Beið í yfir þrettán mínútur eftir björgun úr eldhafinu
Miklar annir í sjúkraflutningum hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins urðu til þess að tæpar 12 mínútur liðu frá því að tilkynning um eldsvoða á Bræðraborgarstíg barst og þar til vettvangurinn var fullmannaður með 5 slökkviliðsmönnum og tveimur dælubílum.
Þegar útkall vegna elds í húsi á Bræðraborgarstíg barst Neyðarlínu síðdegis þann 25. júní lá strax fyrir að fólk væri í neyð í húsinu og kæmist ekki út af sjálfsdáðum. Tiltækir slökkviliðsmenn á höfuðborgarsvæðinu voru samtals ellefu en á sama tíma voru tvö alvarleg forgangsútköll sjúkrabíla í gangi sem kröfðust mikils mannafla auk annarra minni verkefna. Þetta varð til þess að þó að fyrstu viðbragðsaðilar hefðu verið fljótir á vettvang var hann ekki fullmannaður fyrr en tæpum tólf mínútum eftir útkallið.
Þegar bruninn átti sér stað voru sex manneskjur á efstu hæð hússins. Þrjár þeirra létust í brunanum. Ein kona, 26 ára, lést vegna höfuðáverka við fall úr glugga á rishæð. Einn karlmaður, 25 ára og ein kona, 22 ára létust úr reykeitrun.
„Ákjósanlegast hefði verið ef vettvangurinn hefði verið full mannaður innan 10 mínútna frá boðun slökkviliðs,“ segir í nýútkominni skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um rannsókn á brunanum. Vegna fyrrgreinds álags höfðu slökkviliðsmenn verið teknir af slökkvivakt til að sinna útköllum á sjúkrabílum. Slíkt er heimilt samkvæmt brunaáætlun og aðstæður sem þessar koma aðeins upp stöku sinnum, segir í skýrslu HMS. Það skýrir hversu langur tími leið þar til að síðasta manninum var bjargað af rishæð hússins, rúmum 13 mínútum frá því að hringt var í Neyðarlínu.
Þessi maður var Vasile Tibor Andor. Rúmeni sem búið hefur á Íslandi í mörg ár og hafði líkt og aðrir leigt eitt af herbergjum hússins að Bræðraborgarstíg 1. Hann hafði verið á morgunvakt á veitingastað á Laugavegi sem hann vinnur á og komið heim á Bræðraborgarstíg um klukkan 15. Hann var inni í herbergi sínu á rishæðinni er hann heyrði hróp fram af gangi og í kjölfarið brothljóð. Hann opnaði fram, heyrði að nágranni hans var í neyð, og þá mætti honum þykkt reykský. Hann sá eld. Og nágrannakonu sína falla í gólfið, hreyfingarlausa. Hann náði ekki til hennar. „Þetta gerðist allt svo hratt,“ sagði hann í viðtali við Kjarnann í nóvember. „Ég hugsa stundum hvort að ég hefði getað leikið ofurhetju en ég veit innst inni að ég hefði ekki getað bjargað neinum. Það var of seint.“
Eldsvoðinn að Bræðraborgarstíg var mjög flókið verkefni og afar krefjandi fyrir viðbragðsaðila í alla staði, segir í skýrslu HMS sem hefur m.a. það hlutverk að rannsaka starf slökkviliðs á vettvangi þar sem manntjón verður. „Sá mikli hraði sem var á eldútbreiðslunni og sú staðreynd að fólk var fast inni í húsinu gerði slökkviliðinu erfitt fyrir. Þá voru á vettvangi lífshættulega slasað fólk, slasað fólk og margir sjónarvottar í miklu uppnámi,“ stendur ennfremur í skýrslunni.
Klukkan 15:15:44 barst fyrsta símtalið Neyðarlínunni þar sem tilkynnt var um eldsvoðann. Sjúkrabíll sem staddur var við Landakot var fyrstur á staðinn rúmlega þremur mínútum eftir að símtalið barst. Sjúkraflutningamennirnir á honum voru menntaðir sem slökkviliðsmenn og fóru í að sinna slösuðum á vettvangi. En hvorki sjúkraflutningamenn né lögreglumenn sem einnig voru komnir á staðinn gátu sinnt störfum slökkviliðsmanna þar sem slík störf krefjast viðeigandi hlífðarfatnaðar, tækjabúnaðar, menntunar og reynslu.
Það liðu 6 mínútur og 10 sekúndur frá fyrstu tilkynningu um eldinn þar til fyrsti dælubíllinn kom á vettvang en 11 mínútur og 50 sekúndur þar til annar dælubíll kom og vettvangurinn þar með full mannaður.
Afar ólíklegt að hægt hefði verið að bjarga þeim sem létust
Það er mat HMS að slökkvistarfið hafi gengið vel upp frá því og að þær „hörmulegu afleiðingar eldsvoðans, að þrír einstaklingar létust, dæmist á húsið, mögulega íkveikju og skipulag og ástand hússins.“
HMS telur „afar ólíklegt“ að hægt hefði verið að bjarga þeim sem létust í eldsvoðanum. „Þannig hefði engu breytt þó svo að tveir eða fleiri full mannaðir dælubílar hefðu komið á vettvang 7 mínútum eftir að símtal til Neyðarlínu barst. Það hefði að öllum líkindum verið of seint í þessu tilfelli.“
„Það virðist sem kraftar hans hafi þrotið“
Það sem vó þyngst og gerði slökkvistarfinu erfitt fyrir, var húsið sjálft og hvernig það var byggt, segir í rannsóknarskýrslunni. Húsið á Bræðraborgarstíg var timburhús með litla sem enga brunahólfun sem gerði það m.a. að verkum að ekki var hægt að stunda slökkvistarf innanhúss.
Í skýrslunni er vakin athygli á því að þar sem of fáir slökkviliðsmenn voru á staðnum í upphafi þurfti varðstjóri að fara sjálfur inn í brennandi húsið í reykköfun í stað þess að sinna stjórnun á vettvangi. Þessu lýsti slökkviliðsmaðurinn sem ók fyrsta dælubílnum á vettvang ítarlega í viðtali við Kjarnann í nóvember. „Þegar við komum að húsinu þá er einn íbúinn nýbúinn að stökkva út um glugga,“ sagði Valur Marteinsson, sem verið hefur í slökkviliðinu í um þrjá áratugi. Varðstjórinn og annar félagi hans höfðu undirbúið sig fyrir reykköfun á leið á vettvang og fóru þegar í stað inn í húsið og upp á aðra hæðina þar sem eldurinn var mestur. „Það logaði út um glugga á framhliðinni. Og við sáum fólk í gluggunum,“ lýsir Valur. Félagar hans reyndu að komast til fólksins á þriðju hæðinni en stiginn þangað upp var þá þegar orðinn alelda að sögn Vals.
Í rannsóknarskýrslu HMS segir um þetta að svo virðist sem flóttaleiðin um stigahúsið milli hæðanna hafi verið orðin teppt allt frá því að fyrsti sjúkrabíll kom á vettvang og því var lífbjörgun einungis möguleg um glugga á rishæðinni.
Viðtal við Val Marteinsson slökkviliðsmann
Sjónarvottar urðu varir við fólk í fjórum aðskildum herbergjum í risinu. Þannig var vart við fólk í kvistherbergi sem snýr út að Bræðraborgarstíg, eins í suðurglugga sem snéri út í portið og að lokum í norðurgluggum tveggja aðskildra herbergja sem snúa út að Vesturgötu. Í öðru þeirra var Tibor.
Myndir af vettvangi sem HMS aflaði við rannsókn sýna gefa til kynna að þrjú þessara herbergja hafi verið orðin reykfyllt að miklu leyti. „Þó svo að reykþéttleiki herbergjanna hafi verið lítill má gera ráð fyrir því að fólkið hafi opnað fram á gang og reynt að yfirgefa herbergi sín með þeim afleiðingum að þau fylltust skjótt og fólkið hafi hörfað til baka.“
Kona í risherbergi sem vísaði í suður tróð sér út um lítið opnanlegt fag í glugganum og stökk niður „með þeim afleiðingum að hún lét lífið eftir fallið,“ segir í skýrslu HMS. „Maðurinn sem var með henni í herberginu náði ekki að brjóta gluggann, en það virðist sem kraftar hans hafi þrotið og hann lognast út af sökum reyks í rýminu.“
Þessi maður var unnusti konunnar sem stökk. Þau voru bæði á þrítugsaldri.
Önnur ung kona var í kvistherberginu sem snéri út að Bræðraborgarstíg og lýstu sjónarvottar því að hún hafi gert vart við sig á þessum fyrstu mínútum brunans með því að veifa í glugganum. En það voru engin ummerki um lífsmark eftir að dælubíll kom á staðinn. Konan fannst látin í rústunum.
Líkt og fram kom í fréttaskýringu sem Kjarninn birti í gær voru björgunarop ekki til staðar á rishæðinni líkt og reglur segja til og líkt og sýnd höfðu verið á samþykktum teikningum af húsnæðinu. Björgunarop getur t.d. verið opnanlegur gluggi sem manneskja á auðvelt með að komast út um. Aðeins ein flóttaleið var af rishæðinni; stiginn sem stóð í ljósum logum.
Viðtal við unga manninn sem stökk út um gluggann
Tvö herbergi norðanmegin á rishæð voru lengra frá eldsupptökunum. HMS segir að gera megi ráð fyrir að þar hafi aðstæður verið betri enda lifðu tveir karlmenn sem þar voru eldsvoðann af. Annar þeirra stökk út. Hann sagði í viðtali við Kjarnann í nóvember að reykur hafi komið inn í herbergi hans úr öllum áttum; út úr veggjum, upp um gólf og meðfram hurðinni. Tibor, vinur hans sem bjó í næsta herbergi, hafði talað við hann í gegnum þunnan vegginn og ráðlagt honum að bíða. Slökkviliðið væri á leiðinni. „En ég gat ekki beðið. Ég vissi að ég myndi bráðlega missa meðvitund ef ég kæmist ekki út. Sá möguleiki að bíða í einhvern tíma var ekki í boði á þessum tímapunkti“.
Hin herbergin tvö á hæðinni þar sem fólk lést „hafa að öllum líkindum fengið reykstreymi upp í gegnum gólfið þar sem eldur var logandi undir þessum herbergjum og gólfið langt frá því að vera reykþétt,“ segir í skýrslu HMS. „Það er nánast hægt að fullyrða að fólkið sem lést í þessum bruna hafi verið látið þegar slökkvilið kom á staðinn. Dælubíll og tilheyrandi mannskapur var þó kominn eftir aðeins um 7 mínútur frá símtali til Neyðarlínu og á að giska tæplega 9 mínútum frá því að eldurinn kviknaði.“
Reykkafararnir sem fóru upp á aðra hæð hússins um leið og þeir komu á vettvang náðu að slá verulega a brunann og þekja veggi með froðu til að loka þeim. Þessi aðgerð tryggði að mati HMS að Tibor hafði lengri tíma til að bíða eftir björgun í herbergi sínu á rishæðinni. Í herbergi sínu beið hann, með starfsmann Neyðarlínunnar í símanum, í rúmar þrettán mínútur frá því að fyrst var hringt í Neyðarlínu og tilkynnt um eldinn og þar til honum var bjargað út um gluggann.
Slökkviliðið hafði að mati HMS stjórn á aðstæðum en lítið hefði mátt út af bregða til að eldur hefði komið út um glugga á ganginum og þannig gert björgun Tibors erfiða. „En biðin var augljóslega löng fyrir þann sem þarf að bíða svo lengi eftir björgun.“
Í rannsóknarskýrslu HMS segir að eftir að Tibor var bjargað hafi legið fyrir að fleira fólki yrði ekki bjargað úr húsinu þar sem hitastig var of hátt og eitraður reykur búinn að vera í rýmunum í nokkrar mínútur. „Magn kolmónoxíðs í svona lítið loftuðum bruna er jafnan það hátt að fólk lifir aðeins í nokkrar sekúndur,“ segir um þetta í skýrslunni.
Heildarfjöldi þeirra sem komu að verkefninu fyrir hönd Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS) voru 37 slökkviliðsmenn þar af 13 sem tóku þátt í reykköfun, 13 sem sinntu sjúkraflutningum og tveir stjórnendur.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vekur í skýrslu sinni athygli á því að álag vegna sjúkraflutninga hjá SHS sé almennt mikið og því sé vert að skoða möguleika á eflingu mannafla liðsins. Þetta þurfi að gera samhliða árlegri endurskoðun á mannaflaþörf í brunavarnaáætlun SHS.
Í nóvember birti Kjarninn yfir fimmtán viðtöl og fréttaskýringar um brunann á Bræðraborgarstíg. Inngangsgrein að þeirri umfjöllun, með tenglum á aðrar greinar í greinaflokknum, má nálgast hér að neðan.
Úttekt Kjarnans um brunann á Bræðraborgarstíg
Lesa meira
-
23. október 2021„Vanda þarf til verka á þessu mikilvæga og viðkvæma horni“
-
14. október 2021Byggingin „lík virki“ og skýringarmyndir „fráhrindandi“
-
9. október 2021Byggt verði af virðingu við fórnarlömb brunans og húsin í kring
-
19. júní 2021„Ég get ekki grátið fyrir innan afgreiðsluborðið“
-
11. júní 2021Bæturnar aðeins „dropi í hafi“ miðað við tjónið
-
10. júní 2021Ríkissaksóknari ætlar ekki áfrýja dómi í Bræðraborgarstígsmálinu
-
3. júní 2021Marek metinn ósakhæfur og sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins
-
5. maí 2021„Hér er ekki um leikaraskap, slysni eða eitthvað grín að ræða“
-
28. apríl 2021Marek segist ekki hafa tekið geðlyfin í hálft ár
-
27. apríl 2021„Íslenska parið“ og yfirlýsingar Mareks um Moskvuferð