Því þetta eru ekki „við“ og „þau“ – þetta erum við öll
„Sú staðreynd stendur eftir að það er stór gjá í okkar samfélagi sem þarf að brúa,“ segir Ásta Olga Magnúsdóttir, formaður Íbúasamtaka Vesturbæjar, um það sem bruninn hörmulegi á Bræðraborgarstíg afhjúpaði. Hún vill að starfsemi þjónustumiðstöðva verði færð í auknum mæli inn í hverfin.
Þeir sátu oft á tröppunum fyrir utan húsið. Eldri menn að spjalla yfir kaffibolla. Heilsuðu nágrönnum sem áttu leið hjá. Einn þeirra hafði það til siðs að standa upp fyrir konunum og kinka kurteisislega kolli. Þetta er í Gamla Vesturbænum, þar sem þorpsstemning ríkir.
Þeir voru meðal þeirra sem mættu til kyrrðarstundarinnar á róluvellinum sem haldin var kvöldið eftir eldsvoðann á Bræðraborgarstíg í sumar. „Við föðmuðum þá að okkur,“ segir einn íbúi í nágrenninu. Mennirnir höfðu búið í húsinu sem varð eldinum að bráð. Fleiri eftirlifendur mættu. Hlýddu á hugvekju eins nágranna síns og lögðu eins og aðrir viðstaddir blóm á götuna til minningar um ungu manneskjurnar þrjár sem höfðu farist í eldsvoðanum. „Ég vona að kyrrðarstundin hafi verið græðandi, að minnsta kosti að einhverju leyti, fyrir þá eins og okkur hin sem þarna vorum saman komin.“
Samfélagið í Gamla Vesturbænum er sterkt og samhent. Þar hefur margt búið fólk kynslóð fram af kynslóð og tekið nýbúum hverfisins opnum örmum. Það er spjallað á götuhornum. Komið saman á róluvöllum enda hverfið ætíð barnmargt.
Börnin urðu sum hver vitni að því sem gerðist síðdegis 25. júní. Þetta var síðla dags og þau á leið heim. Reynt var að halda þeim frá vettvangi en einhver sáu óhjákvæmilega út um glugga heimila sinna eða af svölum þeirra eld loga og reyk leggja frá húsinu á horni Vesturgötu og Bræðraborgarstígs. Þau sáu sjúkrabílana koma. Slökkvibílana. Lögreglumenn á vettvangi. Heyrðu hróp og köll. Jafnvel öskur. Urðu vitni af geðshræringu foreldra sinna sem hlupu á vettvang til að reyna að aðstoða. Hjálpa. Í aðstæðum sem ekkert þeirra hafði áður lent í.
Dæmi eru um að börn hafi átt erfitt með svefn í kjölfarið. Sofið jafnvel í fötunum vikum saman. Vildu vera tilbúin að hlaupa út ef það kviknaði í heimili þeirra.
Þeir sem fyrst komu á vettvang brunans sáu fólk í gluggum á efstu hæð hússins. Og þegar tvö þeirra gripu til þess örþrifaráðs að brjóta rúður og stökkva út. Þó að slökkvilið hafi verið komið á staðinn innan fárra mínútna frá fyrstu tilkynningu til neyðarlínunnar fannst þeim tíminn nánast standa í stað. Mínútur liðu eins og klukkustund.
Þegar slökkvistarfinu lauk seint um kvöldið fóru nágrannarnir í Gamla Vesturbænum að ráða ráðum sínum, reyna að finna leiðir til að rétta þeim sem lifðu eldsvoðann af hjálparhönd. Næstu dagana voru fleiri að hugsa á sömu nótum enda atburðirnir átakanlegir. Minningarstund var haldin í Landakotskirkju og hópur fólks, meðal annars Pólverjar, stóðu fyrir samstöðufundi á Austurvelli.
Söfnuðu nauðsynjum og útveguðu íbúð
Fyrir utan kyrrðarstundina sem nágrannarnir í Vesturbænum skipulögðu í sameiningu hófu þeir að safna nauðsynjum, hreinlætisvörum, sængurfötum og klæðnaði. Komust í samband við pólsk góðgerðarsamtök og eftirlifendur sem sáu svo um að útdeila gjöfunum til annarra sem höfðu misst allt sitt í eldsvoðanum.
Þau auglýstu eftir íbúð fyrir eitt parið. Viðbrögðin á Vesturbæjar-grúbbunum á Facebook létu ekki ekki á sér standa. Með þessum hætti fékk parið leiguíbúð í nágrenninu. Í marga daga lá megn brunalykt yfir hverfinu. Í ákveðinni vindátt, nú tæpum fimm mánuðum eftir eldsvoðann, finnst hún ennþá.
Því þarna standa rústir hússins enn – huldar gráu neti – og minna alla sem ganga hjá á harmleikinn sem átti sér stað. Lyktin og húsarústirnar vekja líka sárar tilfinningar hjá mörgum. Reglulega má sjá ný blóm, oft hvítar eða rauðar rósir, lagðar á gangstéttina á horninu. „Alltaf þegar maður finnur þessa lykt og sér húsið þá rifjast þetta upp,“ segir einn nágranninn sem Kjarninn ræddi við. „Ég get því rétt ímyndað mér hvernig ástvinum þeirra sem létust líður þegar þeir sjá þetta og þeim sem lifðu af.“
Djúpstæð áhrif
Sumir af viðmælendum Kjarnans kjósa að koma ekki fram undir nafni. Aðrir treysta sér alls ekki til að ræða það sem gerðist. Það segir sína sögu um það hversu djúpstæð áhrif eldsvoðinn á Bræðraborgarstíg hafði á fólk – meðal annars á það sem býr í nágrenninu og varð vitni að því sem gerðist. Þeir sem bjuggu næst Bræðraborgarstíg 1 höfðu sumir hverjir sent athugasemdir á borgaryfirvöld og lýst áhyggjum sínum af húsinu, viðhaldi þess og aðbúnaðinum sem það taldi íbúana búa við. Nágrannarnir höfðu svo oft í gegnum tíðina rætt málið sín á milli, hvað væri hægt að gera til að fá úrbætur.
Nokkrum sinnum á síðustu árum hefur verið fjallað um aðbúnað leigjenda í húsinu. Einn þeirra lýsti því sem „óhæfum mannabústað“ í samtali við Stundina árið 2015. Þá lýsti annar aðbúnaði í húsinu í útvarpsþætti um svipað leyti. Þó að heimilisfangið væri þar ekki nefnt áttuðu þeir sem til þekktu sig á að Bræðraborgarstígur 1 umfjöllunarefnið.
En lítið sem ekkert var aðhafst. „Og það er það sem er svo ótrúlega sárt,“ segir einn nágranninn, „að hafa fylgst með þessu allan þennan tíma ... og svo gerist þetta.“
Hann brestur í grát. En heldur áfram: „Það er það sem situr í manni. Þetta er svo hræðilegt.“
Endurspeglar hræðilegan veruleika
Bruninn afhjúpaði margt, segir annar viðmælandi Kjarnans. Hann afhjúpaði aðbúnað útlendinga og hvernig komið er fram við þá á vinnu- og leigumarkaði og hann afhjúpaði þann skort á tengslum sem þeir hafa við aðra í okkar samfélagi. „Þetta endurspeglar svo hræðilegan veruleika á Íslandi,“ segir viðmælandinn sem þekkir vel til aðstæðna fólks af erlendum uppruna.
Facebook-grúbbur, þar sem innflytjendur ræða sín á milli um allt milli himins og jarðar og veita hver öðrum stuðning og aðstoð, loguðu í kjölfarið brunans á Bræðraborgarstíg og reynslusögurnar streymdu inn. Sem dæmi greindi kona frá því hvernig hún hafði skyndilega misst leiguhúsnæði – án þess að hafa þinglýstan leigusamning og þau réttindi sem hann tryggir. „Sú staðreynd stendur enn eftir að það er stór gjá í okkar samfélagi sem þarf að vinna í að brúa,“ segir Ásta Olga Magnúsdóttir, formaður Íbúasamtaka Vesturbæjar og fulltrúi í íbúaráði Vesturbæjar. Á dagskrá næsta fundar ráðsins verður ályktun sem samþykkt var í lýðræðis- og mannréttindaráði borgarinnar í byrjun október þar sem fjallað var sérstaklega um brunann á Bræðraborgarstíg og úrbætur sem þurfa að eiga sér stað.
Ásta Olga fagnar ályktuninni en vill leggja aukna áherslu á þá aðgerð sem snýr að fræðslu- og upplýsingagjöf. Hún hefur trú á því að hægt sé að veita mun meiri stuðning inni í hverfum borgarinnar en nú er gert.
Hún bendir til dæmis á að fyrir nokkrum árum hafi þrjár þjónustumiðstöðvar í Hlíðum, Miðborg og Vesturbæ verið sameinaðar í eina. Starfsemi hennar er nú til húsa á Laugavegi. Þannig fjarlægðist hún kjarna sumra hverfanna sem heyra undir hana. „Við þurfum að finna betri leiðir svo að nærsamfélagið geti tekið þátt, geti gripið inn í þegar það telur eitthvað bjáta á og viti hvert á að leita.“
Betur færi á því að meiri starfsemi miðstöðvanna yrði færð inni í hverfin, að starfsemi þeirra í samvinnu við íbúana, væri áberandi svo sem flestir þekktu til þeirra og treystu sér til að leita þangað. „Það vilja allir eiga hlutverk í sínu samfélagi. Fólki líður betur þegar það hefur tilgang og tengingar.“
Á jaðri jaðarsins
Í gegnum skólastarf er margt gott gert þegar kemur að fjölmenningu að mati Ástu Olgu. Þar myndast tengsl milli starfsmanna skólanna, foreldra og barna af ólíkum uppruna. „En hvað með þá innflytjendur sem eru ekki með börn?“ spyr hún. „Sá hópur er enn meira á jaðrinum, hann er á jaðri jaðarsins.“ Það var einmitt fólk úr þeim hópi sem bjó að Bræðraborgarstíg 1. „Þessi hópur hefur oft litla eða enga tengingu inn í samfélagið, er jafnvel algjörlega utanveltu. Þetta er fólkið sem hefur verið að byggja öll húsin hér síðustu ár og vinna í þjónustustörfunum í ferðaþjónustunni og á veitingahúsunum. En þau eru einhvern veginn alveg ósýnileg.“
Ásta Olga segir að áhersla sé lögð á fjölskyldufólk í starfi á vegum borgarinnar sem sé auðvitað jákvætt og þarft. „En þetta þarf að útvíkka. Það má ekki gleyma hinum. Því þarna er risastóra gjáin.“
Hún segist gera sér grein fyrir því að nágrannar vilji ekki vera með nefið ofan í því hvað fólk í næstum húsum er að gera og hvernig það býr. En með því að finna og skilgreina leiðir til að setja ákveðin áhyggju- eða þörf úrlausnarefni í farveg – ramma sem allir skilja og treysta sér til að leita í – megi gera margt betur í sameiningu. „Þannig geta fleiri tekið þátt í þessu fræðslu- og tengslahlutverki sem er svo mikilvægt í samfélagi manna.“
Standa fyrir utan samfélagið
Annað sem Ásta Olga stingur upp á er að þjónustumiðstöðvar inni í hverfunum tengist betur sjálfboðaliðasamtökum og félagasamtökum sem standa ákveðnum hópum hvað næst. „Í þannig samtökum er oft mikil gróska og gott grasrótarstarf. En þau upplifa engu að síður að þau standi fyrir utan samfélagið. Það væri mjög áhrifaríkt að tengjast þeim betur og nýta þeirra góðu krafta.“
Því þetta eru ekki „við“ og „þau“, bendir Ásta Olga á. „Þetta erum við öll.“
Eldsvoðinn varð á fimmtudegi. Aðfaranótt föstudags bauð Rauði krossinn íbúunum sem misst höfðu heimili sitt gistingu. En þegar hans neyðarþjónustu sleppti voru einhverjir þeirra ráðalausir. Það var komin helgi – þjónustumiðstöðin lokuð og sumir ekki komnir með næturstað.
„Okkur fannst við vera úrræðalaus, ekki vita hvert við gætum bent þeim á að leita,“ segir Ásta Olga. Margir vildu hjálpa og lögðu sig fram við það, bæði stofnanir, samtök og einstaklingar, en engu að síður vantaði þétt og skilvirkt utanumhald. Þarna hafði margt fólk af nokkrum þjóðernum misst heimili sitt og aleiguna hér á landi. Og þó að það hafi búið í sama húsi var það ekki endilega allt í nánum samskiptum sín á milli. Ýmislegt sem gerðist í framhaldinu var því nokkuð tilviljanakennt. Manneskjulegri farveg og skýrar leiðbeiningar vantaði.
„Hópar innflytjenda eru berskjaldaðir gagnvart mismunun á húsnæðismarkaði,“ sagði í ályktun mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráðs Reykjavíkur sem samþykkt var í haust og Ásta Olga vísar í. „Jaðarsett staða innflytjenda sem tala ekki íslensku og hafa fá úrræði er misnotuð í þessu samhengi og þeim gert að búa við óviðunandi húsakost. Það er með öllu óásættanlegt að þetta fái að viðgangast í okkar samfélagi.“
Breyta þarf lögum og reglum
Hvatti ráðið til samtals milli ríkisins, Reykjavíkurborgar og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og benti á að fara þurfi yfir lög og reglur og verklag þeirra stofnana sem bera ábyrgð á eftirliti með byggingum, skerpa þurfi á ábyrgð og skýra eftirlitsheimildir.
Breytingar á regluverkinu blasa við að mati Ástu Olgu. Hún er bjartsýn á að þær verði að veruleika. „Þetta eru engin geimvísindi. Það er búið að fara í gegnum mörg svipuð mál, leigumarkaðinn og aðbúnað útlendinga, á hinum Norðurlöndunum. Og það eru til rannsóknir sem styðja við hvað þarf að gera.“ Hún segist hafa mikla trú á samstarfi og segir það lykilatriði í þeim breytingum sem eru framundan. „Ég myndi vilja sjá slökkviliðsstjóra, borgarstjóra og félagsmálaráðherra vinna saman – ekki fulltrúa þeirra heldur þá sjálfa. Og varpa einfaldlega fram einni spurningu: Hvenær?
Við vitum hvað þarf að gera ef raunverulegur vilji er fyrir hendi. Og nú þarf bara að byrja.“
Reynt að ná til allra
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins kallar Rauða krossinn til þegar stórbruni verður. Rauði krossinn sér um fyrstu áfallahjálp og útvegar gistingu fyrstu nóttina en í kjölfarið eru stofnanir á borð við þjónustumiðstöðvar kallaðar til.
Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, segir í skriflegum svörum við fyrirspurn Kjarnans að í kjölfar brunans á Bræðraborgarstíg hafi verið „reynt eftir fremsta megni“ að ná í alla sem höfðu búið í húsinu til að bjóða þeim þá þjónustu sem þeir áttu rétt á.
Það tókst hins vegar ekki. Og eitt af því sem flækti málin var villandi lögheimilisskráning. Þegar bruninn varð voru um 70 skráðir til heimilis að Bræðraborgarstíg 1 í einstaklingsskrá Þjóðskrár og 32 til viðbótar á kerfiskennitöluskrá (áður utangarðsskrá). Þjónustumiðstöðin hafði hins vegar í fyrstu einungis vitneskju um þá íbúa sem þegar nýttu hennar þjónustu. Í húsinu reyndist svo einnig búa fólk sem var ekki með skráð lögheimili þar. „Þetta jók vissulega flækjustig málsins, þar sem ekki var vitað hverjir voru raunverulega til heimilis í húsinu,“ segir Sigþrúður.
Ýmsum leiðum beitt
Til að hafa uppi á íbúum var meðal annars haft samband við pólska sendiráðið og pólskumælandi starfsmaður þjónustumiðstöðvarinnar var í samskiptum við íbúa. Þá var óskað eftir því að íbúar sem náðst hafði í kæmu skilaboðum til annarra. „Í gegnum slíkar leiðir höfðum við uppi á einstaklingum sem reyndust þurfa á aðstoð að halda,“ segir Sigþrúður. Upplýsingar bárust einnig um nokkra til viðbótar sem höfðu dvalist í húsinu. Ekki tókst að hafa uppi á þeim og þeir leituðu ekki til þjónustumiðstöðvarinnar.
Í heildina fengu tólf manns aðstoð hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar eftir brunann. Þeim var boðið upp á viðtal við félagsráðgjafa og þeir sem óskuðu var útvegað gistiheimili þeim að kostnaðarlausu í tvær vikur. Að auki var gert einstaklingsbundið mat á því hvort íbúar féllu undir reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Allir íbúar gátu fengið neyðargreiðslur fyrir mat og lyfjum. Sú greiðsla nam 20 þúsund krónum.
Sigþrúður segir að tekjulágum og þeim sem ekki hafi tryggingar sem bæti tjón, sé hægt að veita áfallaaðstoð, sem nemi 100 þúsund krónum. Einnig sé sá möguleiki fyrir hendi að sækja um styrk vegna ýmis konar annarrar þjónustu og fyrir til dæmis húsbúnaði. Í tilfelli þeirra sem Þjónustumiðstöðin náði til í kjölfar brunans hafi þörf á slíku verð metin út frá stöðu hvers og eins.
Aðeins þrír þinglýstir leigusamningar voru á Bræðraborgarstíg 1 er bruninn varð, þar af tveir á einstaklinga. Aðrir íbúar voru ekki með slíka samninga sem er forsenda þess að geta sótt um húsaleigubætur og sérstakan húsnæðisstuðning hjá Reykjavíkurborg. Grunnupphæð fjárhagsaðstoðar til framfærslu er ennfremur hærri hjá þeim sem eru með þinglýsta húsaleigusamning.
Íbúum og vitnum veitt áfallahjálp
Bruninn á Bræðraborgarstíg er með viðamestu útköllum vegna húsbruna sem viðbragðshópur Rauða krossins hefur sinnt á síðustu árum. Sálrænn stuðningur var veittur til íbúa á vettvangi og hlúð að þeim. Þá höfðu aðstandendur safnast saman við Landspítala og fengu einnig stuðning. Rauði krossinn útvegaði átta manns gistingu ýmist í eina eða tvær nætur. Þeim voru einnig útveguð föt. Fleiri fengu síðar einnig úthlutað fötum og sumir fengu sálrænan stuðning næstu vikur á eftir, bæði íbúar hússins og fólk sem varð vitni að eldsvoðanum. Í heild aðstoðaði Rauði krossinn um fimmtán manns vegna atburðanna á Bræðraborgarstíg, samkvæmt upplýsingum frá Brynhildi Bolladóttur, upplýsingafulltrúa Rauða kross Íslands.
Hlutverk Rauði krossins er að veita neyðaraðstoð og að bregðast við beiðnum um aðstoð. Samtökin reyna að vera aðgengileg öllum á vettvangi slysa og hamfara og hafa á sínum snærum sjálfboðaliða sem tala ýmis tungumál. Eftir að þeirra neyðaraðstoð sleppir eru það aðrir, svo sem félagsþjónusta sveitarfélaga, sem á að taka við.
Sigþrúður segir að allir þeir sem sóttu um áframhaldandi áfallaaðstoð eða sálfræðiþjónustu eftir að aðstoð Rauða krossins sleppti hafi fengið slíkt.
Að hennar mati er það verklag sem er til staðar gott, að slökkvilið og Rauði krossinn fari fyrst á vettvang og að í kjölfarið komi til þjónusta Reykjavíkurborgar. Hún bendir á að í starfsmannahópi þjónustumiðstöðvarinnar sé fólk sem tali tungumál þeirra sem sækja þangað þjónustu. Mikilvægt sé hins vegar að bæta vinnulag Þjóðskrár varðandi lögheimilisskráningar og þann fjölda þeirra sem hægt er að skrá á hvert heimilisfang. „Það myndi auðvelda alla þjónustu og auka réttindi þeirra sem eru búsettir í landinu.“
Brynhildur segir að samvinna Rauða krossins við stofnanir líkt og lögreglu, slökkvilið, félagsþjónustu og sendiráð sé almennt mjög góð. „Hér var um einhvern mannskæðasta bruna seinni ára að ræða og umfangið mikið auk þess sem þolendurnir höfðu ekki jafn mikið tengslanet hér á landi og margir aðrir.“
Getum öll gert betur
Hún segir Rauða krossinn sjá aukna þörf fyrir stuðning við innflytjendur og að bundnar séu miklar vonir við fyrirhugaða ráðgjafastofu innflytjenda. „Við, stjórnsýslan, stofnanir félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar getum öll gert mun betur í því að greiða leið innflytjenda inn í samfélagið, inn í störf við hæfi, menntun og aðstoðað þau við að byggja upp félagslegt bakland. Starf sjálfboðaliða Rauða krossins eru einn mikilvægur hlekkur í því.“
Umfjöllun Kjarnans um brunann á Bræðraborgarstíg
Lesa meira
-
23. október 2021„Vanda þarf til verka á þessu mikilvæga og viðkvæma horni“
-
14. október 2021Byggingin „lík virki“ og skýringarmyndir „fráhrindandi“
-
9. október 2021Byggt verði af virðingu við fórnarlömb brunans og húsin í kring
-
19. júní 2021„Ég get ekki grátið fyrir innan afgreiðsluborðið“
-
11. júní 2021Bæturnar aðeins „dropi í hafi“ miðað við tjónið
-
10. júní 2021Ríkissaksóknari ætlar ekki áfrýja dómi í Bræðraborgarstígsmálinu
-
3. júní 2021Marek metinn ósakhæfur og sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins
-
5. maí 2021„Hér er ekki um leikaraskap, slysni eða eitthvað grín að ræða“
-
28. apríl 2021Marek segist ekki hafa tekið geðlyfin í hálft ár
-
27. apríl 2021„Íslenska parið“ og yfirlýsingar Mareks um Moskvuferð
-
26. apríl 2021„Ég man allt saman. Þó að ég hafi verið veikur“
-
25. apríl 2021Eitt stærsta manndrápsmál sögunnar loks fyrir dóm
-
26. mars 2021Kjarninn vann Blaðamannaverðlaunin fyrir umfjöllun um brunann á Bræðraborgarstíg
-
20. mars 2021Bruninn á Bræðraborgarstíg: Græðgin æðri mennskunni og reisn allra
-
19. mars 2021Kjarninn tilnefndur til verðlauna fyrir umfjöllun um Bræðraborgarstígsbrunann