Á síðari hluta árs 79, líklega í október, urðu íbúar Pompei varir við að jörðin skalf undir fótum þeirra. Þetta voru litlir skjálftar en margir bæjarbúar óttuðust hið versta. Þeir voru minnugir þess að 17 árum fyrr hafði mjög snarpur jarðskjálfti lagt stóran hluta bæjarins í rúst og uppbygging enn í gangi. Sá skjálfti tengdist gosi í Vesúvíusi, um átta kílómetrum norðvestan við bæinn.
Árið 79 voru íbúar Pompei um 20 þúsund. Bærinn var vinsæll sumardvalarstaður efnaðra Ítala, ekki síst íbúa Rómar, og meðal annars hafði Nero keisari átt hús í bænum. Til marks um öflugt mannlíf í Pompei má nefna að í bænum voru um 600 verslanir, ótal barir, bakarí og veitingahús auk fjölmargra gistihúsa, og húsa þar sem portkonur seldu þjónustu sína. Jörðin í nágrenni Pompei var frjósöm, landið undir og í hlíðum Vesúvíusar hentaði einkar vel til ræktunar á ólífum og vínviði.
Aska færði allt í kaf
Eins og áður sagði skutu jarðskjálftarnir, sem stóðu yfir í fjóra daga haustið 79, íbúum Pompei skelk í bringu. Stærstur hluti íbúanna, um það bil 18 þúsund, forðuðu sér úr bænum, en um 2 þúsund fóru hvergi.
Um hádegisbil í október (dagsetning er ekki vituð) hófst gos í Vesúvíusi. Gosið var mjög kraftmikið og öskunni rigndi yfir Pompei. Þá var orðið of seint fyrir íbúana að forða sér. Askan sem Vesúvíus sendi frá sér færði allt í kaf, húsþök gáfu sig undan þunganum. Bæjarbúar í Pompei leituðu skjóls í kjöllurum, til að skýla sér fyrir öskunni og líka vegna hitans frá henni. Eftir að rannsóknir á dauða íbúanna hófust var talið að þetta tvennt, askan og hitinn, hefðu orsakað dauða íbúanna. Síðari tíma rannsóknir leiddu í ljós að skýringin um öskuna og hitann væri sennilega ekki rétt. Þótt askan hafi verið um 115 gráðu heit hafi hún ekki banað fólkinu. Gosið, sem stóð ekki mjög lengi, heimildir segja 1 – 7 sólarhringa var mjög kröftugt. Þegar því lauk var öskulagið yfir Pompei 6-7 metra þykkt.
Eiturgasið
Snemma morguns á öðrum degi gossins barst gasský yfir Pompei. Gasið var baneitrað og allir sem voru í bænum, um 2 þúsund manns, létust. Langt er síðan vísindamenn töldu sig vita að það hefði verið gasið sem gerði út af við bæjarbúa og fram til þessa hefur verið talið að gasið hafi legið yfir bænum í heilan dag, eða jafnvel lengur.
Nýbirt rannsókn hefur leitt í ljós að gasið lá yfir bænum í 17 mínútur en ekki heilan dag eða lengur. Gasið var hins vegar svo eitrað að fólk sem andaði því að sér lifði í mesta lagi í 5 mínútur. Í heimi vísindanna þykir þessi kenning vísindamannanna, sem byggir á flóknum útreikningum, sem lesa má um á síðunni nature.com, mjög merkileg.
Herkúlaneum
Bærinn Herkúlaneum stóð mun nær Vesúvíusi en Pompei, nánast í norðvesturhlíðum eldfjallsins. Árið 79 bjuggu þar um 5 þúsund manns. Íbúar Herkúlaneum voru efnaðri en þeir sem bjuggu í Pompei og byggingar íburðarmeiri. Talið er að þegar askan lagðist yfir bæinn hafi hún verið meira en 500 gráðu heit, sumir vísindamenn telja hana jafnvel hafa verið 850 gráðu heita. Öskulagið yfir Herkúlaneum var mun þykkara en það sem huldi Pompei, allt að 20 metra þykkt.
Gleymt og grafið
Þótt okkur sem nú lifum þyki það undarlegt voru bæði Pompei og Herkúlaneum nánast gleymd öldum saman. Vitað var að þessi bæir hefðu grafist í ösku en þar við sat. Það var ekki fyrr en um miðja 18. öld að fornleifafræðingar fóru að sýna Pompei og Herkúlaneum áhuga. Það var fornleifafræðingurinn Giuseppe Fiorelli sem hóf skipulegan uppgröft í Pompei. Rannsóknir hans sýndu að föt og hlutir höfðu ekki brunnið og það þótti sanna að gasið, en ekki hitinn, hefði gert út af við fólkið.
Í Herkúlaneum var hins vegar allt brunnið sem brunnið gat. Þar var það hitinn sem varð fólki að bana.
Sífellt fleira kemur í ljós
Þótt nú séu 1942 ár síðan Pompei og Herkúlaneum grófust í ösku er stöðugt unnið að rannsóknum og uppgrefti. Einkum í Pompei enda bærinn stærri og eyðileggingin minni, eins og áður var sagt. Og sífellt kemur fleira í ljós. Seint í desember á síðasta ári greindu fjölmiðlar frá því að vísindamenn hefðu grafið upp matsölustað í borginni, nánar tiltekið það sem við í dag köllum skyndibitastað. Þar fundust leifar af svínum, anda- og geitabein, sniglar og fleira. Ótrúlega heillegar veggskreytingar og eldstæði bera vott um að ekkert hafi verið til sparað. Fyrir mánuði, í lok febrúar birtust fréttir af hestvagni, sem fundist hafði í næsta nágrenni Pompei. Sérfræðingar sögðu vagninn, sem væri ótrúlega heillegur, greinilega hátíðarvagn sem notaður hefði verið í skrúðgöngum og við sérstök tækifæri.
Sérfræðingar segja að þótt margt forvitnilegt hafi komið upp í Pompei megi fullyrða að enn leynist margt í öskunni.