi Icelandair til nýtt hlutafé.
Framtíð Icelandair Group ætti að skýrast á allra næstu vikum. Í lok júlí var greint frá því, í fréttatilkynningu sem send var út á föstudegi fyrir verslunarmannahelgi, að félagið hefði náð samkomulagi við flesta þá hagaðila sem það átti eftir að semja við. Það þýðir að það hafi undirritað samninga við flesta kröfuhafa og, samkvæmt tilkynningunni, náð samkomulagi í meginatriðum við þá sem eftir væru. Til stendur að ljúka öllum þessum samningum í dag, samkvæmt upplýsingum Kjarnans.
Umræddir hagaðilar eru þeir sem Icelandair skuldar fjármuni. Um er að ræða þrjá banka, þar af tvo íslenska ríkisbanka, Boeing flugvélarisann sem Icelandair pantaði 16 737 MAX vélar af fyrir nokkrum árum, en á eftir að fá tíu þeirra afhentar og hinar eru kyrrsettar. Auk þeirra þarf Icelandair að semja við færsluhirða, og flugvélaleigur áður en að félagið getur reynt að sækja sér allt að 200 milljónir dala, um 27 milljarða króna, í nýtt hlutafé síðar í ágústmánuði.
Í tilkynningunni sem send var út í síðustu viku sagði að allir samningar sem væru undirritaðir væru „ háðir því að félagið nái markmiðum sínum um öflun nýs hlutafjár og geri samning um lánalínu með ríkisábyrgð.“
Unnið er að útfærslu á láni með ríkisábyrgð með íslenskum stjórnvöldum, Íslandsbanka og Landsbankanum, sem báðir eru þegar á meðal stærstu kröfuhafa Icelandair.
Þegar allir samningar liggja fyrir ætlar Icelandair að birta fjárfestakynningu með ítarlegum upplýsingum fyrir fjárfesta og þátttakendur í fyrirhuguðu hlutafjárútboði.
Félagið hefur þegar undirritað nýja langtímasamninga við stéttarfélög flugmanna, flugfreyja og flugþjóna og flugvirkja.
Tapaði 245 milljónum á dag
Staða Icelandair Group er orðin nokkuð dökk. Í nýlega birtu árshlutauppgjöri kom fram að félagið hefði tapað 331 milljón dölum á fyrstu sex mánuðum ársins, sem samsvarar tæpum 45 milljörðum króna á gengi dagsins í dag. Það er tap upp á um 245 milljónir króna á hverjum einasta degi á fyrri hluta ársins.
Auk þess gengur hratt á laust fé félagsins. Í lok árs 2019 átti Icelandair Group 302 milljónir dala í laust fé. Í lok marsmánaðar 2020 var það 281 milljónir dala og enn umtalsvert yfir því 200 milljón dala lausafjárviðmiði sem félagið stefnir ætið að því að vera yfir.
Það breyttist hins vegar hratt á öðrum ársfjórðungi, sem hófst í byrjun apríl og lauk í lok júní. Þá fór lausafjárstaða Icelandair niður í 151,2 milljónir dala, um 21,3 miljarða króna. Lausaféð hefur því helmingast frá áramótum. Þorri þess bruna átti sér stað á öðrum ársfjórðungi þegar laust fé lækkaði um 46 prósent.
Það þýðir að lausafjárstaðan er komin undir það viðmið sem Icelandair vinnur eftir, en stefna þess hefur verið að lausafjárstaðan fari aldrei undir 200 milljónir dala á hverjum tíma. Auk þess kemur fram í ársreikningi Icelandair að félagið hafi brotið lánaskilmála sem geri það að verkum að það getur ekki dregið á ódregnar lánalínur upp á 62,7 milljónir dala.
Allt veltur á hlutafjárútboðinu
Því er ljóst að allt mun velta á að Icelandair takist að selja það nýja hlutafé sem félagið ætlar að gefa út síðar í ágústmánuði. Takist það ekki, munu allir samningar við hagaðila falla úr gildi og fyrirgreiðslan með ríkisábyrgðinni verður ekki lengur í boði, að minnsta kosti í því formi sem verið er að semja um.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, hefur ítrekað sagt í fjölmiðlum að horft sé til þess að sækja hið nýja hlutafé, allt að 27 milljarða króna, að minnsta kosti að hluta til núverandi hluthafa.
Sá aðili sem var stærsti hluthafi Icelandair lengi vel, bandaríski fjárfestingarsjóðurinn PAR Capital Management, hefur undanfarið minnkað hlut sinn í félaginu verulega, úr 13,7 prósent í 10,99 prósent. Sjóðurinn kom fyrst inn í hluthafahóp Icelandair í apríl 2019 þegar hann keypti 11,5 prósent hlut á 5,6 milljarða króna, og bætti síðan við sig. Ljóst er að tap hans á fjárfestingunni hleypur á mörgum milljörðum króna. PAR Capital er ekki á meðal þeirra sem Icelandair á í viðræðum við um að leggja félaginu til nýtt fé, og útilokað þykir að sjóðurinn muni taka frekari þátt í að fjármagna íslenska flugfélagið.
Fyrir utan PAR Management eru stærstu eigendur Icelandair íslenskir lífeyrissjóðir.
LSR hefur hagnast á fjárfestingunni
Fjórir þeirra skera sig úr, fjórir stærstu lífeyrissjóðir landsins: Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Gildi lífeyrissjóður og Birta lífeyrissjóður.
Þeir komu allir að síðustu endurskipulagningu Icelandair Group sem átti sér stað fyrir áratug, árið 2010. Kjarninn leitaði upplýsinga hjá þessum fjórum stærstu sjóðum landsins um hvernig ávöxtun þeirra af fjárfestingu í Icelandair hefði verið síðastliðinn áratug.
Sá sjóður sem hagnast hefur mest á fjárfestingu sinni í Icelandair er LSR. Frá því að flugfélagið var endurskipulagt hafa A-deild, B-deild og séreign þessa stærsta lífeyrissjóðs landsins samtals keypt hlutabréf í Icelandair fyrir 7,9 milljarða króna. LSR hefur hins vegar selt bréf fyrir alls 7,4 milljarða króna á tímabilinu og fengið tæplega 1,1 milljarð króna í arðgreiðslur. Hagnaður LSR af viðskiptum með bréf í Icelandair nemur því rúmlega 500 milljónum króna á síðustu tíu árum.
Auk þess eiga allar deildir sjóðsins samanlagt 455 milljónir hluta í Icelandair eins og sakir standa í dag, eða um 8,4 prósent af öllu hlutafé. Virði þess miðað við lokun markað í gær, þegar gengi bréfanna var 1,83 krónur á hlut, var rúmlega 800 milljónir króna. Ef vænt hlutafjáraukning, sem Icelandair stefnir að í þessum mánuði, gengur eftir eins og til stendur þá munu eign núverandi hluthafa þynnast niður í 15,3 prósent.
Verslunarmenn nokkuð á pari
Lífeyrissjóður verzlunarmanna er stærsti einstaki eigandi Icelandair Group. Alls á sjóðurinn 11,8 prósent hlut í flugfélaginu. Markaðsvirði hans er um 1.150 milljónir króna. Ef ítrustu áform um að auka hlutafé í Icelandair ganga eftir mun virði þess hlutar þynnast niður í um 175 milljónir króna.
Í svari sjóðsins við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að frá árinu 2010, þegar mikill meirihluti bréfanna var keyptur, hafi lífeyrissjóðurinn keypt bréf í Icelandair fyrir 2,9 milljarða króna að markaðsvirði og selt fyrir 1,2 milljarða króna. Arðgreiðslur til sjóðsins á tímabilinu nema 1,7 milljörðum króna. Sölur og arðgreiðslur eru því samanlagt sama tala, 2,9 milljarðar króna, og sú sem sjóðurinn hefur greitt fyrir hlutabréf í Icelandair Group.
Eins og staðan er í dag er því raunávöxtun sjóðsins frá upphafi, miðað við 3. ágúst 2020, 3,04 prósent, samkvæmt svari hans við fyrirspurn Kjarnans. En ef miðað er við stöðuna ef áform um hlutafjáraukningu ganga eftir er ljóst að ávinningur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna af viðskiptum með bréf í Icelandair síðastliðinn áratug er einungis virði þeirra bréfa sem hann heldur á nú.
Neikvæð ávöxtun upp á 72,4 prósent
Gildi lífeyrissjóður er einnig á meðal stærstu eigenda Icelandair með 7,24 prósent eignarhlut.
Nettó fjárfesting Gildis í flugfélaginu síðastliðinn áratug, bæði beint og óbeint í gegnum Framtakssjóð Íslands sem lengi vel var stærsti eigandi Icelandair, hefur numið 2,3 milljörðum króna, að teknu tilliti til arðgreiðslna á tímabilinu. Vegið kaupgengi er 5,89 krónur á hlut en markaðsvirði Icelandair við lokun markaða í gær var 1,83 krónur á hlut. Markaðsvirði hlutar Gildis er um 720 milljónir króna.
Í svari Gildis til Kjarnans er þó miðað við markaðsvirðið eins og það var í lok dags á þriðjudag, þegar það var 1,95 krónur á hlut. Þá var markaðsvirði hlutar Gildis 768 milljónir króna. Í svarinu segir síðan orðrétt: „Áætluð raunávöxtun sjóðsins af þessari fjárfestingu í Icelandair yfir tæplega tíu ára fjárfestingartíma nemur um -72,4 prósent. Á ársgrundvelli samsvarar það um 12,3 prósent neikvæðri raunávöxtun yfir umrætt tímabil.“
Gildi bendir á í svari sínu að til samanburðar hafi raunávöxtun af innlendu skráðu hlutabréfasafni sjóðsins í heild sinni um 110,8 prósent yfir sama tímabil, eða sem nemur um 7,9 prósent á ársgrundvelli.
Líka með neikvæða ávöxtun
Birta lífeyrissjóður á í dag 7,07 prósent hlut í Icelandair Group. Nettó viðskipti Birtu með bréf í félaginu frá 2010 eru 1,9 milljarðar króna en vegið kaupgengi eignarhluta sem hafa verið keypt og seld er 7,13 krónur á hlut. Gengi Icelandair Group við lok viðskipta í gær var, líkt og áður sagði, 1,83 krónur á hlut. Eignarhlutur Birtu er því metinn á 703 milljónir króna.
Nafnávöxtun Birtu vegna fjárfestingar í Icelandair síðastliðinn áratug er neikvæð um -15,59 prósent og reiknast sem -17,66 prósent neikvæð raunávöxtun, samkvæmt svari sjóðsins við fyrirspurn Kjarnans.
Í svarinu er tiltekið að ekki sé tekið tillit til óbeinnar, og jákvæðrar, afkomu Birtu og forvera sjóðsins af eignarhlut í Framtakssjóði Íslands sem „tengja má við viðskipti með Icelandair“.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi