Félag Þorsteins Más og Helgu á 61,7 milljarða króna í hreinum eignum
Eignarhaldsfélag sem heldur utan um hlut forstjóra Samherja og fyrrverandi eiginkonu hans í Samherja Holding á að uppistöðu tvær eignir: hlutinn í áðurnefndu félagi og lán upp á 33,5 milljarða króna sem þau veittu börnum sínum til að kaupa af sér íslenska hluta Samherja. Samherji Holding hefur ekki skilað ársreikningi síðan 2018 en virk lögreglurannsókn stendur yfir á starfsháttum þess, meðal annars vegna viðskiptahátta í Namibíu.
Eignarhaldsfélagið Steinn ehf., sem heldur utan um 43,48 prósent eign fyrrverandi hjónanna Þorsteins Más Baldvinssonar og Helgu S. Guðmundsdóttur í Samherja Holding ehf., átti hreina bókfærða eign upp á 61,7 milljarða króna um síðustu áramót.
Hagnaður félagsins á því ári, sem var að nánast öllu leyti tilkominn vegna áhrifa hlutdeildarfélagsins Samherja Holding, var 1.140 milljónir króna. Hluturinn í Samherja Holding var bókfærður á 25,7 milljarða króna sem þýðir að heildarvirði félagsins ætti samkvæmt því að vera um 59 milljarðar króna.
Aðrar eignir Eignarhaldsfélagsins Steins voru að uppistöðu lán til tengdra aðila, tveggja barna eigendanna, upp á 33,5 milljarða króna.
Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins. Það skipti um uppgjörsmynt í fyrra og gerir nú upp í evrum í stað íslenskra króna.
Í lögreglurannsókn
Samherji Holding er eitt stærsta fyrirtæki landsins. Eigið fé Samherja Holding var rúmlega 58 milljarðar króna í lok árs 2018, samkvæmt síðasta ársreikningi sem félagið hefur birt. Það virðist að mestu óbreytt miðað við nýbirtan ársreikning annars stærsta eigenda þess.
Félagið heldur utan um þorra erlendrar starfsemi Samherjasamstæðunnar, en umfangsmikil rannsókn hófst á henni á árinu 2019, eftir opinberun fjölmiðla á starfsháttum Samherja í Namibíu. Grunur er um mútugreiðslur, skattasniðgöngu og peningaþvætti. Málið er til rannsóknar hérlendis hjá bæði embætti héraðssaksóknara og skattayfirvöldum auk þess sem ákært hefur verið í því í Namibíu.
Á árinu 2018 gerðist það að Samherja var skipt upp í tvö fyrirtæki. Það var samþykkt 11. maí 2018 á hluthafafundi og skiptingin látin miða við 30. september 2017.
Eftir það er þorri innlendrar starfsemi Samherja og starfsemi fyrirtækisins í Færeyjum undir hatti Samherja hf. en önnur erlend starfsemi og hluti af fjárfestingarstarfsemi á Íslandi í félaginu Samherji Holding ehf.
Samherji Holding er að uppistöðu í eigu Þorsteins Más, Helgu og Kristjáns Vilhelmssonar, útgerðarstjóra Samherjasamstæðunnar. Inni í þeim hluta starfseminnar eru eignarhlutir Samherja í dótturfélögum í Þýskalandi, Noregi, Bretlandi og í fjárfestingafélagi á Íslandi. Þar eru þó einnig íslenskir hagsmunir, meðal annars 34,22 prósent hlutur í Eimskip, sem hefur rúmlega tvöfaldast í virði síðastliðið ár.
Í byrjun árs 2021 var greint frá því að Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Más, hafi verið falið að leiða útgerðarstarfsemi Samherja í Evrópu, sem fer fram í gegnum Samherja Holding.
Inni í þeim hluta er líka fjárfestingafélagið Sæból, sem hét áður Polar Seafood. Það félag á tvö dótturfélög, Esju Shipping Ltd. og Esju Seafood Ltd. sem bæði eru með heimilisfesti á Kýpur. Þau félög héldu meðal annars utan um veiðar Samherja í Namibíu, þar sem samstæðan og stjórnendur hennar eru nú grunaðir um að hafa greitt mútur til að komast yfir ódýran kvóta.
Eitt stærsta fyrirtæki landsins skilar ekki ársreikningi
Samherji Holding hefur ekki skilað inn ársreikningi til ársreikningaskrár Skattsins vegna áranna 2019 og 2020. Karl Eskil Pálsson, upplýsingafulltrúi Samherja, sagði í svari við fyrirspurn Kjarnans í september síðastliðnum að vinna við ársreikning vegna ársins 2019 væri á lokametrunum og hann yrði tilbúinn „innan tíðar“.
Ýmsar samverkandi ástæður væru fyrir því að skil á reikningnum, sem átti samkvæmt lögum að vera skilað inn til ársreikningaskrár fyrir lok ágúst í fyrra, hefðu tafist og Karl Eskill nefndi þar sérstaklega að Samherji Holding hafi tekið þá ákvörðun að skipta um endurskoðunarfyrirtæki. Það hafi þýtt tafir á gerð ársreiknings. „Aðrar ástæður eru léttvægari en skipta þó máli til dæmis ferðatakmarkanir vegna Covid-19, sumarleyfi og þess háttar.“
Frestur fyrirtækja af þeirri stærðargráðu sem Samherji Holding er til að skila inn ársreikningi vegna ársins 2020 rann út í lok september síðastliðins.
Ákvæði sem heimilar slit á félögum sem sinna ekki lögbundinni skilaskyldu á ársreikningum hefur verið til staðar í lögum frá árinu 2016. Kjarninn greindi frá því í haust að henni hefði aldrei verið beitt, vegna þess að það ráðuneyti sem stýrir málaflokknum,, sá hluti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem heyrir undir Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, hafi ekki gefið út reglugerð sem virkjar það.
Því hafði ákvæðið verið dauður stafur í fimm ár og engu félagi sem virt hefur lögin um skil á ársreikningi að vettugi hafði fyrir vikið verið slitið.
Ákvæðið varð virkt 18. október 2021, eftir að reglugerðin var loks gefin út.
Kjarninn greindi frá því 10. nóvember síðastliðinn að ársreikningaskrá hefði þá enn sem komið er ekki krafist skipta neinu félagi sem hefði ekki skilað ársreikningi innan lögboðins frests.
Vildu viðhalda mikilvægum fjölskyldutengslum
Þann 15. maí 2020 birtist tilkynning á heimasíðu Samherjasamstæðunnar um að Þorsteinn Már, Helga og Kristján væru að færa næstum allt eignarhald á Samherja hf. til barna sinna. Þau myndu hins vegar áfram að vera eigendur að erlendu starfseminni, og halda á stórum hlut í Eimskip, sem hefur frá 2018 verið vistað inni í Samherja Holding.
Í tilkynningunni kom fram að Baldvin og Katla Þorsteinsbörn myndu eignast 43 prósent í Samherja hf. Samhliða var greint frá því að Dagný Linda, Halldór Örn, Kristján Bjarni og Katrín, börn Kristjáns Vilhelmssonar, myndu fara samanlagt með um 41,5 prósent hlutafjár. Í tilkynningunni sagði að með þessum hætti „vilja stofnendur Samherja treysta og viðhalda þeim mikilvægu fjölskyldutengslum sem félagið hefur ætíð byggst á og hafa verið hornsteinn í rekstrinum.“ Þar kom einnig fram að undirbúningur breytinganna á eignarhaldinu hafi staðið undanfarin tvö ár en áformin og framkvæmd þeirra voru formlega kynnt í stjórn félagsins á miðju ári 2019.
Í maí 2020, þegar Kjarninn leitaði eftir upplýsingum um með hvaða hætti framsal hlutabréfa foreldra til barna hefði átt sér stað, fengust þau svör hjá Björgólfi Jóhannssyni, þá annars forstjóra Samherja, að annars vegar hefðu börnin fengið fyrirframgreiddan arf, og hins vegar væri um sölu milli félaga að ræða.
Ekki hafa fengist upplýsingar hjá Samherja um virði þess hlutar sem tilkynnt var um að færður hefði verið á milli kynslóða né hvernig tilfærslunni var skipt milli fyrirframgreidds arfs og sölu.
Skulda foreldrum sínum á fjórða tug milljarða
Í ársreikning Eignarhaldsfélagsins Steins fyrir árið 2019 kemur hins vegar fram að bókfærður eignarhlutur þess í Samherja hf. hafi farið úr 21,8 milljörðum króna í um 550 milljónir króna.
Á sama tíma fór vaxtaberandi kröfur á tengda aðila úr því að vera engar í að vera 26,9 milljarðar króna.
Í ársreikningi Eignarhaldsfélagsins Steins fyrir árið 2020 er hluturinn í íslenska Samherja kominn í krónur núll. Langtímakröfur á tengda aðila eru hins vegar bókfærðar á 214 milljónir evra, eða um 33,5 milljarða króna. Á meðal þeirra sem teljast sem tengdir aðilar eru nánir fjölskyldumeðlimir. Því er þarna um að ræða lán foreldranna Þorsteins Más og Helgu til barna sinna, Baldvins og Kötlu.
Félag barnanna, K&B ehf., hagnaðist um 20,8 milljónir evra, um 3,2 milljarða króna, á síðasta ári. Hrein eign félagsins nam um 44,7 milljónum evra, um 6,9 milljörðum króna, um síðustu áramót. Eignir félagsins voru bókfærðar á tæplega 40 milljarða króna en á móti þeim eignum eru skuldir upp á 33 milljarða króna.
Lestu meira:
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
30. desember 2022Rammi sameinaður Ísfélaginu og til stendur að skrá nýju risaútgerðina á hlutabréfamarkað
-
29. desember 2022Baldvin Þorsteinsson eignast erlenda útgerð Samherja sem metin er á 55 milljarða króna
-
19. desember 2022Hagnaður sjávarútvegs þrefaldaðist milli ára en afkoma tæknifyrirtækja breyttist lítið
-
13. desember 2022Fallið frá því að hækka gjöld á sjókvíaeldi um mörg hundruð milljónir á ári
-
9. desember 2022Prentsmiðjan og skuldir Árvakurs við hana færðar úr útgáfufélagi Morgunblaðsins
-
6. desember 2022Samherji Holding segist ekki líða mútugreiðslur, fyrirgreiðslur og ávinning í skiptum fyrir óeðlileg áhrif
-
30. nóvember 2022Samherjasamstæðan átti eigið fé upp á tæpa 160 milljarða króna um síðustu áramót
-
28. nóvember 2022SFS styðja frumvarp Svandísar um að hækka veiðigjöld á næsta ári en lækka þau árin á eftir
-
23. nóvember 2022Svandís leggur fram frumvarp sem hækkar veiðigjöld um 2,5 milljarða á næsta ári