Saga hússins á horninu: Frá himnaríki til heljar
„Bræðró“ var „himnaríki á jörðu“. Þannig lýsti fóstursonur hjóna sem lengi bjuggu að Bræðraborgarstíg 1, heimilinu. Í húsinu voru mörg hundruð brauð bökuð daglega og Vesturbæingar flykktust að, kynslóð fram af kynslóð, til að versla við þá bræður Svein og Hjört Hjartarsyni.
Á öndverðri tuttugustu öldinni voru timbur- og steinhús tekin að rísa í stað torfbæja á þeim slóðum sem í dag kallast Gamli Vesturbærinn. Eitt þeirra byggði Otti Guðmundsson. Húsið átti síðar eftir að hýsa bakarí og verslun sem urðu miðstöð hverfisins í áratugi. En þetta var líka fjölskylduhús þar sem atorkumikið og hjálpsamt fólk bjó, elskaði, missti og saknaði. Hornhúsið hans Otta á Bræðraborgarstíg og Vesturgötu stóð í heila öld og fjórtán ár til, eða þar til það stóð í ljósum logum á júnídegi í sumar.
Nýtt!
Bæjarins fínasta og bezta bakarí!
Háttvirtum bæjarbúum leyfi ég mér að tilkynna að laugardaginn 22. þ.m. byrjar brauðsala úr bakaríi mínu á Vesturgötu 47 (hið nýja hús Otta skipasmiðs Guðmundssonar).
Á þessum orðum hófst auglýsing Árna Jónssonar bakara í Dagblaðinu í desember árið 1906.
„Þess er og vert að geta, að brauðsölubúð mín er ein af allra fínustu búðum bæjarins,“ heldur Árni áfram og endar auglýsinguna á þessum orðum: „Reynið! Þér munuð sannfærast.“ Otti, skipasmiður úr Engey, sem lært hafði hið þekkta Engeyjarlag á áttæringum af föður sínum og föðurbróður, bjó að Vesturgötu 47 um aldamótin 1900 í húsi sem var byggt árið 1876.
En 1906, hið sama ár og fína bakaríið hans Árna var opnað, hafði Otti byggt „af miklum stórhug“ tvílyft timburhús með risi á horninu við húsið að Vesturgötu og fékk það heimilisfangið Bræðraborgarstígur 1.
Þetta ár bjuggu innan við 10 þúsund manns í Reykjavík sem loks hafði tekið við titlinum höfuðstaður Íslands af Kaupmannahöfn tveimur árum áður. Íbúunum hafði fjölgað hratt árin á undan og átti eftir að fjölga enn hraðar er leið á öldina. Fólk úr sveitum landsins streymdi í þéttbýlið í leit að betra lífi fyrir sig og sína. Reykjavík tók hröðum breytingum en húsnæðisskortur varð viðvarandi vandamál.
Fyrsta eiginlega skipulagið
Uppbyggingin var í fyrstu nokkuð tilviljanakennd, að minnsta kosti á okkar tíma mælikvarða, en þegar fram liðu stundir var reynt að koma skikki á hana og ætla má að fyrsta eiginlega skipulagssvæðið hafi verið afmarkað á fundi byggingarnefndar Reykjavíkur árið 1866. Þetta voru áætlanir um byggð í landi bæjarins Hlíðarhúsa og ákvörðun var tekin um legu götu sem í fyrstu kallaðist Hlíðarhúsastígur, eða Stígurinn, svo Læknisgata en fékk að lokum nafnið Vesturgata. Á þessum fundi voru einnig „markaðar niður og fastsettar“ þvergötur sem síðar komu til sögunnar.
Ein þeirra fékk síðar nafnið Bræðraborgarstígur. Nafngiftin var ekki langsótt. Hún var tilkomin vegna bræðranna Sigurðar og Bjarna Sigurðssona sem fluttu frá bænum Gelti í Grímsnesi og „á mölina“ og byggðu sér árið 1880 steinhús sem þeir kölluðu Bræðraborg. Það hús stendur enn og er við Bræðraborgarstíg 14.
Fyrir og um síðustu aldamót var svæðið enn berangurslegt holt með „fátæklegum torfbæjum á stangli og litlum túnbleðlum í kring,“ skrifaði Guðjón Friðriksson sagnfræðingur í Lesbók Morgunblaðsins árið 1991. Þar bjó fátækt tómthúsfólk sem lifði að mestu leyti af sjónum. „Þegar illa áraði og lítið fiskaðist var hungur í þessum lágreistu torfbæjum.“
Byggðin var eins og lítið fiskimannaþorp. Meðan karlarnir voru til sjós „sýsluðu konurnar við að taka blautan fisk heima, vaska hann í karinu og þurrka með aðstoð barna sinna á fiskreitnum við bæinn,“ skrifar Guðjón.
Göturnar við sjóinn
Með breyttum atvinnuháttum vænkaðist hagur margra kotunganna og þeir byggðu stein- og timburhús í stað moldarkofanna. Sjómenn, skipstjórar og skipasmiðir voru meðal þeirra sem þarna reistu sín hús, við götur sem margar hverjar eru kenndar við hafið: Bárugata, Ægisgata, Öldugata og Ránargata.
Þetta var á þessum tíma byggð í útjaðri Reykjavíkur og á dimmum haustkvöldum „gnauðaði vindurinn um lága bæi og lítil timburhús og þung úthafsaldan féll upp á ströndina og þeytti sjávarlöðrinu yfir byggðina,“ segir í æviminningum Magnúsar Runólfssonar skipstjóra sem var alinn upp í Miðhúsum við Bræðraborgarstíg 21B.
Ungu hjónin flytja inn
Bræðraborgarstígs er fyrst getið í manntali árið 1885 og þegar á fyrstu árum tuttugustu aldar fékk hann á sig þá mynd sem hann hefur enn í dag. Otti byggði sitt hús á horninu, Árni opnaði þar bakarí sem þó varð ekki langlíft og nokkrum árum síðar, árið 1910, keyptu ung hjón húsið, þau Sveinn Hjartarson og Steinunn Sigurðardóttir. Sveinn hafði alist upp í steinbænum Reynimel sem stendur ofar í götunni. Hann hafði, líkt og fleiri hús á þessum tíma, verið byggður úr grjóti sem varð afgangs þegar smíði Alþingishússins við Austurvöll var lokið.
Þau hjónin ráku vinsælt bakarí um áratuga skeið á jarðhæðinni að Bræðraborgarstíg 1 og var brekkan sem markar upphaf götunnar oftast kölluð Sveinsbrekka. Fleiri hundruð brauð og kökur voru þar bökuð á hverjum einasta degi og fyrir utan íbúana í Vesturbænum voru skip og sjúkrastofnanir meðal helstu viðskiptavina. Auk reksturs bakarísins stunduðu þau hjón búskap að Laugalandi og Breiðabóli og seldu mjólk frá búunum, segir í ítarlegri lýsingu á heimilinu og rekstrinum í stórvirki Þorsteins Jónssonar, Reykvíkingar.
Himnaríki á jörðu
Fjölskyldan, sem átti eftir að stækka næstu árin, bjó á efri hæðunum. Um tíma bjuggu þar margar kynslóðir saman undir einu þaki. Steinunn og Sveinn voru þekkt fólk í Reykjavík og lögðu sín lóð á vogarskálarnar í framþróun höfuðstaðarins. Sveinn var einn stofnenda Rúgbrauðsgerðarinnar og tók þátt í togaraútgerð, svo dæmi séu tekið, og Steinunn, sem fædd var í Hlíðarhúsum, bænum sem stóð á þeim slóðum sem fyrsta skipulag borgarinnar náði til, sá um reksturinn. Hún var frumkvöðull á marga vísu; er talin fyrst kvenna á Íslandi til að læra á bíl sem og meðal þeirra fyrstu til að stunda laxveiði, „og var mjög fengsæl í þeirri tómstundaiðju sinni,“ skrifaði mágur hennar í minningargrein um húsfreyjuna á Bræðraborgarstíg.
Steinunn missti tvær systur sínar úr spönsku veikinni og tóku hún og Sveinn fjögur af börnum þeirra í fóstur og önnur börn systranna áttu ætíð athvarf hjá þeim. Áður höfðu þau ættleitt eina stúlku og auk þess átti Sveinn son frá fyrra sambandi. Einn fóstursonurinn sagði síðar að hann hefði upplifað heimilið að „Bræðró“ – eins og hann kallaði það – sem „himnaríki á jörðu“.
Af hjartagæsku þeirra gagnvart ókunnugum fara einnig sögur. Haraldur Jónsson prentari lýsti því í endurminningum sínum í Þjóðviljanum árið 1965 er hann flutti ásamt fjölskyldu sinni frá Eyrarbakka til Reykjavíkur vorið 1918. Fyrst fluttu þau inn í litla kjallaraíbúð en þar var ólíft vegna óþefs. Haraldur reif upp gólfið og blasti þá við brotin skólpleiðsla. „Gólfið var því gegnsósa af þvagi og saur,“ skrifar hann. „Kjallarahola þessi var þó leigð – án þess að nokkuð væri við hana gert.“
Eiginkona og börn fengu þá inni hjá ættingjum en sjálfur var Haraldur, sem hafði flutt frá Eyrarbakka til að vinna í prentsmiðju í bænum, nánast á vergangi. „Ég var alveg eignarlaus maður. Húsnæði var ekki hlaupið að því að fá.“ Hann taldi vænlegast að reyna að fá land hjá bænum og byggja torfbæ. Landið fékk hann og bæinn reisti hann en daginn eftir að hann flutti inn veiktist hann af spönsku veikinni. Hann náði sér en komst fljótt að því að torfbærinn hans var vart mannabústaður. En hvað var til ráða? „Kona, þrjú börn – fjórir tvíeyringar í buddunni!“
Hjónin sem leystu hnúta
Hann reyndi að fá timbur að láni, út á fyrsta veðrétt í landinu og bænum sem hann hugðist betrumbæta, en allt kom fyrir ekki. En loks voru það eigendur verslunarinnar Völundar, sem þá var og hét, sem voru tilbúnir að ganga að þessum samningi. Þannig reis bærinn hans Haraldar prentara, Langholt, í Þvottamýrinni. Haraldur skuldaði enn Völundi fyrir timbrið en til að fá bankalán þurfti hann góðan ábyrgðarmann. Vinur hans benti honum á Svein nokkurn Hjartarson, bakara á Bræðraborgarstíg 1, sem hafði hjálpað öðrum í sömu kringumstæðum. Haraldur þekkti hvorki Svein né Steinunni en heim til þeirra fór hann og greindi þeim frá stöðu sinni. „Og þeim hjónum kom þá strax saman um að hjálpa mér. [...] Með þeirra hjálp var hnúturinn leystur og lánið fengið í Landsbankanum.“
Haraldur varð svo oft og mörgum sinnum aðnjótandi hjálpar hjónanna á Bræðraborgarstígnum „í fátækt sinni og heilsuleysi“ og var hún „alltaf veitt sem sjálfsagður hlutur og með fyllstu ánægju“.
Athygli vegfarenda fönguð
Einn af yngri bræðrum Sveins, Hjörtur, opnaði nýlenduvöruverslun í pakkhúsinu við hús hans á Bræðraborgarstígnum árið 1926 og rak hana allt til ársins 1982, í yfir hálfa öld.
Gjörið svo vel og lítið í gluggana í dag!
Árið er 1928 og það eru að koma jól. Hjörtur eins og aðrir verslunareigendur í Reykjavík auglýsir vörur sínar í dagblöðunum. Góðir verslunargluggar voru lykilatriði í þá tíð til að fanga athygli vegfarenda og lokka þá inn. Oft voru verslanir á götuhornum í nýbyggðum hverfunum og skáru sig jafnan úr vegna stórra glugganna.
Hjörtur var iðinn, röggsamur og nákvæmur kaupmaður. Sama fólkið kom í búðina til hans ár eftir ár og þegar börnin í hverfinu urðu fullorðin versluðu þau einnig við Hjört. Nýjar kynslóðir viðskiptavina tóku við hver af annarri.
Margt ungmennið steig sín fyrstu skref á vinnumarkaði undir leiðsögn Hjartar. Sendast þurfti með vörur um allan bæ og þessir „sendiherrar“ hans, eins og þeir kölluðu sig, minntust hans með hlýju að honum látnum. „Maður hækkaði í stöðu og byrjaði að afgreiða,“ skrifaði einn „sendiherrann“ er hann rifjaði upp störf sín í búðinni löngu síðar. „Það var stór stund í lífi mínu þegar ég stimplaði fyrstu upphæð viðskiptavinar inn í kassann og Hjörtur fylgdist með og brosti.“
Fjölskrúðug flóra verslana
Á öldinni sem leið voru ýmsar verslanir til húsa að Bræðraborgarstíg 1. Hver tók við af annarri. Verslun Hjartar var ekki fyrsta nýlenduvöruverslunin sem þar var rekin og þegar árið 1907, um ári eftir að tvílyfta timburhúsið er byggt, auglýsir „nýja verzlunin að Bræðraborgarstíg 1“ ýmsar nauðsynjavörur.
Árið 1921 auglýsir verslun Guðjóns Jónssonar „steinbítsriklinginn þjóðfræga“ úr Súgandafirði til sölu og sama ár segir í auglýsingu: „Það bezta er stundum ódýrast. Kaffibætir okkar er sá ódýrasti og bezti í öllu landinu – viðurkenndur af fjölda húsmæðra hér í bænum.“
Tómas Ó. Jóhannsson rak þar einnig búð og árin 1924 og 25 auglýsir hann margvíslegan varning og slagorð verslunarinnar er: „Veit sá bezt sem reynir!“ Löngu síðar var þar rekin raftækjaverslun þar sem framsýnin réði ríkjum. „Kæri Póstur!“ skrifar lesandi í Æskuna árið 1969. „Nú eigum við Seyðfirðingar að fá sjónvarpið í nóvember og þá vaknar spurning um hvaða tegund af sjónvarpstæki maður ætti að fá sér. Til dæmis TANDBERG,“ heldur lesandinn áfram og spyr: „Viltu góðfúslega veita mér upplýsingar um hvernig þau hafa reynzt hér á landi?“
Sá sem er til svara í Æskunni bendir á umboðsaðila TANDBERG-tækjanna sem er Friðrik A. Jónsson á Bræðraborgarstíg 1. „Þau munu hafa reynzt nokkuð vel.“
Íbúar hússins voru svo ýmislegt að brasa. Einhver þeirra prjónaði og seldi ullarnærföt árið 1913. „Sníð barnakjóla og tek Zig-Zag saum,“ auglýsir Steinunn Sveinsdóttir í Morgunblaðinu árið 1942. Tveimur árum síðar lést faðir hennar, Sveinn bakari, „merkur og vinsæll borgari þessa bæjar“, í kjölfar skyndilegra veikinda, langt fyrir aldur fram.
„Blómakveðjur hylja þegar kistu hans,“ skrifar Steinunn ekkja hans í útfarartilkynningu í Morgunblaðinu. „Því vildi jeg mælast til, að þið vinir, sem mynduð hafa sent honum blóm, ljetuð andvirðið heldur renna til barnaspítalasjóðs Hringsins.“ Dauða bæði Otta og Steinunnar bar einnig að með sviplegum hætti. Í aprílmánuði árið 1920 féll Otti, sem þá var fluttur að Stýrimannastíg, niður af smíðapalli í bátasmíðastöð sinni og beið bana af. Hann var sextugur. Steinunn lést í bílslysi í Kaupmannahöfn árið 1961, þá 74 ára að aldri.
Trúlofanir og giftingar
En ástin knúði einnig dyra að Bræðraborgarstíg 1 á síðustu öld. Íbúar hússins trúlofuðu sig og gengu í hjónaband. „Í gær voru gefin saman í hjónaband af séra Emil Björnssyni ungfrú Steingerður Þórisdóttir, Bræðraborgarstíg 1, og Jón Þ. Hallgrímsson, stud. Med., Vesturvallagötu 6 B. – Heimili ungu hjónanna verður að Bræðraborgarstíg 1,“ stóð í Tímanum árið 1952. Á árunum á undan höfðu tilkynningar um trúlofanir fólks úr húsinu einnig prýtt síður blaðanna líkt og þá tíðkaðist. Bakarí og verslun bræðranna Sveins og Hjartar voru miðstöð hverfisins í áratugi. En með tilkomu stórmarkaða fækkaði „kaupmönnunum á horninu“ og verslunarhúsnæðin með stóru gluggunum voru aðlöguð að öðrum notum.
Pakkhúsið, þar sem verslun Hjartar var að finna, var rifið fyrir mörgum árum. Ilm af nýbökuðu hætti að leggja frá bakaríi Sveins og Steinunnar fyrir margt löngu. Fjölskylduhúsið á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu skipti um eigendur og í fleiri ár var það í útleigu.
Þó að þeir sem bjuggu í húsinu síðustu árin hafi flestir fyrst og fremst litið á lítil leiguherbergi sín sem athvarf á milli vinnutarna var það vissulega þeirra heimili. Leigjendur komu og fóru – en stundum tengdust þeir sterkum böndum, varð vel til vina. Ástin átti svo líka áfram heima á „Bræðró“. Þar tóku pör herbergi á leigu. Þetta unga fólk var hingað komið lengra að en sveitafólkið sem flutti „á mölina“ við upphaf síðustu aldar. En tilgangurinn var þó sá sami: Að reisa stoðir undir líf sitt og sinna til framtíðar.
Eldur í bakaríinu
Árið 1909 var Otti skipasmiður enn skráður til heimilis að Bræðraborgarstíg 1 samkvæmt Bæjarskrá Reykjavíkur sem þá var gefin út á nokkurra ára fresti. Í manntalinu árið 1910 eru bæði Sveinn og Steinunn skráð þar til heimilis sem og í bæjarskránni árið 1915 auk fimm annarra. Nokkrum árum síðar eru íbúarnir orðnir fjórtán, fjölskyldan hefur stækkað, og árið 1929 eru þeir sagðir tólf.
„Eldur varð laus í morgun í bökunarkjallara Sveins Hjartarsonar á Bræðraborgarstíg 1,“ sagði frétt Alþýðublaðsins í nóvember árið 1926. „Logaði í kassadóti og lausu timbri milli bökunarofnsins og útveggjar, og var eldurinn að komast að veggnum. Þarna voru geymd skotfæri frá Jóhanni Ólafssyni & Co. til þurkunar og sprungu sum þeirra. Er mjög varasamt að geyma þess konar vöru á slíkum stað. Slökkviliðið slökkti fljótlega eldinn. Orsök hans er enn ókunn.“
Engum varð meint af í þessum eldsvoða á Bræðraborgarstíg fyrir 94 árum þó að íbúum hafi eflaust verið brugðið.
Í lok árs 2018 voru 68 með lögheimili í hornhúsinu sem Otti byggði. 25. júní á þessu ári voru 69 þar með lögheimili. „Eldur logar nú í íbúðarhúsi á horni Vesturgötu og Bræðraborgarstígs,“ sagði í fyrstu frétt Vísis af brunanum, um tíu mínútum eftir að útkall barst slökkviliðinu. „Eins og þið sjáið bak við mig þá er húsið eiginlega farið,“ sagði Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri við Vísi um tveimur tímum síðar.
„Þrír eru látnir og tveir eru á gjörgæsludeild Landspítalans eftir að eldur kom upp í fjölbýlishúsi á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu í Reykjavík í gær,“ sagði í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðisins morguninn eftir brunann.
61 með lögheimili í brunarústum
Þó að húsið hafi verið nokkuð stórt að flatarmáli, ríflega 500 fermetrar, bjuggu þar ekki um sjötíu manns eins og lögheimilisskráning sagði til um. Líklega voru íbúarnir í kringum tuttugu. Fjórtán voru heima er eldurinn kom upp. Einn þeirra hefur verið ákærður fyrir íkveikju.
Um miðjan október var enn 61 skráður til heimilis að Bræðraborgarstíg 1. Í húsi sem hafði fjórum mánuðum áður orðið eldi að bráð, eldi sem kostaði þrjú mannslíf.
Allir sem létust bjuggu á rishæðinni.
Umfjöllun Kjarnans um brunann á Bræðraborgarstíg
Lesa meira
-
23. október 2021„Vanda þarf til verka á þessu mikilvæga og viðkvæma horni“
-
14. október 2021Byggingin „lík virki“ og skýringarmyndir „fráhrindandi“
-
9. október 2021Byggt verði af virðingu við fórnarlömb brunans og húsin í kring
-
19. júní 2021„Ég get ekki grátið fyrir innan afgreiðsluborðið“
-
11. júní 2021Bæturnar aðeins „dropi í hafi“ miðað við tjónið
-
10. júní 2021Ríkissaksóknari ætlar ekki áfrýja dómi í Bræðraborgarstígsmálinu
-
3. júní 2021Marek metinn ósakhæfur og sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins
-
5. maí 2021„Hér er ekki um leikaraskap, slysni eða eitthvað grín að ræða“
-
28. apríl 2021Marek segist ekki hafa tekið geðlyfin í hálft ár
-
27. apríl 2021„Íslenska parið“ og yfirlýsingar Mareks um Moskvuferð
-
26. apríl 2021„Ég man allt saman. Þó að ég hafi verið veikur“
-
25. apríl 2021Eitt stærsta manndrápsmál sögunnar loks fyrir dóm
-
26. mars 2021Kjarninn vann Blaðamannaverðlaunin fyrir umfjöllun um brunann á Bræðraborgarstíg
-
20. mars 2021Bruninn á Bræðraborgarstíg: Græðgin æðri mennskunni og reisn allra
-
19. mars 2021Kjarninn tilnefndur til verðlauna fyrir umfjöllun um Bræðraborgarstígsbrunann