Aldrei fleiri skráð í VG – kjörskrár tútnuðu út í aðdraganda forvals
Metfjöldi félaga er um þessar mundir skráður í VG, eða yfir 7.111 manns. Frá áramótum hafa á bilinu 1.400 til 1.500 manns bæst í flokkinn, flestir í þeim kjördæmum þar sem forval hefur þegar farið fram. Þingmaður sem tapaði oddvitaslag í Norðvesturkjördæmi segir vert að endurskoða hvernig flokkurinn velur sér fulltrúa inn á þing.
Fjöldi félaga í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hefur vaxið allnokkuð það sem af er ári og kjörskrár í nokkrum kjördæmum þar sem forvöl hafa farið fram nú þegar hafi tútnað rækilega út, samanborið við síðasta ár.
Á fimmtudagsmorgun voru félagar í hreyfingunni orðnir 7.111 talsins, samkvæmt svari frá Björgu Evu Erlendsdóttur framkvæmdastjóra VG við fyrirspurn Kjarnans, en þeir hafa aldrei verið fleiri en um þessar mundir.
Björg segir að hana reki minni til þess að fjöldi félaga hafi verið á bilinu 5.600 til 5.700 talsins um áramót, sem þýðir að félögum hafi fjölgað um 1.400 til 1.500 á innan við fjórum mánuðum.
Þingmaður sem tapaði oddvitaslag efins um leikreglurnar
Athygli vakti á dögunum að þingmaðurinn Lilja Rafney Magnúsdóttir steig fram eftir að hafa lotið í lægra haldi fyrir Bjarna Jónssyni í forvali flokksins í Norðvesturkjördæmi og sagði hreinlega að smalað hefði verið gegn sér í forvalinu.
„[M]ér finnst þetta ekki endilega vera heiðarlegar leikreglur eða lýðræðislegar í sjálfu sér og umhugsunarefni til framtíðar hvort þetta sé leiðin til þess að velja fólk á lista, að fjöldi manns komi inn og kannski fari út strax að forvali loknu,“ sagði Lilja Rafney í samtali við RÚV þegar úrslit lágu ljós fyrir.
Ekki grenjandi en telur endurskoðunar þörf
Kjarninn heyrði í Lilju Rafneyju og hún er enn sama sinnis. Hún segist vita fyrir víst að um 500 nýir félagar hafi hafi bæst við flokkinn í Norðvesturkjördæmi rétt fyrir forvalið og veltir því fyrir sér hvort að þetta sé besta leiðin til þess að velja fulltrúa flokksins með lýðræðislegum hætti.
Hún segir að það sé auðvitað ekki óleyfilegt samkvæmt lögum og reglum flokksins að hvetja fólk til þess að ganga í hreyfinguna og ljá sér stuðning í forvali. Svipað eigi sér einnig stað í öðrum flokkum, að margir komi nýir inn skömmu áður en flokksmenn fari í það að velja sér fulltrúa með atkvæðagreiðslum. En þetta finnst Lilju Rafney vera of stór þáttur í ferlinu.
„Þetta virðast hlutirnir ganga út á og mér finnst að allavega minn flokkur þurfi að taka til endurskoðunar,“ segir Lilja Rafney, sem hefur verið fulltrúi VG í Norðvesturkjördæmi á þingi frá árinu 2009. Hún segir að nýliðar þurfi að sjálfsögðu að eiga möguleika á að komast að, en segir spurningu hvernig aðferðafræðin eigi að vera.
Á henni er að heyra að núverandi fyrirkomulag geri sitjandi þingmönnum ef til vill erfitt fyrir við að leggja störf sín í dóm flokksmanna. Sjálf er hún ekki enn búin að ákveða hvort hún þiggi 2. sætið á lista Vinstri grænna í kjördæminu.
„Ég er enn að velta vöngum yfir þessu. Það er aldrei að vita hvað maður gerir. Maður er baráttumaður í eðli sínu og er ekki grenjandi yfir þessu,“ segir Lilja Rafney og segist vilja horfa á heildarsamhengi hlutanna. Hún hafi þannig fengið um 30 prósent fleiri atkvæði en síðast þegar hún og Bjarni áttust við í forvalinu árið 2016. En það hafi líka verið um það bil 50 prósent fleiri á kjörskránni en voru skráðir í félagið skömmu fyrir forvalið.
Nýir félagar flykkjast að í aðdraganda forvala
Í ljósi þessara orða Lilju Rafneyjar og ummæla hennar um að 500 nýja félaga sem hefðu bæst við í aðdraganda forvalsins óskaði Kjarninn eftir upplýsingum frá hreyfingunni um þróun í fjölda flokksfélaga frá áramótum og bað flokkinn sömuleiðis um að gefa upp hvernig þróun fjölda flokksfélaga í hverju kjördæmi fyrir sig hefði verið, ef mögulegt væri.
Í svari frá flokknum var gefið upp hversu margir voru á kjörskrá í forvali flokksins nú og þær tölur bornar saman við fjölda félaga í einstaka kjördæmum eins og hann var þann 19. mars árið 2020. Framkvæmdastjóri flokksins segir þó að nær öll fjölgunin sem hér er fjallað um hafi verið á yfirstandandi ári. Tekið skal fram að fjöldi skráðra félaga í hverju kjördæmi gefur ekki mynd af heildartölu skráðra félaga, þar sem hluti félaga VG eru búsettir erlendis eða ekki skráðir í kjördæmafélög.
Í kjördæmi Lilju Rafneyjar, Norðvesturkjördæmi, jókst fjöldi félaga um 502 á milli ára. Þar voru félagar 949 í mars í fyrra en síðan voru 1.451 á kjörskránni í forvalinu sem fram fór fyrr í mánuðinum. Það er rösklega 52 prósent aukning.
Mest fjölgun hefur orðið í Suðvesturkjördæmi, þar sem einnig var oddvitaslagur fyrr í þessum mánuði. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra og varaformaður hreyfingarinnar hafði betur gegn þingmanninum Ólafi Þór Jónssyni, sem hafnaði í öðru sæti. Þar voru félagar 1.139 talsins í mars í fyrra en 1.698 manns enduðu á kjörskrá flokksins í forvalinu, sem er fjölgun um 559 manns. Rúmlega 49 prósent fjölgun.
Mest hlutfallsleg fjölgun hefur hins vegar orðið í Suðurkjördæmi, en þar voru skráðir félagar einungis 388 í mars í fyrra. Á kjörskránni í spennandi forvali, þar sem Hólmfríður Árnadóttir skólastjóri úr Sandgerði hreppti oddvitasætið, voru 668 manns, 280 fleiri en skráðir voru í flokkinn í kjördæminu fyrir rösku ári síðan. Þetta er 72 prósent fjölgun félaga.
Í Norðausturkjördæmi, þar sem Óli Halldórsson sveitarstjórnarmaður frá Húsavík hafði betur í oddvitaslag gegn þingflokksformanninum Bjarkeyju Gunnarsdóttur Olsen, fjölgaði einnig hlutfallslega mikið, en þar voru skráðir félagar 647 talsins í mars í fyrra og svo voru 1.040 manns á kjörskrá þegar forvalið fór fram í mars. Félögunum fjölgar um 393 og er um 60 prósent fjölgun á milli ára að ræða.
Enn hægt að komast inn á kjörskrána í Reykjavík
Í Reykjavíkurkjördæmunum hefur ekki enn farið fram forval, en það verður snemma í maí. Allir sem verða félagar í svæðisfélagi Vinstri grænna í Reykjavík fyrir kl. 8 að morgni fimmtudagsins 6. maí geta kosið í forvalinu.
Félagar í svæðisfélagi VG í Reykjavík eru nú 2.566 talsins en voru 2.366 í mars í fyrra – sem er fjölgun um 200 manns. Reikna má með því að enn fjölgi á næstu dögum, en barátta er um 2. sæti á listum í báðum Reykjavíkurkjördæmunum og reyna frambjóðendur og stuðningsfólk þeirra að vekja athygli á sér og virkja tengslanetið til þátttöku í forvalinu.
Í baráttunni um 2. sætið etja sitjandi þingmenn, Steinunn Þóra Árnadóttir og Kolbeinn Óttarsson Proppé, kappi við þau Daníel E. Arnarson, Andrés Skúlason, Orra Pál Jóhannsson og Elvu Hrönn Hjartardóttur, sem öll bjóða sig fram í 2. sæti.
Meira um kosningar haustsins
-
5. janúar 2023Ásmundur Einar Daðason staðið sig best allra ráðherra – Bjarni Benediktsson langverst
-
3. janúar 2023Samfylkingin ekki stærri hjá Gallup í tólf ár en Vinstri græn hafa aldrei mælst minni
-
21. desember 202242,1 prósent innflytjenda greiddu atkvæði í síðustu alþingiskosningum
-
26. nóvember 2022Allir formenn stjórnarflokkanna tapað umtalsverðu trausti á kjörtímabilinu
-
21. nóvember 2022Tíð ríkisstjórnarskipti og kórónuveiran hafa stóraukið nýtingu fjáraukalaga
-
19. nóvember 2022Samfylkingin hefur næstum tvöfaldað fylgið og andar ofan í hálsmálið á Sjálfstæðisflokki
-
27. október 2022Guðlaugur Þór horfir til þess að fella Bjarna
-
21. október 2022Kristrún Frostadóttir verður ein í framboði til formanns Samfylkingarinnar
-
20. október 2022Píratar og Samfylkingin hafa samanlagt bætt við sig tíu prósentustigum á kjörtímabilinu
-
16. október 2022Guðmundur Árni býður sig fram til varaformanns en Heiða hættir við framboð
-
8. október 2022Kunnugleg staða í íslenskum stjórnmálum einu ári eftir þingkosningar
-
3. október 2022Sjálfstæðisflokkur mælist nánast í kjörfylgi og Samfylkingin mælist næst stærsti flokkurinn
-
12. september 2022Kristrún vill að aðildarviðræður að ESB verði lagðar í þjóðaratkvæðagreiðslu
-
10. september 2022„Við verðum að losna úr þessu hugarfari að þetta sé barátta hvers fyrir sig“
-
4. september 2022Þótt stjórnin mælist fallin er staða hennar betri nú en tæpu ári eftir kosningarnar 2017