Ríkustu 242 fjölskyldurnar á Íslandi eiga 282 milljarða króna
Eigið fé þess 0,1 prósent þjóðarinnar hefur vaxið um 120 milljarða króna frá árinu 2010. Ríkustu fimm prósent landsmanna eiga eigið fé upp á tvö þúsund milljarða króna, en það er alls um 40 prósent af allri hreinni eign í landinu.
Ríkasta 0,1 prósent framteljenda á Íslandi áttu 282,2 milljarða króna í eigin fé um síðustu áramót. Hópurinn samanstendur af alls 242 fjölskyldum. Því átti hver fjölskylda innan hópsins tæplega 1,2 milljarða króna að meðaltali í hreina eign.
Á árinu 2019 óx eigið fé 0,1 prósent ríkasta hluta þjóðarinnar um 22 milljarða króna. Alls hefur það vaxið um 120 milljarða króna frá árinu 2010, eða um 74 prósent. Hlutfallslega stendur hlutdeild þessa hóps af heildareignum þjóðarinnar í stað milli ára en fimm prósent af nýjum auði sem varð til á Íslandi í fyrra rann til hans.
Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, um skuldir og eignir landsmanna sem birt var síðdegis í dag á vef Alþingis.
Í þeim tölum kemur líka fram að eitt prósent ríkustu Íslendingarnir, alls 2.420 fjölskyldur, áttu 865 milljarða króna í lok síðasta árs og juku eign sína um tæplega 63 milljarða króna milli ára. Auður þessa hóps hefur aukist um 416 milljarða króna frá árslokum 2010, eða 93 prósent.
Þar segir enn fremur að fimm prósent ríkustu Íslendingarnir, alls um 12.100 fjölskyldur, hafi átt eigið fé upp á 1.999 milljarða króna um síðustu áramót. Það er 135 milljörðum krónum meira en hópurinn átti í árslok 2018 og 1.105 milljörðum krónum meira hann átti í árslok 2010. Þessi hópur átti 40,1 prósent af öllu eigið fé landsmanna í lok síðasta árs, sem þýðir að hin 95 prósent fjölskyldna í landinu áttu 59,9 prósent þess.
Eigið fé hækkaði um 433 milljarða króna í fyrra
Kjarninn greindi frá því í september að eigið fé Íslendinga hefði hækkað um 433 milljarða króna í fyrra. Það er töluvert minna en sú hækkun sem varð á árunum 2017 (760 milljarðar króna) og 2018 (641 milljarðar króna), en vert er að taka fram að á þeim árum varð mesta hækkun sem átt hefur sér stað á vexti á eigin fé frá því að Hagstofa Íslands hóf að halda utan um þær tölur.
Uppgangur síðustu ára hefur skilað því að eigið fé landsmanna, eignir þeirra þegar búið er að draga skuldir frá, hefur farið úr því að vera 1.565 milljarðar króna í lok árs 2010 í að vera 5.176 milljarðar krókna um síðustu áramót. Það hefur aldrei verið meira og er nú í fyrsta sinn yfir fimm þúsund milljarðar króna.
Eigið fé vanmetið hjá ríkum
Eigið fé ríkustu tíu prósenta landsmanna er reyndar stórlega vanmetið, og er mun meira en tölur Hagstofunnar segja til um. Hluti verðbréfaeignar, hlutabréf í innlendum og erlendum hlutafélögum, er metin á nafnvirði, en ekki markaðsvirði. Þá eru fasteignir metnar á samkvæmt fasteignamati, ekki markaðsvirði, sem er í flestum tilfellum hærra.
Það þýðir að ef verðbréf í t.d. hlutafélögum hafi hækkað í verði frá því að þau voru keypt þá kemur slíkt ekki fram í þessum tölum. Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hefur til að mynda hækkað um 30 prósent frá því snemma í janúar 2019 og um 60 prósent frá byrjun árs 2015.
Þessi hópur er líka líklegastur allra til að eiga eignir utan Íslands sem koma ekki fram í tölum Hagstofunnar, en áætlað hefur verið að íslenskir aðilar eigi hundruð milljarða króna í aflandsfélögum sem ekki hafi verið gerð grein fyrir.
Þessi staða var meðal annars dregin upp í skýrslu sem unnin var fyrir Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, eftir opinberun Panamaskjalanna og var birt í janúar 2017. Niðurstaða hennar var að uppsafnað umfang eigna Íslendinga á aflandssvæðum frá árinu 1990 til 2015 næmi einhvers staðar á bilinu 350 til 810 milljörðum króna, og að tekjutap hins opinbera á árunum 2006 til 2014 vegna þessa væri líklega um 56 milljörðum króna. Á hverju ári gæti tapið vegna vantalinna skatta því verið á bilinu 4,6 til 15,5 milljarðar króna.
Helmingur á rúmlega allt eigið féð
Sá helmingur Íslendinga sem er með minnstu tekjurnar, alls um 113,5 þúsund fjölskyldur, skuldar samanlagt meira en hann á. Það hefur þó dregið úr þeirri stöðu á undanförnum árum og skiptir þar mestu að eigið fé fasteigna hefur næstum fjórfaldast frá árslokum 2010.
Ástæðan þess er einföld: hækkandi húsnæðisverð og bætt skuldastaða. Eigið fé í fasteignum landsmanna hefur enda aukist um 2.888 milljarða króna frá árinu 2010 og er því ábyrgt fyrir 80 prósent þeirrar hækkunar sem Hagstofan skrásetur.
Sá helmingur landsmanna sem er með hæstu tekjurnar er því með jákvætt eigið fé um alls 5.269 milljarð króna, eða meira en sem nemur eigin fé þjóðarinnar allrar.
Erfitt að bera saman eignastöðu með tæmandi hætti
Einfaldur samanburður á eignastöðu fólks á Íslandi er flókinn. Sérstaklega vegna þess að þær hagtölur sem safnað er saman mæla ekki að öllu leyti heildareignir fólks né taka tillit til hlutdeildar þess í eignum lífeyrissjóðakerfisins. hér að ofan hefur fyrst og síðast horft á hann út frá því hvernig krónur skiptast á milli hópa.
Sumir greinendur kjósa að horfa einungis á hlutfallstölur þegar þeir skoða slíkar tölur, og hvort ójöfnuður hafi aukist. Ef horft er á slíkar, sérstaklega á afmörkuðum tímabilum, er mjög auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að eignajöfnuður sé að minnka.
Til að mynda áttu tíu prósent ríkustu landsmanna 86 prósent alls eiginfjár í eigu einstaklinga árið 2010. Um síðustu áramót hafði það hlutfall lækkað niður í um 56 prósent og hlutfallið féll lítillega frá árinu áður. En taka verður tillit til þess að árið 2010 höfðu eignir annarra Íslendinga rýrnað mjög vegna hrunsins á meðan eignir ríkustu héldust nokkuð stöðugar í gegnum storminn.
Þegar horft er á þetta með öðrum augum, hversu stór hluti af nýjum auði fer til ríkustu tíu prósent landsmanna, þá kemur í ljós að frá árinu 2010 hefur 47 prósent hans endað hjá þessum hópi, sem er með vanáætlaðri eignir en hinir sem eiga einfaldara eignasafn.
Lestu meira:
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
28. nóvember 2022SFS styðja frumvarp Svandísar um að hækka veiðigjöld á næsta ári en lækka þau árin á eftir
-
20. nóvember 2022Átta milljarðar
-
10. nóvember 2022ASÍ: Misneyting á starfandi hælisleitendum jaðrar í verstu tilfellum við mansal
-
27. október 2022Segir ríkisstjórnina beita hótunum í samningaviðræðum um ÍL-sjóð
-
6. október 2022Eigið fé Origo margfaldast við söluna í Tempo fyrir 28 milljarða króna
-
19. ágúst 2022Hluthafafundur Síldarvinnslunnar samþykkti kaupin á Vísi
-
31. maí 202227 manna samráðsnefnd og fjórir starfshópar eiga að leggja til breytingar á sjávarútvegskerfinu
-
30. maí 2022„Í sjávarútvegi ríkir djúpstæð tilfinning meðal almennings um óréttlæti“
-
6. maí 2022Ef útflutningur við stríðandi Evrópulönd stöðvast gæti tapið verið 20 milljarðar á ári