„Ég er á lífi en ég lifi í raun og veru ekki“
Versti ótti Mohammad Ghanbari, 23 ára Afgana, varð að veruleika í síðustu viku þegar honum var vísað úr landi eftir tæplega tveggja ára dvöl á Íslandi. Mohammad hefur verið á flótta í sex ár og er nú kominn aftur til Grikklands þar sem hann segir aðstæður hafa versnað til muna frá því að hann var þar síðast fyrir um tveimur árum.
Jú, ég er með alþjóðlega vernd í Grikklandi en verndin er engin og hér er ekkert líf. Ég er á lífi í Grikklandi en ég lifi í raun og veru ekki.“
Þetta segir Mohammad Ghanbari, 23 ára Afgani, sem hefur verið á flótta frá því að hann var 16 ára gamall. Mohammad er í hópi 15 umsækjenda um alþjóðlega vernd sem var vísað úr landi í síðustu viku.
Mohammad hafði dvalið á Íslandi í tæp tvö ár þegar lögreglan handtók hann mánudagskvöldið 1. nóvember. Hann, ásamt tveimur öðrum umsækjendum um alþjóðlega vernd, var úrskurðaður í gæsluvarðhald og var haldið í fangelsinu á Hólmsheiði.
Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður, sagði í samtali við Kjarnann í síðustu viku að það væri algjörlega óboðlegt að unnið hafi verið að því að koma umbjóðendum hans úr landi, aðeins nokkrum dögum áður en afstaða stjórnvalda til endurupptökubeiðna í verndarmálum þeirra liggi fyrir. Mál þeirra allra og tuga til viðbótar eru að mati Magnúsar sambærileg máli hælisleitenda sem dómur féll í um miðjan október. Niðurstaða héraðsdóms var sú að óheimilt hefði verið að synja honum um endurupptöku máls síns vegna ásakana um tafir.
Eftir tvær nætur í fangelsinu var Mohammad fluttur á Keflavíkurflugvöll ásamt 14 öðrum umsækjendum um alþjóðalega vernd. 41 lögreglumaður fylgdu þeim í leiguflugvél til Grikklands, lands sem Mohammad þekkir vel en vekur upp hræðilegar minningar.
Afganistan - Tyrkland - Grikkland - Ísland - Grikkland
Mohammad var 17 ára þegar hann lagði á flótta frá Afganistan. Fyrst lá leiðin til Tyrklands og þaðan áfram til Grikklands. Þar dvaldi hann í rúmlega fjögur ár þar til hann kom til Íslands í janúar 2021. Í viðtali við Kjarnann í maí lýsti hann dvölinni í Grikklandi sem ógnvænlegri og sagðist ekki geta hugsað sér að fara þangað aftur. „Það er ekki öruggt,“ sagði Mohammad.
Hann var í hópi um 300 manns sem til stóð að vísa úr landi í sumar. Hópurinn var svo fjölmennur þar sem ekki var hægt að vísa fólki úr landi á tímum kórónuveirufaraldursins en í sumar voru flest lönd búin að afnema sóttvarnareglur á landamærum. Héraðsdómur komst svo að því í október að stjórnvöldum var óheimilt að synja palestínskum hælisleitanda um endurupptöku máls á grundvelli þess að hafa sjálfur tafið málið, meðal annars með því að neita að fara í sýnatöku vegna COVID-19. Lögmaður Mohammad lagði í kjölfarið fram kröfu á endurupptöku í máli hans, auk tuga annarra, sem stjórnvöld hafa enn ekki tekið afstöðu til.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði í sumar að fólk sem hefur vernd í Grikklandi búi við sömu skilyrði og Grikkir og geti farið inn á vinnumarkaðinn. Það var ekki raunin fyrir Mohammed. Lífið í Aþenu var honum þungbært og hann varð fyrir alvarlegri árás af hópi manna skömmu eftir að hann kom til borgarinnar, 17 ára gamall. „Þeir voru fjórir saman. Og þeir réðust á mig,“ segir Mohammad. Í árásinni var hann einnig rændur og stóð eftir hjálparlaus, andlega og líkamlega niðurbrotinn.
Við komuna til Íslands fékk hann sálfræðiaðstoð og hóf íslenskunám í Dósaverksmiðjunni, tungumálaskóla, sem hann hefur sinnt í rúmlega ár. 6. október, tæpum mánuði áður en honum var vísað úr landi, lauk hann stigi tvö í íslenskunámi frá skólanum.
„Þegar ég kom til Íslands reyndi ég að byggja upp lífið mitt. Nú mun ég tapa því aftur. Það er mjög erfitt, ég var búinn að setja mér markmið og var að reyna að horfa fram á veginn. Ég vil ekki missa það þó litla sem ég er búinn að byggja upp á Íslandi. Með brottvísuninni mun ég missa allt. Aftur,“ sagði Mohammad í samtali við Kjarnann í maí.
Og það er staðan nú. Mohammad er búinn að missa allt. Aftur.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem Mohammad hefur frá grískum yfirvöldum er hann vissulega enn með alþjóðlega vernd þar í landi en dvalarleyfi hans er útrunnið. Hann þarf því að hefja umsóknarferlið að nýju og sækja um stöðu hælisleitanda.
Mannúðarsamtök, alþjóðleg, líkt og Rauði krossinn, sem og innlend, líkt og Solaris, álykta að aðstæður í Grikklandi séu flóttafólki óboðlegar. Rauði krossinn hefur marg ítrekað skilaboð sín um að brottflutningur flóttafólks til Grikklands er óforsvaranlegur.
„Rauði krossinn á Íslandi fordæmir brottvísanir íslenskra stjórnvalda á umsækjendum um alþjóðlega vernd sem þegar hafa fengið stöðu sína viðurkennda í Grikklandi. Félagið hefur ítrekað gagnrýnt brottvísanir til Grikklands og telur að þær skapi fólki hættu sem íslensk stjórnvöld beri ábyrgð á,“ sagði í yfirlýsingu Rauða krossins í síðustu viku eftir að hópnum var vísað úr landi.
Fleira fólk og meiri reiði í Grikklandi nú síðast
Mohammad sótti um alþjóðlega vernd við komuna til Íslands í janúar 2021. Umsókn hans var synjað af Útlendingastofnun í apríl sama ár þar sem hann var skráður í gagnagrunn hjá grískum yfirvöldum í mars 2018 þar sem hann fékk alþjóðlega vernd. Mohammad kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála í maí 2021 en nefndin tók undir niðurstöðu Útlendingastofnunar í ágúst. Mohammad óskaði eftir endurupptöku í janúar á þessu ári en var aftur synjað. Eftir að dómurinn féll í október var krafa um endurupptöku máls Mohammad send stjórnvöldum.
„Ég er á lífi en ég lifi í raun og veru ekki,“ segir Mohammad. Við komuna til Grikklands í síðustu viku fór hann beint á götuna. Lífið í Aþenu hefur breyst mikið á þeim fimm árum sem liðin eru frá því að Mohammad var þar síðast. Hann segir mun fleira flóttafólk á götunum, mörg búa á götunni. „Reiðin er miklu meiri,“ segir hann.
Mohammad eyddi fyrstu nóttunum á garði í almenningsgarði í Aþenu en er nú komin með tímabundna aðstöðu í herbergi sem hann fékk í gegnum kunningja. „En það er bara í tíu daga, svo veit ég ekki hvað gerist,“ segir hann.
Mótmæli hafa staðið yfir í Grikklandi síðustu daga þar sem bágri efnahagsstöðu er mótmælt. Verðbólga í Grikklandi mælist nú 12 prósent og hefur ekki verið meiri í tvo áratugi. Mótmælendur krefjast bættra aðstæðna á atvinnumarkaði, launahækkunum og færri uppsögnum. Mohammad segir að hælisleitendur taki þátt í mótmælunum og reyni að vekja á veikri stöðu flóttafólks í landinu.
„Grikkland er ekki öruggur staður fyrir flóttafólk. Grísk stjórnvöld veita enga aðstoð og flóttafólk getur engan veginn aðlagast samfélaginu. Það er engin framtíð hérna,“ segir Mohammad.
Tilfinningin er önnur á Íslandi þar sem hann fékk tækifæri til að aðlagast samfélaginu. „Flóttafólk sem kemur til Íslands frá Grikklandi er í leit að öryggi, von, mannúð og aðstöðu sem það vill búa í til lengri tíma. Fólk vill vita að framtíð þeirra sé örugg.“
Mohammad var andlega niðurbrotinn þegar hann kom til Íslands en hér á hann góðar minningar. „Íslendingar eru gott fólk og góðhjartaðir. Ég á marga vini á Íslandi og hef átt góð samtöl um hvernig ég ætlaði að byggja líf mitt upp þar.“
Framtíðin einkennist af óvissu en Mohammad þráir að komast aftur til Íslands.
„Þar leið mér vel.“
Lestu meira:
-
16. desember 2022Segir Múlaþing ekki vera að útiloka flóttafólk frá öðrum ríkjum en Úkraínu
-
14. desember 2022Hlutverk RÚV ekki „að mála opinbera embættismenn upp sem einhverjar grýlur“
-
13. desember 2022„Í alvörunni vinna engar gribbur hjá Útlendingastofnun“
-
9. desember 2022Segja stjórnarmeirihlutann stilla öryrkjum upp á móti útlendingum
-
8. desember 2022Leggja til að fjölskyldur sem ekki var hægt að senda úr landi fái dvalarleyfi
-
6. desember 2022„Þau hefðu bara átt góðan séns á því að fá hæli á Íslandi“
-
17. nóvember 2022Ítalskir lögregluþjónar hafi undrast komu Antons og Viktoríu
-
17. nóvember 2022Fáum verið vísað frá Noregi og Danmörku til Grikklands á grundvelli verndar þar
-
16. nóvember 2022Telja að heimilislausum muni fjölga og mansal aukast ef útlendingalögum verði breytt
-
15. nóvember 2022Svona varð ég „glæpamaður“ á Íslandi