Flokkur fólksins var að mörgu leyti einn helsti sigurvegari síðustu þingkosninga. Flokkurinn hafði boðið fram í fyrsta sinn í kosningunum 2016 og fengið 6.707 atkvæði, eða 3,5 prósent allra greiddra atkvæða. Það dugði ekki til að ná inn manni á þing.
Flokkur Ingu Sæland tók því nýjum kosningum ári síðar fagnandi. Þegar talið var upp úr kjörkössunum þá reyndust atkvæðin vera 13.502, eða rúmlega tvöfalt fleiri en í október 2016. Hlutfallið var 6,9 prósent og þingmennirnir fjórir.
Þar skipti ekki síst máli frammistaða formannsins í síðustu leiðtogaumræðum sem fram fóru í sjónvarpssal RÚV, kvöldið áður en landsmenn gengu að kjörklefunum.
Þar varð Inga klökk þegar hún flutti tölu um framtíðarsýn sína, sem var að allir ættu að geta gengið um fallega landið okkar, borið höfuðið hátt og verið stolt að því að vera Íslendingar. „Mín framtíðarsýn er sú að öryrkjum líði ekki eins og annars flokks þjóðfélagsþegnum í þjóðfélaginu okkar. Að gamla fólkið okkar geti lifað hér með reisn og eigi áhyggjulaust ævikvöld. Að 9,1 prósent barnanna okkar líði ekki hér mismikinn skort, að 25 prósent barnanna okkar búi ekki við óviðunandi húsnæðiskost.“
Síðar sagði hún að enginn Íslendingur „ætti að þurfa að búa í tjaldi eða í hjólhýsi niðri í Laugardal eða nokkurs staðar annars staðar. Það er á morgun sem að þessi rödd er tilbúin að tala okkar máli, þetta er tækifærið sem við höfum til þess að fá uppreisn í þessu samfélagi.“
Þingflokkurinn helmingaðist vegna Klausturmálsins
Rúmu ári síðar var allt í uppnámi í flokknum. Tveir þingmenn hans, Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, höfðu farið á Klausturbar og setið þar með drukknum þingmönnum Miðflokksins að ræða ýmislegt, meðal annars stjórnmál, á óviðurkvæmilegan hátt. Samtöl þeirra voru tekin upp og þeim upptökum komið til fjölmiðla.
Á fundinum var talað með niðrandi hætti um konur sérstaklega, og lét Karl Gauti hafa eftir sér að Inga Sæland gæti ekki stjórnað Flokki fólksins. Þá var umtalsvert rætt um það á fundinum að þeir tveir myndu ganga til liðs við Miðflokkinn.
Karl Gauti og Ólafur voru reknir úr Flokki fólksins í lok nóvember 2018. Ástæðan var alvarlegur trúnaðarbrestur. Inga Sæland skrifaði svo harðorða grein í Morgunblaðið um þessa tvo fyrrverandi félaga sína í janúar 2019.
Þar sagði hún að fundurinn á Klausturbar hafi haft skýrt markmið: að fá Ólaf og Karl Gauta til að ganga til liðs við Miðflokkinn. „Þess vegna sat gervöll stjórn Miðflokksins á barnum Klaustri með þeim. Tilefni fundarins augljóst, þessi „hættulegi“ flokkur fátæka fólksins sem auðmaðurinn Sigmundur Davíð [Gunnlaugsson] og félagar hans vildu fyrir hvern mun koma fyrir kattarnef.“
22. febrúar 2019 gengu Karl Gauti og Ólafur í Miðflokkinn eftir að hafa starfað sem óháðir þingmenn um skeið.
Minna fylgi en sömu breytur ráðandi
Fylgi Flokks fólksins hefur sveiflast nokkuð á kjörtímabilinu í könnunum MMR. Minnst mældist það 3,6 prósent en mest átta prósent fyrir um ári síðan.
Frá því í desember í fyrra hefur það hins vegar einungis einu sinni mælst rétt yfir fimm prósent og í síðustu tveimur könnunum MMR mældist meðaltalsfylgið 3,9 prósent, sem myndi líkast til ekki duga til að ná manni inn á þing.
Fylgi flokksins kemur aðallega frá láglaunafólki og þeim sem hafa lokið skyldunámi sem æðstu menntun. Hjá kjósendum með undir 400 þúsund krónur í heimilistekjur á mánuði mælist stuðningur við Flokk fólksins 9,8 prósent á meðan að hann er 1,2 prósent hjá þeim sem eru með meira en 1,2 milljónir króna á mánuði. Á meðal þeirra sem eru með grunnskólamenntun sem æðstu menntun mælist stuðningur við Flokk fólksins 6,4 prósent en á meðal þeirra sem eru með háskólapróf mælist hann 1,1 prósent.
Stuðningurinn er langmestur á Suðurlandi og á Suðurnesjum, en á því landsvæði sögðust 10,4 prósent aðspurðra í síðustu tveimur könnunum MMR styðja Flokk fólksins. Stuðningurinn er lítill í öllum öðrum landshlutum.
Þetta er mjög svipuð staða og var í kringum síðustu kosningar þegar kannanir MMR bentu til þess að mestur stuðningur við flokkinn væri hjá grunnskólamenntuðum, tekjulágum og á Suðurlandinu. Munurinn þá og nú er sá að fleiri studdu flokkinn á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi haustið 2017 en í nóvember 2020.