Tilraun til umfangsmikillar endurnýjunar hjá Samfylkingunni
Alls sækjast 49 eftir sæti á framboðslistum Samfylkingarinnar í Reykjavík. Margir nýir frambjóðendur ætla sér eitt af efstu sætunum og sumir þeirra njóta óopinbers stuðnings lykilfólks í flokknum í þeirri vegferð. Það þýðir að þau sem fyrir eru á fleti þyrftu að víkja. Það vilja þau ekki.
Á miðvikudag voru á sjötta tug tilnefndra nafna á blaði hjá Samfylkingunni í Reykjavík sem höfðu gefið leyfi fyrir því að nöfn þeirra yrðu lögð fyrir flokksfólk í Reykjavík sem mun á næstunni lýsa skoðun sinni á framboðslistum flokksins í höfuðborginni í komandi þingkosningum. Þegar listinn yfir tilnefnda var birtur á fimmtudag hafði nöfnunum fækkað nokkuð, meðal annars vegna þess að einstaklingar sem þykja líklegir til að raða sér ofarlega á blað kynntu sig til leiks áður en listinn var birtur í heild. Það varð til þess að einhverjir hafa dregið þá ályktun að þeir ættu litla sem enga möguleika og því ákveðið að sitja heima.
Á næsta dögum mun áðurnefnt flokksfólk Samfylkingarinnar í Reykjavík merkja við nöfn þeirra einstaklinga sem það vill sjá á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík í þingkosningum á næsta ári. Niðurstaðan úr þeirri könnun verður ekki birt opinberlega og verður einungis aðgengileg uppstillingarnefnd sem verður ekki bundin af henni, heldur mun hafa niðurstöðuna til hliðsjónar þegar hún raðar á framboðslista.
Þetta er kallað „sænska leiðin“ og er sannarlega ekki óumdeild aðferð. Viðmælendur Kjarnans innan Samfylkingarinnar telja margir að önnur af tveimur ástæðum ráði því að þessi leið var farin. Í fyrsta lagi fór flokkurinn í prófkjör víða í aðdraganda þingkosninga 2016, sem jók enn á þá miklu sundrungu sem var í Samfylkingunni þá þegar eftir erfitt kjörtímabil. Afleiðingin varð versta niðurstaða flokksins frá upphafi. Hann fékk 5,7 prósent atkvæða og einn kjördæmakjörinn þingmann. Samhliða hrundu tekjur Samfylkingarinnar og innra starfið var við það að lognast út af á tímabili. Ef ekki hefði komið til þess að kosið var að nýju haustið 2017, þar sem flokkurinn meira en tvöfaldaði fylgi sitt, og að framlög úr ríkissjóði til stjórnmálaflokka voru rúmlega tvöfölduð í kjölfarið, þá er óvíst hvort Samfylkingin hefði lifað þessa tíma af.
Hræðsla við niðurstöðu prófkjara
Hin ástæðan er sú að ráðandi öfl í flokknum vilja hafa tryggingu fyrir því að geta stillt upp lista sem er sigurstranglegastur fyrir flokkinn. Ýmsir sem Kjarninn ræddi við hræddust að ef farið yrði í prófkjör gæti persónulegur metnaður ýmissa fyrirferðamikilla einstaklinga í flokksstarfinu, sem eru með djúpar rætur í Samfylkingunni, leitt til þess að svo yrði ekki.
Nefndu nær allir viðmælendur sama dæmið: Ágúst Ólaf Ágústsson.
Hann er fyrrverandi varaformaður flokksins og oddviti hans í Reykjavík suður eftir að hafa snúið aftur í stjórnmál eftir nokkurt hlé í aðdraganda síðustu kosninga, og nýtur mikils stuðnings hjá ákveðnum kreðsum í flokknum, sérstaklega þeim sem hafa starfað þar lengi og hjá eldri kynslóðum.
Ágúst Ólafur fór í leyfi frá þingstörfum í desember 2018 eftir að hafa verið áminntur af trúnaðarnefnd flokksins vegna kynferðislegrar áreitni gegn blaðamanni Kjarnans. Hann baðst afsökunar á háttsemi sinni og dómgreindarbresti og sótti sér aðstoð vegna áfengisvanda. Þegar hann tilkynnti endurkomu til starfa í lok apríl í fyrra sagðist hann enn brenna fyrir því að starfa í þágu samfélagsins. „Í raun er ég að biðja um annað tækifæri.“
Í október síðastliðnum var hann sakaður um kvenfyrirlitningu vegna ummæla sem féllu í útvarpsþættinum Sprengisandi. Þar kallaði Ágúst Ólafur sitjandi ríkisstjórn „ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar“ en tíðkast hefur að kenna ríkisstjórnir við forsætisráðherra, sem er Katrín Jakobsdóttir. Hann bætti við: „Við Willum [Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sem var líka gestur þáttarins] þekkjum alveg hver stjórnar. Og það er ekki Katrín.“ Ágúst Ólafur baðst afsökunar á orðum sínum og sagðist hafa komist illa að orði.
Viðmælendur Kjarnans telja margir hverjir að framboðslisti með Ágúst Ólaf innanborðs, vegna ofangreindra mála, myndi gera Samfylkinguna að auðveldu skotmarki andstæðinga hennar í næstu kosningum. Auk þess telja þeir að hann myndi fæla marga kjósendur frá – sérstaklega konur og yngri kjósendur – en draga fáa nýja að.
Kristrún nýr valkostur
Ágúst Ólafur hefur setið í fjárlaganefnd og verið talsmaður Samfylkingarinnar í efnahagsmálum. Framboð Kristrúnar Frostadóttur, aðalhagfræðings Kviku banka, hefur notið mikils stuðnings innan Samfylkingarinnar. Það þykir benda til þess að áhrifamikið fólk í flokknum vilji skipta um talsmann í þeim málaflokki og bjóða fram nýjan möguleika í stól fjármálaráðherra eftir næstu kosningar.
Kristrún vakti meðal annars athygli fyrir greiningu á auknu peningamagni í umferð sem var sett fram í grein í Vísbendingu í síðasta mánuði. Þar sagði hún að stór hluti peningamagnsins, sem er alls um 300 milljarðar króna, hafi ratað í hækkandi eignaverð á fasteignamarkaði, sem hefði ekkert með nauðsynlegan stuðning að gera á núverandi krísutímum. Um þriðjungur af þessum peningum hefði farið í lán til fólks sem stæði „betur en meðalmaðurinn í lánasafni bankanna.“
Að mati hennar hefði verið eðlilegra fyrir hið opinbera að hlúa að mannauði, framleiðslugetu og atvinnustigi hagkerfisins heldur en að örva hagkerfið með skuldsetningu í einkageiranum. Í gær bætti hún enn í og sagði í stöðuuppfærslu að efnahagsmálaumræðan hér á landi væri „úrelt og þess vegna eiga hægri menn hana enn þá. Þessu verðum við að breyta“ og að hún teldi sig „búa yfir sérstökum eiginleikum; ég hef mikla þekkingu á fjármálainnviðum landsins og dýnamíkinni í hagkerfinu en afar takmarkaðan áhuga á að græða peninga.“
Ljóst er að Kristrún var eftirsótt víðar eftir að í ljós kom að hún væri opin fyrir stjórnmálaþátttöku og síðustu vikur hefur hún ítrekað verið orðuð í einkasamtölum við framboð fyrir Viðreisn. Heimildir Kjarnans herma að Samfylkingin hafi lagt umtalsvert á sig til að telja hana á að bjóða fram hjá sér í Reykjavík og að hún hafi meðal annars átt samtöl við formann flokksins. Það á ekki við um marga aðra þeirra sem sækjast eftir sæti í Reykjavík.
Á siglingu hjá konum og ungu fólki
Í nýlegri umfjöllun Kjarnans, sem byggði á niðurstöðu tveggja kannana MMR sem gerðar voru um mánaðamótin október/nóvember, mældist fylgi Samfylkingarinnar á höfuðborgarsvæðinu 18,4 prósent. Fylgi á þeim slóðum myndi ekki skila flokknum meira en 4-5 þingsætum í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur. Ef hann vinnur kosningasigur í borginni gætu þau orðið sex. Í sömu umfjöllun kom fram að Samfylkingin væri á miklu skriði hjá yngstu kjósendunum og konum. Í könnun sem MMR birti daginn fyrir kosningarnar 2016 mældist Samfylkingin með eitt prósent fylgi í aldurshópnum 18 til 29 ára. Í haust var Samfylkingin með 19,3 prósent fylgi hjá þeim aldursflokki. Þá kom fram í umfjölluninni að Samfylkingin nyti stuðnings 21,4 prósent kvenna en einungis 11,9 prósent karla.
Vilji er til þess á meðal ráðandi afla innan flokksins að listi hans í Reykjavík endurspegli þessar breytingar á samfylkingunni á bakvið Samfylkinguna. Núverandi þingflokkur þykir ekki gera það. Einn viðmælandi orðaði það þannig að sitjandi þingmenn flokksins væru „of líkir og of miðaldra“.
Samfylkingin samþykkti skuldbindandi reglur um aðferðir við val á framboðslista árið 2012. Á meðal þess sem þar var samþykkt var að jafnt hlutfall kynjanna yrði tryggt með því að reglur um fléttulista eða paralista yrðu látnar eiga við þegar raðað yrði.
Á þessu ákvæði voru hins vegar gerðar breytingar á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar 19. október í fyrra. Breytingin er á þann veg að fléttulisti eða paralisti á einungis við ef það þarf að tryggja hlutfall kvenna í efstu sætum framboðslista. Það þýðir að konur gætu skipað öll efstu sætin á lista Samfylkingarinnar en karlar gætu það ekki.
Þessi breyting gerir það að verkum að í Reykjavík, þar sem margir af frambjóðendunum sem lykilfólk innan flokksins vonast til að raðist í efstu sætin eru konur, þarf ekki að gera sérstakar ráðstafanir til að koma körlum þar að.
Búist við mikilli endurnýjun
Búist var við því að sitjandi þingmenn og varaþingmenn flokksins í Reykjavík myndu gefa kost á sér að nýju og það stóðst. Auk þess var búist við að ýmist annað fólk sem hefur starfað innan Samfylkingarinnar í lengri eða skemmri tíma myndi taka slaginn og stefna á sæti sem gæti skilað þeim inn á þing. Af þeim þykir einungis Helga Vala Helgadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík norður, nokkuð örugg með sæti á lista sem skilar henni inn á þing, þótt hún hafi laskast með því að tapa varaformannskjöri í haust.
Þar laut hún í lægra haldi fyrir Heiðu Björk Hilmisdóttur, sitjandi varaformanni og borgarfulltrúa. Í kjölfarið bjuggust margir við því að Heiða myndi færa sig yfir í landsmálin og heimildir Kjarnans herma að hún hafi verið á meðal þeirra sem fékk flestar tilnefningar til að vera á lista flokksins í Reykjavík. Heiða ákvað hins vegar að gefa ekki kost á sér í þetta sinn.
Flestir viðmælendur búast að öðru leyti við mikilli endurnýjun í efstu sætum lista.
Þegar framboðslistinn var kynntur á fimmtudag voru samt ýmis óvænt nöfn á honum. Fyrir flokk sem hefur átt í umtalsverðum vandræðum á síðastliðnum árum að fá fólk í virkni og framboð þóttu það mjög góð tíðindi að 49 þeirra 181 sem tilnefndir voru sem mögulegir frambjóðendur ákváðu að taka slaginn.
Fyrir utan Kristrúnu eru nokkrir yngri frambjóðendur sem stefna á góðan árangur og á baráttusæti – 2.-3. sæti – á lista Samfylkingarinnar í öðru hvoru kjördæminu. Þar má nefna Jóhann Pál Jóhannsson, fyrrverandi blaðamaður á Stundinni, sem réð sig til þingflokks Samfylkingarinnar í september, Ragna Sigurðardóttir, forseti ungra jafnaðarmanna, Aldísi Mjöll Geirsdóttur, forseta Norðurlandaráðs æskunnar, Alexöndru Ýr van Erven, ritara flokksins, og Gunnhildi Fríðu Hallgrímsdóttur, sem vakið hefur athygli fyrir ýmis konar aktívisma undanfarið, meðal annars baráttu fyrir nýrri stjórnarskrá.
Flóttafólk úr öðrum flokkum og tenging við verkalýðshreyfinguna
Á meðal óvæntra nafna á listanum eru Dagfinnur Sveinbjörnsson, forstjóri Arctic Circle og sérfræðingur í loftlagsmálum, og Stefán Ólafsson, prófessor við HÍ og sérfræðingur hjá Eflingu stéttarfélagi. Nái þeir árangri fær Samfylkingin annars vegar mjög trúverðugan talsmann í loftlagsmálum, sem er á meðal stærstu mála sem yngri kjósendur sérstaklega láta sig varða, og hins vegar endurnýjaða tengingu inn í verkalýðshreyfinguna, sem mörgum hefur þótt flokkinn skorta í lengri tíma.
Það vakti ekki síður eftirtekt að ýmsir stjórnmálamenn sem starfað hafa í öðrum flokkum á miðju- og vinstrihluta stjórnmálalitrófsins sækjast nú eftir sæti á lista hjá Samfylkingunni. Þar ber fyrst að nefna Rósu Björk Brynjólfsdóttur, sem neitaði að styðja sitjandi ríkisstjórn þrátt fyrir að hafa verið kosin á þing fyrir flokk forsætisráðherra. Hún sagði sig svo úr Vinstri grænum fyrr á árinu og gekk til liðs við þingflokk Samfylkingarinnar í liðinni viku. Þótt Rósa gefi kost á sér í Reykjavíkurvalinu hefur hún ekki útilokað að fara fram í Kraganum, þar sem hún var í framboði í síðustu kosningum. Þá myndi hún hafa raunhæfar væntingar til að leiða þann lista, en Guðmundur Andri Thorsson gerði það í síðustu kosningum. Búist er við því að Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti Ungra jafnaðarmanna í Kópavogi, verði líka ofarlega á lista í Kraganum.
Nichole Leigh Mosty, fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar og formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, sækist líka eftir sæti í Reykjavík og það gerir Ásta Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður Píratar, líka.
17 manns ráða
Þegar niðurstaða framboðskönnunar í Reykjavík liggur fyrir fer hún til uppstillingarnefndar. Í henni eru 17 manns.
Þau munu raða á framboðslista Samfylkingarinnar og verða ekkert bundin af niðurstöðu framboðskönnunarinnar við það, þótt hún verði höfð til hliðsjónar.
Viðmælendur segja að vonir standi til að þessi leið til að velja á lista verði viðhöfð víðar á landinu. Fyrirliggjandi er að Logi Einarsson, formaður flokksins, mun leiða lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi en margir flokksmenn vilja sjá nýtt blóð í Norðvesturkjördæmi, þar sem Guðjón S. Brjánsson er á fleti. Það kjördæmi, ásamt Suðurkjördæmi, voru þau tvö sem Samfylkingunni gekk verst í í kosningunum 2017, og einu kjördæmin þar sem flokkurinn fékk undir tíu prósent fylgi. Bæði Guðjón, og Oddný Harðardóttir oddviti í Suðurkjördæmi, eru talin vilja halda áfram að leiða sín kjördæmi.
Það er því skýr vilji innan Samfylkingarinnar til að breikka og breyta ásýnd flokksins í aðdraganda næstu kosninga. Á móti þeim vilja toga öfl sem vilja veg sitjandi þingmanna sem mestan
Það kemur í ljós í í síðasta lagi 20. febrúar hvor leiðin verður ofan á. Og að óbreyttu í september 2021 hvort hún skili árangri hjá íslenskum kjósendum.
Ath. ritstjórnar.
Fréttaskýringin var uppfærð kl 11:16. Í upphaflegri útgáfu stóð aðað fjórir einstaklingar: Hörður J. Oddfríðarson, formaður fulltrúaráðs Samfylkingarfélaganna í Reykjavík, Sólveig Ásgrímsdóttir, formaður 60+ í Reykjavík, Kristín Erna Arnardóttir, sem leiðir Verkalýðsmálaráð Samfylkingarinnar, og Ingibjörg Stefánsdóttir, sem situr í flokksstjórn, mynduðu uppstillingarnefnd. Þær upplýsingar voru fengnar hjá skrifstofu flokksins. Það voru rangar upplýsingar. Í nefndinni sitja 17.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars