Ýmis öfl hafa hag af því að kynda undir hræðslu og reiði
Ísland er í alvarlegri efnahagskreppu. Þess er vænst að 500 milljarða króna tap verði á rekstri ríkissjóðs í ár, tugir þúsunda sjá fram á að verða án atvinnu og mörg fyrirtæki standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau komi til með að lifa eða deyja. Kjarninn hitti fulltrúa bæði atvinnulífs og launafólks og fékk sýn þeirra á stöðu mála. Önnur í röðinni er Drífa Snædal, forseti ASÍ, en hún segir Íslendinga bera ábyrgð á öllu því fólki sem hér leggur hönd á plóg.
Hættan í svona kreppu er alltaf sú að ákveðin öfl fari af stað í þeim tilgangi að breyta samfélaginu í grundvallaratriðum. Þegar kreppa steðjar að þá á allt í einu að fara að snarlækka skatta, einkavæða, selja ríkiseignir og svo framvegis – allir þessir draumar ákveðinna hópa finna sér allt í einu farveg og fara að rætast. Það er aðalhættan við svona aðstæður.“
Þetta segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, þegar hún er spurð út í það við hverju megi búast í þeirri efnahagslægð sem framundan er.
Henni finnst að í staðinn ætti samfélagið að styrkja stoðir sínar og grunnkerfi. „Við verðum að vernda okkar mjólkurkýr, hvort sem þær eru flugvöllurinn eða bankakerfið.“
Tryggja verður framfærslu fólks
Drífa var á ferð um landið í byrjun sumars og það sem helst kom henni á óvart var hversu rólegt fólk hefði verið yfir því ástandi sem nú er uppi í samfélaginu. „Maður hugsaði: „Það er eitthvað svikalogn í gangi!“ Núna vitum við það og vissum svo sem alltaf að við værum að fara inn í mjög erfitt haust. Fólk er búið með uppsagnarfrestinn sinn og von er á fleiri fjöldauppsögnum.“
Aðaláhyggjuefnið núna er að tryggja framfærslu fólks sem missir vinnuna, að mati Drífu. „Það er stóra málið – og hvort við ætlum sem samfélag að standa í lappirnar og láta kerfin okkar grípa fólk eða hvort við ætlum að búa hér til ástand sem sé verra en það þarf að vera.“
Hún segir að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin er að grípa til séu mjög mikilvægar, eins og til dæmis að lengja tekjutengda tímabil atvinnuleysisbóta og vinnumarkaðsúrræðið svo fólk hafi tíma og aðstöðu til að mennta sig á meðan það er á atvinnuleysisskrá.
„En síðan eru svona óskiljanlegar ákvarðanir eins og að framlengja hlutabótaleiðina einungis um tvo mánuði. Hún er sennilega það sem hefur virkað best til að viðhalda ráðningarsambandi. Svo þessi ákvörðun er fyrir mér óskiljanleg og ég vona að þetta verði tekið til endurskoðunar í þinginu.“
Atvinnuleysiskerfið skuli endurskoðað frá grunni
Drífa segir að ASÍ hafi verið að þrýsta á að atvinnuleysistryggingakerfið verði endurskoðað frá grunni – þ.e. grunnbætur verði hækkaðar og tekjutengingarnar endurskoðaðar.
Hún segist ekki skilja af hverju Samtök atvinnulífsins og fjármálastofnanir taki ekki undir þessi sjónarmið. „Við getum þurft að horfa á rosaleg dómínó-áhrif ef fólk fer að missa húsin sín og getur ekki staðið við húsnæðislánin og allt þetta.“
Þannig yrði kostnaðurinn fyrir samfélagið miklu meiri – félagslega og efnahagslega.
Þá hafa ýmis öfl hag af því að kynda undir þessa hræðslu. Þannig að einhvern veginn verður að taka tillit til þess að fólk sé í viðkvæmri örvæntingarfullri stöðu.
Fáum dylst að erfiður vetur sé framundan. Drífa segir að Íslendingar muni komast í gegnum hann með því að gera meira en minna, en þar vitnar hún í orð fjármálaráðherra. „Við náttúrulega erum í algjöru óvissuástandi og við verðum að vera með alls konar verkfæri til þess að komast í gegnum veturinn.“
Þess vegna sé mikilvægt núna að styðja fólk til náms, aðstoða atvinnuleitendur, reyna að koma í veg fyrir frekari uppsagnir og halda hlutabótaleiðinni áfram.
Hræðsla og reiði magnast
Einnig þarf að vanda sig vegna þess að á ýmsum póstum magnast upp hræðsla og reiði í samfélaginu, að hennar mati. „Þá hafa ýmis öfl hag af því að kynda undir þessa hræðslu. Þannig að einhvern veginn verður að taka tillit til þess að fólk sé í viðkvæmri örvæntingarfullri stöðu. Það þarf að mæta fólki þar sem það er og ekki búa til samfélag þar sem fólkið upplifi sig ekki sem hluti af því en það er stórhættulegt ástand – sennilegast hættulegasta ástandið sem við gætum farið inn í núna.“
Drífa rifjar upp í þessu samhengi brunann á Bræðraborgarstíg í sumar, þar sem þrír létust. Hún segir að ákveðinn vísir að þessu hættulega ástandi hafi birst eftir brunann. „Pólverjar á Íslandi hugsuðu: „Já, svona er farið með okkur? Af hverju eigum við að spila eftir reglum samfélagsins þegar það fer svona með okkur?“.“
Hún telur að mikið sé til í þessum vangaveltum. „Að einhverju leyti höfum við Íslendingar litið á útlendinga sem einnota vinnuafl. Þá finnst mér svakalegt að heyra raddir þeirra sem eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum eða eitthvað slíkt vegna þess að við sem samfélag berum ábyrgð á því fólki sem hér leggur hönd á plóg. Við hefðum ekki getað rekið samfélagið ein síðustu árin.“
Stytting vinnuvikunnar risastórt mál – Mikilvægt að hægja á taktinum
Varðandi það hvernig Drífa sér fyrir sér íslenskt samfélag í framtíðinni þá bendir hún á að hér á landi hafi verið byrjað að horfa til styttingar vinnuvikunnar áður en faraldurinn skall á. „Það er risastórt mál. Það er risastórt lýðheilsumál og risastórt umhverfismál. Með aukinni tækni ættum við einmitt að hafa svigrúm til að stytta vinnuvikuna. Þannig að það er framtíðarsýnin og eitthvað sem við ættum að fara að stefna aftur að. Það er fátt sem bætir lífsgæði jafn mikið og að stytta vinnuvikuna – að hægja aðeins á taktinum. Við erum léleg í því Íslendingar að hægja á taktinum,“ segir hún og hlær. „En við höfum mjög gott af því að hugsa í þessum brautum.“
Drífa heldur áfram að velta fyrir sér framtíðarsýninni og talið berst að meginefni næstkomandi þings ASÍ, sem haldið verður í október. Þá verður áherslan lögð á sanngjörn eða réttlát umskipti. Á ensku kallast hugtakið „just transition“.
„Það er hugmyndafræði sem við höfum verið að vinna með – sem og alþjóðastofnanir og alþjóðaverkalýðshreyfingin. Það snýst um það hvað fer í gang þegar miklar breytingar verða í atvinnulífinu með tækninýjungum og öðrum áherslum í umhverfismálum. Þá verður að fara fram samtal um hvað verður um fólkið sem vinnur í slíkum störfum; hvernig hægt sé að tryggja góð græn störf, endurmennta fólk og allt þetta.
Þetta er auðvitað ferli og við höfum of oft lent í því hér á Íslandi – sérstaklega á minni stöðum úti á landi – að allt lokar og ekkert annað kemur í staðinn,“ segir hún.
Íslendingar ekki duglegir í langtímaplönum
Þá verði að undirbúa stuðning við almenning þegar stórar breytingar eiga sér stað í atvinnulífinu og gefa fólki tækifæri til að endurmennta sig og jafnvel fara fyrr á eftirlaun. „Oft sjáum við ýmsar breytingar fyrir. Við getum stundum séð þær fyrir með tveggja til þriggja ára fyrirvara. Það ætti að vera hægt að gera þetta sómasamlega,“ segir hún.
Drífa telur að hér á landi hafi fyrirhyggjan oft ekki verið nægileg. „Við erum lítið dugleg í langtímaplönum. Sem reyndar kemur sér stundum vel. Við höfum líka alveg ótrúlega aðlögunarhæfileika hér á landi.“
Tekur hún sem dæmi viðbrögð við Hruninu 2008 þegar fólk fann aðrar leiðir til að framfleyta sér og bjarga. Það sama hafi einnig mátt sjá eftir Eyjafjallagosið þegar margir héldu að ferðaþjónustan myndi hrynja en annað kom á daginn. „Við getum verið viðbragðsfljót þegar við viljum.“
Mikilvægt að láta kjörna fulltrúa endurspegla samfélagið
Forysta verkalýðshreyfingarinnar hefur tekið töluverðum breytingum á undanförnum árum og er hún nú talin af mörgum heldur róttækari en áður. „Það þarf alltaf að vera með blöndu af reynslumiklu og nýju fólki. Verkalýðshreyfingin hefur legið undir ámæli síðustu ár fyrir að vera að einhverju leyti værukær og að einhverju leyti í of nánu hagsmunasambandi við atvinnurekendur. Það eru samtvinnaðir hagsmunir víða – því atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin reka saman lífeyrissjóðina, Virk, fræðslusjóðina og fleira.
Hvort sem gagnrýnin hafi verið rétt eða röng þá held ég að tími hafi verið kominn á nýtt fólk. Síðan er að verða gríðarleg kynslóðaskipti í hreyfingunni – eðlileg kynslóðaskipti. Það hefur verið mjög ánægjulegt og eitt af því besta sem ný forysta í Eflingu hefur gert er að láta kjörna fulltrúa endurspegla þá sem eru í félaginu. Þau eru náttúrulega með langflesta útlendinga í sínu félagi, hátt í 50 prósent og mikilvægt er að gefa öllum rödd og það hafa þau gert mjög vel.“
Þá vísar hún í fyrri orð varðandi þá hættu sem leynist í því að halda fólki fyrir utan samfélagið. „Svo ég komi að því aftur, þá er mjög hættulegt ástand ef við ætlum að halda hluta af samfélaginu utan þess. Mjög hættulegt ástand og við höfum tækifæri til þess að gera það ekki.“
Síðan hef ég áhyggjur af forystu hjá Samtökum atvinnulífsins þar sem er harðari tónn en áður – en hún er beinlínis að styðja það að geta gengið framhjá hinum hefðbundnu verkalýðsfélögum og semja við önnur. Þannig að það verður barátta.
Átök innan verkalýðshreyfingarinnar ekki ný af nálinni
Nokkur átök hafa orðið innan verkalýðsforystunnar og segir Drífa að ekki þurfa að draga fjöður yfir það. „Átökin hafa blossað upp við og við og á góðum dögum erum við samstillt og á verri dögum erum við það ekki. En það er heldur ekkert nýtt – það hafa alltaf verið blokkir innan hreyfingarinnar. Einhverjir eru róttækir og aðrir ekki. Að halda það að eitthvað nýtt sé að gerast í verkalýðshreyfingunni sem ekki hafi gerst áður er ekki rétt. Áður voru þetta átök milli sósíalista og sósíaldemókrata innan hreyfingarinnar. Núna eru þetta að einhverju leyti líka hugmyndafræðileg átök um áherslur. Þetta er ekkert nýtt undir sólinni.“
Hún telur að auðvitað væri betra ef þau í hreyfingunni gætu alltaf verið samstillt í öllum málum og talað einni röddu en að ekki sé hægt að ætlast til þess í 130.000 manna hreyfingu. Óeðlilegt væri að fara fram á það. „En það sem maður vill fara fram á er að fólk sýni öllum skoðunum virðingu.“ Það gangi þó upp og ofan.
Vísbendingar um að verið sé að keyra niður launin
Drífa segist vera bjartsýn að Íslendingar komist í gegnum þær hremmingar sem framundan eru. „Þetta verður erfiður vetur en ég er bjartsýn á það að við náum viðspyrnu.“
Hún segir um verkalýðsbaráttuna sjálfa að þau í hreyfingunni verði að styrkja sig sjálf til þess að geta aðstoðað félagsmenn þeirra enn betur. „Hvort sem það er í endurmenntun eða atvinnuleysi eða hvað sem það er. Við verðum að finna einhverjar leiðir til þess. En verkalýðshreyfingin er náttúrulega gríðarlega öflug. Það er nánast hvergi í heiminum eins öflug verkalýðshreyfing, þ.e. jafn almenn aðild að félögum. Það skiptir máli þegar valdastaðan á vinnumarkaði breytist, eins og í kreppuástandi. Það er að segja þegar margir eru atvinnulausir þá er hætta á að fólki verði att saman til þess að bjóða vinnuframlag sitt á lægra verði en næsti maður. Til þess er verkalýðshreyfingin stofnuð; til þess að semja fyrir allan hópinn þannig að fólk lendi ekki í þeirri stöðu að undirbjóða hvert annað.“
Hún segir enn fremur að þau hjá ASÍ sjái ákveðnar vísbendingar þess efnis að verið sé að keyra niður launin. Jafnvel sé fólki boðið upp á óviðunandi vinnuaðstæður eða ráðningarsamninga. Þá reyni á samtakamátt hreyfingarinnar.
Harðari tónn hjá SA en áður
„Síðan hef ég áhyggjur af forystu hjá Samtökum atvinnulífsins þar sem er harðari tónn en áður – en hún er beinlínis að styðja það að geta gengið framhjá hinum hefðbundnu verkalýðsfélögum og semja við önnur. Þannig að það verður barátta.“
Ein aðferð til að sporna við þessum nýju aðferðum er að standa saman, að mati Drífu. „Með samtakamætti launafólks og með sterkri verkalýðshreyfingu. Að við tökum hart á móti þegar svona hugmyndir koma upp.“
Þarna á Drífa við uppsagnir Icelandair en fyrirtækið sagði upp öllum flugfreyjum félagsins í miðjum kjaradeilum í sumar og hótaði að semja við utanaðkomandi aðila. „Í því máli skipti öllu fyrir flugfreyjur að vera innan heildarsamtaka. Að fá stuðning frá sínum félögum í heildarsamtökum. Þannig að ég held að þetta mál, öðru fremur, sýni fram á að þegar verið er að reyna að keyra niður launin og reyna að skýla sér bak við einhvers konar neyðarástand eða neyðarrétt þá skiptir öllu máli að verkalýðshreyfingin standi í lappirnar og segi nei. Við erum ekki að fara að slá af okkar grunnprinsippum í svona ástandi.“
Vantar jarðtengingu við vinnandi fólk
Stjórnmál eru alltumlykjandi í samfélaginu og telur Drífa að taka verði pólitískar ákvarðanir í mjög góðu samráði við verkalýðshreyfinguna – og launafólk í landinu. Ekki sé nóg að hlusta á atvinnurekendur. „Ég hef töluverðar áhyggjur af því að það skorti einhvers konar jarðtengingu við vinnandi fólk og almenning. Þá tengingu er hægt að ná með því að tala til dæmis við okkur og önnur samtök.“
Hún segir að framundan sé erfiður pólitískur vetur. „Ég hugsa að það muni reyna mjög mikið á hugmyndafræðilegar stoðir flokkanna. Á kosningavetri fara flokkar meira í kjarnann sinn og reyna að höfða til kjósenda. Þetta verður auðvitað líka mjög sérstakur kosningavetur þar sem ekki verður kosið fyrr en í september á næsta ári. Hann verður mjög langur og skrítinn.“
Aðspurð út í hugmyndir Ragnars Þór Ingólfssonar, formanns VR, um að verkalýðshreyfingin stofni flokk þá telur Drífa það ekki vera góða hugmynd.
„Mér finnst að við eigum að hafa ítök í öllum flokkum og mér finnst verkalýðshreyfingin miklu sterkara afl en nokkurn tímann einhver stjórnmálaflokkur. Ef við förum að deila um allt stórt og smátt sem stjórnmálaflokkar verða að móta sér stefnu í þá óttast ég að þau átök muni færast frekar inn í hreyfinguna og veikja okkur. Þess vegna er ég ekki hrifin af þeirri hugmynd.“
Stórar hugmyndir geta komið upp úr erfiðu ástandi
Nokkuð hefur borið á þeim hugmyndum að annars konar samfélag muni rísa með öðrum gildum eftir COVID-19 faraldurinn. En telur Drífa að betra og sterkara samfélag geti orðið að veruleika eftir þetta ástand?
„Já, ég hef trú á því að það geti gerst. Vegna þess að stórar hugmyndir geta líka komið upp úr erfiðu ástandi og það er ekki þannig að stórstígar framkvæmdir í réttindamálum almennings hafi endilega verið í góðæri – það hefur ekki síður verið í kreppu. En þá þarf pólitíkin náttúrulega að gera sér grein fyrir því, og hún er ekki alveg þar. Ég held að pólitíska hugmyndafræðin og átökin á milli þessara hugmyndafræða muni að einhverju leyti draga úr möguleikum til þess að gera eitthvað stórt,“ segir hún að lokum.
Lesa meira
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
26. desember 2022Árið 2022: Húsnæðismarkaðurinn át kaupmáttinn
-
23. desember 2022Íslensk veðrátta dæmd í júlí
-
22. desember 2022Verðbólgan upp í 9,6 prósent – Einungis tvívegis mælst meiri frá 2009
-
21. desember 2022VR búið að samþykkja kjarasamninga – 82 prósent sögðu já
-
20. desember 2022Hvers vegna Efling þarf öðruvísi samning
-
19. desember 2022Kjarasamningur SGS samþykktur hjá öllum 17 aðildarfélögunum
-
18. desember 2022Kaupmáttur ráðstöfunartekna ekki dregist jafn mikið saman í næstum tólf ár