Þrjú sem voru í lykilhlutverkum í Landsréttarmálinu berjast um tvö sæti í Landsrétti
Dómnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að þrír af sjö umsækjendum um embætti Landsréttardómara séu jafn hæf og að ekki verði gert upp á milli þeirra. Einn umsækjandi er þegar dómari við réttinn en má ekki dæma. Hinir tveir voru metnir á meðal þeirra hæfustu í aðdraganda þess að Landsréttur var stofnaður, en síðan sniðgengnir.
Dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt hefur komist að þeirri niðurstöðu að þrír umsækjendur séu hæfastir þeirra sjö sem sóttu um tvö embætti, og að ekki verði gert upp á milli þeirra.
Þeir þrír umsækjendur sem um ræðir voru öll í lykilhlutverkum í Landsréttarmálinu svokallaða, sem snerist um það að þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, gerði breytingu á tillögu dómnefndar um þá 15 dómara sem myndu skipa Landsrétt þegar hann hæfi starfsemi í byrjun árs 2018.
Um er að ræða Ástráð Haraldsson og Jón Höskuldsson, sem dómnefnd hafði metið á meðal 15 hæfustu umsækjenda en ráðherrann ákvað að tilnefna ekki, og Ragnheiði Bragadóttur, sem var ekki á meðal þeirra 15 sem voru metin hæfust en var samt skipuð. Alþingi samþykkti tilnefningar ráðherrans í júní 2017.
Í kjölfarið hafa íslenskir dómstólar úrskurðað að Sigríður hafi brotið stjórnsýslulög með atferli sínu. Auk þess komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu í málinu í mars í fyrra að dómararnir fjórir sem voru færðir upp á lista Sigríðar væru ólöglega skipaðir, og geti þar með ekki fellt dóma yfir þeim sem fyrir þá koma, enda hafi þeir ekki hlotið réttláta málsmeðferð. Í kjölfar þess að dómur Mannréttindadómstólsins féll þá sagði Sigríður af sér embætti dómsmálaráðherra.
Því máli var skotið til yfirdeildar Mannréttindadómstólsins sem hefur enn ekki lokið umfjöllun sinni um málið.
Þau fjögur sem sóttu um embættin tvö voru, auk þeirra þriggja sem metin voru hæfust, Hildur Briem héraðsdómari, Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari, Stefán Geir Þórisson lögmaður og Jóhannes Rúnar Jóhannsson lögmaður. Jóhannes Rúnar var einnig á meðal þeirra fjögurra sem dómnefnd mat á meðal 15 hæfustu við upphaflega skipun í Landsrétt, en var ekki á þeim lista sem þáverandi dómsmálaráðherra lagði fyrir Alþingi til samþykktar.
Stólaleikur
Þeir fjórir dómarar við Landsrétt sem máttu ekki fella dóma eftir að niðurstaða Mannréttindadómstólsins lá fyrir hafa hver á fætur öðrum sótt um lausar stöður við réttinn á þessu ári. Þegar hafa Ásmundur Helgason og Arnfríður Einarsdóttir verið skipuð að nýju af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra það sem af er árinu 2020.
Ragnheiður hefur sóst eftir þeim stöðum líka en ekki verið metin jafn hæf og þau Ásmundur og Arnfríður. Sá eini fjórmenninganna sem hafa ekki mátt dæma í málum frá því í fyrra sem hefur ekki sóst eftir að vera skipaður að nýju er Jón Finnbjörnsson, en hann var neðstur þeirra allra sem voru á endanum skipaðir í hæfismatinu sem framkvæmt var 2017. Þar var hann í 30. sæti.
Ástráður hefur einnig sótt um báðar þær stöður en í hvorugt skiptið verið metinn jafn hæfur og þau sem skipuð voru, þrátt fyrir að hafa bætt við sig dómarareynslu sem héraðsdómari frá árinu 2017. Á því er breyting nú.
Í ályktunarorðum í umsögn dómnefndar segir að það sé „niðurstaða dómnefndar að Ástráður Haraldsson, Jón Höskuldsson og Ragnheiður Bragadóttir séu hæfust umsækjenda til að hljóta skipum í tvö embætti dómara við Landsrétt, sem auglýst voru til umsóknar 19. júní, og ekki verði gert upp á milli hæfi þeirra þriggja að því er það varðar.“ Dómnefndina skipuðu: Eiríkur Tómasson, formaður, Halldór Halldórsson, Helga Melkorka Óttarsdóttir, Kristín Benediktsdóttir og Óskar Sigurðsson.
Allir fjórir höfðuðu mál
Þeir fjórir sem Sigríður færði af listanum yfir þá sem voru metnir hæfastir við skipun Landsréttar árið 2017 stefndu allir vegna málsins. Fyrst stefndu Ástráður og Jóhannes Rúnar ríkinu vegna ákvörðunar Sigríðar. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í desember 2017 að Sigríður hafi brotið gegn stjórnsýslulögum þegar hún ákvað að fara gegn hæfismati dómnefndarinnar. Þeir voru þá báðir starfandi lögmenn og lögðu ekki fram nein gögn sem gátu sýnt fram á fjárhagstjón vegna ákvörðunar ráðherra.
Hinir tveir, Jón og Eiríkur Jónsson, höfðuðu líka mál gegn íslenska ríkinu vegna ólögmætrar skipunar á Landsréttardómurum. Í október 2018 komst héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að ríkið þyrfti að greiða þeim báðum bætur. Í mars komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu í málum þeirra að ákvörðun þáverandi dómsmálaráðherra hefði falið í sér verulega meingerð gegn æru og persónu mannanna tveggja. Skaðabætur til Jóns voru hins vegar felldar niður og Eiríki voru ekki dæmdar neinar bætur, en hann hafði í millitíðinni verið skipaður dómari við Landsrétt.
Í maí síðastliðnum var greint frá því að Hæstiréttur Íslands hefði fallist á málskotsbeiðni Eiríks og Jóns og mun málið því hljóta endanlega niðurstöðu þar.
Lestu meira:
-
21. apríl 2021Enn ekki upplýst um kostnað ríkislögmanns vegna ólöglegrar skipunar dómara í Landsrétt
-
26. febrúar 2021Dómsmálaráðherra gerir tillögu um að skipa Símon Sigvaldason í Landsrétt
-
23. febrúar 2021Ólögleg skipan dómara í Landsrétt kostaði skattgreiðendur að minnsta kosti 141 milljón
-
22. febrúar 2021Dómnefnd metur Símon Sigvaldason hæfastan til að setjast í Landsrétt
-
11. febrúar 2021Íslenska ríkið skaðabótaskylt gagnvart Jóni og Eiríki vegna Landsréttarmálsins
-
10. desember 2020Þrjú sækja um laust embætti dómara við Landsrétt
-
9. desember 2020„Þetta er í öllu falli liðin tíð og ég dvel ekki frekar við hana“
-
4. desember 2020Innansveitarkronikan og evrópska réttarríkið
-
3. desember 2020Segir að allir þurfi aðhald – líka dómarar í Strassborg
-
3. desember 2020„Misnotkun á valdi og bolabrögð hafa verið einkenni Sjálfstæðisflokksins í langan tíma“