Starfsmaður Samherja áreitti Helga Seljan mánuðum saman
Helgi Seljan hefur margsinnis orðið fyrir áreiti af hálfu starfsmanns Samherja og fyrrverandi rannsóknarlögreglumanns síðan Kveiks-þátturinn um viðskipti fyrirtækisins í Namíbíu fór í loftið. Forsvarsmenn fyrirtækisins halda nú uppi vörnum með þáttagerð sem sami starfsmaður kemur að. Björgólfur Jóhannsson segir atferli mannsins ekki vera í umboði Samherja.
Starfsmaður Samherja og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður, Jón Óttar Ólafsson, hefur allt frá því umfjöllun Kveiks og Stundarinnar birtist þann 12. nóvember á síðasta ári verið tíður gestur á Kaffifélaginu, kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur, einatt til að hitta á og ná tali af Helga Seljan blaðamanni á RÚV – en þar hittist hópur fólks iðulega á morgnana til að spjalla um daginn og veginn. Jón Óttar hefur enn fremur ítrekað sent Helga skilaboð, bæði í gegnum SMS og Facebook-reikning eiginkonu sinnar.
Helgi segir í samtali við Kjarnann að tilgangurinn sé líklegast sá að hræða hann eða ógna að einhverju leyti. Hann segist ekki hafa gert sér grein fyrir því að á þessum tíma sem Jón Óttar „hafi verið hangandi“ yfir honum á Kaffifélaginu að hann starfaði fyrir Samherja. Hann telur þetta ekki vera eðlileg samskipti og að hægt sé að koma sjónarmiðum með öðrum hætti á framfæri. Þetta sé einkennilegt og atferli Jóns Óttars óþægilegt fyrir fólkið í kringum hann.
Björgólfur Jóhannsson annar forstjóri Samherja hváði og virtist brugðið þegar blaðamaður sagði honum upp og ofan af frásögn Helga, sem hér fer á eftir. Björgólfur segir við Kjarnann að það sé ljóst að það atferli Jóns Óttars sem Helgi lýsir hafi ekki verið í umboði Samherja. Hann sagði einnig að í sínum huga væri ljóst að málið yrði ekki „leyst með handalögmálum“ og að svona vildi hann ekki vinna.
Kjarninn reyndi að bera frásögn Helga undir Jón Óttar. Blaðamaður kynnti sig og fékk þá svarið: „Já heyrðu, ég tala ekki við blaðamenn á Kjarnanum. Bless.“ Svo skellti Jón Óttar á.
Samherji vildi varpa nýju ljósi á málið
Allt frá því umfjöllunin um umsvif Samherja í Namibíu birtist í nóvember síðastliðnum hefur mikið verið fjallað um fyrirtækið í fjölmiðlum en Samherji hefur aðallega komið upplýsingum á framfæri í gegnum yfirlýsingar á vefsíðu sinni eða í samtali við ákveðna fjölmiðla. Samherji hefur meðal annars sakað blaða- og fréttamenn um að fara með ósannindi og viðhafa ófagleg vinnubrögð – en sjónum þeirra hefur sérstaklega verið beint að Helga.
Svokallað Samherjamál á sér þó lengri sögu og tók Samherji upp varnir í tveimur nýlegum myndböndum sem fyrirtækið birti á YouTube-rás sinni 11. og 23. ágúst. Tilgangurinn með fyrra myndbandinu var að „varpa nýju ljósi á Seðlabankamálið svokallaða,“ að því er fram kemur í lýsingu á myndbandinu. Þar er því haldið fram að Kastljósþáttur, sem Helgi vann á sínum tíma og var birtur á RÚV þann 27. mars 2012, hafi markað upphaf málsins en í þættinum var sagt frá meintri sölu Samherja á karfa á undirverði til dótturfélaga erlendis. Aftur á móti hefur komið fram hjá Má Guðmundssyndi, fyrrverandi seðlabankastjóra, að rannsóknin hafi átt sér lengri aðdraganda en forsvarsmenn Samherja halda fram.
Þorsteinn Már Baldvinsson, annar forstjóri Samherja, orðaði það þannig í samtali við mbl.is daginn sem fyrra myndbandið birtist að annars vegar væri þetta svar fyrirtækisins við „áralangri herferð RÚV gegn fyrirtækinu og forsvarsmönnum þess“, en væri einnig birt vegna þess að aðalmeðferð í málum bæði Samherja og forstjóra fyrirtækisins gegn Seðlabanka Íslands hefst í næsta mánuði. Hann sagði jafnframt að það yrði áreiðanlega skoðað að kæra í málinu.
„Vitið ekkert hvað er að koma á næstunni“
Ásamt áreitinu á Kaffifélaginu hefur Helgi fengið send SMS-skilaboðin úr símanúmeri sem skráð er á eiginkonu Jóns Óttars, sem og skilaboð í gegnum Facebook-reikning hennar. Þetta símanúmer er það sama og Jón Óttar svaraði í þegar Kjarninn náði af honum tali og virðist því vera símanúmer sem hann notast við. Eiginkona Jóns Óttars hafði samband við Kjarnann eftir að fréttin fór í birtingu og sagðist ekki hafa sent Helga Seljan umrædd skilaboð, hvorki með SMS né á Facebook.
Helgi fékk skilaboð í gegnum SMS þann 6. mars síðastliðinn. Í þeim stóð: „Til hamingju😉 Sjaumst fljótt.“ Skilaboðin fékk hann þegar þeir Aðalsteinn Kjartansson, Stefán Drengsson og Ingi Freyr Vilhjálmsson fengu blaðamannaverðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku.
Næstu tvenn skilaboðin bárust í gegnum sama símanúmer þann 10. ágúst með tengil í frétt Stundarinnar þar sem megininntakið var að Jón Óttar væri álitsgjafi í þætti útgerðarinnar á YouTube um Helga og fyrri störf hans fyrir Samherja rifjuð upp:
„Þið Ingi Freyr vitið ekkert hvað er að koma a næstunni😂😂“
„Ef maður er sendur til að rannsaka Johannes heldurðu i alvorunni að tölvupostar Johannesar sýni það Helgi minn.“
Í fyrrnefndri frétt Stundarinnar frá 10. ágúst sem birtist undir fyrirsögninni „„Rannsóknarlögreglumaður Samherja“ álitsgjafi í þætti útgerðarinnar um Helga Seljan“ kemur fram að Jón Óttar hafi verið í innsta hring Namibíuveiðanna og starfað með Jóhannesi Stefánssyni, sem síðar gerðist uppljóstrari, að verkefnum þar sem kvóti hafi fengist frá namibískum yfirvöldum fyrir mútugreiðslur. Jón Óttar hafi setið fundi með namibískum mútuþegum Samherja og fengið afrit af tölvupóstum þar sem rætt var um greiðslur í skattaskjól.
„Samherjaskjölin sýna glöggt að Jón Óttar var hátt settur starfsmaður við Namibíuútgerð Samherja. Í maí árið 2016 snæddi hann til dæmis með Bernhardt Esau, sjávarútvegsráðherra Namibíu, um borð í togara Samherja, Heinaste. Esau sætir nú ákæru í Namibíu vegna aðildar sinnar að málinu. Jón Óttar sat meðal annars fund um starfsemina með Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, Baldvini syni hans, Aðalsteini Helgasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Kötlu Seafood, Örnu Bryndísi Baldvins McClure, yfirlögfræðingi Samherja, og Jóhannesi Stefánssyni, sem stýrði Namibíustarfseminni en ljóstraði síðar upp um mútugreiðslurnar,“ segir í frétt Stundarinnar.
„Morgundagurinn verður erfiður, trúðu mér“
Daginn eftir að þessi frétt birtist, eða þann 11. ágúst, bárust skilaboðin: „Hræsnin i ykkur. En takk fyrir godar stundir á kaffihúsi góða og gáfaða fólksins. Kem ekki aftur þangað. Þarf þess ekki😂😂“
Síðustu skilaboðin í gegnum símanúmerið bárust þann 14. ágúst en þar sagði: „Hafði sma moral yfir þvi sem er að koma en greinin i Stundinni i gær lagaði það. Takk kærlega😉“
Daginn áður en umrætt myndband Samherja var birt á YouTube-rás fyrirtækisins fékk Helgi skilaboð frá Facebook-reikningi eiginkonu Jóns Óttars með hlekk á stiklu þáttarins. Í skilaboðunum stóð:
„Mikið vona ég að þú vandir þig í framtíðinni, dómgreindarleysi þitt er svakalegt! Morgundagurinn verður erfiður trúðu mér. Þetta er sorglegt. Jóhannes Stefánsson plataði þig upp úr skónum.“
„Þú heldur áfram að ausa menn drullu eins og þér einum er lagið“
Ekki er það þó einungis Helgi sem hefur fengið skilaboð frá sama aðila en þann 21. ágúst fékk Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður á Stundinni, Facebook-skilaboð í gegnum reikning eiginkonu Jóns Óttars. Þar sagði:
„Þú heldur áfram að ausa menn drullu eins og þér einum er lagið.... setur fram hverja lýgina á fætur annarri! Það verður gaman að fylgjast með því þegar þú verður tekinn til umfjöllunar😂“
Tilefni skilaboðanna virðist vera umfjöllun Inga Freys í tölublaði Stundarinnar, sem kom út sama dag, um að fyrrverandi forstöðumaður rannsóknardeildar gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands, Hreiðar Eiríksson, hafi ekki viljað svara því hvort hann hafi unnið fyrir Jón Óttar. Hreiðar hafi unnið að rannsókn Samherjamálsins í Seðlabanka Íslands og farið svo að vinna fyrir fyrirtæki Jóns Óttars, sem var að vinna fyrir Samherja, að rannsókn málsins eða málsvörn hinum megin við borðið.
Þá fékk Ingi Freyr sent seinna myndband Samherja á YouTube um málið tveimur dögum síðar eða á sunnudeginum.
Ingi Freyr segir í samtali við Kjarnann þetta vera í fyrsta skiptið sem fyrirtæki – eða starfsmaður þess eða fulltrúi – sem hann hefur fjallað um hafi hótað honum umfjöllun persónulega. „Væntanlega vegna minna eigin skrifa um viðkomandi fyrirtæki,“ segir hann.
Hvorki Helgi né Ingi Freyr svöruðu fyrrnefndum skilaboðum, hvort sem þau voru send í gegnum SMS eða Facebook.
Það verður gaman að fylgjast með því þegar þú verður tekinn til umfjöllunar.
Datt ekki í hug að Jón Óttar væri í fullri vinnu hjá Samherja
Helgi segir í samtali við Kjarnann að þessi skilaboð frá Jóni Óttari hafi ekkert með efnislegt innihald umfjöllunar um Samherja að gera. Varðandi myndböndin sem Samherji hefur birt – og Jón Óttar vann að – þá segir Helgi að þau snúist ekki um vilja til þess að leiðrétta misskilning eða að koma á framfæri upplýsingum sem ekki hafa áður komið fram. Ekkert efnislegt hafi þar komið fram sem breytti staðreyndum málsins. Það sama eigi við um þessi samskipti Helga og Jóns Óttars í gegnum skilaboð eða á Kaffifélaginu.
Hann veltir því fyrir sér hver tilgangurinn sé með myndböndum Samherja því um leið og þau birtust þá dældi Jón Óttar skilaboðum á hann. Hvernig er hægt að kalla þessi myndbönd varnaraðgerð þegar svoleiðis vinnubrögð eru viðhöfð? spyr Helgi.
„Ástæðan fyrir því að við höfum ekkert verið að segja sérstaklega frá þessum samskiptum okkar við hann er að ég hélt í einfeldni minni að gæinn væri bara eitthvað fúll yfir því að við hefðum fjallað um hann í bókinni okkar og ekki fengið nóg að gera. Það væri eitthvað þannig sem hann væri ósáttur við. Mér datt ekki í hug að hann væri í fullri vinnu hjá Samherja – sem hann virðist hafa verið allan tímann – á meðan hann er búinn að vera að mæta niður á Kaffifélag, gerandi sér ferð þangað og hangandi yfir mér.“
Sagðist vita hvar Jóhannes ætti heima
Helgi segir að margir hafi séð Jón Óttar á Kaffifélaginu á þessum tíma sem hann hefur vanið komur sínar þangað til þess að hitta á Helga en hann hefur haft fregnir af því að Jón Óttar hafi mætt þangað og snúið við þegar hann sá að Helgi væri ekki þar. „Þegar ég hef verið á Kaffifélaginu þá hefur hann komið inn og spjallað við mig. Fyrst til að byrja með spjallaði ég við hann og var að reyna að átta mig á því hvað hann væri að gera. Síðan verður þetta mikið skrítnara og það tók eiginlega steininn úr þegar hann kom þangað eftir að ég var í viðtali á Rás 2 einhvern morguninn og tilkynnti mér það að hann vissi hvert Jóhannes væri fluttur.“
Þarna á Helgi við Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmann Samherja og uppljóstrara í málum fyrirtækisins í Namibíu. Helgi segir að sér hafi fundist þessi orðaskipti vera skrítin. „Ég átti væntanlega að koma þessum upplýsingum til Jóhannesar sem átti að verða óttasleginn, eða eitthvað. Það er náttúrulega alveg hægt að komast að því hvar Jóhannes býr en hann var nýfluttur svo það var mjög sérstakt að hann hafi verið með þetta allt á hreinu. Hann telur sig einhvern veginn vera að feta einstigi milli þess að vera ógnandi og böggandi.“
Samkvæmt Helga hafa þessi samskipti verið tilkynnt til héraðssaksóknara sem nú rannsakar umsvif Samherja í Namibíu. „Þarna er maður sem tengist málinu beint að koma með eitthvað sem verður ekki skilið öðruvísi en sem dulbúin hótun,“ segir hann.
Heimtaði yfirlýsingu frá Helga með barnið í fanginu
Helgi segir einnig frá því þegar Jón Óttar kom á Kaffifélagið þegar hann var með son sinn með sér – sem þá var ekki orðinn eins árs – en Helgi var í foreldraorlofi á þessum tíma. Hann segir að Jón Óttar hafi rokið á hann og heimtað yfirlýsingu um eitthvað sem Helgi hafi ekkert vitað um. „Þá átti það að snúast um það að við hefðum ekki átt að hafa reynt að ná í hann áður en bókin kom út.“ Vísar Helgi þarna í bókina Ekkert að fela – á slóð Samherja í Afríku sem hann, Aðalsteinn Kjartansson og Stefán Aðalsteinn Drengsson gáfu út fyrir jól um umsvif Samherja í Namibíu.
Hann sagði við Jón Óttar að hann væri ekki að fara að láta hann fá yfirlýsingu um neitt slíkt; þeir hefðu hringt í hann, hann verið á fundi og því ekki talað við þá. Þeir hefðu ítrekað reynt aftur að hringja í hann en hann ekki svarað eftir það.
Helgi segir að hann hafi greinilega verið búinn að æfa þetta samtal í huganum og þrátt fyrir að þessi samskipti hefðu ekki beint verið ógnandi þá hafi þetta verið óþægilegt.
Mér þætti bara vænt um að halda einn á kaffibollanum mínum á morgnana.
Hann bendir á að bæði hann og Ingi Freyr hafi lent í ýmsu á sínum blaða- og fréttamannaferli, fólk hafi reiðst og þeir fengið hótanir en hann segir að þessi samskipti séu af öðrum toga. „Þetta er bara eitthvað alveg glænýtt. Ég neita að trúa því að Samherji viti hvað hann hefur verið að gera í þessum samskiptum við okkur – þótt Jón Óttar sé augljóslega búinn að vera upptekinn undanfarið við vinnu fyrir Samherja. Þessi samskipti hafa auðvitað ekkert efnislega með málið að gera. Ég vil draga línu þar á milli.“ Hann segist jafnframt vera meira en reiðubúinn að ræða málið efnislega, það sé sjálfsagt mál. „Þetta er bara eitthvað allt annað. Þetta er bara kjánalegt.“
Það skrítnasta við þetta allt saman, að mati Helga, er úthald Jóns Óttars en eins og áður segir hafa þessar ferðir hans á kaffihúsið staðið yfir í níu mánuði. „Þetta virðist vera einhver taktík hjá honum sem ég veit svo sem ekki hverju á að skila öðru en því að hann sé að reyna að taka mig á taugum og svo Inga augljóslega núna,“ segir hann.
Nennir ekki að taka þátt í þessum spæjaraleik
Eins og áður segir fékk Helgi skilaboð þar sem Jón Óttar þakkaði fyrir „góðar stundir á kaffihúsi góða og gáfaða fólksins“ sem sagðist enn fremur ekki ætla að koma aftur þangað, hann þyrfti þess ekki.
„Hann er ekkert að fela það að þetta var eitthvað sem hann telur sig hafa þurft að gera, sama hvert erindið var. Hann er ekkert að fela það þegar hann sendir mér þessi skilaboð. Ég nenni ekki að taka þátt í þessum spæjaraleik hans – hann er hvort sem er ekkert svo góður í honum. Ef Jón Óttar hefur sjálfur ekki skynbragð á því að þetta sé ekki leiðin til að eiga í samskiptum um efnisleg fréttaefni þá er vonandi einhver þarna hjá Samherja sem getur bent honum á fleiri leiðir.“
Helgi segist ekki ætla að aðhafast meira varðandi þessi skilaboð. „Ef Samherji telur sig þurfa að koma að leiðréttingum eða einhverju slíku þá hafa þeir nákvæmlega sömu tæki og tól til þess og aðrir í þessu samfélagi. Þeim hefur staðið það til boða og stendur það enn til boða. Ég er tilbúinn að hitta þá og hlusta á þá – nákvæmlega eins og ég geri við annað fólk – en ég er ekki tilbúinn að hitta þá á leynifundi í London eins og okkur var boðið,“ segir Helgi, en í aðdraganda þess að umfjöllun Kveiks og Stundarinnar um málefni Samherja birtist í nóvember hafði Samherji boðið Rakel Þorbergsdóttur fréttastjóra RÚV að koma til London, þar sem Samherji sagðist ætla að veita „bakgrunnsupplýsingar“ um Namibíumálið eftir að hafa ítrekað hafnað því að veita fréttamönnum Kveiks viðtal.
„Mér þætti bara vænt um að halda einn á kaffibollanum mínum á morgnana,“ segir Helgi að lokum.
Lesa meira
-
9. mars 2021Samherji sagður hafa greitt laun í Færeyjum til að komast hjá skattgreiðslum í Namibíu
-
9. mars 2021Þorsteinn Már kærir Jóhannes uppljóstrara til lögreglu fyrir rangar sakargiftir
-
8. mars 2021Íslenskir rannsakendur hafa aflað upplýsinga um þrjú félög tengd Samherja í Færeyjum
-
27. febrúar 2021Samherji Holding hefur enn ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2019
-
8. febrúar 2021Gagnaöflun skattrannsóknarstjóra um rekstur félags í Belís talin lögmæt
-
6. febrúar 2021Héraðssaksóknari fékk bókhald Samherjasamstæðunnar með dómsúrskurði
-
31. desember 2020Árið þar sem allar alvöru tilraunir til að breyta sjávarútvegskerfinu voru kæfðar
-
14. desember 2020Réttarhöld í Samherjamálinu í Namíbíu hefjast í apríl
-
14. desember 2020Samherji segir James Hatuikulipi hafa sent Jóni Óttari póst um leynireikninga, ekki öfugt
-
13. desember 2020Raunveruleg ástæða þess að norskur stórbanki sagði upp viðskiptum við Samherja