Innflytjendur voru aflið að baki síðasta góðæri
Á örfáum árum hefur erlendum ríkisborgurum sem búa á Íslandi fjölgað úr rúmlega 20 þúsund í rúmlega 50 þúsund. Flestir þeirra koma hingað til lands til að vinna. Samhliða hafa þeir mannað þau þúsundir starfa sem ferðaþjónustugóðærið kallaði á og aukið skattgreiðslur til ríkissjóðs langt umfram það sem íslenskir ríkisborgarar hafa gert á undanförnum árum. Í eðlilegu árferði þiggja innflytjendurnir mun minna af félagslegum greiðslum en aðrir íbúar landsins.
Það var uppgangur á Íslandi áður en kórónuveiran skall á. Mikill efnahagslegur uppgangur. Hagvöxtur var hér á hverju ári frá árinu 2011 og út síðasta ár. Mestur var hann í 2016, þegar hagvöxtur var 7,4 prósent. Það er einn mesti hagvöxtur sem mældist í heiminum það árið. Árið 2018 var hann 4,8 prósent og í fyrra, þrátt fyrir stórkostleg áföll á borð við gjaldþrot WOW air, erfiðleika Icelandair vegna kyrrsetningar MAX 737 vélanna og loðnubrests, var hann samt 0,2 prósent.
Samhliða þessu ástandi styrktist íslenska krónan um tugi prósenta og verðbólga hélst undir markmiðum, sem leiddi af sér mikla kaupmáttaraukningu.
Það ríkti einfaldlega góðæri. Mesta góðæri sem Íslendingar hafa upplifað. Kaupmáttur launa almennt jókst um 26 prósent frá árslokum 2014 til ársloka 2019. Á einfaldara máli þýðir það að flestir landsmenn urðu ríkari. Eignuðust meira.
Meginástæðan fyrir þessari stöðu var gríðarlegur vöxtur í ferðaþjónustu sem skilaði því að sú stoð hagkerfisins var orðin sú stærsta sem það hvílir á.
Þessi mikli vöxtur útheimti mikið vinnuafl, bæði beint og óbeint. Það þurfti nefnilega að manna alla pósta innan ferðaþjónustunnar en líka byggja upp innviði, eins og hótel og önnur nauðsynleg mannvirki.
Það var hins vegar ekki til staðar vinnuafl á Íslandi til að manna öll þessi störf, sem skiptu tugum þúsunda. Því þurfti að sækja það fólk annað, eða lokka það hingað, enda atvinnuleysi á Íslandi neikvætt á þessum tímum ef leiðrétt var fyrir komu erlendra ríkisborgara.
Þess vegna kom aflið sem knúði áfram þessa góðærisvél fyrst og síðast að utan.
Það er ekki ályktun, heldur staðreynd sem studd er tölulegum gögnum.
Langstærstur hluti fjölgunar íbúa kom erlendis frá
Í lok árs 2011 voru erlendir ríkisborgarar sem bjuggu á Íslandi 20.957 talsins. Þeim hafði fækkað árin á undan í ljósi þess að hrunið hafði skilið eftir sig atvinnuleysi sem slagaði upp í tveggja stafa tölu, verðbólgu sem fór hæst upp í um 18 prósent og tugprósenta gengisfall íslensku krónunnar.
Síðan þá hefur þeim fjölgað ár frá ári, en þó aldrei jafn mikið og á árinu 2017. Á því ári einu saman fjölgaði erlendum ríkisborgurum meira en á þeim fjórum árum sem á undan komu til samans. Sú fjölgun hélt áfram að vera mikil 2018 og þótt hún hafi dregist saman í fyrra þá fjölgaði erlendum ríkisborgurum samt um rúmlega fimm þúsund.
Íbúum landsins fjölgaði um 10.130 á árinu 2017 og um 8.470 árið 2018. Í fyrra fjölgaði þeim um sirka sjö þúsund. Það þýðir að 75 prósent þeirrar fjölgunar sem orðið hefur hér á landi á þriggja ára tímabili var vegna erlendra ríkisborgara sem fluttu til landsins.
Þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn, sem hefur skilið ferðaþjónustu á Íslandi eftir í djúpri kreppu og orsakað um 25 prósent atvinnuleysi hjá erlendum ríkisborgurum hérlendis, þá hefur þeir samt sem áður fjölgað um rúmlega 1.600 í ár.
Í lok september síðastliðins voru erlendir ríkisborgarar sem búa hérlendis 51.120 talsins, eða tæplega 14 prósent íbúa landsins. Til að setja þá tölu í samhengi þá væru erlendu ríkisborgararnir næst stærsta sveitarfélag landsins ef þeir byggju allir í einu slíku. Þeir eru næstum jafn margir og búa í Kópavogi og Garðabæ samanlagt, en íbúar þar eru um 58 þúsund. Erlendum ríkisborgurum á Íslandi hefur fjölgað um 142 prósent frá byrjun árs 2011.
Þá eru ekki taldir með þeir sem koma hingað á vegum t.d. starfsmannaleiga, sem hafa á hverjum tíma að minnsta kosti verið nokkur hundruð, eða þeir sem hafa tekið upp íslenskt ríkisfang.
Pólverjar í sérflokki
Langflestir sem flytja hingað eru ungt fólk á þrítugs- og fertugsaldri. Og langflestir þeirra koma upprunalega frá Póllandi. Alls bjuggu hérlendis 21.108 manns með pólskt ríkisfang í október 2020. Þeir eru nú 5,4 prósent allra íbúa landsins. Það eru jafn margir og allir erlendu ríkisborgararnir sem hér bjuggu í byrjun árs 2011, og fleiri en búa í Reykjanesbæ eða á Akureyri, en tæplega 20 þúsund manns búa í hvoru sveitarfélagi fyrir sig.
Flestir þeirra setjast að í Reykjavík, en rúmlega 40 prósent allra útlendinga á landinu bá þar. Frá byrjun árs 2016 hefur íbúum Reykjavíkurborgar fjölgað um 10,420 talsins. Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað um tæplega 10.940 á sama tíma Öll íbúafjölgun í Reykjavík á þessu tímabili var því vegna erlendra ríkisborgara sem fluttu til borgarinnar, og rúmlega það. Í dag búa rúmlega 21 þúsund erlendir ríkisborgarar í Reykjavík.
Til samanburðar bjuggu 880 útlendingar í Garðabæ í lok september síðastliðins, sem er fimm prósent af íbúum sveitarfélagsins.
Í byrjun árs 2015 bjuggu 1.590 erlendir ríkisborgarar í Reykjanesbæ. Í lok september síðastliðins voru þeir orðnir fimm þúsund og fjöldi þeirra því þrefaldast á örfáum árum. Erlendir ríkisborgarar voru 10,6 prósent íbúa í Reykjanesbæ í byrjun árs 2015 en tæplega 26 prósent þeirra nú.
Ráðandi í hópi nýrra skattgreiðenda
Fjöldi erlendra ríkisborgara sem flutt hafa hingað til lands í þeirri efnahagsuppsveiflu sem verið hefur á undanförnum árum hefur gjörbreytt mörgu hérlendis. Erlendum ríkisborgurum sem greiddu skatta á Íslandi fjölgaði til að mynda um 9.782 milli áranna 2016 og 2017, eða um 27,9 prósent. Á sama tíma fjölgaði þeim íslensku ríkisborgurum sem greiddu skatta hérlendis um 1.166 talsins.
Alls greiddu 44.850 erlendir ríkisborgarar skatta á Íslandi á árinu 2017 og voru þeir þá 15,1 prósent allra skattgreiðenda. Árið áður voru þeir 12,2 prósent þeirra einstaklinga sem skráðir voru í skattgrunnskrá.
Fólkið sem sífellt eldri þjóð vantar
Þeim sem eru eldri en 67 ára hefur fjölgað mikið á skömmum tíma, enda Íslendingar sífellt að lifa lengur. Í upphafi árs 2020 höfðu rúmlega 45 þúsund manns náð hefðbundnum eftirlaunaaldri. Miðspá síðustu mannfjöldaspár Hagstofu Íslands gerir ráð fyrir að þessi hópur telji 77.123 árið 2040 og 114.308 árið 2066. Til að setja þetta í annað samhengi þá voru 39 Íslendingar 100 ára eða eldri í lok árs 2017. Spáin gerir ráð fyrir því að 405 manns verði að minnsta kosti 100 ára árið 2066.
Frjósemi íbúa á Íslandi hefur líka dregist nokkuð saman. Árið 1960, þegar hún náði hámarki, eignaðist hver kona að meðaltali 4,3 börn. Undanfarin ár hefur frjósemi hins vegar mælst rétt undir 2,0 á hverja konu. Minni frjósemi er beintengd hækkandi meðalaldri kvenna. Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar var meðalaldur mæðra sem eignuðust sitt fyrsta barn um 22 ár. Um miðjan níunda áratuginn var hann kominn upp í 23,3 ár og 2018 í heild 28,2 ár.Við þurfum tvö til þrjú þúsund manns í viðbót á ári, að lágmarki, við þá sem við búum til á vinnumarkað svo að hagvöxtur geti haldið áfram og svo hægt sé að manna þau fjölmörgu störf við umönnun sem sífellt eldri þjóð mun útheimta.
Það fólk verður einungis sótt út fyrir landsteinanna. Útlendingar verða því að minnsta kosti fjórði hver landsmaður árið 2065 ef við ætlum okkur að að ná ofangreindum markmiðum.
Erlendum ríkisborgurum fjölgaði því rúmlega 60 sinnum hraðar og átta sinnum meira en íslenskum á skrá. Erlendir ríkisborgarar voru um 89,3 prósent fjölgunar á skrá árið 2017.
Mun ólíklegri til að þiggja félagslegar greiðslur
Hvaða áhrif hefur þessi mikla fjölgun haft á íslenskt velferðarkerfi? Hafa útlendingarnir sem hingað flytja lagst eins og mara á það? Tölurnar fyrir þorra síðustu ára benda ekki til þess.
Þvert á móti drógust greiðslur sveitarfélaga vegna félagslegrar framfærslu saman árið 2016 og 2017. Síðara árið námu greiðslur sveitarfélaga í húsaleigubætur, félagslega aðstoð og styrki alls 2,4 milljörðum króna og drógust saman um 456 milljónir á milli ára.
Sömu sögu er að segja af útgreiðslu atvinnuleysisbóta. Árið 2009 fengu tæplega 28 þúsund manns samtals 23,2 milljarða króna greiddar í slíkar. 2017 fengu tæplega tíu þúsund manns 8,7 milljarða króna í atvinnuleysisbætur. Þá hefur þeim sem þiggja bætur fækkað ár frá ári, og hefur alls fækkað um 18 þúsund frá árinu 2009 til loka árs 2016, fram að árinu 2017 þegar þeim fjölgaði milli ára um 107 á ári þar sem Íslendingum í heild fjölgaði um tíu þúsund.
Innflytjendur þiggja líka minni greiðslur í félagslega framfærslu en innfæddir. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands þá var meðaltal „annarra tekna“ hjá innlendum íbúum Íslands um 1,3 milljónir króna á árinu 2017. Á sama tíma var það 626 þúsund krónur hjá innflytjendum, eða rúmlega 50 prósent lægra.
„Aðrar tekjur“ eru samtala ýmissa félagslegra greiðsla, svo sem lífeyrisgreiðslur, greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og aðrar bótagreiðslur á borð við atvinnuleysisbætur, vaxta- og barnabætur. Auk þess teljast til annarra tekna náms- og rannsóknarstyrkir, vinningar og ýmsar aðrar tekjur.
En hvað með glæpi? Fylgja þessum aukna fjölda útlendinga ekki aukin glæpatíðni? Nei, ekki samkvæmt afbrotatölfræði. Tilkynningum um hegningarlagabrot hefur annað hvort fækkað milli ára eða fjölgað lítillega, í takti við heildarfjölgun mannfjölda (þrjú prósent á árinu 2019) og langt undir því hlutfalli sem fjölgun erlendra ríkisborgara hefur verið.
Umburðarlyndari þjóð
Sem betur fer virðast Íslendingar verða frjálslyndari og opnari með hverju árinu. Og betur í stakk búnir til að takast á við þessar mestu breytingar á samsetningu íbúa landsins sem nokkru sinni hafa átt sér stað hérlendis.
Í niðurstöðum íslensku kosningarannsóknarinnar töldu 34,6 prósent Íslendinga að innflytjendur væru alvarleg ógn við þjóðareinkenni okkar árið 2007. Árið 2017 var það hlutfall komið niður í 17,8 prósent, og hafði því helmingast.
Einungis kjósendur Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks voru enn jafn hræddir við útlendinga árið 2017 og þeir voru áratug áður. Líklega má bæta við kjósendum Miðflokksins inn í þá breytu, sem koma að uppistöðu úr fyrra kjósendamengi áðurnefndra tveggja flokka.
Lestu meira:
-
23. október 2021„Vanda þarf til verka á þessu mikilvæga og viðkvæma horni“
-
14. október 2021Byggingin „lík virki“ og skýringarmyndir „fráhrindandi“
-
9. október 2021Byggt verði af virðingu við fórnarlömb brunans og húsin í kring
-
19. júní 2021„Ég get ekki grátið fyrir innan afgreiðsluborðið“
-
11. júní 2021Bæturnar aðeins „dropi í hafi“ miðað við tjónið
-
10. júní 2021Ríkissaksóknari ætlar ekki áfrýja dómi í Bræðraborgarstígsmálinu
-
3. júní 2021Marek metinn ósakhæfur og sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins
-
5. maí 2021„Hér er ekki um leikaraskap, slysni eða eitthvað grín að ræða“
-
28. apríl 2021Marek segist ekki hafa tekið geðlyfin í hálft ár
-
27. apríl 2021„Íslenska parið“ og yfirlýsingar Mareks um Moskvuferð