Greinargerð Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, vegna sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka var rædd í tveimur nefndum Alþingis í dag. Til stendur að ótilgreindur hlutur í bankanum verði seldur í maí.
Tillagan að sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka nú er frábrugðin því sem Bankasýsla ríkisins lagði til í byrjun mars í fyrra á tvennan hátt. I fyrsta lagi er ekki lagt upp með svokallað samhliða söluferli. Í slíku ferli er aðallega stefnt að skráningu eignarhlutans á hlutabréfamarkað í gegnum útboð en líka beinni sölu á hluta eða öllum eignarhlut ríkisins í gegnum uppboð.
Ekki reiknað með áhuga erlends banka
Það að falla frá samhliða söluferli er rökstutt í tillögu Bankasýslu ríkisins með því að ólíklegt sé „að erlendur banki muni sýna því áhuga að eignast hlut í innlendum banka í núverandi umhverfi, enda fá dæmi á þessu ári um beina sölu á bönkum í Evrópu til fjárfesta eða annarra banka fyrir utan samruna banka innan sama lands“.
Í öðru lagi er nú einungis stefnt að skráningu Íslandsbanka á hlutabréfamarkað á Íslandi, en í tillögu Bankasýslunnar frá 4. mars 2020 var gert ráð fyrir tvíhliða skráningu í erlendri kauphöll. Tvö félög í íslensku kauphöllinni eru líka skráð á markað erlendis, Arion banki og Marel. Í greinargerð fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna sölu hluta í Íslandsbanka segir að afar lágt hlutfall viðskipta með hluti í félögunum tveimur sé í erlendri kauphöll. Því til stuðnings er bent á að frá byrjun árs 2020 og til 27. nóvember sama ár var hlutfall innlendrar veltu í kauphöll sem hlutfall að sameiginlegri veltu með hlutabréf í Arion banka samtals 87,5 prósent og í tilfelli Marel 91 prósent.
Hversu mikið verður selt?
Ríkisstjórnin hefur ekki gefið upp hversu mikið hún vill selja á þessari stundu. Þó er það þannig að þegar frumútboð á sér stað á skipulegan verðbréfamarkað miða kauphallir almennt við að hlutur almennra fjárfesta í skráðu félagið verði að lágmarki að vera 25 prósent eftir skráningu. Það þýðir á mannamáli að miðað við hefðbundin viðmið þarf ríkið að selja að minnsta kosti fjórðung.
Í greinargerð ráðuneytisins segir að mögulegt gæti verið að fá undanþágu á þessari reglu í ljósi stærðar Íslandsbanka, en hann yrði líklega þriðja verðmætasta skráða félag landsins á eftir Marel og Arion banka ef af skráningu verður. Þar segir líka að upplýsingar um það magn sem selt verður, og verðbilið sem það verður selt á, muni ekki verða birt fyrr en að skráningarlýsing verður birt. Samkvæmt áætlun er stefnt að því að það verði í lok apríl eða byrjun maí.
Hvenær var þetta ákveðið?
Tillaga Bankasýslu ríkisins um sölu á eignarhlut í Íslandsbanka var send til fjármála- og efnahagsráðherra 17. desember síðastliðinn, eða degi áður en að Alþingi fór í jólafrí.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsmálaráðuneytinu, sendu bréf til baka á Bankasýsluna 21. desember þar sem tillaga hennar um að hefja sölumeðferð á Íslandsbanka var samþykkt.
Samhliða sendu þeir bréf og greinargerð til Alþingis og óskuðu eftir umsögn fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar um greinargerðina. Þeir gáfu nefndarmönnum til 20. janúar, eða einn mánuð, til að skila umsögn um greinargerðina. Samkvæmt starfsáætlun Alþingis hófst formlegt starf þess aftur 12. janúar, eða í dag, með nefndarfundum. Fyrsti þingfundur ársins verður svo næstkomandi mánudag, 18. janúar.
Þingmenn sem Kjarninn hefur rætt við hafa kvartað mjög yfir þessum tímaramma og tortryggt hann. Hluti viðmælenda telja að verið sé að nýta sér það að jólafrí sé til staðar til að forðast frekari umræðu um hið endurvakta söluferli.
Þegar umsagnir nefnda og Seðlabanka Íslands liggja fyrir verður tekin endanlega ákvörðun, af fjármála- og efnahagsráðherra, um hvort sölumeðferðin verði hafin, og er búist við því að sú ákvörðun verði skýrt að halda áfram með ferlið.
Tekur um fimm mánuði að selja hlut í banka
Hið formlega söluferli mun þá hefjast fyrir lok janúarmánaðar og taka um fimm mánuði frá því að ákvörðun ráðherra liggur fyrir. Þetta er styttri tímalína en áætlað var í fyrri tillögu Bankasýslu ríkisins.
Því mun hlutur í Íslandsbanka verða seldur í maí gangi áformin eftir. Lokahnykkurinn í því ferli, eftir að tilboð í boðna eignarhluti liggja fyrir, verður sá að Bankasýsla ríkisins mun skila Bjarna Benediktssyni rökstuddu mati á þeim tilboðum. Í greinargerð fjármála- og efnahagsráðuneytisins segir að ráðherrann muni í kjölfarið taka „endanlega ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutarins.“
Helstu rök ríkisstjórnarinnar fyrir því að selja hlut í Íslandsbanka nú er að nauðsynlegt sé að fjármagna hallarekstur ríkissjóðs. Það stefnir enda í að hann verði rekinn með um 600 milljarða króna halla á árunum 2020 og 2021. Þá þykir þróun á hlutabréfamörkuðum undanfarið, þar sem hlutabréf hafa hækkað um tugi prósenta á skömmum tíma, gefa til kynna að góður tími sé til að selja.
Ýmsir slá varnagla
Þótt ríkisstjórnin virðist samstíga í stefnu sinni um að selja hlut í Íslandsbanka, sem er í samræmi við það markmið í stjórnarsáttmála hennar að minnka umsvif ríkisins á fjármálamarkaði og ferli í þá átt var langt komið þegar kórónuveirufaraldurinn skall á, þá hafa ýmsir gagnrýnt áformin.
Hluti þeirrar gagnrýni byggir á sömu rökum og áður, en hluti snýr að tímasetningunni. Þ.e. að selja hlut í banka í miðjum heimsfaraldri þegar til dæmis hefur verið losað hefur verið um bindingu á umtalsverðu af eigin fé banka.
Einn þeirra er Gylfi Magnússon, forseti viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands, fyrrverandi efnahagsráðherra og formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands.
Í stöðuuppfærslu sem hann birti á Facebook í gær deilir hann fimm ára gamalli grein sem birtist á Kjarnanum þar sem hann fjallaði um fyrirhugaða einkavæðingu ríkisbanka. Í niðurlagi þeirrar greinar sagði meðal annars að versta hugsanlega útkoman úr einkavæðingu ríkisbanka væri einhverskonar endurtekning á því sem gerðist þegar Landsbanki Íslands og Búnaðarbankinn voru einkavæddir 2002 og 2003. „Við fengjum nýjar útgáfur af skuldsettum viðskiptablokkum með sterk pólitísk tengsl sem skipta á milli sín bankakerfinu og mergsjúga það uns eftir eru rústir einar. Það tók innan við sex ár síðast.“
Í stöðuuppfærslunni segir Gylfi að mest, ef ekki allt, í fyrri gagnrýni hans eigi enn við. „Þó hefur auðvitað eitthvað breyst. M.a. skiptir máli að vextir á skuldum ríkisins hafa haldið áfram að lækka. Ávinningurinn af því að selja banka og greiða upp skuldirnar er því enn minni en áður. Raunar gætu arðgreiðslur sem ríkið verður af vegna sölu verið hærri en vextir sem ríkið þarf ekki að greiða ef það notar söluandvirðið til að grynnka á skuldum. Áhætta ríkisins minnkar þó líka við sölu og það er ávinningur í því frá sjónarhóli ríkissjóðs.“
Skiptir miklu máli hverjir kaupa
Gylfi segir auknar skuldir ríkissjóðs vegna kórónuveirufaraldursins lítið breyta þeirri mynd sem blasi við og raunar sé ávöxtunarkrafan á ríkisskuldum nú lægri en í aðdraganda faraldursins. „Það þarf því einhver önnur rök en þann hallarekstur fyrir því að selja banka núna. Við ákvörðun um sölu ætti þó fyrst og fremst að horfa til áhrifanna á hagkerfið í heild, ekki bara á fjárhag ríkisins, þótt auðvitað skipti hann máli. Fyrir áhrifin á hagkerfið í heild skiptir miklu hverjir kaupa og hvaða hugmyndir þeir hafa um rekstur bankans. Það væri t.d. alls ekki heppilegt að kaupendurnir stefndu að því leynt eða ljóst að greiða sem mest eigið fé út til hluthafa í náinni framtíð.“
Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði og sérfræðingur hjá Eflingu, skrifaði grein í Kjarnann í gær þar sem hann sagði að nú væri rétti tíminn til að eiga bankana áfram. Þannig væri hægt að láta arðgreiðslur úr bönkunum greiða niður hinar aukni skuldir ríkisins vegna kórónuveirukreppunnar.
Með því mætti forðast skattahækkanir og niðurskurð í velferðarmálum og innviðframkvæmdum á næsta áratug. „Það hljóta allir að sjá skynsemina í þessu – nema auðvitað þeir sem vilja sjálfir hirða þennan arð úr bönkunum í eigin vasa.“
Eigið fé ríkisbankans 182,5 milljarðar
Á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 var hagnaður Íslandsbanka af áframhaldandi starfsemi 3,5 milljarðar króna. Hagnaður bankans hefur aukist þegar liðið hefur á árið, eftir að nauðsynlegar niðurfærslur vegna COVID-19 höfðu verið teknar inn í reikning hans, og var hagnaður Íslandsbanka á þriðja ársfjórðungi til að mynda 3,1 milljarður króna, eða einum milljarði króna meiri en hann var á sama tíma árið 2019.
Íslandsbanki á mikið eigið fé. Í lok september var það 182,5 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfallið þá var 22,2 prósent, sem er vel yfir kröfum Seðlabanka Íslands um 17 prósent eigið fé. Umfram eigið féð hleypur því á tugum milljarða króna. Hluta þess væri hægt að greiða út til nýrra hluthafa þegar þeir taka við bankanum, og aðstæður til arðgreiðslna skapast að nýju.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi