„Í Flugstöðinni bíða nú 17 hælisleitendur sem voru að koma til landsins í dag eftir flutningi til Reykjavíkur. Fiskisagan um að á Íslandi sé fólki veitt hæli fær byr undir báða vængi. Allt þetta fólk þarf að komast í einangrun til Reykjavíkur. Það þarf að gera í mörgum ferðum á bílum því fólkið má ekki vera saman nema hjón eða fjölskyldur. Þá taka 17 manns í einangrun eða sótthví töluvert húsrými og þyngja yfirlestað heilbrigðiskerfi. Eigum við ekki nóg með okkur sjálf núna.“
Þetta skrifar Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, á Facebook í gærkvöldi.
Í Flugstöðinni bíða nú 17 hælisleitendur sem voru að koma til landsins í dag eftir flutningi til Reykjavíkur....
Posted by Ásmundur Friðriksson on Friday, September 25, 2020
Ásmundur útskýrir ekki í stöðuuppfærslunni hvað hann sé að vísa í þegar hann segir að fiskisagan um að á Íslandi fái fólk hæli hafi fengið byr undir báða vængi en undanfarið hefur mál hinnar egypsku Khedr-fjölskyldu verið í brennidepli. Hún fékk dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða í fyrradag, eftir að hafa farið í felur þegar vísa átti henni úr landi átta dögum áður. Það gerðist í kjölfar þess að kærunefnd útlendingamála féllst á sjónarmið fjölskyldunnar um endurupptöku.
Þá tilkynnti ríkisstjórn Íslands, sem Sjálfstæðisflokkurinn er aðili að, í gær um að hún hafi samþykkt að Ísland taki á móti flóttafólki frá Lesbos á Grikklandi, með áherslu á sýrlenskar fjölskyldur í viðkvæmri stöðu.
Um síðustu áramót höfðu íslensk stjórnvöld tekið á móti 695 kvótaflóttamönnum á 62 árum.
Dómsmálaráðherra sagði „átakanlegt“ að vera í sama flokki og Ásmundur
Ásmundur Friðriksson hefur áður vakið athygli fyrir ummæli sín um útlendinga og flóttafólk.
Snemma árs 2015, í kjölfar árása á skrifstofu Charlie Hebdo í Frakklandi, birti hann stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann velti því fyrir sér hvort bakgrunnur þeirra 1.500 múslima sem bjuggu á Íslandi hefði verið kannaður. Það hefði átt að gera með það að leiðarljósi að komast að því hvort þeir hefðu „farið í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna eða barist í Afganistan, Sýrland eða öðrum löndum þar sem óöld ríkir meðal múslima.“ Ásmundur viðurkenndi síðar að hann þekkti samfélag múslima „nánast ekki neitt“.
Öll þáverandi forysta Sjálfstæðisflokksins gagnrýndi Ásmund harðlega fyrir ummæli hans. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, núverandi dómsmálaráðherra og sem fer með málefni flóttamanna í ríkisstjórn, sagði meðal annars að það væri „vægast sagt átakanlegt að vera í sama flokki og Ásmundur Friðriksson. Fordómar og fáfræði einkenna ummæli hans og passa engan veginn við þær frelsis og frjálslyndishugmyndir sem ég trúi að meirihluti Sjálfstæðismanna standa fyrir. Velti fyrir mér hvort hann eigi ekki betur heima í öðrum flokki sem hefur gælt við þessar skoðanir áður með mjög ósmekklegum hætti."
Vildi skoða að snúa flóttamönnum við í Keflavík
Í mars 2016 sagði hann í umræðum á Alþingi: „Það er mikilvægt að við skoðum það hvort það sé nauðsynlegt á þessari stundu að flóttamönnum, eða hælisleitendum, sé snúið við í Keflavík og þeir sendir aftur til síns heima.“
Um mánuði fyrir þingkosningar 2016 gagnrýndi Ásmundur, úr pontu Alþingis, að fjárframlög til Útlendingastofnunar hefðu aukist vegna fjölgunar hælisleitenda hér á landi og fjölgun hælisleitenda. Hann sagði að fyrir sömu fjárhæðir og fara í að standa straum af kostnaði við hælisleitendur væri hægt að halda úti skurðstofu á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum. „Hælisleitendur er annar flokkur flóttamanna sem stöðugt sækir til landsins og er að mestu samansettur af ungum karlmönnum sem koma hingað vegabréfalausir. Í nýsamþykktum lögum um útlendinga eru skilaboð Alþingis skýr til þessa hóps og eru að skila sér.“
Sagði að kostnaður gæti orðið 220 milljarðar á ári
Tveimur vikum fyrir síðustu alþingiskosningar, haustið 2017, birti Ásmundur aðsenda grein í Morgunblaðinu þar sem hann hélt ýmsu fram um flóttafólk. Þar sagði meðal annars að flóttafólk sem óskaði eftir vernd á Íslandi, sem hann kallaði hælisleitendur, gætu orðið allt að tvö þúsund á Íslandi á árinu 2017.
Sú fjölgun myndi koma „í kjölfar ákvörðunar Alþingis um að taka hagsmuni einstaklinga fram yfir hagsmuni heildarinnar.“
Ásmundur skrifaði síðan að fram hefðu verið settar sviðsmyndir sem sýndu að hælisleitendur hérlendis gætu orðið tug þúsundir á næstu árum og að kostnaðurinn á hverju ári gæti orðið 220 milljarðar króna. Hann sagði að kostnaður við móttöku hælisleitenda stefndi í sex milljarða króna. „Þrengingar eru á húsnæðismarkaði. Heimafólk er sett á götuna á meðan margar íbúðir, gistiheimili og gamlir skólar eru setin hælisleitendum. Nábýlið við suma þeirra er svo eldfimt að það dugar ekki minna en sérsveit lögreglunnar ef stilla þarf til friðar.“
Ásmundur spurði svo hvort sanngjarnt væri:
„Að hælisleitendur fái í mörgu betri framfærslu en eldri borgarar og öryrkjar?
Að hælisleitendur fá frítt húsnæði þegar eldri borgurum og fötluðum stendur það ekki til boða.
Að heimamenn búi á sama tíma í tjöldum vegna húsnæðiseklu?
Er réttlátt að verja sex þúsund milljónum til móttöku hælisleitenda þegar við neitum Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi og í Vestmannaeyjum og Ísafirði um öruggari fæðingarþjónustu í heimabyggð sem samtals kostar um einn milljarð á ári?“
Í andstöðu við tölur
Efnislega var allt sem Ásmundur hélt fram hrakið opinberlega af fólki sem starfar við mótttöku flóttafólks eða með rauntölum um fjölda flóttamanna sem sækjast eftir vernd hérlendis, og kostnaði við móttöku þeirra, sem er fjarri því sem Ásmundur hélt fram að hann gæti orðið. Umsóknir um alþjóðlega vernd voru 867 á síðasta ári, samkvæmt Útlendingastofnun, og fjölgaði um 67 milli ára en flestir umsækjendur komu frá Venesúela og Írak. Í heild fengu 531 einstaklingur alþjóðlega vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi árið 2019.
Um miðjan septembermánuð höfðu borist 433 umsóknir um vernd hérlendis það sem af er ári. Alls höfðu 368 manns fengið alþjóðlega vernd. viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Þar af voru 125 frá Venesúela og 32 frá Írak, en Ísland er skuldbundið til að veita öllum vernd sem koma frá þeim löndum ef Ísland er staðurinn sem þeir sækjast eftir slíku í Evrópu.
Kostnaður við rekstur þess málaflokks sem kallast útlendingamál var 4,2 milljarðar króna í fyrra. Árið áður, 2018, var hann 4,1 milljarður króna. Þetta má lesa úr ársskýrslu dómsmálaráðherra fyrir sitt hvort árið.
Þá liggja fyrir tölur frá Hagstofu Íslands um að innflytjendur, sem er mengi sem nær yfir þá erlendu ríkisborgara sem flytja hingað til að starfa, þá sem sækja um alþjóðlega vernd og þá sem koma hingað til lands sem kvótaflóttamenn, um að hópurinn þiggi mun minna af félagslegri framfærslu en innlendir. Samhliða mikilli fjölgun innflytjenda á síðustu árum hafa meðaltalsgreiðslur til þeirra dregist saman.