Breytt áform á Mýrdalssandi og skömmum hreytt í umsagnaraðila
Viðhorf Umhverfisstofnunar er „sjálfhverft“ og afstaða Samtaka ferðaþjónustunnar „ósanngjörn“. Tékkneska stórfyrirtækið EP Power Minerals lætur stofnanir og aðra umsagnaraðila fá það óvegið í svörum við gagnrýni á áformað vikurnám á Mýrdalssandi. Vinnslan sé ekki líkleg til að skaða ímynd svæðisins heldur miklu frekar auka hróður þess.
Í byrjun ágúst vildi tékkneska fyrirtækið EP Power Minerals (EPPM) vinna milljón tonn af vikri á ári úr áformaðri námu á Mýrdalssandi. Hundrað dögum síðar höfðu áætlanirnar breyst og aðeins talið raunhæft að flytja 500 þúsund tonn af efninu milli námunnar við Hafursey og Þorlákshafnar. „Fyrir utan afköst vegakerfisins er það einkum afkastageta hafnarinnar í Þorlákshöfn og hleðsluhraði í skip sem að takmarkar hve mikið efni er hægt að flytja út.“
Þetta kemur fram í minnisblaði frá verkfræðistofunni Eflu til Skipulagsstofnunar þar sem ábendingum og athugasemdum sem bárust við umhverfismatsskýrslu EPPM er svarað af starfsmanni Eflu sem og tveimur fulltrúum tékkneska fyrirtækisins. Og það með nokkru þjósti. Umhverfisstofnun er sökuð um „sjálfhverft“, „undarlegt“ og „skammsýnt“ viðhorf og ætti að „fara varlega“ í kröfum sínum.
Afstaða og framsetning Samtaka ferðaþjónustunnar er sögð „ósanngjörn“, „órökrétt“ og „villandi“ og þau sökuð um „gróft ofmat“ á sýnileika námunnar. „Ein sandnáma sem varla sést er ekki að fara að kollvarpa aðdráttarafli Suðurstrandarinnar,“ segja forsvarsmenn verkefnisins. Enda sé „varla nokkur sála á ferli í margra kílómetra radíus“ frá hinu áformaða framkvæmdasvæði.
Umsagnaraðilar þykja að mati fyrirtækisins draga upp „alltof dökka mynd“ af áhrifum á ferðaþjónustu og fleiri þætti. Þeir séu svartsýnir þegar þeir ættu í raun að vera þakklátir. „Loftslag jarðarinnar, og þar með loftslagið á Íslandi, mun líta betur út.“
Og blásið er ítrekað á gagnrýni á hina miklu þungaflutninga milli námunnar og Þorlákshafnar, sem færu fram allan sólarhringinn, flesta daga ársins. „Að bæta við rúmlega 100 vörubílaferðum á veg þar sem árdagsumferð er nú þegar þúsundir ökutækja, eru ekki hamfarir,“ segir í svörum fyrirtækisins sem bendir svo á að miðað við breytt áform megi vegfarendur um þjóðveg 1 búast við að mæta fullhlöðnum vörubíl frá Mýrdalssandi að meðaltali á 30 mínútna fresti í stað 15 mínútna. „Ferðamenn á Suðurlandsvegi mæta öðrum ökutækjum á hverri einustu mínútu og stundum oft á mínútu. Að mati framkvæmdaraðila þá eru hefðbundnir vörubílar á hálftíma fresti ekki að fara að breyta upplifun ferðamanna mikið.“
Og áfram heldur fyrirtækið að skjóta á umsagnaraðila og segir þá reyna að draga upp mynd af þéttbýlum á flutningsleiðinni „sem litlum friðsælum þorpum“ en haldi því á sama tíma fram að umferðin sé nú þegar mjög þung og þjóðvegurinn kominn yfir þolmörk. „Að ætla að skella allri skuld neikvæðra áhrifa umferðarinnar á einn notanda, sem hefur ekki einni sinni hafið starfsemi [...], er ekki sanngjarnt og órökrétt.“
EP Power Minerals, hyggur á efnistöku á vikri á Mýrdalssandi austan og suðaustan við Hafursey, svokallaðri Háöldu. Vikurinn yrði fluttur út til Evrópu, og mögulega Norður-Ameríku, þar sem hann yrði notaður sem íblöndunarefni í framleiðslu á sementi. Honum er ætlað að koma í stað kolaösku úr kolaorkuverum sem notuð hefur verið um áraraðir. Þar sem áformað sé að loka slíkum verum í Evrópu á næstu árum og áratugum þurfi að finna staðgengil fyrir flugöskuna. Og vikurinn, sem myndast hefur við gos í Kötlu, er sagður henta sem slíkur. Sem fyrr segir var gert ráð fyrir milljón tonna vinnslu árlega í umhverfismatsskýrslu EP Power Minerals sem birt var í ágúst. En frá því hefur nú verið horfið.
„Búast má við að efnistaka hefjist eftir u.þ.b. 5 ár og verði þá um 150.000 tonn á ári,“ segir í minnisblaði Eflu til Skipulagsstofnunar sem Kjarninn fékk afhent. „Á þrem til fjórum árum verður hún aukin upp í 500.000 tonn. Við þetta fækkar ökuferðum [flutningabíla] um helming (niður í 54 ferðir á sólarhring).“
Er þarna átt við að áformuðum ökuferðum fækki um helming, því þær eru vissulega ekki farnar ennþá.
Vinnslan og flutningarnir miklu
Skipta má helstu athugasemdum umsagnaraðila í tvennt. Annars vegar lúta þær að námunni sjálfri og hins vegar að flutningunum, líkt og Kjarninn hefur fjallað um í mörgum fréttum síðustu vikur.
„Sú ályktun að starfsemin hafi óveruleg áhrif á útivist og ferðamennsku eins og hún er skipulögð er röng,“ sagði t.d. í umsögn Mýrdalshrepps en náman yrði innan sveitarfélagsins. Er það mat sveitarstjórnar að áhrif á umferð „séu verulega neikvæð og að þær ályktanir sem dregnar séu í skýrslunni lýsi miklu skilningsleysi á aðstæðum á þjóðveginum á Suðurlandi“.
Ósanngjarnt og órökrétt
Forsvarsmenn EP Power Minerals svara því til að það sé ósanngjarnt og órökrétt að ætla „að skella allri skuld neikvæðra áhrifa umferðarinnar“ á fyrirtækið. „Það er nú þegar mjög þung umferð á Suðurlandi og því er það mat framkvæmdaraðila að viðbótin og breytingin verði ekki veruleg.“
Allir jafnir fyrir lögunum
Í umsögn Rangárþings eystra, eins þeirra sveitarfélaga sem áformuð flutningsleið liggur í gegnum, segir að með svo mikilli aukningu á umferð þungra ökutækja muni álag og slit á veginum aukast mikið.
„Núverandi notendur þjóðvegarins slíta veginum mismikið og borga viðhald hans í gegnum skatta og gjöld á eldsneyti og ökutæki, hvort sem það eru flutningafyrirtæki, verktakar, rútufyrirtæki, bílaleigur eða aðrir aðilar, þá eru allir jafnir fyrir lögunum og hafa sama rétt til að nota innviði,“ svarar EPPM. „Að ætla að setja aukalega kröfur á einn notenda, sem hefur ekki einni sinni hafið starfsemi og verður lítið hlutfall af heildarumferð og er sambærilegt efnisflutningum úr öðrum stórum námum, er ekki sanngjarnt og órökrétt.“
Mun ekki hafa teljandi áhrif á lífsgæði
Sveitarfélagið Ölfus setti í sinni umsögn spurningarmerki við áhrif verkefnisins á lífsgæði íbúa Þorlákshafnar og þá fyrst og fremst hvað varðar sjónræn áhrif mannvirkja og umferðarþunga tengdan starfseminni.
„Mannvirki í Þorlákshöfn verða eins og hvert annað atvinnuhúsnæði og mun ekki hafa nein teljandi áhrif,“ segir m.a. í svari EPPM.
Lítið ryk
Umhverfisstofnun bendir m.a. á að stórir bílar séu mun mikilvirkari í að þyrla upp vegryki en litlir bílar. „Þessir miklu efnisflutningar fara í gegnum nokkra þéttbýlisstaði og því viðbúið að loftmengun á þeim stöðum muni aukast.“
EPPM svarar því til að umferð í gegnum þéttbýli sé almennt frekar hæg og lítið ryk þyrlist upp við þær aðstæður. „Nú þegar er mikil umferð stórra bíla, bæði flutningabíla, vörubíla og rúta og á framkvæmdaraðili ekki von á því að aukning í loftmengun af hans völdum verði talsverð.“
Umhverfisstofnun benti einnig á að ekki lægi fyrir samkomulag við viðkomandi ríki um aukin neikvæð umhverfisáhrif á Íslandi fyrir hugsanlegan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda erlendis.
Framkvæmdaaðilinn segir í svari sínu að „efnistakan í Litla-Sandfelli“ sé lítill hluti framleiðsluferlis sements, og í raun umhverfisvænasti hluti ferlisins.
Þarna hefur eitthvað slegið saman hjá verkfræðistofunni Eflu. Litla-Sandfell er í Þrengslum og því víðs fjarri Mýrdalssandi. Hins vegar vinnur Efla nú einnig að gerð umhverfismats fyrir Eden Mining, fyrirtækis sem hyggur á útflutning á móbergi úr Litla-Sandfelli til sementsframleiðslu, líkt og Kjarninn hefur ítarlega rakið.
Aðrar þjóðir taka á sig mestalla losun Íslendinga
EP Power Minerals er ekki alls kostar sammála mati Umhverfisstofnunar á loftslagsþætti vikurnámunnar og segir í svörum sínum að Ísland sé að spara mikla losun í sínu bókhaldi með því að láta aðrar þjóðir framleiða sement fyrir sig. „Ef Ísland fer í samninga við aðrar þjóðir þá mun Ísland koma mjög illa út úr því þar sem að aðrar þjóðir framleiða og taka á sig mestalla losun sem að neysla Íslendinga veldur.“
Vísað er til greinar í Kjarnanum þar sem haft er eftir prófessor í umhverfis- og byggingaverkfræði við Háskóla Íslands að mæld losun innanlands gefi bjagaða mynd af raunverulegri losun þegar framleiðsla og flutningur gerist að langmestu erlendis. „Umhverfisstofnun ætti því að fara varlega í að krefjast milliríkjasamninga sem fela í sér að taka ábyrgð á eigin neyslu.“
Umhverfisstofnun gerir ennfremur athugasemd við að fyrirtækið meti í skýrslu sinni aðeins áhrif vinnslunnar á losun á heimsvísu en ekki sérstaklega hér á landi.
„Áhrif á loftslag eru verulega jákvæð,“ svarar framkvæmdaaðilinn. „Loftslag og umhverfisáhrif vita ekki hvað landamæri eru.“
Hvað námuna varði yrði losun frá 5 hjólaskóflum, 5 vörubílum og rafknúnum færiböndum hverfandi í losunarbókhaldi Íslands. „Að ætlast til að þetta fá tæki séu sérstaklega talin fram í losunarbókhaldi Íslands er ekki nauðsynlegt.“
Ekkert til að fjalla um
Þá gagnrýnir Umhverfisstofnun rýra umfjöllun í skýrslunni um svokallaðan núllkost en lögum samkvæmt á framkvæmdaaðili að gera grein fyrir slíkum kosti og meta líklega þróun umhverfisins án framkvæmdar. „Umhverfisstofnun bendir á að engin önnur umhverfisáhrif eru rædd undir þessum lið í skýrslunni en loftslagsmál. Umræðan er því öll á forsendum sementsframleiðslu.“
Svar: „Það er af því að sementsframleiðsla er forsenda og tilgangur þessa verks. Í núllkosti verður engin breyting á Íslandi og ekkert til að fjalla um, en í sementsframleiðslu þarf að nota annað efni.“
Umhverfismat – ekki bókhaldsmat
Að endingu segist Umhverfisstofnun telja að loftslagsávinningur sem sé ætlað að koma fram í öðru landi geti ekki talist sem rökstuðningur fyrir umtalsverðum umhverfisáhrifum á Íslandi. „Þetta er umhverfismat, ekki bókhaldsmat,“ segir í svari EP Power Minerals. Loftslag virði engin landamæri og losun í einu ríki hafi áhrif á öll önnur. Íslendingar hafi hingað til látið aðrar þjóðir „taka skellinn á sig“.
Svo segir: „Þetta viðhorf Umhverfisstofnunar um að vera á móti framþróun og verkefnum sem minnka kolefnislosun nema sparnaðurinn komi sérstaklega fram í sínu eigin bókhaldi er mjög sjálfhverft og skammsýnt. Ef allar þjóðir væru með þetta viðhorf myndi enginn árangur nást.“
Það geti ekki verið ásættanlegt að Íslendingar ætlist til að aðrar þjóðir „taki á sig mengun“ og losun í sínu bókhaldi, en neiti svo „að svara í sömu mynt“.
Það er sandauðn og verður sandauðn
Náttúrufræðistofnun Íslands (NÍ) sagðist í sinni umsögn telja að áhrif námuvinnslunnar á jarðminjar á Mýrdalssandi yrðu talsvert neikvæð fremur en óverulega neikvæð líkt og framkvæmdaaðili segi í umhverfismatsskýrslu sinni.
„Það sem NÍ finnst vera merkilegt við jarðmyndunina er ekki vikurinn sjálfur, efnasamsetning hans eða hvernig hann myndaðist, heldur sú staðreynd að þarna er stór svört sandauðn,“ svarar EP Power Minerals. „Að efnistöku lokinni verður áfram stór svört sandauðn á sama svæði og áhrifin því óveruleg.“
Ferðamennirnir stór orsakavaldur
Í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) er dregin upp „dökk mynd“ af ástandi þjóðvegarins sem flutningarnir færu um, segir fyrirtækið. Í henni komi fram að þörf sé á tafarlausu viðhaldi og vegirnir anni varla þeirri umferð sem um hann fari í dag.
„Þessi staða á þjóðveginum er án nokkurrar aðkomu EPPM,“ segir í svörum við umsögninni. „Ferðamennirnir sjálfir eru stór orsakavaldur í þessum aukna umferðarþunga síðustu ár. Rúmlega 50 ökutækjaferðir fram og til baka á vegi þar sem árdagsumferð telur þúsundir ökutækja mun ekki breyta miklu um umferðarþunga þjóðvegarins eða upplifun vegfarenda.“
SAF segja að námusvæðið myndi sjást vel frá þjóðvegi 1, frá ánni Skálm, ofan af Höfðabrekkuheiðum á leið inn í Þakgil, og ofan af Hjörleifshöfða. Þessu hafnar framkvæmdaaðili í svörum sínum. „Að halda því fram að efnistökusvæðið sjáist vel frá þessum stöðum er gróft ofmat og villandi.“
Þá segir í svörunum að samtökin hafi haft uppi stór orð í umsögn sinni um staðarþekkingu framkvæmdaraðila „en virðast sjálf alls ekki gera sér grein fyrir fjarlægðum og sjónarhornum á svæðinu“.
Ráðgátan
EPPM segir það svo „ráðgátu“ á hverju Landvernd byggi þá fullyrðingu að kolaaska verði á markaðnum í miklu magni næstu áratugi. Nokkur Evrópulönd hafi t.d. ekki tekið ákvarðanir um lokun kolaorkuvera og það sama megi segja um lönd víðar um heim.
„Ef Landvernd getur fundið 20 ára birgðir af ónotaðri sementshæfri flugösku á meginlandi Evrópu stutt frá viðskiptavininum, þá er mikill auður fólginn í þeim fundi,“ segir EPPM í svörum sínum. Þar er líka gert lítið úr áhyggjum Landverndar af því að útivistarmöguleikar myndu skerðast vegna námuvinnslunnar.
Svar: „Útivistarmöguleikar skerðast ekkert, ef eitthvað er batna þeir.“
Fyrirtækið ber ekki ábyrgð á ástandi þjóðvega
Í umsögn Vegagerðarinnar er bent á þá staðreynd að aukning á þungaumferð vegna vikurflutninganna hefði umtalsverð áhrif á niðurbrot vega og flýta þyrfti bæði viðhaldsaðgerðum, endurbyggingu vega og framkvæmdum sem nú þegar eru á áætlun.
„Framkvæmdaraðili ber ekki ábyrgð á ástandi þjóðvega á Íslandi, ekki frekar en aðrir notendur,“ svarar EPPM. Í umsögnum annarra sé keppst við að draga upp dökka mynd af umferðarþunga á Suðurlandsvegi og sagt að vegurinn anni ekki umferð nú þegar og að aðgerða sé þörf. „Ef að þessi framkvæmd verður til þess að flýta fyrir því að íbúar Suðurlands fái langþráðan endurbættan þjóðveg þá gætu það talist jákvæð samfélagsleg áhrif.“
Ferðaþjónustan mengar mest
Forsvarsmenn ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Adventures minna í sinni umsögn á að ferðamenn komi til Ísland til að sjá ósnorta náttúru og að mengandi iðnaður hafi neikvæð áhrif á hana.
„Framkvæmdaraðili er ekki sammála því að þessi framkvæmd hafi mengandi áhrif á landið. Eina mengunin er losun frá ökutækjum sem er nákvæmlega sama mengun og ferðamennirnir sem ferðast um landið skilja eftir sig.“ EPPM segir ennfremur í svari sínu að ferðaþjónustan sé mest mengandi atvinnugrein þjóðarinnar og það sé því „öfugsnúið að ferðaþjónustufyrirtæki ásaki aðra um að kolefnislosun þeirra hafi mengandi og neikvæð áhrif“.
Í svörunum segist EPPM ekki geta tekið undir „þetta svartsýna viðhorf“ og segist hafa trú á því að íslensk ferðaþjónusta sé það sterk „að hún þoli að vörubíll keyri um Suðurlandsveg á kortersfresti“.
Framkvæmdin yrði „verulega jákvæð“ fyrir loftslagið „og mun hafa mjög jákvæð áhrif á orðspor Íslands sem þátttakanda í baráttunni gegn kolefnislosun á heimsvísu. Erlendir ferðamenn gera sér grein fyrir því að loftslag virðir engin landamæri og verða líklega sérstaklega ánægðir ef samdrátturinn kemur fram í þeirra löndum“.
Vikurnáman sé ekki líkleg til að skaða ímynd svæðisins, líkt og sumir umsagnaraðila hafi áhyggjur af. „Það að Íslendingar séu að leggja til efni í umhverfisvænt sement sem mun koma í veg fyrir mikla kolefnislosun í heiminum er líklegt til að auka hróður og ímynd svæðisins.“
Lesa meira
-
28. nóvember 2022Vísa ásökunum um hótanir á bug
-
26. nóvember 2022Breytt áform á Mýrdalssandi og skömmum hreytt í umsagnaraðila
-
12. nóvember 2022Skýrslan uppfyllir ekki „eðlilega kröfu um valkostagreiningu“
-
19. október 2022Stöðug umferð vörubíla „algjör andstæða“ við þá upplifun sem ferðamenn sækjast eftir
-
16. október 2022Segja námufyrirtækið hafa hótað gjaldtöku og sýnt hroka
-
7. október 2022Vikurflutningar myndu slíta vegum á við milljón fólksbíla á dag
-
6. október 2022Vikurnám á Mýrdalssandi myndi hafa „verulegan kostnað fyrir samfélagið“
-
11. nóvember 2021Flutningabíll æki að meðaltali á sex mínútna fresti í gegnum þéttbýlisstaði á Suðurlandi
-
20. september 2021Vörubílar myndu aka 120 ferðir á dag með Kötluvikur
-
8. september 2021Þýskt fyrirtæki vill grafa eftir íslenskum vikri til sementsframleiðslu í Evrópu